Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Vísun nemanda ótímabundið úr framhaldsskóla

Ár 2010, fimmtudaginn 30. desember, var kveðinn upp í mennta– og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

 

ÚRSKURÐUR

 

Kæruefnið

I.

Með bréfi, sem barst mennta – og menningamálaráðuneytinu þann 9. júlí sl., kærðu A og B, f.h. [barns síns] C, […], […], […] (hér eftir […] kærandi) þá ákvörðun aðstoðarskólameistara [framhaldsskólans] X frá því í maí  2010 að vísa kæranda ótímabundið úr skólanum skv. 33. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008.  Með hliðsjón af gögnum málsins er krafa kæranda skilin á þann hátt að þess sé krafist að ákvörðun aðstoðarskólameistara um að vísa kæranda ótímabundið úr X verði felld úr gildi. Af hálfu stjórnenda X er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

II.

Stjórnsýslukæra í máli þessu var móttekin í ráðuneytinu 9. júlí sl. Með bréfi dags. 20. júlí sl., leitaði ráðuneytið umsagnar  og afstöðu X  til kærunnar. Umsögn skólans barst ráðuneytinu 11. ágúst sl. Með tölvupósti ráðuneytisins, dags. 12. ágúst sl., var umsögn X kynnt kæranda og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Kærandi sendi ráðuneytinu athugasemdir með tölvupósti, dags. 16. ágúst sl.

 

Málavextir og málsástæður

I.

Í máli þessu er deilt um hvort farið hafi verið að stjórnsýslulögum og lögum um framhaldsskóla þegar aðstoðarskólameistari ákvað að vísa kæranda ótímabundið úr [framhaldsskólanum] X. Ágreiningur er hjá málsaðilum um málavexti og ber að skoða málavaxtalýsingu þessa í því ljósi. Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður hér einungis fjallað um málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

 

Kærandi hóf nám við [framhaldsskólann] X haustið 2008 en var vikið fyrst tímabundið úr skólanum vegna […]. Kæranda var svo vikið ótímabundið úr skólanum síðar sama haust vegna óviðunandi námsástundunar. Hann fékk aftur inngöngu í skólann haustið 2009 gegn því að gangast undir samning við fjarvistastjóra skólans um að skólavist hans væri háð ákveðnum skilyrðum. Þar kemur m.a. fram  að kæranda gefist lokatækifæri til að stunda nám við X en verði að fara í einu og öllu að skólasóknarreglum, bæta stöðu sína og standi hann ekki við samninginn verði honum vikið úr skólanum með viku fyrirvara eða í lok annar. Mun haustönn 2009 hafa gengið aðfinnslulaust fyrir sig. Í janúarmánuði ársins 2010 varð kærandinn að sögn foreldra hans, í bréfi dags. 8. júlí 2010, fyrir ,,mjög miklu persónulegu áfalli sem varð til þess að hann lagðist í rúmið illa haldinn af þunglyndi og kvíða.“ Í þessu sama bréfi er tekið fram að foreldrar kæranda hafi strax haft samband við áfanga- og fjarvistastjóra skólans og farið  í einu og öllu að hans ráðleggingum. Einnig taka foreldrar fram að þau hafi verið í sambandi við kennara kæranda og upplýst þá um gang mála.

 

Með bréfi fjarvistastjóra X, dags. 11. mars sl. fékk kærandi áminningu þar sem fram kom að ef hann ekki bætti mætingu sína myndi skólavist hans verða endurmetin í lok annar. Í maí mánuði fékk kærandi bréf, ódagsett, frá X þar sem segir: ,,Í ljósi námsárangurs og skólasóknar er það mat okkar að réttast sé að þú hvílir þig frá námi við X. Gangi þér vel.“ Kærandi fór á fund skólastjóra með móður sinni þar sem hann lagði fram bréf með beiðni til skólans um að breyta ákvörðun sinni frá því í maí mánuði. Með bréfi skólameistara dags. 25. júní sl. var þessari beiðni hafnað. Með bréfi, dags. 9. júlí sl., skaut kærandi ákvörðun aðstoðarskólameistara til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

 

II.

Í umsögn X kemur fram að kærandi hafi verið mikið fjarverandi í kennslustundum á vorönn 2010, hangsað á göngum skólans og fáu sinnt þegar hann var rekinn í tíma, m.a. af skólameistara. Einnig kemur fram í umsögninni að veikindi hafi sjaldan verið tilkynnt og að haft hafi verið samband við foreldra kæranda af þeim sökum. Þá er tekið fram í umsögninni að ítrekað hafi kæranda verið leiðbeint um að leita sér aðstoðar námsráðgjafa en hann ekki sinnt því. Einnig er tekið fram að þegar líða tók á önnina hafi borist nokkur listi foreldravottorða en allt mun seinna en reglur skólans gera ráð fyrir og skýringar á vandanum hafi ekki borist fyrr en í lok apríl. Skólameistari hafði samband við heimilislækni kæranda og reyndist heimilislæknirinn ekki reiðubúinn að skrifa upp á veikindi kæranda.  Þann 30. apríl hafi móðir kæranda komið til skólameistara með skýringar og vottorð frá sálfræðingi þar sem fram kom að kærandi ætti við kvíða og depurð að stríða. Skólameistari hafði þá samband við umræddan sálfræðing sem kvaðst hafa hitt kæranda einu sinni og taldi því meðferð rétt að hefjast á þeim tímapunkti.  Í umsögn skólans kemur fram að kærandinn hafi lokið vorönn 2010 með um 50% skólasókn og næsta lítinn námsárangur og þar með hafi skólameistarinn talið að fullreynt væri í málinu og kæranda því víkið ótímabundið frá námi öðru sinni. Að lokum kemur þar fram að það sé mat skólameistara að kærandi hafi fengið þau tækifæri og þjónustutilboð sem hann átti rétt á. Kærandinn hafi að auki fengið svigrúm til að sitja út vorönn 2010 þrátt fyrir að það hefði mátt vísa honum fyrr úr skólanum. Í umsögn X til ráðuneytisins vegna málsins er lögð áhersla á að kæranda hafi ekki verið vikið úr skólanum vegna veikinda heldur vegna brota á skólasóknarreglum.

 

Í umsögn foreldra er því hafnað að honum hafi verið boðin öll þjónusta á vegum skólans. Öll samskipti vegna kæranda hafi þurft að fara í gegnum foreldra hans þar sem hann var ólögráða og ekki hafi verið haft samband við þá frá X. Í umsögn foreldra kæranda er áréttað að kærandinn hafi nánast ekkert verið í skólanum frá febrúar fram í apríl. Þau hafi verið í miklu sambandi við fjarvistastjóra skólans og farið eftir hennar ráðleggingum.  Einnig kemur þar fram að á fundi skólameistara með móður kæranda og kæranda, hafi fjarvistafulltrúi skólans staðfest að foreldrar kæranda hafi verið í sambandi við hana frá því að kærandi veiktist. Því er einnig mótmælt að kærandi hafi verið í skólanum en ekki sinnt honum þann tíma sem hann var veikur og séu margir sem geti vottað það. Kærandi sendi skólameistara bréf, dags. 12. júní sl., þar sem hann útskýrir fjarvistir sínar úr skólanum. Hann kveðst reiðubúinn til að takast á við nám í skólanum og að hann hafi hug á að mæta hjá námsráðgjafa einu sinni i viku til að fara yfir verkefni og heimavinnu vikunnar. Skólameistari svaraði bréfi kæranda þann 25. júní sl. þar sem hann telur ekkert hafa komið fram sem breytir þeirri ákvörðun skólans að vísa honum úr skólanum á grundvelli brota á skólasóknarreglum.

 

Rökstuðningur niðurstöðu

I.

Um [framhaldsskólann] X gilda lög um framhaldsskóla nr. 92/2008. Samkvæmt 3. gr. laganna fer mennta- og menningarmálaráðherra með yfirstjórn þeirra mála er lögin taka til og ber ábyrgð á aðalnámskrá, eftirliti með skólastarfi og námsefni, ráðgjöf um kennslu og þróunarstarf í framhaldsskólum og söfnun og dreifingu upplýsinga um skólastarf. Í 2. mgr. 6. gr. laganna segir að skólameistari veiti skólanum forstöðu. Hann stjórni daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gæti þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hin kærða ákvörðun var tekin af aðstoðarskólameistara X og hún er því réttilega kærð til mennta- og menningarmálaráðuneytisins skv. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 92/2008. Í því ákvæði kemur fram að ákvörðun skólameistara um rétt eða skyldu nemenda skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, svo sem brottvísun úr skóla í fleiri en einn dag eða að nemanda sé meinað að sækja kennslutíma í ákveðnu fagi eða námsgrein um nokkurt skeið, skuli fylgja reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð og að slíkar ákvarðanir skólameistara séu kæranlegar til mennta- og menningarmálaráðuneytis skv. VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 92/2008 eiga nemendur á fræðsluskyldualdri, þ.e. aldrinum 16 – 18 ára, rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla. Um skyldur framhaldsskóla að þessu leyti er kveðið á í 2. mgr. 32. gr. laganna en þar segir að hver framhaldsskóli beri ábyrgð á innritun nemenda. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er mælt fyrir um heimild ráðherra til að setja reglugerð um innritun nemenda og hefur sú reglugerð verið gefin út sem reglugerð nr. 1150/2008. Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram að réttur nemenda á fræðsluskyldualdri til innritunar og ástundunar náms í framhaldsskóla sé tryggður, enda haldi þeir almennar skólareglur.

 

Eins og áður hefur fram komið var hin kærða ákvörðun orðuð með eftirfarandi hætti:

,,Í ljósi námsárangurs og skólasóknar er það mat okkar að réttast sé að þú hvílir þig frá námi við X. Gangi þér vel.“

 

Í umsögn X til ráðneytisins vegna málsins er lögð áhersla á að skólastjórnendur hafi ekki vitað um veikindi kæranda og að vottorð um slíkt hafi komið fram of seint miðað við skólareglur.

 

II.

Í máli þessu liggur fyrir áður nefndur samningur, ódags. í ágúst 2009, þar sem kærandi skuldbindur sig til að fara í einu og öllu að skólasóknarreglum og bæta stöðu sína. Þá er tekið fram í samningnum að standi kærandi ekki við skilmála hans verði honum vikið úr skólanum með viku fyrirvara eða í lok annar. Með bréfi, dags. 11. mars sl., fékk kærandi, samkvæmt skólasóknarreglum, áminningu fyrir óviðunandi skólasókn. Þá er tekið fram í bréfinu að skólavist kæranda verði endurmetin í lok annar, batni mætingar ekki þrátt fyrir áminninguna, og enn fremur að kærandi muni ekki fá frekari viðvörun frá skólanum nema um annað sé samið sérstaklega, sem mun ekki hafa verið gert.  Jafnframt er óumdeilt í máli þessu að foreldrum kæranda, sem var ólögráða á þeim tíma er hér um ræðir, var ekki gefinn kostur á andmælum áður en hin kærða ákvörðun var tekin.  Ákvörðunin var tilkynnt kæranda með bréfi, ódags. í maí sl. Af málsástæðum X í málinu má ráða að skólinn hafi ekki talið þörf á að veita andmælarétt áður en ákvörðunin var tekin. 13. gr. stjórnsýslulaga hefur að geyma meginreglu stjórnsýslulaga um andmælarétt. Í andmælarétti felst meðal annars að málsaðili skal eiga kost á því að gæta réttar síns og hagsmuna með því að kynna sér gögn máls, tjá sig um efni þess og framkomnar upplýsingar í því og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun. Þannig getur málsaðili komið athugasemdum á framfæri, bent á misskilning eða ónákvæmni í gögnum máls og jafnframt bent á heimildir sem kunna að vera betri grundvöllur að ákvörðun máls. Þegar til greina kemur að beita aðila agaviðurlögum verður að gera strangar kröfur til vandaðrar málsmeðferðar. Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða ráðuneytisins að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi X ekki gætt andmælaréttar kæranda samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga.

 

III.

Þá er það niðurstaða ráðuneytisins í máli þessu að eins og hin kærða ákvörðun var orðuð skorti á skýrleika um efni hennar og grundvöll. Byggist sú niðurstaða á því að einungis var vísað til þess að samkvæmt mati skólans á námsárangri og skólasókn kæranda ætti hann að hvíla sig frá námi við X, án þess að skýrt væri kveðið á um að tekin hefði verið ákvörðun um ótímabundinn brottrekstur kæranda og gætt ákvæða stjórnsýslulaga í því sambandi eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. 33. gr. laga um framhaldsskóla. Að vísu hafði kærandi fengið áminningu frá skólanum um að ef hann bætti ekki skólasókn sína þá gæti það orðið til þess að skólavist hans yrði endurskoðuð án fyrirvara í lok annarinnar. Samkvæmt málavaxtalýsingum foreldra kæranda höfðu þau brugðist við samkvæmt ráðleggingum fjarvistastjóra skólans og því enn meiri nauðsyn til að ákvörðunin væri sett fram á skýran hátt með rökstuðningi. Það er grundvallarregla í stjórnsýslurétti að stjórnvaldsákvörðun verður efnislega að vera bæði ákveðin og skýr svo að sá sem ákvörðunin beinist að geti skilið hana og metið réttarstöðu sína. Með vísan til framangreinds verður að mati ráðuneytisins að telja að hin kærða ákvörðun í máli þessu hafi ekki fullnægt framangreindri grundvallarreglu um skýrleika stjórnvaldsákvörðunar.    

 

IV.

Eins og rakið hefur verið hér að framan var kæranda vikið í tvígang úr X á haustönn 2008, fyrst tímabundið og síðan ótímabundið. Sú forsaga kæranda við skólann er þó ekki til skoðunar í máli þessu og verður að mati ráðuneytisins ekki séð að byggt hafi verið á henni þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Þegar kærandi fékk aftur inngöngu í X ári síðar var gerður við hann samningur, þar sem skólavist hans á haustönn 2009 var háð ákveðnum skilyrðum. Í umsögn skólans kemur fram að sú önn hafi reynst ásættanleg. Á vorönn 2010 var kæranda send áminning samkvæmt skólasóknarreglum X vegna óviðunandi skólasóknar á þeirri önn, sem leiddi að lokum til þess að tekin var ákvörðun um ótímabundna brottvísun kæranda úr skólanum í ljósi námsárangurs og skólasóknar hans. Í þessu sambandi skal tekið fram að samkvæmt gildandi lögum um framhaldsskóla eiga allir ólögráða nemendur rétt á skólavist eins og áður er rakið í umfjöllun um 1. mgr. 32. gr. laga nr. 92/2008. Var vakin athygli á því í dreifibréfi ráðuneytisins til skólameistara framhaldsskóla, dags. 8. júní sl., og jafnframt áréttað að óheimilt væri að vísa ólögráða nemendum úr skóla hafi þeir ekki staðist skilgreindar kröfur um lágmarkseinkunn og námsframvindu, nema um væri að ræða brot á skólareglum. Var X því óheimilt að byggja framangreinda ákvörðun sína á námsárangri kæranda.

 

Þá kemur til skoðunar hvort X hafi verið heimilt að víkja kæranda úr skóla vegna skólasóknar, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1150/2008 eða hvort unnt hefði verið að grípa til annarra og vægari úrræða í stað ótímabundinnar brottvísunar. Í 12. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um að stjórnvöld skulu því aðeins taka íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Í meðalhófsreglunni felast þrír meginþættir. Í fyrsta lagi er gerð sú krafa að efni ákvörðunarinnar sé til þess fallið að ná því markmiði sem að er stefnt, í öðru lagi skal velja það úrræði sem vægast er þar sem fleiri úrræða er völ og geta þjónað því markmiði sem að er stefnt og í þriðja lagi er gerð sú krafa að gætt sé hófs í beitingu þess úrræðis sem valið hefur verið. Því er óheimilt að beita úrræðinu á harkalegri hátt en nauðsyn ber til. Eins og áður hefur verið rakið varðar ákvörðun um brottrekstur, ekki síst ótímabundið eins og hér um ræðir, mikilsverða hagsmuni nemenda, réttindi þeirra og skyldur og er íþyngjandi fyrir þann sem í hlut á.

 

Í athugasemdum við 32. gr. í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 92/2008 segir að lagagreinin feli í sér þá veigamiklu breytingu frá 15. gr. í þágildandi framhaldskólalögum að allir sem náð hafi 16 ára aldri eigi rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Þeir skuli jafnframt eiga rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs, þó að því gefnu að þeir hlýði almennum skólareglum. Í framsöguræðu mennta- og menningarmálaráðherra með frumvarpinu sem flutt var á Alþingi 7. desember 2007 kom fram að frumvarpið miðaði að því að allir nemendur ættu kost á námi við hæfi í fjölbreyttu námsframboði, og að réttur nemenda til skólavistar og náms yrði styrktur m.a. með fræðsluskyldu stjórnvalda til 18 ára aldurs. Í frumvarpinu væri þannig í fyrsta sinn skilgreindur sérstakur réttur nemenda til náms í framhaldsskóla. Þar segði að allir þeir sem lokið hefðu grunnskóla, hefðu jafngilda undirstöðumenntun eða náð 16 ára aldri skyldu eiga rétt til innritunar í framhaldsskóla og til að stunda þar nám að 18 ára aldri. Þessum rétti héldu nemendur svo lengi sem þeir virtu þær skyldur sem fylgdu námsrétti í framhaldsskóla en þær lytu að skólasókn, hegðun og námsframvindu.

 

Af hálfu foreldra kæranda kemur fram að hann hafi orðið fyrir miklu persónulegu áfalli í byrjun þessa árs og hafi í kjölfarið lagst í rúmið illa haldinn af kvíða og þunglyndi. Í máli þessu liggur fyrir vottorð sálfræðings, dags. 23. apríl sl., þar sem vottað er að kærandi eigi við kvíða og depurð að stríða, sem óneitanlega hafi hamlandi áhrif á hann í námi og leik. Þá kemur fram að foreldrar kæranda hafi upplýst starfsfólk skólans um veikindi hans, en ágreiningur er milli aðila um það hversu tímanlega og reglulega þær upplýsingar hafi borist skólanum. Málsaðilar eru þó sammála um að skólanum hafi ekki borist vitneskja um það af hvaða toga veikindi kæranda stöfuðu fyrr en í lok apríl þessa árs. Af gögnum málsins má ráða að við undirbúning og töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið höfð hliðsjón af fyrrgreindu vottorði sálfræðingsins. Jafnframt er því haldið fram í bréfum kæranda og foreldra hans vegna máls þessa að kærandi hafi sótt vinnu síðastliðið sumar og að veikindatímabili hans teljist lokið, án þess þó að lögð hafi verið fram vottorð eða færð fram frekari rök þess efnis. Í umsögn X kemur fram að ítrekað hafi verið hvatt til þess að kærandi leitaði aðstoðar námsráðgjafa en hann ekki sinnt því, auk þess sem hann hafi fengið þau tækifæri og þjónustutilboð sem hann hafi átt rétt á. Ágreiningur er milli málsaðila um þetta atriði. 

 

Í tilefni af máli þessu telur ráðuneytið ástæðu til að árétta þær skyldur sem hvíla á nemendum framhaldsskóla. Í 33. gr. laga um framhaldsskóla er kveðið á um að í skólanámskrá hvers skóla skulu vera reglur þar sem gerð er grein fyrir réttindum og skyldum nemenda. Skólareglur skulu m.a. geyma ákvæði um skólasókn, viðurlög vegna brota á skólareglum, reglur um meðferð ágreiningsmála og um beitingu viðurlaga. Ber nemendum að hlíta þeim reglum. Þá skulu m.a. settar almennar reglur um réttindi og skyldur nemenda í aðalnámskrá framhaldsskóla, sbr. 21. gr. laganna. Þá eru ákvæði um skólasókn í grein 7.2. í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla frá 2004. Þar er kveðið á um að nemendur skulu sækja allar kennslustundir og koma stundvíslega til kennslu. Hvílir þannig sú skylda á nemendum framhaldsskóla að sækja stundvíslega allar kennslustundir nema lögmæt forföll hamli.

 

V.

Það er mat ráðuneytisins að gögn máls þessa beri með sér að skólastjórnendur X hafi leitast við að gefa kæranda tækifæri til að stunda nám við skólann og áminnt hann, að gefnu tilefni, um að fara að skólareglum í hvívetna. Þann 11. mars sl. fékk kærandi áminningu um að bæta skólasókn sína, en ekki verður séð að foreldrum hafi verið sent afrit af því bréfi. Var kæranda svo í lok vorannar vikið ótímabundið úr skólanum. Í framkomnu vottorði sálfræðings koma ekki fram upplýsingar um hvort og hve þétta meðferð kærandi hafi sótt vegna veikinda sinna. Í fyrra skiptið hafi kærandi verið illa haldinn af þunglyndi, kvíða og depurð, eins og segir í athugasemdum foreldra, en mánuði seinna hafi sálfræðingurinn sagt að „þetta væri allt annar drengur.“ Að mati ráðuneytisins gefa framangreindar upplýsingar takmarkaða vitneskju um ástand kæranda á vorönn 2010 og framvindu veikindanna. Við mat á því hvort meðalhófs hafi verið gætt við töku hinnar kærðu ákvörðunar verður þó, að áliti ráðuneytisins, ekki horft framhjá því að fyrir liggur framangreint vottorð sálfræðings sem skólanum var rétt að taka mið af við ákvörðunartöku um brottvísunina. Verður ekki séð að það hafi verið gert áður en ákvörðun var tekin. Þá verður í máli þessu að leggja til grundvallar að kærandi, sem var ólögráða á þeim tíma sem hér um ræðir, átti rétt á skólavist samkvæmt 32. gr. laga um framhaldsskóla, að því gefnu að ekki væri um brot á skólareglum að ræða. Ekki er unnt að fullyrða að skólasóknarvandi kæranda á vorönn 2010 hafi verið brot á skólareglum í ljósi framkomins vottorðs sálfræðingsins.

 

Með hliðsjón af framangreindu er það mat ráðuneytisins að ekki hafi verið alveg fullreynt af hálfu X hvort kærandi myndi nýta sér af fullri alvöru annað tækifæri til að stunda nám við skólann og standa um leið undir þeirri ábyrgð og þeim skyldum sem því fylgir að stunda nám við framhaldsskóla samkvæmt framangreindum lögum og reglum, eftir atvikum með aðstoð námsráðgjafa og nauðsynlegri eftirfylgni þar sem kærandi hafði fram að því ekki sýnt viðleitni til að nýta sér þá þjónustu. Verður því að telja að vægari úrræði hafi ekki verið fullreynd og meðalhófs því ekki nægilega gætt áður en tekin var ákvörðun um ótímabundinn brottrekstur kæranda úr X.

 

Þá telur ráðuneytið að eins og hin kærða ákvörðun var orðuð hafi skort á rökstuðning og skýrleika um efni hennar. Byggir sú niðurstaða á því að í framangreindu bréfi var einungis vísað til þess að í ljósi námsárangurs og skólasóknar kæranda sé það mat skólans að réttast sé að hann hvíli sig frá námi við X, án þess að skýrt væri kveðið á um að tekin hefði verið ákvörðun um ótímabundinn brottrekstur kæranda og gætt ákvæða stjórnsýslulaga í því sambandi eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. 33. gr. laga um framhaldsskóla. Það er grundvallarregla í stjórnsýslurétti að stjórnvaldsákvörðun verður efnislega að vera bæði ákveðin og skýr svo að sá sem ákvörðunin beinist að geti skilið hana og metið réttarstöðu sína. Með vísan til framangreinds verður að mati ráðuneytisins að telja að hin kærða ákvörðun í máli þessu hafi ekki fullnægt framangreindri grundvallarreglu um skýrleika stjórnvaldsákvörðunar.

 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða ráðuneytisins í máli þessu að við undirbúning og töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi X ekki gætt nægilega að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga og ekki sýnt fram á að hin kærða ákvörðun hafi samrýmst 1. mgr. 32. gr. laga nr. 92/2008.  Skólinn hafi ekki virt andmælareglu 13. gr. sömu laga. Þá telur ráðuneytið jafnframt að hin kærða ákvörðun hafi ekki skv. orðalagi sínu fullnægt grunnreglu stjórnsýsluréttar um skýrleika stjórnvaldsákvörðunar. Er það mat ráðuneytisins að umræddir annmarkar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar leiði til þess að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun aðstoðarskólameistara X um ótímabundna brottvísun kæranda úr X, sem tilkynnt var með ódagsettu bréfi í maímánuði 2010, er felld úr gildi.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta