Synjun skólameistara á námslokum nemanda
Ár 2013, fimmtudaginn 17. október, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur
ÚRSKURÐUR
Kæruefni og málsmeðferð
Þann 17. maí sl. barst mennta- og menningarmálaráðuneyti með rafbréfi kvörtun A, nemanda við X, og B f.h. barns síns (málshefjendur). Kvartað er yfir niðurstöðu skólameistara X vegna máls A, sem hafi áætlað að útskrifast með stúdentspróf af viðskipta- og hagfræðibraut skólans í lok síðastliðinnar vorannar. Skólameistari hafi hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að hann uppfyllti ekki nauðsynleg skilyrði til að unnt væri að útskrifa hann á umræddum tíma og hafi því synjað beiðni hans um námslok.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið lítur svo á að framangreind kvörtun feli í sér stjórnsýslukæru vegna stjórnvaldsákvörðunar skólameistara X í máli A og telur því rétt að kveða upp úrskurð í máli þessu.
Með bréfi ráðuneytisins, dags. 4. júní sl., var kvörtunin send skólameistara X til umsagnar. Jafnframt var óskað eftir afstöðu skólameistara til þýðingar þess að námsráðgjafi skólans hafi ekki veitt A réttar upplýsingar hvað varðar stærðfræðiáfanga við skólann, eins og nánar verður rakið í málavaxtalýsingu hér á eftir. Auk þess var óskað nánari upplýsinga um málsatvik og gögn sem málið kynnu að varða.
Umsögn skólameistara barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 13. júní sl., og var send málshefjendum til athugasemda með bréfi ráðuneytisins, dags. 18. sama mánaðar. Athugasemdir hans bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 25. júní sl.
Málsatvik og málsástæður
I.
Í kvörtun málshefjenda kemur fram að A hafi talað við námsráðgjafa X í upphafi vorannar 2013 í þeim tilgangi að fá staðfest hvaða áföngum hann ætti eftir að ljúka til að geta útskrifast með stúdentspróf af viðskipta- og hagfræðibraut X síðastliðna vorönn. Hafi námsráðgjafinn tjáð honum að hann ætti eftir að taka sjö áfanga, sem A hafi svo lokið í þremur skólum í fjarnámi. Einn áfanga utan þessara sjö, stærðfræði 303, hafi A tekið fjórum sinnum og var honum ólokið þegar hann átti samtalið við námsráðgjafann. Fram kemur í kvörtuninni að námsráðgjafinn hafi tjáð A að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þeim áfanga. Með kvörtuninni fylgdu tölvupóstssamskipti þeirra á milli, þar sem A fór þess á leit að námsráðgjafinn kannaði hvaða áfanga hann ætti eftir að taka til að geta útskrifast. Í samskiptum þeirra kemur fram að A grennslaðist sérstaklega fyrir um stærðfræðina og vísaði til þess að hann hafi náð lokaprófinu, en hins vegar ekki náð lágmarksvinnueinkunn í áfanganum. Þegar málið er skoðað í heild verður að mati ráðuneytisins ekki litið öðruvísi á en svo að þar hafi A verið að grennslast fyrir um stærðfræðiáfangann 303. Svar námsráðgjafans þar að lútandi var svohljóðandi: „þú þarft ekki að hafa áhyggjur af þessari stærðfræði.“ Þá tiltók námsráðgjafinn þá áfanga sem hann ætti eftir og má sjá að umræddur stærðfræðiáfangi er ekki á þeim lista. Í fyrrnefndri kvörtun var vísað til veikinda A á vorönn 2012 og læknisvottorðs því til staðfestingar. Í kvörtuninni kom fram að málshefjendur telji unnt að breyta kennslumatinu í stærðfræði 303 þannig að vægi lokaprófs færi úr 60% í 75% á móti 25% vinnueinkunn í áfanganum í ljósi líðan A á umræddri önn og með vísan til hinna röngu upplýsinga sem hann fékk af hálfu námsráðgjafa skólans hvað varðaði framangreindan stærðfræðiáfanga. Þá telji þau ekki sanngjarnt að A þurfi að taka áfangann í sumarskóla og greiða fyrir hann þar þegar honum hafi verið tjáð að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af umræddum áfanga.
II.
Í umsögn skólameistara X er m.a. lýst starfsreglum skólans hvað varðar útskrift. Kom fram að á hverri önn væri auglýst eftir þeim nemendum sem hygðust útskrifast á næstu önn. Áfangastjóri fari þá yfir feril nemenda og ráðleggi þeim um val fyrir síðustu önn. Þá séu nemendur jafnan í sérstökum áfanga á síðustu önn sem heitir LOK101 og er þá jafnframt auglýst eftir nemendum sem stefna að útskrift. Þeim sé tjáð að nauðsynlegt sé að koma í viðtal til aðstoðarskólameistara til að fá námsferilinn samþykktan A hafi hvorki verið skráður í þann áfanga né komið í slíkt viðtal. Það hafi ekki verið fyrr en um miðjan maí sl. sem skólastjórnendum hafi borist til eyrna frá náms- og starfsráðgjafa skólans að A stefndi að útskrift í lok síðustu vorannar. Aðstoðarskólameistari hafi farið yfir ferilinn og strax séð að það vantaði STÆ303 auk þess sem vafasamt hafi verið að hann gæti látið fjarka standa í ÍSL503 þar sem hann hafi verið með einn áfanga til viðbótar í íslensku (ÍSL633). Ákveðið hafi verið að kalla eftir afstöðu kennslustjóra í stærðfræði til þess hvort möguleiki væri á að breyta einkunn A í stærðfræði í ljósi veikinda hans. Svar við því hafi verið neikvætt og því hafi náms- og starfsráðgjafi tilkynnt honum að ekki gæti orðið af útskrift. Honum hafi verið bent á að hann gæti lokið áfanganum í sumarskóla og skólinn gæfi þá út vottorð um að hann hafi uppfyllt öll skilyrði til að ljúka stúdentsprófi.
Meðal gagna máls þessa er rafbréf, dags. 15. maí sl., sem A sendi til skólameistara X. Þar óskaði hann eftir því að niðurstaða skólameistara, þess efnis að synja beiðni hans um útskrift í lok síðastliðinnar vorannar, yrði endurskoðuð með tilliti til stærðfræðiáfangans 303 þar sem hann hlaut einkunnina 4 á vorönn 2012. Í rafbréfinu vísaði A til þess að hann hafi náð lokaprófi í áfanganum og teldi að endurskoða mætti vinnueinkunn hans fyrir áfangann í ljósi veikinda hans skólaárið 2011-2012. Vísaði hann til læknisvottorðs heimilislæknis síns þar um, sem er meðal gagna máls þessa. Í svarbréfi skólameistara, dags. 16. maí sl., var vísað til fundar hans með A og foreldrum hans. Fram hafi komið á þeim fundi að ekki væri á færi skólameistara að breyta einkunnum. Í svarbréfi hans kom fram að ekki væri hægt að útskrifa A með einkunnina 4 í stærðfræði 303 þar sem annars vegar samræmdist það ekki aðalnámskrá að hafa einkunnina 4 í áfanga sem ekki er lokaáfangi eða stakur áfangi og hins vegar vantaði hann þrjár einingar upp á þær 140 einingar sem þyrfti til að ljúka námi á viðskipta- og hagfræðibraut. Í umsögn skólameistara til ráðuneytisins kom hins vegar fram að tvær einingar hafi vantað til að ná tilskildum 140 einingafjölda, og mun það vera rétt. Þá hafi erindi A verið vísað í tvígang til stærðfræðideildar skólans. Þar hafi komið fram sú afstaða deildarinnar að ekki væru forsendur fyrir því að breyta þegar útgefinni einkunn nemandans í stærðfræði 303 á vorönn 2012. Lokaprófið hafi gilt 60% á móti 40% vinnueinkunn. Í svari deildarinnar var vísað til þess að A hafi náð lokaprófinu með einkunnina 5,6 en ekki náð tilskildum árangri í áfanganum í heild þar sem hann hafi aðeins tekið eitt tímapróf af fjórum og þá hlotið einkunnina 3,5. Kennarar stærðfræðideildar leggi sig fram um að gæta jafnræðis og telji mikilvægt að strax í upphafi annar fái nemendur að vita hvaða aðferðir muni verða notaðar við mat á námsárangri. Það hafi legið ljóst fyrir frá upphafi áfangans að vinnueinkunn gilti 40%.
Í umsögn skólameistara er jafnframt vikið að samskiptum A við náms- og starfsráðgjafa skólans. Óumdeilt sé að í póstinum tjái ráðgjafinn A að hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af stærðfræðinni, en hvað hann eigi við með því og hvað farið hafi þeirra á milli á fundi þeirra sé óvissu háð. Þetta hafi verið á miklum annatíma og muni námsráðgjafinn ekki eftir fundinum né heldur því hvað hann átti við með því að segja að A þyrfti ekki að hafa áhyggjur af stærðfræðinni. Hins vegar bendi náms- og starfsráðgjafar alltaf nemendum á að það sé aðstoðarskólameistari sem hafi lokaorð um það hvort námsferill sé í lagi eða ekki og hafi A átt að vera fullkunnugt um að honum hafi borið að leita til aðstoðarskólameistara hygðist hann ljúka námi á síðastliðinni vorönn. Það sé mat skólans að jafnvel þó mistök verði innanhúss geti það ekki réttlætt að vikið sé frá reglum um námslok gagnvart þeim sem taki við skírteinum frá skólanum og öðrum nemendum að nemandi sé útskrifaður án tilskilinna áfanga og eininga. Skólinn harmi að A telji sig hafa fengið rangar leiðbeiningar en telji jafnframt að hann hefði átt að tilkynna skólanum fyrr að hann hygðist útskrifast og láta aðstoðarskólameistara fara yfir feril sinn. Kostnað vegna sumarskóla í STÆ303 hafi skólinn boðist til að borga og vilji með því gera sitt til að koma til móts við A í máli þessu.
III.
Í athugasemdum málshefjenda við umsögn skólameistara eru gerðar athugasemdir við ummæli skólameistara, þess efnis að A hafi verið lengi í skólanum og námsferill hans brokkgengur. Bent er á að hann hafi verið greindur lesblindur auk þess sem veikindi hafi sett mark sitt á skólagöngu hans. Hljóti þessi ummæli skólameistara að teljast með öllu ómálefnaleg því mál þetta snúist ekki um það hvernig A hafi almennt gengið í námi eða tímalengd námsins heldur um þá staðreynd að röng upplýsingagjöf af hálfu starfsmanns skólans hafi orðið til þess að honum hafi verið meinað að útskrifast síðastliðið vor. Þá séu engar heimildir að finna í aðalnámskrá, útgefinni árið 2011, sem gefi skólanum heimild til að neita nemendum um frekari skólavist ef þeir falla í þriðja sinn í sama áfanga. Samkvæmt aðalnámskrá skuli framhaldsskólar setja sér námskrá sem ráðuneytið staðfestir en A sé ekki kunnugt um að slík námskrá hafi verið sett af hálfu skólans. Það sé lágmarkskrafa að skólameistari upplýsi hvort og hvaða reglur gildi af hálfu skólans í þessum efnum. Þá sé það rangt hjá skólameistara að A hafi aðeins lokið 33 einingum á fimm önnum, heldur hafi hann einnig lokið 15 einingum utan skóla á því tímabili, samtals 48 einingum. Rétt sé að hann hafi kosið að koma ekki í viðtal hjá aðstoðarskólameistara þar sem hann taldi víst að reynt yrði að þvinga hann til að klára námið á tveimur önnum í stað einnar, en það geti ekki orðið grundvöllur fyrir því að meina nemanda að útskrifast. Skólinn hafi engan reka gert að því að ræða við A í kjölfarið þrátt fyrir að námsráðgjafa væri kunnugt um að hann hygðist útskrifast. Fullyrðing skólameistara um að engum innan skólans hafi verið kunngt um að hann ætlaði sér að útskrifast fái því ekki staðist. Þá sé ekki rétt, sem fram komi í umsögn skólameistara, að námsráðgjafinn hafi fundað með A á annatíma, heldur hafi öll samskipti þeirra farið fram í gegnum tölvupósta. Aðalatriði þessa máls sé að í ljósi tölvupósts námsráðgjafans í janúar sl. þar sem fram komi að hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af stærðfræðinni, þá hafi A verið í góðri trú um að hann fengi að útskrifast enda hafi hann uppfyllt öll önnur námsskilyrði. Loks er vísað til þess að þá önn sem veikindi A stóðu sem hæst hafi hann aðeins lokið 6 einingum af 19, sem staðfest sé í innsendu læknisvottorði.
Rökstuðningur niðurstöðu
I.
Að mati ráðuneytisins lýtur ágreiningur málsaðila annars vegar að því hvort náms- og starfsráðgjafi við X hafi veitt A rangar upplýsingar sem lutu að fyrirhuguðum námslokum hans við skólann. Hins vegar lýtur ágreiningur í máli þessu að því, verði fallist á að rangar upplýsingar hafi verið veittar, hvort það geti leitt til þess að útskrifa beri A með stúdentspróf af viðskipta- og hagfræðibraut skólans. Ágreiningsefnið lýtur þá að því hvort heimila megi útskrift án þess að tilskildum námsárangri og einingafjölda hafi verið náð, á þeim forsendum að A hafi verið í góðri trú um að af útskrift gæti orðið í lok síðastliðinnar vorannar, 2013, sem og veikindum hans, sbr. læknisvottorð sem fyrir liggur í máli þessu. Í gögnum máls þessa kemur fram að skólameistari staðfesti í rafbréfi til A hina kærðu ákvörðun, sem hafði áður verið tilkynnt honum og foreldrum hans á fundi, sem vísað er til í rafbréfinu. Gera verður athugasemdir við að hin kærða stjórnvaldsákvörðun hafi ekki verið tilkynnt A með formlegu bréfi, ásamt rökstuðningi og upplýsingum um kæruleið til ráðuneytisins. Að mati ráðuneytisins er það þó ekki nægjanlegt tilefni til að vísa málinu til nýrrar meðferðar innan skólans þar sem ákvörðun skólans, studd rökum, kemur skýrt fram í rafbréfinu og málshefjendum var kunnugt um kæruleið til ráðuneytisins, eins og fram kemur í tölvupóstssamskiptum málsaðila.
Í 4. kafla laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, er fjallað um skipulag náms og námslok. Samkvæmt 15. gr. laganna skal öll vinna nemanda metin í stöðluðum námseiningum og skal að baki hverri einingu liggja því sem næst jafnt vinnuframlag nemanda. Eitt námsár, sem mælir alla ársvinnu nemanda með fullnaðarárangri, veitir 60 einingar. Er þá miðað við að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda sé að lágmarki 175 dagar. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. setur ráðherra í aðalnámskrá nánari reglur um mat á námi til eininga og vinnu nemenda í framhaldsskólum. Í 18. gr. laganna er mælt fyrir um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að útskrifast með stúdentspróf frá framhaldsskóla. Eins og fram kemur í 2. mgr. 18. gr. miðar stúdentspróf m.a. að því markmiði að undirbúa nemendur undir nám á háskólastigi. Við mat á námsbrautarlýsingu til stúdentsprófs og staðfestingu ráðherra á henni skal það vera tryggt að prófið uppfylli almennar kröfur háskóla um undirbúning fyrir nám á háskólastigi. Um aðalnámskrá, sem kveður á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs á framhaldsskólastigi, er nánar fjallað í 21. gr. laganna. Samkvæmt 22. gr. laganna skal sérhver framhaldsskóli gefa út skólanámskrá sem skiptist í tvo hluta, almennan og námsbrautarlýsingar. Í 23. gr. laganna er fjallað nánar um námsbrautarlýsingar. Í þessu sambandi skal vakin athygli á ákvæði I. til bráðabirgða í núgildandi lögum um framhaldsskóla, en þar kemur fram að framhaldsskólar hafa frest til að setja sér námsbrautarlýsingar samkvæmt 23. gr. laganna til 1. ágúst 2015. Á þeim innleiðingartíma gilda því þær námskrár framhaldsskóla sem settar voru í tíð eldri laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996 og ákvæði aðalnámskrár framhaldsskóla frá 2004. Þar er kveðið á um 140 eininga lágmarksfjölda til að geta útskrifast með stúdentspróf af bóknámsbraut. Einnig er þar mælt fyrir um að lágmarkseinkunnina 5 þurfi til að standast próf í áfanga og fá leyfi til að hefja nám í næsta áfanga. Þó sé nemanda heimilt að útskrifast með einkunnina 4 ef um lokaáfanga eða stakan áfanga er að ræða, en þeir áfangar gefa þó ekki einingar.
Í 30. gr. laganna er fjallað um námsmat. Eins og þar kemur fram er almennt námsmat í höndum kennara undir umsjón skólameistara. Matið byggist á markmiðum skólastarfs sem kveðið er á um í aðalnámskrá og skólanámskrá. Í 2. mgr. 30. gr. er mælt fyrir um það að þeir nemendur sem hyggjast ljúka stúdentsprófi skulu hafa lokið öllum námsáföngum samkvæmt námskrá með fullnægjandi árangri samkvæmt mati viðkomandi skóla.
II.
Að mati ráðuneytisins verður, með hliðsjón af því sem fram kemur í tölvupóstssamskiptum A við náms- og starfsráðgjafa X, ekki um það deilt að þar voru A veittar rangar upplýsingar hvað varðar þá áfanga sem hann þyrfti að ljúka með fullnægjandi hætti til að geta útskrifast með stúdentspróf af viðskipta- og hagfræðideild skólans. Verður því litið svo á að þær upplýsingar sem A voru veittar í umrætt sinn og vörðuðu mikilvæga hagsmuni hans, hafi þannig ekki verið veittar á nægilega ábyrgan og vel ígrundaðan hátt, eins og gera verður kröfu um við slíkar aðstæður. Þá kemur fram í umsögn skólameistara að sýnd hafi verið viðleitni til að koma til móts við A við þessar aðstæður með því að skólinn greiddi fyrir hann kostnað af umræddum áfanga í sumarskóla. Einnig kemur þar fram að náms- og starfsráðgjafar bendi nemendum alltaf á að það er aðstoðarskólameistari sem hefur lokaorð um það hvort námsferill er í lagi eða ekki, og er þeirri fullyrðingu ekki mótmælt í athugasemdum við umsögnina. Fellst ráðuneytið á þá athugasemd að það að mæta ekki í slíkt viðtal geti ekki orðið grundvöllur fyrir því að meina nemanda að útskrifast, en telur þó að það hefði verið ábyrgt að mæta í viðtalið í ljósi fyrirhugaðra námsloka. Þrátt fyrir að A hafi hvorki verið skráð í áfangann LOK101 né heldur mætt í viðtal hjá aðstoðarskólameistara í tilefni af fyrirhuguðum námslokum sínum er ekki unnt í ljósi atvika máls þessa að draga í efa að hann hafi, að fengnum fyrrgreindum upplýsingum náms- og starfsráðgjafa skólans, talið sig réttilega mega treysta því að þær mikilvægu upplýsingar væru réttar og veittar á ábyrgan hátt og hann teljist því hafa verið í góðri trú um að geta útskrifast í lok síðastliðinnar vorannar. Þá tekur ráðuneytið undir það með B að ummæli skólameistara, um brokkgengan námsferil A og lengd hans, teljist ekki málefnaleg í þessu samhengi þar sem þau varða ekki með beinum hætti þann ágreining sem uppi er í máli þessu. Hins vegar er í lögum um framhaldsskóla og aðalnámskrá framhaldsskóla mælt fyrir um þann lágmarksárangur sem nemandi þarf að standast til að geta útskrifast með stúdentspróf úr framhaldsskóla og taka þær kröfur bæði til lágmarkseinkunnar í áfanga sem og einingafjölda. Ráðuneytinu er af þeim sökum ekki unnt að víkja frá þeim skilyrðum sem þar eru sett svo útskrifa megi nemanda með stúdentspróf frá framhaldsskóla, þrátt fyrir þá röngu upplýsingagjöf sem átti sér stað í máli þessu. Með sömu rökum telur ráðuneytið ekki unnt að hrófla við þeirri niðurstöðu kennslustjóra stærðfræðideildar skólans að hafna beiðni A um breytt vægi námsmats eftir að kennslu og einkunnagjöf í umræddum áfanga var lokið. Ráðuneytið telur þó, með vísan til fyrirliggjandi læknisvottorðs um veikindi A, að skólameistara X beri að leita leiða til að auðvelda honum fyrirhuguð námslok í samræmi við ákvæði 34. gr. laga um framhaldsskóla og reglugerðar um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum, nr. 230/2012.
Með hliðsjón af öllu framangreindu verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.
Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í málinu og er beðist velvirðingar á því.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun X, dags. 16. maí 2013, þess efnis að synja A um að útskrifast með stúdentspróf af viðskipta- og hagfræðibraut skólans í maí 2013, er staðfest.