Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Nemanda vikið af heimavist

Ár 2014, miðvikudagurinn 11. júní 2014, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR

Kæruefnið.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu barst þann 4. janúar 2014 stjórnsýslukæra X, hdl., f.h. A og B vegna ólögráða sonar þeirra, Y (hér eftir nefndur kærandi). Kærð er sú ákvörðun skólameistara Z að víkja kæranda af heimavist Z, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 20. nóvember 2013 og ítrekuð 10. desember sama ár.

Í kæru er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá krefst kærandi þess að Z verði gert að greiða kærukostnað hans. Til vara er þess krafist að þeim tilmælum verði beint til Z að skólinn rétti hlut kæranda vegna hinnar ólögmætu ákvörðunar. Af greinargerð kærða má ráða að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 10. febrúar sl, var óskað umsagnar Z um kæruna og barst umsögnin 21. febrúar. Umsögnin var send til kæranda með bréfi ráðuneytisins, dags. 26. sama mánaðar, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, mótt. 18. mars sl.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 7. apríl sl., var í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, tilkynnt um að tafir yrðu á uppkvaðningu úrskurðar vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður hér einungis fjallað um málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn þess.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Í kæru er greint frá því að þann 9. nóvember 2013 hafi kærandi, sem dvelur á heimavist Z, farið heim til foreldra sinna og komið aftur á heimavistina næsta dag. Þann 18. nóvember sama ár hafi honum, við skipulagða fíkniefnaleit lögreglu, verið tilkynnt að í herbergi hans hafi fundist poki með leifum af ætluðum vímuefnum. Hafi þá komið í ljós að starfsmaður heimavistarinnar hafi farið inn í herbergi kæranda þann 9. nóvember 2013, þegar hann var að heiman, og gengið þar að opinni skúffu þar sem pokinn blasti við. Í framhaldinu hafi leigusamningi kæranda verið rift vegna meints fíkniefnamisferlis með vísan til húsaleigusamnings. Kærandi hafi í umboði foreldra sinna krafist þess bréflega að ákvörðun skólameistara yrði dregin til baka, en í bréfi, dags. 10. desember 2013, hafi ákvörðunin verið staðfest með dræmum rökstuðningi.

Hvað kæruheimild varðar, er á því byggt í kæru að hin kærða ákvörðun sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga þar sem skólameistari sé einn fær um að taka þá ákvörðun að segja upp leigusamningi eða víkja nemanda af heimavist vegna brota af því tagi sem kærandi var grunaður um. Hafnar kærandi því að um brot á húsaleigusamningi hafi verið að ræða, hið minnsta sé það ósannað, eins og segir í kæru. Fyrir liggi í málinu að kærandi neiti því að hafa átt umræddan poka eða að hann hafi verið í hans vörslu eða meðferð. Starfsmaður heimavistar finni efnin og haldi þeim í þrjá daga áður en hann ræði við lögreglu. Ekkert komi fram í gögnum málsins að efnisinnihald pokans hafi verið kannað og ávallt sé vísað til þess sem ætluð vímuefni. Því sé ekkert víst í þeim efnum og þar til annað sé sannað skuli ganga út frá því að í pokanum hafi ekki verið ólögmæt vímuefni. Verði sannað að pokinn hafi innihaldið ólögleg vímuefni séu þar að auki engar upplýsingar um hversu mikið hafi verið af ætluðum vímuefnum. Allsendis sé óvíst hvort hin ætluðu vímuefni hafi á einhverju stigi málsins raunverulega verið inni á heimavistinni eða hvort pokinn hafi komið tómur þar inn. Fram kemur í kæru að í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærandi viðurkennt, í viðurvist móður sinnar, að hafa prófað vímuefni áður. Engu að síður hafi hann neitað að hafa átt pokann eða þekkja innihald hans. Við vímuefnaleit hafi leitarhundur ekki merkt í herbergi kæranda, hann búi ekki einn í herberginu, hann hafi verið fjarverandi þegar efnin fundust, herbergi hans verið ólæst og þar hafi verið aðrir aðilar eftir að hann fór. Þar að auki virðist sem engin tilraun hafi verið gerð til að fela pokann. Þá hafi kærandi farið í þvagprufu þann 25. nóvember 2013, sem hafi merkt neikvæð fyrir notkun vímuefna og sé það sterk vísbending um að hann hafi ekki neytt vímuefna þann 9. sama mánaðar eða stuttu áður. Í ljósi ofangreinds bendir kærandi á að sú staðreynd að hann hafi játað að hafa neytt vímuefna utan heimavistar sé ein og sér ekki nóg til að víkja honum af heimavistinni. Kærandi byggir á því að ofangreind framkvæmd fari í bága við rannsóknarreglu og andmælarétt, meðalhófsreglu og regluna um að rökstyðja skuli ákvörðun. Þar að auki hafi skólameistari brugðist leiðbeiningarskyldu sinni. Kærandi byggir ennfremur á því að hin kærða ákvörðun sé efnislega röng. Í kæru er færðar fram nánari röksemdir til stuðnings málsástæðum kæranda.

II.

Í greinargerð skólameistara Z er greint frá því að áður en skólameistari hafi tekið ákvörðun um hvort segja ætti upp húsaleigusamningi við kæranda hafi hann fundað með foreldrum hans, þar sem þau hafi talað máli sonar síns og óskað eftir því að hann fengi annað tækifæri. Væri sonur þeirra ánægður í skólanum og á heimavistinni. Við eftirgrennslan hafi komið í ljós að kærandi hefði mætti prýðilega í kennslustundir. Ekki hafi staðið til að vísa honum úr skóla þrátt fyrir að talið hefði verið að hann hefði brotið reglur um meðferð fíkniefna á heimavistinni. Hafi skólameistari þó lagt á það áherslu að skólinn og heimavistin yrðu að fara mjög stranglega eftir reglum heimavistarinnar og ákvæðum húsaleigusamnings. Í reglunum væri skýrt kveðið á um að hvers konar meðferð áfengis og annarra fíkniefna væri stranglega bönnuð og gæti varðað uppsögn húsaleigusamnings. Skólameistari hafi tjáð foreldrum að litið væri svo á að kærandi hefði verið eigandi pokans og innihaldsins úr því pokinn fannst í herbergi hans. Kærandi hafi svo komið á fund skólameistara síðar sama dag og óskað eftir að fá að vera áfram á heimavistinni. Kvaðst hann eiga vini sem væru í þessu, en ekki hann, og einhver þeirra gæti hafa látið pokann þarna. Aðspurður hafi hann ekki viljað greina frá því hverjir þessir vinir hans væru. Skólameistari hafi tjáð kæranda að vera kynni að húsaleigusamningi hans yrði sagt upp þar sem um væri að ræða alvarlegt brot á reglum heimavistarinnar sem ekki væri unnt að horfa fram hjá. Kvaðst kærandi vera saklaus af því sem hann væri sakaður um og ekki hafa átt pokann sem fundist hafi í opinni náttborðsskúffu í herbergi hans. Skólameistari tjáði kæranda að þrátt fyrir neitun hans þá hvíldi sú sönnunarbyrði á honum að reyna að komast að því og segja frá því hverjir aðrir gætu hafa átt þetta þar sem litið væri svo á að pokinn hefði verið í hans vörslu og á hans ábyrgð, eins og segir í greinargerð. Samkvæmt lögregluskýrslu hafi lögregla farið á vettvang þann 12. nóvember 2013, eftir að tilkynnt hafði verið um ætlað fíkniefnabrot á heimavistinni, innihald pokans sent til rannsóknar og í skýrslu frá Tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi komið fram að sýnið innihélt 0,24 gr. af tóbaksblönduðum kannabisefnum.

Í greinargerð kemur fram að skólameistari hafi, að fenginni forrannsókn lögreglu, ákveðið að segja upp húsaleigusamningi við kæranda. Hann hafi þó fengið að dvelja á heimavistinni með ákveðnum skilyrðum þar til hann hefði lokið prófum, og með því mildað áhrif uppsagnarinnar í ljósi meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Að mati skólameistara hafi því verið rétt staðið að málum, andmælaréttur verið virtur, ákvörðun tekin að lokinni frumrannsókn lögreglu og starfsmanna heimavistarinnar og meðalhófsregla stjórnsýslulaga höfð til hliðsjónar við ákvörðun viðurlaga. Auk þess hafi verið stuðst við ákvæði húsaleigusamnings og reglur heimavistar framhaldsskóla Æ og Z. Niðurstaða skólameistara sé að uppsögn húsaleigusamnings við kæranda hafi verið lögmæt og samkvæmt reglum heimavistar Lundar.

III.

Athugasemdir kæranda við greinargerð skólameistara Z bárust ráðuneytinu með bréfi, mótt. 18. mars sl. Þar er því haldið fram að mál þetta snúist um það hvort kærandi teljist hafa verið með vímuefni til meðferðar, sem fundust í herbergi hans. Grundvöllur uppsagnar/riftunar hvíli á orðalagi leigusamnings um heimild til uppsagnar vegna meðferðar íbúa á áfengi eða vímuefnum. Um málavexti að öðru leyti vísist til framkominnar kæru. Kærandi hafi á öllum stigum málsins neitað að eiga efnin og staðhæfi hann að hafa verið fjarverandi þegar efnin fundust. Þeim staðhæfingum hafi í reynd ekki verið mótmælt né að í herbergi kæranda hafi fleiri komið kvöldið áður en efnin fundust. Ennfremur hafi því ekki verið mótmælt að einhver annar gæti hafa komið inn með efnin og sé því raunverulega ekki haldið fram að kærandi eigi efnin, hafi notað efnin eða vitað af þeim. Svar skólameistara í greinargerð sé aðeins byggt á því að þar sem efnin hafi fundist í herbergi kæranda teljist þau í hans meðferð og byggir skólameistari þannig á því að það hvíli á kæranda að sanna að hann eigi ekki efnin. Sérstaklega sé ítrekað að í greinargerð skólameistara sé tekinn af vafi að við ákvarðanatöku hafi ekki legið fyrir hvort um ólöglegt efni hafi verið að ræða og það hafi ekki verið fyrr en kæra kom fram sem skólameistari hafi leitað sér endanlegra upplýsinga um innihald pokans. Þar að auki sé ítrekað að kærandi hafi ekki búið einn í herbergi sínu, en samkvæmt sömu röksemdafærslu og byggt sé á í máli þessu færi herbergisfélagi hans einnig með meðferð efnanna. Þá kemur fram í athugasemdum kæranda að svo virðist sem mat skólameistara hafi verið að kærandi tilheyrði hópi drengja sem orðaðir hafi verið við fíkniefnaneyslu og meðferð fíkniefna, en fráleitt sé að skólameistari leyfi sér að setja slíkar fullyrðingar í greinargerð sína og ljóst að stjórnvald geti ekki leyft sér að byggja mat sitt á orðróm og sögusögnum. Hvað andmælarétt varðar, þá tekur kærandi fram að óformlegt spjall við foreldra jafnist ekki á við andmælarétt þeirra. Á því stigi er skólameistari hafi rætt við þau hafi hann sjálfur ekki verið kominn með gögn málsins né hafi það legið fyrir hver ákvörðun hans yrði. Hafi foreldrum jafnframt ekki verið kynnt fram komin gögn eða gefið tækifæri til að koma að athugasemdum. Ófullnægjandi hafi verið að tilkynna kæranda sjálfum og hlusta á röksemdir hans þar sem kærandi sé undir lögaldri. Að auki sé það áhyggjuefni að skólameistari hafi fengið upplýsingar úr yfirstandandi rannsókn lögreglu án samþykkis kæranda.

Rökstuðningur niðurstöðu.

I.

Hvað varðar kæruheimild í máli þessu vísast til 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 4. gr. og 5. mgr. 33. gr. a. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla. Í kæru er gerð krafa um að Z verði gert að greiða kærukostnað vegna máls þessa og til vara að þeim tilmælum verði beint til skólans að hann rétti hlut kæranda vegna ólögmætrar ákvörðunar. Því er til að svara að ráðuneytið hefur ekki heimild að lögum til að kveða á um skyldu kærða til greiðslu kærukostnaðar né heldur til að setja fram tilmæli til skólans í því skyni. Er ráðuneytinu því ekki unnt að verða við þessari kröfu kæranda.

Í V. kafla laga um framhaldsskóla er kveðið á um námskrá og námsbrautir og fjallar 21. gr. um aðalnámskrá. Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. eru í almennum hluta útfærðir starfshættir og markmið framhaldsskóla og skal almennur hluti m.a. innihalda almennar reglur um réttindi og skyldur nemenda og meðferð ágreiningsmála, sbr. j. lið. Í 22. gr. er mælt fyrir um það að sérhver framhaldsskóli skuli gefa út skólanámskrá, sem skiptist í tvo hluta, almennan hluta og námsbrautarlýsingar. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. er mælt fyrir um að í skólanámskrá skuli m.a. gerð grein fyrir réttindum og skyldum nemenda. Í 33. gr. a. laganna er fjallað um ábyrgð nemenda og málsmeðferð er hegðun nemanda reynist verulega áfátt. Í 33. gr. b. er fjallað um skólabrag. Í 3. mgr. er mælt fyrir um það að hver skóli skuli setja sér skólareglur og birta þær í skólanámskrá. Í reglunum skuli m.a. kveðið á um hegðun og almenna umgengni, samskipti, heilbrigðar lífsvenjur, skólasókn, námsframvindu, meðferð ágreiningsmála og beitingu viðurlaga. Í 36. gr. er fjallað um heilsuvernd, hollustuhætti og forvarnir. Samkvæmt 3. mgr. skulu framhaldsskólar hvetja til heilbrigðs lífernis og heilsuræktar nemenda og skal sérhver framhaldsskóli setja sér stefnu um forvarnir sem skal birt opinberlega. Í 14. kafla almenna hluta aðalnámskrár framhaldsskóla 2011 er fjallað um réttindi og skyldur. Þar er m.a. mælt fyrir um að framhaldsskólar skulu hvetja til heilbrigðs lífernis og heilsuræktar nemenda og leggja þurfi áherslu á áfengis- og fíkniefnaforvarnir. Í kafla 14.7 í aðalnámskrá er fjallað um skólareglur, sem birtar skulu í skólanámskrá og geyma ákvæði um skólasókn, hegðun og umgengni, námsmat, námsframvindu og prófareglur, viðurlög vegna brota á skólareglum og reglur um meðferð ágreiningsmála og um beitingu viðurlaga. Er þar einnig tekið fram um að við ákvörðun skólameistara um rétt eða skyldu nemenda skuli fylgja reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð. Í kafla 14.7.2 sem fjallar um meðferð ágreiningsmála og kemur þar fram að við vinnslu slíkra mála skuli gæta ákvæða stjórnsýslulaga um málsmeðferð. Í kafla 14.9, sem fjallar um reykingar og vímuefni. Eins og þar er mælt fyrir um eru reykingar og önnur tóbaksnotkun stranglega bönnuð í húsnæði og á lóð framhaldsskóla. Einnig er öll meðferð og neysla áfengis og annarra vímuefna stranglega bönnuð í húsakynnum skóla og á samkomum á þeirra vegum. Þá kemur fram að jafnan skuli haft samband við forsjárforeldra eða forráðamenn ólögráða nemenda komi eitthvað upp á í þessum efnum.

Samkvæmt framansögðu er öll meðferð og neysla tóbaks, áfengis og annarra vímuefna stranglega bönnuð og er skólameistara bæði rétt og skylt að grípa til viðeigandi viðurlaga við brotum nemanda á þessu afdráttarlausa banni. Við beitingu viðurlaga vegna brota af þessu tagi ber skólameistara að fara að reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð, eins og framangreind ákvæði kveða á um. Kærandi hefur sett fram margvíslegar athugasemdir við málsmeðferð skólameistara í máli þessu. Það er óumdeilt í málinu að kærandi, sem og foreldrar hans, fengu tækifæri til að koma að sjónarmiðum sínum og andmælum áður en hin fyrirhugaða ákvörðun var tekin. Þá telur ráðuneytið að skólameistari hafi leitast við að upplýsa málið að því marki sem honum var unnt áður en hin kærða ákvörðun var tekin og ekki verði séð að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga hafi verið brotnar við meðferð máls þessa. Þó verður að taka undir það með kæranda að samkvæmt almennum sönnunarreglum er sekt kæranda í máli þessu í reynd ósönnuð, en eins og rakið hefur verið hér að framan sagði skólameistari upp húsaleigusamningi við kæranda á grundvelli þess að poki, sem reyndist innihalda vímuefni, fannst í opinni náttborðsskúffu kæranda á meðan hann dvaldi hjá foreldrum sínum, utan heimavistar. Þá liggur fyrir að fleiri en kærandi höfðu aðgang að herbergi hans á meðan hann var fjarverandi. Ráðuneytið telur þó að ekki sé unnt að gera sömu kröfur til sönnunar um sekt, þegar um ræðir skyldu skólameistara til að framfylgja fyrrgreindu banni við allri meðferð og neyslu hvers kyns vímuefna, eins og gerðar eru kröfur um hvað varðar sönnunarbyrði í sakamálum. Enda er vandséð hvernig skólameistara væri unnt að framfylgja hinu algjöra vímuefnabanni með raunhæfum hætti væru sönnunarreglur sakamálaréttarfars taldar eiga við í málum af þessum toga, þó svo skólameistara beri að sjálfsögðu að leggja sig fram um að upplýsa mál eins og frekast er unnt á grundvelli málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttarins. Þá liggur fyrir að lögsaga og valdheimildir ráðuneytisins ná ekki til þess að rannsaka mál þetta að því marki að kveða á um sekt eða sýknu kæranda í málinu. Í þessu sambandi er jafnframt mikilvægt að nemendur leitist við að axla ábyrgð á vistarverum sínum og vera meðvitaðir um hvað þar kann að leynast, í þeim tilgangi að fyrirbyggja eins og frekast er unnt að óviðkomandi fari þar um. Er því mikilvægt að gott samstarf ríki milli skólayfirvalda og heimavistarnemenda að þessu leyti.

Að virtum þeim sjónarmiðum og röksemdum sem báðir málsaðilar hafa fært fram máli sínu til stuðnings er það mat ráðuneytisins að ekki sé ástæða til að gera athugasemdir við málsmeðferð skólameistara og að hin kærða ákvörðun verði ekki felld úr gildi á þeim forsendum. Með hliðsjón af öllu framansögðu verður að telja að hin kærða ákvörðun byggi á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum og því ber að staðfesta hana eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun skólameistara Z, dags. 20. nóvember 2013, um að víkja Y af heimavist Z, er staðfest.

 

Fyrir hönd ráðherra

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta