Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun á greiðslu akstursstyrks

Ár 2007, miðvikudaginn 6. júní, var kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR

I. Kröfur aðila.

Með bréfi, dags. 22. mars sl., kærði A, (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun námsstyrkjanefndar (hér eftir nefnd kærði), dags. 18. janúar sl., um að synja umsókn hennar um greiðslu námsstyrks á haustönn 2006 skv. lögum um námsstyrki, nr. 79/2003 og reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003, með áorðnum breytingum.

Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun kærða verði felld úr gildi og henni verði úrskurðaður námsstyrkur á haustönn 2006.

Af hálfu kærða er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda sé hún í samræmi við lög og reglur.

II. Málsatvik.

Kærandi, sem hefur skráð lögheimili í Y og stundar nám við skóla X, sótti um akstursstyrk skv. lögum um námsstyrki og reglugerð um námsstyrki fyrir haustönn 2006. Með bréfi, dags. 18. janúar sl., hafnaði kærði umsókninni á þeim grundvelli að ekki hefði verið sýnt fram á fjölskyldutengsl við lögheimili, sbr. skilyrði a. liðar 6. gr. reglugerðar um námsstyrki.

Með bréfi, dags. 22. mars sl., skaut kærandi ákvörðun kærða til menntamálaráðuneytisins.

III. Málsmeðferð.

Stjórnsýslukæra kæranda var móttekin 22. mars sl. Með bréfi, dags. 23. mars sl., leitaði ráðuneytið umsagnar kærða um kæruna. Umsögn kærða barst ráðuneytinu 10. apríl sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 11. apríl sl., voru athugasemdir kærða kynntar kæranda og henni gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda innan tilsetts frests.

IV. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í gögnum málsins liggja fyrir afrit af tölvubréfasamskiptum á milli fyrirsvarsmanns kæranda og kærða. Í tölvubréfi fyrirsvarsmanns kæranda, dags. 27. desember sl., kemur fram að mál kæranda sé sérstakt, hún sé fædd á Indlandi og hafi verið ættleidd til Íslands við sex mánaða aldur. Kærandi hafi fengið góða og ástríka fjölskyldu en við 10 ára aldur hafi kjörmóðir hennar veikst alvarlega og látist í kjölfar veikindanna. Fráfallið hafi verið mikið áfall fyrir fjölskyldu kæranda og hafi kærandi dvalið tíðum í Z í Y upp frá því. Þar hafi hún dvalið á heimili B og C, sem séu ekki skyld kæranda en hafi verið henni sem amma og afi en foreldrar kæranda hafi verið í sveit á bænum og hún sjálf. Vegna dvalar kæranda í Z aki hún daglega í skóla á Þ.

Í stjórnsýslukærunni kemur fram að kærandi óski eftir endurskoðun á hinni kærðu ákvörðun vegna óvenjulegra aðstæðna, sbr. framangreint.

V. Málsástæður og lagarök kærða.

Í bréfi kærða, dags. 3. apríl sl., er rakið að kærandi hafi átt lögheimili hjá föður sínum á Þ en flutt það í lok ágúst sl. að Z í Y. Kærandi hafi ekki sýnt fram á fjölskyldutengsl við lögheimilið, sbr. skilyrði a. liðar 6. gr. reglugerðar um námsstyrki og því hafi Lánasjóður íslenskra námsmanna synjað henni um námsstyrk. Í erindi fyrirsvarsmanns kæranda til kærða hafi verið óskað eftir því að húsráðendur að Z teldust til fjölskyldu kæranda í þessu sambandi. Af því tilefni hafi kærði kannað hvort húsráðendur að Z hafi á einhverju tímabili verið skráðir forráðamenn kæranda, sem ekki hafi reynst raunin. Því hafi kærði ekki talið sér heimilt að samþykkja erindið og staðfest synjun Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Kærði bendir á að þýðing fjölskyldu fyrir ákvörðun akstursstyrks sé afgerandi þar sem nemandi eigi ekki rétt á námsstyrk án fjölskyldutengsla við lögheimili. Án slíkra tengsla sé álitið að nemandi hafi val um búsetu og að búsetan valdi ekki fjárhagsbyrðum umfram það sem almennt gildi. Hvorki nemendur sem búi einir né nemendur án fjölskyldubanda við skráð lögheimili geti þannig á rétt á akstursstyrk.

Kærði telur ákvörðun sína í máli þessu vera í samræmi við lög og reglur og fer fram á það að ráðuneytið staðfesti hana.

VI. Rökstuðningur niðurstöðu.

Gildissvið stjórnsýslulaga og kæruheimild.

Í stjórnsýsluframkvæmd hér á landi hefur ákvörðun stjórnvalds um bætur eða styrk til einstaklings verið talin stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af því leiðir að ákvæði stjórnsýslulaga eiga við um slíkar ákvarðanir. Kæra kæranda verður af þeim sökum talin byggjast á almennri kæruheimild samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 5. gr. laga um námsstyrki skipar menntamálaráðherra fimm manna nefnd, svokallaða námsstyrkjanefnd, sem skal sjá um úthlutun námsstyrkja. Skv. 6. gr. laganna skal nefndin leggja fyrir menntamálaráðherra tillögur um árlegar fjárveitingar í samræmi við markmið laganna.

Námsstyrkjanefnd er kærði í máli þessu. Samkvæmt auglýsingu nr. 3/2004 um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands fer menntamálaráðuneytið meðal annars með mál er varða námslán og námsstyrki. Ákvörðun nefndarinnar er því réttilega kærð til menntamálaráðuneytisins og barst hún ráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Um skilyrði laga um námsstyrki, nr. 79/2003.

Í lögum um námsstyrki er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga. Samkvæmt 2. gr. laganna njóta þeir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og verða að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins réttar til námsstyrkja. Í 2. tölul. 3. gr. laganna segir að skilyrði skólaakstursstyrks sé að nemandi verði að sækja skóla fjarri fjölskyldu sinni og eigi ekki rétt á dvalarstyrk en í 1. tölul. sömu greinar kemur fram að skilyrði dvalarstyrks sé að nemandi verði að vista sig í a.m.k. 30 km fjarlægð frá lögheimili og fjölskyldu vegna námsins. Í 8. gr. laganna segir að menntamálaráðuneytið setji reglugerð er mæli nánar fyrir um hvernig lögin skuli framkvæmd.

Reglugerð um námsstyrki, nr. 692/2003.

Menntamálaráðherra hefur mælt nánar fyrir um framkvæmd laganna. Við móttöku framangreindrar stjórnsýslukæru var í gildi reglugerð nr. 692/2003, með síðari breytingum, sem kærði hefur byggt á við úrlausn máls þessa. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja tilgreindum skilyrðum rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni.

Í a. lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um það skilyrði fyrir úthlutun skólaakstursstyrks að nemandi verði að sækja skóla frá lögheimili sínu og fjölskyldu. Í c. lið 2. gr. reglugerðarinnar var hugtakið fjölskylda skilgreint þannig að með því sé átt við foreldra nemanda, sé þeim til að dreifa - nánar tiltekið kynforeldra, stjúpforeldra, fósturforeldra eða kjörforeldra, en ella ömmur og afa nemanda; maka samkvæmt hjúskap aðila, maka samkvæmt staðfestri samvist eða maka samkvæmt skráðri sambúð í þjóðskrá, hafi skráningin varað lengur en eitt ár; svo og börn nemanda, þ.m.t. kynbörn, stjúpbörn, fósturbörn eða kjörbörn.

Niðurstaða.

Í máli þessu er deilt um hvort uppfyllt hafi verið skilyrði til þess að B og C, húsráðendur að Z í Y, geti talist til fjölskyldu hennar í skilningi 2. tölul. 3. gr. laga um námsstyrki nr. 79/2003, sbr. c. lið 2. gr. reglugerðar nr. 692/2003, og kærandi hafi þannig uppfyllt skilyrði til að hljóta akstursstyrk með því að þurfa að sækja nám fjarri lögheimili sínu og fjölskyldu, sbr. a. lið 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. gr. laga um námsstyrki veitir ríkissjóður námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum. Með aðstöðumun vegna búsetu er hér átt við að nemandi þurfi að bera aukinn kostnað af því að sækja skóla fjarri fjölskyldu sinni. Í 3. tölul. 2. gr. laganna segir að réttar til námsstyrkja njóti nemendur sem verða að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins. Í 2. tölul. 3. gr. sömu laga kemur enn fremur fram að skilyrði skólaakstursstyrks sé að nemandi verði að sækja skóla fjarri fjölskyldu sinni. Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi flutt lögheimili frá föður sínum á Þ að Z í Y fyrir upphaf skólaársins 2006-2007.

Hugtakið fjölskylda er ekki skýrt í lögum um námsstyrki en í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 79/2003 er hugtakið skýrt með eftirfarandi hætti:

Hugtakið „fjölskylda“ hefur ekki verið skilgreint í lögum, enda er fyrst og fremst um félagslegt hugtak að ræða. Lög hafa af þeim sökum ekki fjallað um fjölskylduna sem heildstætt hugtak heldur frekar um einstaklinga innan fjölskyldunnar. Vegna sérstaks eðlis þess málaflokks sem hér um ræðir verður þó ekki hjá því komist að skilgreina fjölskylduna nánar í frumvarpinu. Með hugtakinu „fjölskylda“ er átt við foreldra nemanda, nánar tiltekið kynforeldra, kjörforeldra, fósturforeldra og stjúpforeldra, svo og ömmur og afa nemandans; maka samkvæmt hjúskap aðila eða maka samkvæmt staðfestri samvist; sambúðaraðila í óvígðri sambúð og svo börn nemanda, þ.m.t. kynbörn, kjörbörn, stjúpbörn eða fósturbörn.

Samkvæmt framansögðu var það ætlun löggjafans við setningu laga nr. 79/2003 að tiltekin fjölskyldutengsl námsmanns við lögheimili sköpuðu honum rétt til skólaakstursstyrks skv. 2. tölul. 3. gr. laganna. Af hálfu kæranda hefur ekki verið í ljós leitt að B og C, húsráðendur að Z í Y, geti talist til fjölskyldu hennar eins og hugtakið er skilgreint í c. lið 2. gr. reglugerðar nr. 692/2003.

Því er óhjákvæmilegt að staðfesta hina kærðu ákvörðun eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin kærða ákvörðun námsstyrkjanefndar, dags. 18. janúar 2007, um synjun skólaaksturstyrks til A á skólaárinu 2006-2007 er staðfest.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta