Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Kæra vegna ráðningar

Ár 2015, miðvikudagurinn 26. ágúst, var kveðinn upp í mennta– og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

 ÚRSKURÐUR

Kæruefnið og málsmeðferð.

Mennta- og meninngarmálaráðuneyti barst 14. júlí sl. bréf frá A (hér eftir nefndur kærandi). Kærandi var meðal umsækjanda um starf óperustjóra Íslensku óperunnar. Í erindi sínu kvartaði kærandi undan viðhöfðum vinnubrögðum Íslensku óperunnar þegar tekin var ákvörðun um hver hlyti ráðninguna. Með hliðsjón af gögnum málsins er erindi kæranda skilið á þann hátt að krafist sé endurskoðunar á hvort málsmeðferð Íslensku óperunnar við ákvörðunartökuna hafi verið haldin annmörkum.

Málsatvik og málsaðstæður.

Málavextir eru þeir að í lok febrúar 2015 var starf óperustjóra Íslensku óperunnar auglýst laust til umsóknar. Kærandi sótti um starfið en hlaut ekki ráðningu. Ráðningu hlaut B. Sótt var um umrætt starf í gegnum heimasíðu Capacent og var kærandi boðaður í viðtal, dags. 15. mars 2015, af C starfsmanni Capacent. Viðtalið fór fram 24. mars 2015 og að sögn kæranda var honum tjáð að niðurstaða viðtalsins yrði kynnt stjórn Íslensku óperunnar viku síðar. Þann 18. apríl 2015 kynnti stjórn Íslensku óperunnar um að ákvörðun hafi verið tekin um að ráða B í starf óperustjóra. Að sögn kæranda var B eini umsækjandinn sem var boðaður í viðtal hjá stjórn Íslensku óperunnar. 

Þann 20. apríl 2015, eftir að ákvörðun stjórnar Íslensku óperunnar var tilkynnt, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun um ráðningu B í starf óperustjóra. Kveðst kærandi hafa fengið svar frá stjórn Íslensku óperunnar 6. maí 2015 þar sem m.a. kemur fram að Íslenska óperan teljist ekki stjórnvald og falli því ekki undir stjórnsýslulög, nr. 37/1993. 

Samkvæmt e-lið 6. tölul. 5. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 71/2013 heyrir málefnasviðið tónlist undir mennta- og menningarmálaráðuneyti. Íslenska óperan er sjálfseignarstofnun með styrktarframlag frá íslenska ríkinu. Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður hér einungis fjallað um málsástæður aðila sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður eru hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

Málsástæður kæranda:

Af hálfu kæranda er til þess vísað að Íslenska óperan hafi um árabil notið ríflegra styrkja frá íslenska ríkinu. Nefnir hann m.a. að ríkisstyrkir til Leikfélags Reykjavíkur hafi mátt víkja fyrir styrkjum til Íslensku óperunnar, sbr. skýringar við 14. gr. í frumvarpi til leiklistalaga, nr. 138/1998. Þá telur hann Íslensku óperuna hafa sinnt skyldum þjóðleikhússins á sviði óperuflutnings. Enn fremur vísar hann til samnings milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Íslensku óperunnar um ráðstöfun rekstrarframlags í fjárlögum.

Rökstuðningur niðurstöðu.

Hin kærða ákvörðun er tekin af stjórn Íslensku óperunnar. Með 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er gildissvið laganna skilgreint. Þar segir að lögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Lögin gilda þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna með almennri kæruheimild í 26. gr. sömu laga er aðila máls veitt heimild til að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Eins og fyrr segir er Íslenska óperan sjálfseignarstofnun sem nýtur styrktarframlags frá íslenska ríkinu. Í samræmi við framangreint fellur hin kærða ákvörðun utan gildissviðs stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og þar með valdsviðs ráðuneytisins á stjórnsýslustigi. Því ber að vísa kærunni frá afgreiðslu í ráðuneytinu eins og fram kemur í eftirfarandi úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin kærða ákvörðun sætir ekki kæru til æðra stjórnvalds og er því vísað frá afgreiðslu í ráðuneytinu.

Fyrir hönd ráðherra



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta