Synjun beiðnar um endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna ferðar erlendis
Ár 2015, föstudagurinn 11. september, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur
ÚRSKURÐUR:
Kröfur aðila.
Með bréfi sem barst mennta- og menningarmálaráðuneytinu, þann 21. júní sl., kærði A (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra (hér eftir kærði), dags. 28. apríl sl., um að synja beiðni hans um endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna ferðar erlendis 9.-20. september.
Kærandi fer fram á að ákvörðun kærða verði endurskoðuð. Af hálfu kærða má skilja sem svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
II.
Málsatvik.
Kærandi sem er heyrnarlaus óskaði eftir því við kærða að fá endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna ferðar erlendis 9.-20. september 2015. Með bréfi kærða, dags. 28. apríl 2015, var beiðninni synjað þar sem kostnaður vegna túlkaþjónustu sem fram fer í útlöndum er töluvert hærri en ef túlkunin fer fram hér á landi. Með vísan til þess að takmörkuðu fjármagni er ætlað að endast út fjórðungstímabilið og jafnræðis notenda var beiðni kæranda synjað.
III.
Málsmeðferð.
Stjórnsýslukæra kæranda var móttekin 24. júní sl. Með bréfi, dags. 2. júlí sl., leitaði ráðuneytið umsagnar kærða um kæruna. Umsögn kærða barst ráðuneytinu 3. júlí sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 3. júlí sl., voru athugasemdir kærða kynntar umboðsmanni kæranda og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Athugasemdir frá honum bárust 3. september 2015.
Samkvæmt 2-lið 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 71/2013 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sem er gerður með vísan til 15. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og laga um Stjórnarráðið nr. 115/2011, kemur fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið fari með fræðslumál, þar á meðal Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Ákvörðun stofnunarinnar er því réttilega kærð til mennta- og menningamálaráðuneytisins og barst hún ráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
IV.
Málsástæður og lagarök kæranda.
Í stjórnsýslukærunni kemur fram að kærandi sé heyrnarlaus og þurfi að reiða sig á íslenskt táknmál til tjáningar og samskipta. Hann hafi þurft á túlkaþjónustu að halda vegna þátttöku hans á fundi erlendis.
Í kærunni vísar kærandi á ýmis lagaákvæði sér til stuðnings og þá sérstaklega ber að taka fram að skv. 1. gr. laga nr. 129/1990 um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er markmið laganna að stuðla að jafnrétti heyrnarlausra til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls heyrnarlausra. Þá tekur kærandi fram að eitt af hlutverkum kærða sé að veita táknmálstúlkaþjónustu sbr. c. lið 2. gr. sömu laga. Eins komi fram í 4. gr. reglugerðar nr. 1058/2003 um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra að eitt af hlutverkum kærða sé að veita túlkaþjónustu annars vegar gegn gjaldi og hins vegar endurgjaldslaust. Í athugasemdum við frumvarp þar er varð að fyrrgreindum lögum nr. 129/1990 kemur fram að eðlilegt þykir að taka megi gjald fyrir þjónustu veitta öðrum aðilum en heyrnarlausum og heyrnarskertum. Af því megi ráða að ekki hafi staðið til að innheimta gjald af heyrnarlausum og heyrnarskertum vegna þjónustu sem að kærði veitir heyrnarlausum og heyrnarskertum. Kærandi mótmælir að heimilt hafi verið að synja honum um endurgjaldslausa túlkaþjónustu á grundvelli þess að kostnaður við túlkaþjónustu sem fram fer í útlöndum sé töluvert hærri en ef túlkun fer fram hér á landi enda telur hann hvorki með lögum nr. 129/1990 um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra né með reglugerð kveðið á um að hafna skuli beiðni um túlkaþjónustu fari hún fram í útlöndum. Að lokum vísar kærandi til þess að hvergi sé skýrt hvað átt er við með „jafnræði meðal notenda“.
V.
Málsástæður og lagarök kærða.
Í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun, sbr. bréf kærða, mótt. 3. júlí sl., segir að markmið laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er að stuðla að jafnrétti til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli íslensks táknmáls. Þar segir einnig að með 2. gr. sömu laga sé mælt fyrir um að hlutverk stofnunarinnar sé m.a. táknmálstúlkun.
Kærði vísar einnig til þess að samkvæmt 4. gr. reglugerðar um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra nr. 1058/2003 komi fram að helstu verkefni kærða við táknmálstúlkaþjónustu séu annars vegar að veita táknmálstúlkaþjónustu gegn gjaldi eða endurgjaldslaust skv. nánari ákvæðum í gjaldskrá sbr. 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar og hins vegar að veita túlkanemum á háskólastigi verklega þjálfun skv. sérstökum samningum við stofnanir sem annars menntun táknmálstúlka. Þá er tekið fram að í gjaldskrá kærða nr. 444/2013 komi fram að kærða sé heimilt að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna dagslegs lífs á grundvelli sérstakar fjárveitingar á fjárlögum ár hvert.
Kærði tekur fram að með 6. gr. laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra sé ráðherra fengin heimild til að setja gjaldskrá fyrir þá þjónustu sem stofnunin veitir. Í kjölfar þess segir kærði „Í gjaldskrá Samskiptamiðstöðvar segir að stofnuninni sé heimilt að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs ... á grundvelli sérstakrar fjárveitingar á fjárlögum ár hvert. Við afgreiðslu beiðna á grundvelli þessarar heimildar skal gætt jafnræðis milli notenda þjónustunnar, með tilliti til þeirrar fjárveitingar sem til ráðstöfunar er á hvetjum tíma. Frekari lög eða reglugerðir um endurgjaldslausa túlkaþjónustu eru ekki til og hefur Samskiptamiðstöð ítrekað bent á þann vanda“.
Að lokum greinir kærði frá því að mennta- og menningarmálaráðuneyti hafi lagt áherslu á að fjárveiting til þjónustunnar entist út árið. Í þeim tilgangi beindi ráðuneytið þeim tilmælum til stofnunarinnar að skipta fé úr sjóði til endurgjaldslausrar táknmálsþjónustu niður á fjóra ársfjórðunga.
Kærði tekur fram að kærandi hafi óskað eftir endurgjaldslausri túlkaþjónustu í erlendis. Þá var fyrirséð að áætlað fé til túlkunar mundi ekki endast úr árið. Kærði taldi óheimilt að veita kærða endurgjaldslausa túlkaþjónustu með vísan til markmiðs laganna og þess að sá kostnaður sem leiðir af túlkaþjónustu í útlöndum hefði leitt til þess að hallað væri á aðra notendur þjónustunnar.
VI.
Rökstuðningur niðurstöðu.
Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum en þær hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Um skilyrði laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990.
Skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda lögin þegar ákvarðanir eru teknar um rétt eða skyldu manna. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er ríkisstofnun sem starfar á grundvelli laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990. Lögin fjalla fyrst og fremst um starfrækslu nefndar ríkisstofnunar en eru ekki heildstæð löggjöf um réttarstöðu heyrnarlausra og heyrnarskertra. Í 1. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að stuðla að jafnrétti heyrnarlausra til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls heyrnarlausra. Í 2. gr. laganna er lýst hlutverki Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, sem tekur m.a. til táknmálstúlkunar sbr. staflið c. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna skal nánar kveðið á um þjónustuna í reglugerð. Í 6. gr. laganna kemur meðal annars fram að ráðherra geti, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, sett gjaldskrá fyrir þá þjónustu sem samskiptamiðstöðin veitir.
Um gildssvið laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011.
Skv. 1. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011 er íslenska þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi. Með 2. mgr. 13. gr. laga sömu laga er kveðið á um að íslenskt táknmál sé jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í milli og er óheimilt að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir nota. Samkvæmt 2. gr. laganna er þjóðtungan sameiginlegt mál landsmanna og skulu stjórnvöld tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.
Reglugerð um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra nr. 1058/2003, með síðari breytingum.
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur mælt nánar fyrir um framkvæmd laganna með heimild í 2. mgr. 2. gr. laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Við móttöku framangreindrar stjórnsýslukæru var í gildi reglugerð nr. 1058/2003, með síðari breytingum sem kærði hefur byggt á við úrlausn máls þessa. Í 4. gr. reglugerðarinnar, sem fjallar um táknmálstúlkaþjónustu, kemur fram að helstu verkefni Samskiptamiðstöðvar við táknmálstúlkaþjónustu væru annars vegar að veita táknmálstúlkaþjónustu gegn gjaldi eða endurgjaldslaust skv. nánari ákvæðum í gjaldskrá sbr. 4. mgr. 5. gr. og hins vegar að veita túlkanemum á háskólastigi verklega þjálfun samkvæmt sérstökum samningum við stofnanir sem annast menntun táknmálstúlka.
Gjaldskrá Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra nr. 444/2013.
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur með heimild í 6. gr. laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra sett gjaldskrá Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, að fengnum tillögum stjórnar Samskiptamiðstöðvarinnar. Í 3. mgr. 2. gr. gjaldskrárinnar kemur fram að Samskiptamiðstöð sé heimilt að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna dagslegs lífs og greiða ferðakostnað táknmálstúlks utan Reykjavíkursvæðisins vegna þess, á grundvelli sérstakrar fjárveitingar á fjárlögum ár hvert. Við afgreiðslu beiðna á grundvelli þessarar heimildar skal gætt jafnræðis milli notenda þjónustunnar, með tilliti til þeirrar fjárveitingar sem til ráðstöfunar eru á hverjum tíma.
Niðurstaða.
Í máli kæranda reynir fyrst og fremst á það álitamál hvort að hann eigi rétt á endurgjaldslausri táknmálsþjónustu erlendis jafnvel þó lög um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nr. 129/1990, kveði á um að markmið laganna sé að stuðla að þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu, lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensk táknmáls kveði á um að stjórnvöldum beri að tryggja að unnt verði að nota íslenskt mál og íslenskt táknmál á öllum sviðum íslensks þjóðlífs og gjaldskrá Samskiptamiðstöðvar, nr. 444/2013, kveði á um að við afgreiðslu beiðna skuli gætt að jafnræði milli notenda þjónustunnar, með tilliti til þeirrar fjárveitingar sem til ráðstöfunar er á hverjum tíma.
Miðað við framangreinda löggjöf er það mat ráðuneytisins að kærandi eigi ekki lögvarinn rétt til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu erlendis frá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Í hinni kærðu ákvörðun hafði kæranda verið leiðbeint um að þótt hann ætti ekki lögvarinn rétt til táknmálstúlkaþjónustu án endurgjalds, stæði honum sambærileg þjónusta til boða gegn greiðslu gjalds skv. gjaldskrá sem sett hefur verið um þjónustu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.
Vegna hugsanlegs lögvarins rétts heyrnarlausra og heyrnrarskertra til endurgjaldslausrar táknmálsþjónustu og fyrirheit þess efnis í lögskýringargögnum skal bent á að lagatextinn sjálfur kveður á um að setja skuli stofnuninni gjaldskrá. Er það mat ráðuneytisins að kveða þyrfti skýrt á um það í lögunum sjálfum ef ætlunin hefði verið að takmarka gjaldtökuheimildir stofnunarinnar við aðra aðila en heyrnarlausa og heyrnarskertra. Þrátt fyrir að ráðuneytið hafi metið það svo að núverandi löggjöf tryggi heyrnarlausum og heyrnarskertum ekki lögvarinn rétt til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu, er ekki talið að gildandi lög stæðu í vegi að ráðherra gæti í gjaldskrá, sem honum er falið að setja skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 129/1990, heimilað stofnuninni að veita endurgjaldslausa táknmálstúlkaþjónustu í gjaldskránni á grundvelli sérstakrar fjárveitingar á fjárlögum ár hvert.
Með vísan til þess sem að framan greinir er hin kærða ákvörðun staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hin kærða ákvörðun Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra vegna ósk A um endurgjaldslausa túlkaþjónustu erlendis, dags. 28. apríl 2015, er staðfest.