Synjun á greiðslu námsstyrks
Ár 2007, miðvikudaginn 6. júní, var kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svofelldur
ÚRSKURÐUR:
I. Kröfur aðila.
Með bréfi, dags. 14. mars sl., kærði A (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun námsstyrkjanefndar (hér eftir nefnd kærði), dags. 1. mars sl., um að synja umsókn A um greiðslu námsstyrks fyrir skólaárið 2006-2007 skv. lögum um námsstyrki, nr. 79/2003 og reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003, með áorðnum breytingum.
Með hliðsjón af gögnum málsins er krafa kæranda skilin þannig að þess sé krafist að ákvörðun kærða verði felld úr gildi og A verði úrskurðaður námsstyrkur fyrir skólaárið 2006-2007.
Af hálfu kærða er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda sé hún í samræmi við lög og reglur.
II. Málsatvik.
Kærandi, sem stundar nám í tannsmíði við skóla X, sótti um námsstyrk skv. lögum um námsstyrki og reglugerð um námsstyrki fyrir skólaárið 2006-2007. Með bréfi kærða, dags. 1. mars. sl., var umsókninni synjað á þeim grundvelli að 9 mánaða starfsþjálfun kæranda á tannsmíðaverkstæði fæli í sér launaða starfsþjálfun sem uppfyllti ekki skilyrði a-liðar 2. gr. reglugerðar um námsstyrki um reglubundið nám á framhaldsskólastigi.
Með bréfi, dags. 14. mars sl., skaut kærandi ákvörðun kærða til menntamálaráðuneytisins.
III. Málsmeðferð.
Stjórnsýslukæra kæranda var móttekin 14. mars sl. Með bréfi, dags. 23. mars sl., leitaði ráðuneytið umsagnar kærða um kæruna. Umsögn kærða barst ráðuneytinu 3. apríl sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 11. apríl sl., voru athugasemdir kærða kynntar kæranda og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda innan umsagnarfrests.
IV. Málsástæður og lagarök kæranda.
Í stjórnsýslukærunni kemur fram að kærandi telur hina kærðu ákvörðun um að lokaár A í námi sé ekki lánshæft og að mestum hluta launalaust vera ósanngjarna. Kærandi vonast eftir jákvæðri afgreiðslu frá ráðuneytinu.
V. Málsástæður og lagarök kærða.
Í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun, sbr. bréf kærða, dags. 1. mars sl., segir að skv. a-lið 1. gr. reglugerðar um námsstyrki sé það meginskilyrði sett fyrir úthlutun námsstyrkja að nemandi stundi reglubundið nám á framhaldsskólastigi. Í ákvæðinu segi að nemandi teljist stunda reglubundið nám hafi hann tekið próf til fullnustu a.m.k. 12 eininga náms á önn. Að mati kærða fellur starfsþjálfun skv. námssamningi ekki undir þessa skilgreiningu þar sem hún sé hvorki metin til eininga eða ljúki með sérstöku prófi. Kærða sé því ekki heimilt að veita styrki vegna launaðrar starfsþjálfunar sem fram fer utan framhaldsskóla.
Í greinargerð kærða, dags. 3. apríl sl., segir að kærandi sé á lokaári í tannsmíðanámi sem feli í sér níu mánaða starfsþjálfun á tannsmíðaverkstæði. Réttur til námsstyrkja sé á hinn bóginn háður því að umsækjandi stundi reglubundið framhaldsskólanám, sbr. 2. gr. laga um námsstyrki og skilgreiningu a-liðar 2. gr. reglugerðar um námsstyrki.
Kærði telur ákvörðun sína í máli þessu vera í samræmi við lög og reglur og fer fram á það að ráðuneytið staðfesti hana.
VI. Rökstuðningur niðurstöðu.
Gildissvið stjórnsýslulaga og kæruheimild.
Í stjórnsýsluframkvæmd hér á landi hefur ákvörðun stjórnvalds um bætur eða styrk til einstaklings verið talin stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af því leiðir að ákvæði stjórnsýslulaga eiga við um slíkar ákvarðanir. Kæra kæranda verður af þeim sökum talin byggjast á almennri kæruheimild samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga.
Samkvæmt 5. gr. laga um námsstyrki skipar menntamálaráðherra fimm manna nefnd, svokallaða námsstyrkjanefnd, sem skal sjá um úthlutun námsstyrkja. Skv. 6. gr. laganna skal nefndin leggja fyrir menntamálaráðherra tillögur um árlegar fjárveitingar í samræmi við markmið laganna.
