Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun á starfslaun úr launasjóði myndlistarmanna

Ár 2014, þriðjudagurinn 25. mars, er kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR

Kæruefnið og málsmeðferð.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu barst 21. janúar 2014 bréf frá X, (hér eftir nefndur kærandi), þar sem kvartað er yfir þeirri ákvörðun úthlutunarnefndar launasjóðs myndlistarmanna (hér eftir nefnd nefndin), sem tilkynnt var 13. janúar 2014, um að synja kæranda um starfslaun úr launasjóði myndlistarmanna fyrir árið 2014. Með hliðsjón af gögnum málsins er erindi kæranda skilið þannig að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og málsaðstæður.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um starfslaun úr launasjóði myndlistarmanna fyrir árið 2014 en það ár voru 435 mánaðarlaun til úthlutunar úr sjóðnum.  Kæranda var synjað um starfslaun úr launasjóði myndlistarmanna fyrir árið 2014 með bréfi nefndarinnar, dags. 13. janúar 2014. Athugasemdir nefndarinnar, dags. 4. febrúar 2014, sem send var kæranda liggur fyrir í málinu, sem og bréf ráðuneytisins til kæranda, dags. 17. febrúar 2014. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 19. febrúar 2014.

Málefni starfslauna listamannalauna heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneyti skv. g-lið 6. tölul. 5. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 71/2013, með áorðnum breytingum.

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður hér einungis fjallað um málsástæður aðila sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður eru hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

Málsástæður kæranda:

Af hálfu kæranda er til þess vísað að hann hafi 21 sinni sótt um starfslaun úr launasjóði myndlistarmanna og jafnoft fengið synjun. Kærandi telur að annarleg sjónarmið liggi að baki því að umsóknir hans um starfslaun hafi verið sniðgengnar í þau 22 ár sem hann hafi starfað sem myndlistarmaður. Hann hafi þó að baki meira nám og lengri ferilskrá en margir af þeim sem úthlutað hafi verið starfslaunum úr launasjóðnum. Kærandi óskar þess að hann fái réttláta og sanngjarna meðferð frá hendi nefndarinnar og að þau viðmið sem sjóðnum sé gert að starfa eftir séu rökstudd. Hann kveðst ekki sætta sig við að erlendir ríkisborgarar séu teknir fram yfir hann í úthlutun íslenskra starfslauna. Kærandi telur sig eiga rétt á rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun. Þá óskar kærandi þess að ráðherra kanni rækilega starfsaðferðir nefndarinnar og jafnvel beiti sér fyrir breytingum og gegnsæi um úthlutanir, kanni hversu oft sömu aðilarnir hafi hlotið úthlutanir og hvort tengsl þeirra séu við sömu stofnun.

Málsástæður úthlutunarnefndar launasjóðs myndlistarmanna:

Í greinargerð frá nefndinni er til þess vísað að hjá úthlutunarnefndum listamannalauna liggi fyrir skýr og ákveðin sjónarmið til grundvallar mati á umsóknum. Vísað er til vinnuskjals þar sem tekið sé tillit til vinnu, ferils og verkáætlunar umsækjenda. Allar umsóknir séu vegnar og metnar með tilliti til þessara þátta. Nefndin bendir á að sjóðir listamannalauna séu samkeppnissjóðir.

Rökstuðningur niðurstöðu.

Í lögum um listamannalaun, nr. 57/2009, er kveðið á um fyrirkomulag við úthlutun starfslauna listamanna. Í 1. gr. laganna segir að starfslaun séu veitt af ráðstöfunarfé sem ákveðið er árlega af fjárlögum. Í 1. mgr. 2. gr. kemur fram að starfslaun séu veitt úr sex sjóðum, þ.m.t. launasjóði myndlistarmanna. Í 1. mgr. 3. gr. kemur fram að ráðherra skipi þrjá menn í stjórn listamannalauna til þriggja ára í senn, einn samkvæmt tilnefningu Bandalags íslenskra listamanna, einn samkvæmt tilnefningu Listaháskóla Íslands og einn án tilnefningar. Varamenn skuli skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipi formann og varaformann úr hópi aðalmanna. Í 7. gr. er fjallað um launasjóð myndlistarmanna. Þar segir í 1. mgr. að launasjóður myndlistarmanna veiti árlega starfslaun og styrki sem svari til 435 mánaðarlauna. Í 2. mgr. segir að þriggja manna nefnd sem ráðherra skipi árlega samkvæmt tillögum Sambands íslenskra myndlistarmanna, úthluti fé úr launasjóði myndlistarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úthlutunarnefndin skipti með sér verkum. Í 14. gr. laganna kemur fram að ákvarðanir skv. 7. gr. laganna séu endanlegar á stjórnsýslustigi og sæti ekki kæru til ráðherra.

Samkvæmt framansögðu er hin kærða ákvörðun endanleg á stjórnsýslustigi og ber því að vísa kærunni frá afgreiðslu í ráðuneytinu eins og fram kemur í eftirfarandi úrskurðarorðum.


ÚRSKURÐARORÐ:

Hin kærða ákvörðun, sem tilkynnt var þann 13. janúar 2014, um að synja X um starfslaun úr launasjóði myndlistarmanna fyrir árið 2014 sætir ekki kæru til æðra stjórnvalds og er kærunni vísað frá afgreiðslu í ráðuneytinu.

 

Fyrir hönd ráðherra

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta