Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Brottvikning úr skóla

Ár 2007, miðvikudaginn 4. júlí, var kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR:

Kæruefnið

Menntamálaráðuneytinu barst hinn 5. mars sl. stjórnsýslukæra A (hér eftir nefnd kærandi), dags. 2. sama mánaðar, vegna þeirrar ákvörðunar skólameistara skóla X (hér eftir nefndur kærði), dags. 4. desember 2006, að víkja dóttur kæranda, B úr skólanum. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir

Í upphafi skal tekið fram að ágreiningur er með málsaðilum um suma málavexti og ber að skoða málavaxtalýsingu þessa í því ljósi.

Af gögnum málsins má ráða að um klukkan 19:00, fimmtudaginn 30. nóvember sl., sem var síðasti kennsludagur fyrir jólapróf, hafi C, kennari við skóla X, farið inn í ljósritunarherbergi skólans. Ljósritun og vinnsla kennslu- og prófagagna í skólanum fer fram í tveimur samliggjandi herbergjum, sem að sögn kærða eru ávallt læst. Í tölvupósti C til skólameistara og aðstoðarskólameistara, sem er að finna í gögnum málsins og sendur var þennan dag kl. 20:19, segir hún svo frá að u.þ.b. kl. 19:00 hafi hún farið inn í ljósritunarherbergi til að ljósrita sögupróf fyrir mánudag. Síðan segir m.a.:

„.....Ég opna með lyklinum því þar var læst og kveiki ljósið. Fer að ljósrita í gömlu vélinni sem er fyrir kennarana. Eftir um 5 mínútur þarf ég skæri og fer inní innra herbergið til að leita þeirra. Þar var myrkur. Fyrir tilviljun verður mér litið til hægri, í hornið bak við ljósritunarvélina og sé glitta í bak á stúlku.

Spyr hví hún sé þarna í felum. Hún bullar bara í taugaveiklun og segir “við vorum bara að fíflast í loftinu“

Í stuttu máli fór ég með hana til D þar sem hvorugur ykkar var við og málið grafalvarlegt.

Þarna voru próf sem bíða ljósritunar. ........“

Stúlkan sem um ræðir var B, dóttir kæranda. Af gögnum málsins má ráða af B hafi með aðstoð tveggja drengja losað loftplötur í herbergi sem tilheyrir nemendaaðstöðu skólans, farið í gegnum gat sem við það myndaðist og eftir fölsku lofti. Hún hafi síðan losað loftplötur í ljósritunarherberginu þar sem hún fannst og með því komist inn í herbergið. Herbergin voru samliggjandi.

Ágreiningslaust er með aðilum að umrætt kvöld hafi D, prófstjóri (en hann er einnig nefndur áfangastjóri í gögnum málsins), rætt við B vegna málsins. Um það samtal segir kærandi að D hafi gert henni grein fyrir að þarna væru ljósrituð próf og að samtali þeirra hafi lokið á þann veg að hún ætti aldrei að gera neitt þessu líkt aftur. Um þetta samtal segir kærði svo frá að B hafi enga skýringu getað gefið á hátterni sínu.

Daginn eftir, föstudaginn 1. desember sl., mætti B síðan til viðtals hjá skólameistara og aðstoðarskólameistara. Um aðdraganda þess segir kærði að um morguninn umræddan dag „... reyndum við að ná sambandi við B án árangurs. Hún mætti ekki í próf sem hún átti að mæta í þá um morguninn. Við gátum komið skilaboðum til hennar í gegnum vini hennar og kom hún á skrifstofuna mína um kl. 14:00 föstudaginn 1. desember. Ég og E aðstoðarskólameistari ræddum við B um þennan atburð og tjáði hún okkur að hún vildi að ráðleggingum föður síns segja okkur allt að létta. Hún sagði að þetta hefði verið gert í algjörri vitleysu. Hún og vinir hennar hefðu verið að fíflast. Ég sagði henni að við mundum taka ákvörðun um viðurlög á mánudag og að hún mætti búast við hinu versta vegna alvöru málsins. Þar sem hún kom til mín að áeggjan föður síns var ljóst að foreldrar hennar voru upplýstir um málið. ...“

Um framangreint viðtal segir kærandi að B hafi verið kölluð til skólmeistara sem hafi rætt við hana. Hún hafi látið hann vita að henni þætti þetta mjög miður en að um fíflagang hafi verið að ræða og enginn ásetningur hafi verið til að kíkja á próf auk þess sem hún hefði ekki séð nein próf. Segir kærandi að skólameistari hafi í samtalinu sagst trúa því að um fíflagang hafi verið að ræða og að aldrei hafi komið fram í samtalinu að skólameistari væri að íhuga skriflega áminningu, brottrekstur úr skóla eða einhverja aðra refsingu. Þá hefur kærandi það eftir B í síðari athugasemdum sínum til ráðuneytisins vegna umsagnar kærða um stjórnsýslukæruna, að skólameistari hafi hvatt hana til að halda áfram að undirbúa sig undir prófin. Þá segir kærandi það rangt hjá kærða að B hafi komið til hans að áeggjan föður hennar og það sé ekki í samræmi við eigin frásögn kærða af atburðarásinni, en fram komi að hann hafi sjálfur kallað B til viðtals. Hinu skuli ekki leynt að B hafi sagt foreldrum sínum frá atburðum en miðað við frásögn hennar af viðtölum hafi engin ástæða verið til að hafa frumkvæði að samskiptum við skólastjórnendur enda hafi aldrei komið fram í samtölum við hana að um einhverja refsingu yrði að ræða, hvað þá brottvísun, fyrr en að bréf um hana hafi borist hinn 4. desember sl. Frásögn kærða og B beri því ekki saman.

Kærði greinir svo frá að eftir að hafa íhugað málið helgina 2. – 3. desember sl. og rætt það á fundi stjórnenda og námsráðgjafa, mánudagsmorguninn 4. desember sl, hafi ekki verið talið verjandi að leyfa B að taka prófin í desember. Hin kærða ákvörðun var síðan tilkynnt með bréfi til foreldra B, dagsett sama dag. Ákvörðunin var svohljóðandi:

„Því miður er óhjákvæmilegt að vísa B úr skóla. Fimmtudaginn 30. nóvember varð B uppvís að innbroti í ljósritunarherbergi þar sem prófgögn eru varðveitt.

Virðingarfyllst,

F,

skólameistari.“

Fram kemur í gögnum málsins að eftir að ákvörðunin barst foreldrunum hefði faðir B haft samband við kærða og m.a. bent á að brotið hefði verið á andmælarétti við ákvörðunina og óskað eftir að hún yrði dregin til baka. Kærði varð ekki við þeirri málaleitan, en tekur fram að hann hafi gert allt sem í hans valdi hafi staðið til að milda hina kærðu ákvörðun.

Menntamálaráðuneytinu barst svo sem fyrr greinir stjórnsýslukæra í málinu hinn 5. mars sl. Með bréfi ráðuneytisins sama dag var stjórnsýslukæran send kærða til umsagnar. Sérstaklega var óskað eftir að gerð yrði grein fyrir ástæðum og aðdraganda brottvikningarinnar og þeirri formlegu málsmeðferð sem sú ákvörðun hafi verið byggð á. Umsögn kærða barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 21. mars sl. Með bréfi, dags. 22. mars sl. sendi ráðuneytið kæranda umsögn kærða. Athugasemdir kæranda vegna hennar bárust ráðuneytinu hinn 11. apríl sl.

Málsástæður.

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður hér einungis fjallað um málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

Málsástæður kæranda.

Eins og áður hefur komið fram krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kærandi heldur því fram að málsmeðferð kærða hafi verið í andstöðu við stjórnsýslulög nr. 37/1993 og vekur athygli á því að B hafi orðið 17 ára hinn xx. xx 2006 og því ekki lögráða þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Þá heldur kærandi því fram að aldrei hafi verið haft samband við hana né föður kæranda sem forráðamenn B og þeim gerð grein fyrir hvað hafi gerst eða hvað stæði til. Það sé því augljóst að andmælaréttur 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, hafi verið brotinn. Kærandi heldur því fram að brot kærða sé í raun enn alvarlegra í ljósi þess að kærði hafi tekið sér umhugsunarfrest án þess að láta sér detta það í hug að hafa samband við foreldra og gera þeim grein fyrir stöðu málsins.

Þá heldur kærandi því jafnframt fram að með svo íþyngjandi viðurlögum hafi verið brotið gegn meðalhófsreglunni svo og reglunni um réttmætar væntingar, en ekki sé hægt að líta framhjá því að málið hafi í raun verið afgreitt á fundi með áfangastjóra og ekki síður á fundi með kærða án þess að brottvikning væri nefnd á nafn. Auk þessa heldur kærandi því fram að í tveimur símtölum föður B við kærða hafi komið fram að kærði tryði því, að ekki hafi verið um ásetning að ræða hjá B að taka eða skoða próf.

Þá telur kærandi að ákvörðunin hafi verið efnislega röng og að kærði hafi ekki haft heimild til að taka jafn íþyngjandi ákvörðun og raun ber vitni. Ekki verði séð að lagagrundvöllur sé fyrir ákvörðuninni. Auk þess beri að vekja athygli á því að sá sem ákvörðunina tók hafi talið að enginn ásetningur hafi verið fyrir hendi og taki það af öll tvímæli um að enginn grundvöllur hafi verið til viðurlaga í þessu máli.

Kærandi áskilur sér rétt til skaðabóta auk þess sem krafist er að kannað verði hvort tilefni sé til áminningar vegna vinnubragða skólameistara, en ákvörðun hans hafi haft meiri áhrif á líf ungrar stúlku en menn geri sér grein fyrir í fyrstu.

Kærandi mótmælir alfarið þeirri málsástæðu kærða sem nánar er gerð grein fyrir hér á eftir, að B hafi með athæfi sínu brotið gegn almennum hegningarlögum, enda hafi ekki verið til staðar ásetningur til refsiverðs verknaðar, hvorki til svindls á prófi né annars. Það byggi á því að í fyrsta lagi hafi B ekki vitað að próf væru geymd í umræddri skólastofu og hafi þar af leiðandi ekki haft ásetning til að svindla á prófi. Í öðru lagi heldur kærandi því fram að kærði hafi sjálfur sagt B og síðar föður hennar í samtali, að það væri hans mat að um fíflagang hafi verið að ræða og ekki ásetningur til svindls. Staðhæfingar um að ákvörðun hafi byggst á broti á almennum hegningarlögum eigi því ekki við rök að styðjast, en hefði svo verið hefði verið enn ríkari ástæða til að upplýsa foreldra um það svo að hægt hefði verið að leiðrétta þann misskilning. Þá er því mótmælt að skólastjórnendur telji sig geta dæmt um það hvort um brot á hegningarlögum hafi verið að ræða eða ekki, ekki síst í ljósi þess að ekki hafi verið gætt grundvallar mannréttinda um að gefa nemanda kost á að verja sig.

Þá bendir kærandi á að við það verði ekki unað að kærði geti afgreitt grunnskyldur sínar með því að halda því fram að afstaða foreldra hafi verið ljós allan tímann og því hafi ekki þurft að leita eftir andmælum. Kærandi telur að í þessum orðum kærða felist bein viðurkenning á því að andmælaréttur hafi vísvitandi verið sniðgenginn. Hvernig kærði hafi talið sig vita fyrirfram um afstöðu foreldranna sem höfðu aldrei talað við hann fyrir þetta atvik sé kæranda hrein ráðgáta.

Málsástæður kærða.

Í umsögn kærða til ráðuneytisins, dags. 13. mars sl., vegna stjórnsýslukærunnar segir:

„B var vikið úr skóla X þann 4. desember 2006. Ástæða brottvikningarinnar var að fimmtudaginn 30. nóvember 2006 braust B inn í ljósritunarherbergi þar sem prófgögn voru varðveitt. “

Segir kærði að umrætt herbergi hafi verið læst og nemendur ekki haft aðgang að því. Kærði lýsir því hvernig B hafi brotist inn í herbergið og tekur m.a. fram að nokkrar skemmdir hafi verið á loftinu, svo sem beygluð festingajárn. B hafið verið í felum á bak við ljósritunarvél þegar C kennari hafi fundið hana. Kærði bendir á að í umræddu herbergi hafi verið geymd 33 próf sem leggja átti fyrir daginn eftir og í næstu prófaviku. Ekki hafi verið vitað hve lengi B hafi verið búin að vera inni í herberginu þegar komið hafi verið að henni.

Kærði heldur því fram að enginn vafi leiki á broti B þar sem hún hefði verið staðin að verki. Þá heldur kærði því fram að alvarleiki brotsins sé augljós þar sem prófgögn hafi verið varðveitt í herberginu sem hún braust inn í. Kærði bendir á að það verði ekki fram hjá því litið að innbrotið hefði haft í för með sér töluverðan kostnað því kennarar hefðu þurft að endursemja próf. Brotið hafi því verið mjög alvarlegt og að sjálfsögðu hafi komið til greina að kæra það til lögreglu þar sem innbrot væru brot á hegningarlögum.

Tekur kærði fram að hann hafi gert allt sem í hans valdi hafi staðið til að milda hina kærðu ákvörðun. Þannig hafi hann rætt við kennara B og beðið þá að meta námsárangur hennar yfir önnina til einkunnar. Jafnframt hafi hann boðið henni að stunda fjarnám á vorönn 2007 án aukakostnaðar og að hún fengi leyfi til að hefja aftur nám í dagskóla á haustönn 2007.

Vegna þeirrar skoðunar föður B að andmælaréttur foreldra vegna fyrirhugaðrar brottvikningar hafi ekki verið virtur bendir kærði á að í ljósi kringumstæðna hafi verið nauðsynlegt að vísa B úr skóla tafarlaust. Innbrotið hafi átt sér stað síðasta kennsludag hinn 30. nóvember sl. milli kl. 18:00 og 19:00 og B hafi átt að fara í fyrsta prófið morguninn eftir, þ.e. föstudaginn 1. desember sl. og síðan þriðjudaginn 5. desember sl. og dagana þar á eftir. B hafi verið um ótiltekinn tíma ein í herbergi þar sem prófgögn hafi verið varðveitt og því hafi verið óhjákvæmilegt að vísa henni tafarlaust úr skóla. Varðandi þá málsástæðu kæranda að B hafi ekki vitað að hún væri að fara inn í ljósritunarherbergið bendir kærði á að hún hafi þurft að hafa heilmikið fyrir því að klifra niður í ljósritunarherbergið, færa til pappakassa úr hillum o.s.frv. Það sé því mjög ótrúverðugt að hún hafi ekki vitað hvaða herbergi þetta var.

Kærði bendir á að í 13. gr. stjórnsýslulaga standi um andmælarétt, að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Kærði ítrekar að B hafi komið í viðtal föstudaginn 1. desember að áeggjan föður síns. Hún hafi farið heim með það veganesti að litið væri á þennan atburð mjög alvarlegum augum og að viðurlög kæmu í kjölfarið. Brottrekstur hafi að sjálfsögðu einnig verið nefndur. Ljóst hafi verið að bæði B og foreldrar hennar hefðu vitað um málið og að ekki hafi verið ágreiningur um að brotið hefði verið framið. Alvarleiki brots og viðurlög séu að sjálfsögðu ávallt matsatriði. B og foreldrar hennar hafi aðra skoðun á því en kærði. Kærði telur að afstaða kæranda hafi verið ljós allan tímann og því hafi ekki þurft að leita eftir andmælum þeirra. Ákvörðun um brottvikningu hafi eðli málsins samkvæmt þurft að taka strax. Ekki hafi verið hægt að fresta henni þar sem próf hafi verið hafin.

Þá heldur kærði því fram að meðalhófsregla hafi ekki verið brotin þar sem reynt hafi verið að milda refsingu eins og kostur hafi verið. Að halda því fram að gefið hafi verið í skyn að málið yrði afgreitt án nokkurra viðurlaga af skólastjórnendum í upphafi sé fráleitt. Um það geti þeir vitnað sem ræddu við B. Kærði heldur því jafnframt fram að í samtölum sínum við föður hennar hafi hann reynt að leiða honum fyrir sjónir að B þyrfti að taka út refsingu fyrir athæfi sitt þrátt fyrir að kærði vildi trúa því að atferli hennar hafi ekki verið harðsvírað brot. Kærði hefði jafnframt nefnt að það væri alls ekki loku fyrir það skotið að hún hefði náð í upplýsingar úr þeim prófum sem hefðu verið í ljósritunarherberginu. Margir kennarar hefðu talið svo vera og samið ný próf.

Kærði bendir að lokum á að sérkennilegt sé að halda því fram að skólameistari hafi ekki heimild til að vísa nemanda úr skóla. Í aðalnámskrá framhaldsskóla, kaflanum um meðferð mála, komi m.a. fram að veita skuli nemenda viðvörun áður en til refsingar komi nema brotið sé þess eðlis að því verði ekki við komið, svo sem brot á almennum hegningarlögum. Í grein sem fjalli um misferli í prófum komi jafnframt fram að nemanda sem staðinn sé að misferli í prófi skuli vísa frá prófi og geti hann átt von á brottvikningu úr skóla, tímabundið eða til frambúðar, eftir alvarleika brots. Varla sé hægt að hugsa sér alvarlegra misferli varðandi próf en það að brjótast inn í prófgeymslur þar sem geymdur sé stór hluti af prófum annarinnar.