Námsstyrkjanefnd er kærði í máli þessu. Samkvæmt auglýsingu nr. 3/2004 um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands fer menntamálaráðuneytið meðal annars með mál er varða námslán og námsstyrki. Ákvörðun nefndarinnar er því réttilega kærð til menntamálaráðuneytisins og barst hún ráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Um skilyrði laga um námsstyrki, nr. 79/2003.
Í lögum um námsstyrki er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga. Samkvæmt 2. gr. laganna njóta þeir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og verða að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins réttar til námsstyrkja. Í 8. gr. laganna segir að menntamálaráðuneytið setji reglugerð er mæli nánar fyrir um hvernig lögin skuli framkvæmd.
Reglugerð um námsstyrki, nr. 692/2003.
Menntamálaráðherra hefur mælt nánar fyrir um framkvæmd laganna. Við móttöku framangreindrar stjórnsýslukæru var í gildi reglugerð nr. 692/2003, með síðari breytingum, sem kærði hefur byggt á við úrlausn máls þessa. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja tilgreindum skilyrðum rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni.
Í a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að nemendur á framhaldsskólastigi, sem stunda reglubundið nám á framhaldsskólastigi hér á landi, sem ekki er á háskólastigi eða gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi, enda sé um að ræða a.m.k. eins árs skipulagt nám við framhaldsskóla sem fellur undir ákvæði laga um framhaldsskóla nr. 80/1996, með áorðnum breytingum, eigi rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni. Þá er jafnframt tilgreint að námsstyrkjanefnd sé heimilt að styrkja annað hliðstætt nám á framhaldsskólastigi. Í 1. mgr. a-liðar 2. gr. reglugerðarinnar er hugtakið reglubundið nám skýrt svo að nemandi teljist stunda reglubundið nám hafi hann tekið próf til fullnustu a.m.k. 12 eininga námi á önn sem telst hluti af skipulögðu námi skóla eða skóli staðfestir námsárangur með ástundunarvottorði, ef námi lýkur ekki með prófi. Ef námi er ekki lokið vegna veikinda skuli skóli staðfesta móttöku á fullgildu læknisvottorði. Í 2. mgr. a-liðar 2. gr. reglugerðarinnar segir að heimilt sé að miða við sex einingar ef um lokaönn er að ræða og nemandi hefur lokið a.m.k. 12 einingum á undangenginni önn.
Niðurstaða.
Í máli þessu er deilt um hvort uppfyllt hafi verið skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um námsstyrki, sbr. a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðar um námsstyrki um reglubundið framhaldsskólanám hér á landi en kærandi er á lokaári í námi í skóla X, sem felur í sér níu mánaða starfsþjálfun á tannsmíðaverkstæði.
Samkvæmt 1. gr. laga um námsstyrki veitir ríkissjóður námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum. Með aðstöðumun vegna búsetu er hér átt við að nemandi þurfi að bera aukinn kostnað af því að sækja skóla fjarri fjölskyldu sinni. Í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna segir að réttar til námsstyrkja njóti nemendur sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi. Hugtakið reglubundið nám er skýrt þannig í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 79//2003 að með því sé átt við a.m.k. 12 eininga nám á hverri önn sem telst hluti af skipulögðu námi skóla eða nám sem skóli staðfestir námsárangur í með ástundunarvottorði ef námi lýkur ekki með prófi. Þar kemur einnig fram að í hugtakinu felist jafnframt a.m.k. eins árs skipulagt nám við framhaldsskóla sem fellur undir ákvæði laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996. Framangreind skilgreining á hugtakinu reglubundið framhaldsskólanám endurspeglast í ákvæði a-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar um námsstyrki.
Að mati ráðuneytisins fellur níu mánaða starfsþjálfun á tannsmíðaverkstæði ekki undir skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um námsstyrki og var kærða því óheimilt að veita námsstyrk til kæranda, jafnvel þótt starfsþjálfunin hafi verið liður í námslokum kæranda við skóla X, sbr. a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðar um námsstyrki.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er óhjákvæmilegt að staðfesta hina kærðu ákvörðun eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hin kærða ákvörðun námsstyrkjanefndar frá 1. mars 2007 um synjun námsstyrks til A á skólaárinu 2006-2007 er staðfest.