Rökstuðningur niðurstöðu.

Í máli þessu er deilt um hvort farið hafi verið að stjórnsýslulögum þegar skólameistari skóla X vísaði B úr skólanum hinn 4. desember sl.

Um skóla X gilda lög um framhaldsskóla nr. 80/1996, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna fer menntamálaráðherra með yfirstjórn þeirra mála er lögin taka til og ber ábyrgð á aðalnámskrá, eftirliti með skólastarfi og námsefni, ráðgjöf um kennslu og þróunarstarf í framhaldsskólum og söfnun og dreifingu upplýsinga um skólastarf. Í 1. mgr. 8. gr. laganna segir að skólameistari veiti skólanum forstöðu. Hann stjórni daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gæti þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Þá segir í 2. mgr. 11. gr. laganna að menntamálaráðherra skipi skólameistara til fimm ára í senn að fenginni tillögu hlutaðeigandi skólanefndar. Með hliðsjón af framansögðu heyrir skóli X stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra og skólinn og skólameistari því lægra sett stjórnvald gagnvart menntamálaráðherra. Hin kærða ákvörðun var tekin af skólameistara skóla X í máli þessu og hún er því réttilega kærð til menntamálaráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í áliti umboðsmanns Alþingis í SUA 1994, bls. 295, kemur fram að almennt falli kennsla ekki undir stjórnsýslulög, en hins vegar geti ákvarðanir um agaviðurlög og skyld úrræði fallið undir lögin. Segir í álitinu að með hliðsjón af ummælum í greinargerð með stjórnsýslulögunum, verði að líta svo á að hin vægari úrræði sem beitt sé til að halda uppi aga og almennum umgengisvenjum, teljist almennt ekki stjórnvaldsákvarðanir. Hins vegar kemur skýrt fram í álitinu, að ákvörðun um að víkja nemanda úr skóla í fleiri en einn skóladag, teljist ákvörðun um réttindi og skyldur sem falli undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga og því beri að fara með slík mál í samræmi við ákvæði laganna.

Með hliðsjón af framansögðu verður að telja að hin kærða ákvörðun hafi verið stjórnvaldsákvörðun og bar kærða því að gæta ákvæða stjórnsýslulaga við undirbúning hennar.

Eins og áður hefur komið fram var hin kærða ákvörðun orðuð með eftirfarandi hætti:

„Því miður er óhjákvæmilegt að vísa B úr skóla. Fimmtudaginn 30. nóvember varð B uppvís að innbroti í ljósritunarherbergi þar sem prófgögn eru varðveitt.“

Í umsögn kærða til ráðuneytisins vegna málsins er lögð sérstök áhersla á að í umræddu herbergi hafi verið geymd 33 próf sem leggja hefði átt fyrir daginn eftir og í næstu prófaviku. Ekki hafi verið vitað hve lengi B hafi verið búin að vera inni í herberginu þegar komið hafi verið að henni og sérstaklega tekið fram að alvarleiki brotsins hafi verið augljós þar sem prófgögn hafi verið varðveitt í herberginu þar sem innbrotið átti sér stað. Þá hefur kærði bent á að ekki verði fram hjá því litið að innbrotið hefði haft í för með sér töluverðan kostnað því kennarar hafi þurft að endursemja próf. Kærði hefði jafnframt nefnt það við föður B að það væri alls ekki loku fyrir það skotið að hún hefði náð í upplýsingar úr þeim prófum sem hefðu verið í ljósritunarherberginu. Margir kennarar hefðu talið svo vera og samið ný próf. Einnig vísast í þessu sambandi til þess að málið hafi verið rætt á fundi stjórnenda og námsráðgjafa og ekki talið verjandi að leyfa B að taka prófin í desember.

Auk framangreinds hefur kærði í umsögn sinni til ráðuneytisins í tengslum við umfjöllun um heimildir til töku hinnar kærðu ákvörðunar m.a. vísað til greinar í aðalnámskrá framhaldsskóla sem fjalli um misferli í prófum þar sem fram komi að nemanda sem staðinn sé að misferli í prófi skuli vísa frá prófi og geti hann átt von á brottvikningu úr skóla, tímabundið eða til frambúðar, eftir alvarleika brots. Varla sé hægt að hugsa sér alvarlegra misferli varðandi próf en það að brjótast inn í prófgeymslur þar sem geymdur sé stór hluti af prófum annarinnar. Þótt það komi ekki fram skýrlega af hálfu kærða í málinu, hvorki í hinni kærðu ákvörðun né í umsögn hans til ráðneytisins, er litið svo á að með umræddu misferli eigi kærði við að B hafi ætlað sér að komast yfir próf sem geymd voru í umræddu herbergi og þannig gerst brotleg við prófareglur skólans.

Með hliðsjón af framangreindu er á því byggt í úrskurði þessum að hin kærða ákvörðun hafi annars vegar falið í sér að B hafi gerst sek um innbrot og hins vegar að með innbroti í umrætt ljósritunarherbergi þar sem próf voru geymd hafi hún gerst sek um misferli varðandi próf.

Kærði telur að B hafi gerst sek um brot á almennum hegningarlögum með háttsemi sinni, en ákvörðun hafi verið tekin um að kæra ekki málið til lögreglu. Í úrskurði þessum verður að telja að sú skoðun kærða hafi ekki sérstaka þýðingu við úrlausn þessa máls hvort um hegningarlagabrot hafi verið að ræða, enda verður aðeins skorið úr því með rannsókn lögreglu og eftir atvikum niðurstöðu dómstóla, sem ekki fór fram. Hins vegar er óumdeilt að umrætt ljósritunarherbergi var læst þegar kennarinn C varð vör við B þar inni, og að hún hafði komist inn í herbergið í heimildarleysi með því að losa loftplötur eins og áður hefur verið lýst.

Um þann veigamikla þátt í hinni kærðu ákvörðun að með því að um var að ræða ljósritunarherbergi þar sem próf voru geymd hafi B gerst sek um misferli varðandi próf, verður óhjákvæmilega að líta til þess að verulegur ágreiningur er með aðilum um þann þátt málsins.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að B hafi verið að fíflast, að hún hafi ekki áttað sig á því að um ljósritunarherbergi hafi verið að ræða, að hún hafi reynt að komast upp aftur en ekki getað það án aðstoðar og því beðið þar stutta stund, er áður nefndur kennari hafi komið inn í herbergið. Hún hafi ekki vitað að próf hafi verið geymd í herberginu og þar af leiðandi hafi ekki verið ásetningur til að svindla á prófi.

Kærði heldur því hins vegar fram að B hafi þurft að hafa heilmikið fyrir því að klifra niður í ljósritunarherbergið, færa til pappírskassa úr hillum o.s.frv. Því sé það mjög ótrúverðugt að hún hafi ekki vitað hvaða herbergi þetta hafi verið. Þá hafi B verið um ótiltekinn tíma ein í herberginu þar sem prófgögnin voru varðveitt. Einnig er í gögnum málsins að finna frásögn kærða af samtali hans við föður B, þar sem fram kemur að kærði hefði sagt að það væri alls ekki loku fyrir það skotið að B hefði náð í upplýsingar úr þeim prófum sem voru í ljósritunarherberginu.

Öðrum upplýsingum og gögnum er ekki til að dreifa í málinu um það hvernig kærði lagði sönnunarmat á það að B hafi með háttsemi sinni ætlað að komast yfir próf sem geymd voru í umræddu herbergi. Fyrir liggur að D prófstjóri ræddi við hana um málið sem og kærði og aðstoðarskólameistari. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvort B hafi verið spurð að því hversu lengi hún var í umræddu herbergi áður en komið var að henni þar, hvort hún hafi vitað eða mátt vita að 33 próf hafi verið geymd þar inni, eða hvort þau próf sem í herberginu voru hafi verið í þeim áföngum sem B átti að taka próf í umræddan desembermánuð. Með því er þó ekki unnt í úrskurði þessum að ganga út frá því með fullri vissu að þessum spurningum hafi ekki verið beint til hennar. Þá kemur ekki fram í frásögn kennarans C að B hafi tekið eða verið með á sér próf inni í umræddu herbergi þegar hún kom að henni þar.

Hins vegar kemur fram í tölvupósti kærða til allra starfsmanna skólans, dags. 1. desember 2006 kl. 9:50, þar sem greint er frá atburðinum kvöldið áður, að eftir ítarlega könnun sé ljóst að engin próf hafi verið ljósrituð og jafnframt talið að ekki sé hætta talin á því að prófin hafi borist út, en kennarar þó beðnir um að vera á varðbergi ef prófúrlausnir nemenda komi á óvart og kærði og E aðstoðarskólameistari verði þá látnir vita um slík tilfelli. Þá segir í tölvupósti kærða til allra starfsmanna skólans, dags. 5. desember 2006 kl. 12:54, eftir að greint er frá því að í framhaldi af innbroti í ljósritunarherbergi hafi þrír nemendur verið reknir úr skólanum, að eftir ítarlega rannsókn „.. teljum við víst að engin próf hafi verið fjarlægð og við teljum mjög ólíklegt að upplýsingar úr prófum hafi borist út. Engu að síður er atburðurinn svo alvarlegur að ekki var um annað að ræða en vísa þeim úr skóla. Það var gert mánudaginn 4. desember .“

Með hliðsjón af framansögðu verður að mati ráðuneytisins ekki með óyggjandi hætti ráðið af gögnum málsins að kærði hafi við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar fullnægt rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga. Skv. þeirri lagagrein skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Rannsóknarreglan tengist náið andmælarétti sem 13. gr. sömu laga kveður á um, en stundum verður mál ekki nægilega upplýst nema aðila hafi verið gefinn kostur á að kynna sér gögn máls, svo og að koma að frekari upplýsingum um málsatvik. Við mat á því hvort rannsóknarreglunni var fullnægt í máli þessu telur ráðuneytið að eins og á stóð, hafi skipt miklu máli að andmælaréttur var ekki virtur af hálfu kærða eins og nánar verður fjallað um hér á eftir. Þá verður að leggja áherslu á að ef deilt er um málsatvik sem hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins ber stjórnvöldum að leggja áherslu á að rannsaka þann þátt þess. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Við mat á því hversu ítarlega ber að rannsaka mál skiptir bæði málshraði og mikilvægi málsins máli. Þá verður að leggja áherslu á að eftir því sem stjórnvaldsákvörðun er tilfinnanlegri og meira íþyngjandi, þeim mun strangari kröfur verður að gera til sönnunar á nauðsyn ákvörðunar. Þá verður einnig að líta til eðlis þeirrar ákvörðunar sem um ræðir. Rannsóknarreglan felur það í sér að það stjórnvald sem ákvörðun tekur ber ábyrgð á því að mál hafi verið nægilega rannsakað áður en ákvörðun er tekin.

Óumdeilt er í máli þessu að foreldrum B var ekki gefinn kostur á andmælum áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Eins og að framan greinir í umfjöllun um málsástæður kærða í málinu er því haldið fram af hans hálfu að ekki hafi verið þörf á að veita andmælarétt. B hafi komið í viðtal föstudaginn 1. desember að áeggjan föður síns og farið heim með það veganesti að litið væri á þennan atburð mjög alvarlegum augum og að viðurlög kæmu í kjölfarið. Brottrekstur hafi að sjálfsögðu einnig verið nefndur. Ljóst hafi verið að bæði B og foreldrar hennar hefðu vitað um málið og að ekki hafi verið ágreiningur um að brot hefði verið framið. Kærði telur því að afstaða kæranda hafi verið ljós allan tímann og því hafi ekki þurft að leita eftir andmælum þeirra. Ákvörðun um brottvikningu hafi eðli málsins samkvæmt þurft að taka strax. Ekki hafi verið hægt að fresta henni þar sem próf hafi verið hafin.

Kærandi heldur því hins vegar fram að hvorki í samtali dóttur hennar við D prófstjóra sama kvöld og umrætt atvik átti sér stað, né í viðtali kærða og aðstoðarskólameistara við hana daginn eftir, hafi komið fram að til greina kæmi að víkja henni úr skólanum. Með hliðsjón af framansögðu verður að mati ráðuneytisins talið ósannað að foreldrar B hafi verið kunnugt um það, áður en hin kærða ákvörðun var tekin, að til greina kæmi að víkja dóttur þeirra úr skólanum vegna þess atviks sem þar er vísað til. Þá má ráða af frásögn kærða í umsögn hans til ráðuneytisins vegna málsins, að eftir viðtal hans og aðstoðarskólameistara við B föstudaginn 1. desember sl. hafi hann íhugað málið helgina 2. og 3. desember og síðan rætt það á fundi stjórnenda og námsráðgjafa mánudagsmorguninn 4. desember. Með því liðu tæplega þrír sólarhringar áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Því verður ekki fallist á það með kærða að ekki hafi verið hægt að veita foreldrum kæranda frest til andmæla þar sem próf hafi verið hafin.

13. gr. stjórnsýslulaga hefur að geyma regluna um andmælarétt og skv. henni skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í máli þessu liggur fyrir að dóttir kæranda varð 17 ára hinn xx. xx sl. og því ólögráða þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997, ráða foreldrar barns, sem ólögráða er fyrir æsku sakir, persónulegum högum þess. Nefnast þau lögráð forsjá og fer um hana samkvæmt ákvæðum barnalaga nr. 76/2003 og barnaverndarlaga nr. 80/2002. Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir forsjáraðila til að ráða persónulegum högum barnsins og gegna öðrum foreldraskyldum sbr. 28. gr. barnalaga. Þar sem kærandi fer með forsjá dóttur sinnar ásamt föður B kom það í þeirra hlut að gæta persónulegra hagsmuna hennar í máli þessu.

Í andmælarétti felst meðal annar að málsaðili á að eiga kost á því að gæta réttar síns og hagsmuna með því að kynna sér gögn máls, tjá sig um efni þess og framkomnar upplýsingar í því og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun. Í máli þessu þykir sérstök ástæða til að árétta að meginreglan er sú að aðili máls skal eiga þess kost að tjá sig um efni máls, áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því. Þannig getur málsaðili komið athugasemdum á framfæri, bent á misskilning eða ónákvæmni í gögnum máls og jafnframt bent á heimildir sem séu betri grundvöllur að ákvörðun máls. Þá telur ráðuneytið að það hafi sérstaka þýðingu í máli þessu að þegar til greina kemur að beita aðila refsikenndum viðurlögum verður að gera strangar kröfur til vandaðrar málsmeðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða ráðuneytisins að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi kærði brotið á andmælarétti foreldra B skv. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Þá er það niðurstaða ráðuneytisins í máli þessu að eins og hin kærða ákvörðun var orðuð í bréfi til foreldra B hinn 4. desember sl., hafi ekki verið fyllilega ljóst hver hafi verið grundvöllur hennar. Byggir sú niðurstaða á því að eftir að greint er frá því að óhjákvæmilegt hafi verið að vísa henni úr skóla er einungis vísað til þess að fimmtudaginn 30. nóvember hafi B orðið „...uppvís að innbroti í ljósritunarherbergi þar sem prófgögn eru varðveitt. ...“ . Öðrum skýringum er ekki til að dreifa í ákvörðuninni. Telur ráðuneytið að skort hafi á skýrleika hinnar kærðu ákvörðunar einkum þegar haft er í huga að í raun kom að mati ráðuneytisins ekki fyllilega í ljós á hvaða grundvelli ákvörðunin var byggð fyrr en í umsögn kærða til ráðuneytisins í máli þessu, þar sem tekið er fram að varla sé hægt að hugsa sér alvarlegra misferli varðandi próf en það að brjótast inn í prófgeymslur þar sem geymdur sé stór hluti af prófum annarinnar. Foreldrum B var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með framangreindu orðalagi án frekari skýringa og án þess að þeim hafi áður verið gefinn kostur á andmælum, auk þess sem af þeirra hálfu er því haldið fram að þeim hafi ekki verið kunnugt um að til stæði að vísa dóttur þeirra úr skóla.

Það er grundvallarregla í stjórnsýslurétti að stjórnvaldsákvörðun verður efnislega að vera bæði ákveðin og skýr svo að sá sem ákvörðunin beinist að geti skilið hana og metið réttarstöðu sína. Með vísan til framangreinds verður að mati ráðuneytisins að telja að hin kærða ákvörðun í máli þessu hafi ekki fullnægt framangreindri grundvallarreglu um skýrleika stjórnvaldsákvörðunar.

Samkvæmt öllu framansögðu er það niðurstaða ráðuneytisins í máli þessu að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi kærði ekki með óyggjandi hætti fullnægt rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga við undirbúning hennar. Þá hafi við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar verið brotið gegn andmælareglu 13. gr. sömu laga og jafnframt að hin kærða ákvörðun hafi ekki skv. orðalagi sínu fullnægt grunnreglu stjórnsýsluréttar um skýrleika stjórnvaldsákvörðunar. Er það mat ráðuneytisins að umræddir annmarkar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið slíkir að þeir leiði óhjákvæmilega til ógildingar hennar, eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun skólameistara skóla X, dagsett 4. desember 2006, um að vísa B úr skóla, er felld úr gildi.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta