Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun á greiðslu námsstyrks

 

Ár 2007, fimmtudaginn 12. apríl, var kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svofelldur

 

ÚRSKURÐUR:

 

I. Kröfur aðila.

 

Með bréfi, dags. 5. maí 2006, kærði A (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun námsstyrkjanefndar (hér eftir nefnd kærði), dags. 5. apríl 2006, um að synja umsókn hans um greiðslu námsstyrks fyrir vorönn skólaárið 2005-2006 skv. lögum um námsstyrki, nr. 79/2003 og a. lið 6. gr. reglugerðar um námsstyrki nr. 692/2003, með síðari breytingum.

 

Með hliðsjón af gögnum málsins er krafa kæranda skilin þannig að þess sé krafist að ákvörðun kærða verði felld úr gildi og honum verði úrskurðaður námsstyrkur fyrir vorönn 2006.

 

Af hálfu kærða er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda sé hún í samræmi við lög og reglur.

 

 

II. Málsatvik.

 

Kærandi, sem er nemandi við skóla X, flutti lögheimili sitt í lok ágúst 2005 frá foreldrum sínum á Z til kærustu sinnar að xx í Y. Kærandi sótti um akstursstyrk vegna náms síns á vorönn 2006, en með bréfi, dags. 5. apríl 2006, hafnaði kærði umsókn kæranda um akstursstyrk, þar sem kærði taldi hann ekki uppfylla það skilyrði a. liðar 6. gr. reglugerðar nr. 692/2003, að stunda nám fjarri fjölskyldu. Með bréfi, dags. 5. maí sl., skaut kærandi ákvörðun kærða til menntamálaráðuneytisins.

 

 

III. Málsmeðferð.

 

Stjórnsýslukæra kæranda var móttekin 9. maí 2006. Með bréfi, dags. 16. maí 2006, leitaði ráðuneytið umsagnar kærða um kæruna. Umsögn kærða barst ráðuneytinu 24. maí 2006. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 20. júní 2006, voru athugasemdir kærða kynntar kæranda og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Kærandi nýtti sér ekki frekari andmælarétt í málinu. 

 

 

IV. Málsástæður og lagarök kæranda.

 

Í kærunni er rakið að kærandi telji sig uppfylla skilyrði 6. gr. reglugerðar um námsstyrki nr. 692/2003, með síðari breytingum, þar sem hann sæki nám fjarri lögheimili og fjölskyldu. Kærandi heldur því fram að hann geti ekki sætt sig við að tengdafjölskylda hans, sem hann hafi búið hjá undanfarið ár falli ekki undir c. lið 2. gr. reglugerðar um námsstyrki. Kærandi heldur því fram að ekki sé hægt að hafna umsókn sinni um námsstyrk á þeirri forsendu að hann búi ekki í foreldrahúsum, þar sem hann telur að fyrrnefndur c. liður 2. gr. reglugerðarinnar takmarkist við nemendur undir lögaldri sem búi hjá foreldrum, kynforeldrum eða stjúpforeldrum eða geri ráð fyrir því að nemendur séu í staðfestri sambúð eða eigi börn. Kærandi bendir á að ekki virðist vera gert ráð fyrir því í reglugerðinni að lögráða námsmenn geti búið annars staðar en í foreldrahúsum og telur kærandi að með því sé verið að mismuna fólki til náms á framhaldsskólastigi. Kærandi bendir á að hann þurfi að sækja nám í annað sveitarfélag, þ.e. til Z þar sem hann geti ekki stundað sambærilegt nám í sinni heimabyggð.

 

 

V. Málsástæður og lagarök kærða.

 

Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að umsókn kæranda hafi verið synjað á þeirri forsendu að hann stundaði ekki nám fjarri lögheimili sínu og fjölskyldu, sbr. a.-lið 6. gr. reglugerðar nr. 692/2003. Kærði heldur því fram að samkvæmt reglugerðinni þurfi skráð sambúð að hafa varað lengur en eitt ár til að maki teljist til fjölskyldu nemanda. Kærði bendir á að kærandi hafi flutt lögheimili sitt í lok ágúst 2005 frá foreldrum sínum á Z og til kærustu sinnar að xx í Y. Kærði bendir jafnframt á að kærandi og kærasta hans séu ekki skráð í sambúð samkvæmt þjóðskrá. Því teljist foreldrar A vera fjölskylda hans í þessu tilliti, sbr. skilgreiningu á fjölskyldu í c. lið 2. gr. reglugerðar 692/2003. Þar sem kærandi stundi ekki nám fjarri fjölskyldu sé hann óstyrkhæfur. Kærði telur ákvörðun sína í máli þessu vera í samræmi við lög og reglur og fer fram á það að ráðuneytið staðfesti hana.

 

 

VI. Rökstuðningur niðurstöðu.

 

Gildissvið stjórnsýslulaga og kæruheimild.

Í stjórnsýsluframkvæmd hér á landi hefur ákvörðun stjórnvalds um bætur eða styrki til einstaklinga verið talin stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af því leiðir að ákvæði stjórnsýslulaga eiga við um slíkar ákvarðanir. Kæra kæranda verður af þeim sökum talin byggjast á almennri kæruheimild samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga.

 

Samkvæmt 5. gr. laga um námsstyrki skipar menntamálaráðherra fimm manna nefnd, svokallaða námsstyrkjanefnd, sem skal sjá um úthlutun námsstyrkja. Skv. 6. gr. laganna skal nefndin leggja fyrir menntamálaráðherra tillögur um árlegar fjárveitingar í samræmi við markmið laganna.

 

Námsstyrkjanefnd er kærði í máli þessu. Samkvæmt auglýsingu nr. 3/2004 um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands fer menntamálaráðuneytið meðal annars með mál er varða námslán og námsstyrki. Ákvörðun nefndarinnar er því réttilega kærð til menntamálaráðuneytisins og barst hún ráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Um skilyrði laga um námsstyrki, nr. 79/2003.

Í lögum um námsstyrki er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga. Samkvæmt 2. gr. laganna njóta þeir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og verða að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins réttar til námsstyrkja. Í 1. málslið 2. mgr. 6. gr. laganna er mælt fyrir um að námsstyrkjanefnd úthluti námsstyrkjum að umsóknarfresti loknum. Í 8. gr. laganna segir að menntamálaráðuneytið setji reglugerð er mæli nánar fyrir um hvernig lögin skuli framkvæmd.

 

Reglugerð um námsstyrki, nr. 692/2003.

Menntamálaráðherra hefur mælt nánar fyrir um framkvæmd laganna með setningu reglugerðar um námsstyrki, nr. 692/2003, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja tilgreindum skilyrðum rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni. Í a. lið 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um það skilyrði fyrir úthlutun akstursstyrks að nemandi verði að sækja skóla frá lögheimili sínu og fjölskyldu vegna námsins. Í b. lið 2. málsgr. 6. gr. er mælt fyrir um það skilyrði að lögheimili sé ekki í nágrenni skóla skv. fylgiskjali með reglugerðinni. Í c. lið 2. gr. reglugerðarinnar er hugtakið fjölskylda skilgreint þannig að með því sé átt við foreldra nemanda, sé þeim til að dreifa - nánar tiltekið kynforeldra, stjúpforeldra, fósturforeldra eða kjörforeldra, en ella ömmur og afa nemanda; maka samkvæmt hjúskap aðila, maka samkvæmt staðfestri samvist eða maka samkvæmt skráðri sambúð í þjóðskrá, hafi skráningin varað lengur en eitt ár; svo og börn nemanda, þ.m.t. kynbörn, stjúpbörn, fósturbörn eða kjörbörn.

 

Niðurstaða.

Í máli þessu er deilt um hvort uppfyllt hafi verið skilyrði til þess að unnusta kæranda geti talist til fjölskyldu hans í skilningi 2. tölul. 3. gr. laga um námsstyrki nr. 79/2003, sbr. c. lið 2. gr. reglugerðar nr. 692/2003, og kærandi hafi þannig uppfyllt skilyrði til að hljóta akstursstyrk með því að þurfa að sækja nám fjarri lögheimili sínu og fjölskyldu, sbr. a. lið 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar.

 

Skv. 1. gr. laga um námsstyrki veitir ríkissjóður námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum. Með aðstöðumun vegna búsetu er hér átt við að nemandi þurfi að bera aukinn kostnað af því að sækja skóla fjarri fjölskyldu sinni. Í 3. tölul. 2. gr. laganna segir að réttar til námsstyrkja njóti nemendur sem verða að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins. Í 2. tölul. 3. gr. sömu laga kemur enn fremur fram að skilyrði skólaakstursstyrks sé að nemandi verði að sækja skóla fjarri fjölskyldu sinni. Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til unnustu sinnar í lok ágúst 2005, en sambúð kæranda og unnustu hans, B, hefur ekki verið skráð í þjóðskrá.

 

Hugtakið fjölskylda er ekki skýrt í lögum um námsstyrki en í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 79/2003 er hugtakið skýrt með eftirfarandi hætti:

Hugtakið „fjölskylda“ hefur ekki verið skilgreint í lögum, enda er fyrst og fremst um félagslegt hugtak að ræða. Lög hafa af þeim sökum ekki fjallað um fjölskylduna sem heildstætt hugtak heldur frekar um einstaklinga innan fjölskyldunnar. Vegna sérstaks eðlis þess málaflokks sem hér um ræðir verður þó ekki hjá því komist að skilgreina fjölskylduna nánar í frumvarpinu. Með hugtakinu „fjölskylda“ er átt við foreldra nemanda, nánar tiltekið kynforeldra, kjörforeldra, fósturforeldra og stjúpforeldra, svo og ömmur og afa nemandans; maka samkvæmt hjúskap aðila eða maka samkvæmt staðfestri samvist; sambúðaraðila í óvígðri sambúð og svo börn nemanda, þ.m.t. kynbörn, kjörbörn, stjúpbörn eða fósturbörn.

Samkvæmt framansögðu var það ætlun löggjafans við setningu laga nr. 79/2003 að óvígð sambúð félli undir hugtakið fjölskylda.

 

Eins og staðfest var í nýlegum úrskurði ráðuneytisins í námsstyrkjamáli, uppkveðnum 9. febrúar 2007, er skráning í þjóðskrá skilyrði þess að sambúð uppfylli skilyrði c. liðar 2. gr. reglugerðar nr. 692/2003. Með hliðsjón af framangreindu er það mat ráðuneytisins að gera verði þá lágmarkskröfu til umsækjanda um námsstyrk, sem byggir kröfu sína á sambúð með vísan til c. liðar 2. gr. reglugerðar nr. 692/2003, að sambúðin hafi verið skráð í þjóðskrá. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hafði skráð lögheimili sitt á sama stað og unnusta hans en ekki tilkynnt sambúðina til þjóðskrár. Af framangreindum lögskýringargögnum verður ráðið að það var aldrei ætlun löggjafans að tengdafjölskylda nemanda kæmi til álita sem fjölskylda í skilningi laga um námsstyrki. Því er óhjákvæmilegt að staðfesta hina kærðu ákvörðun eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Hin kærða ákvörðun námsstyrkjanefndar, dags. 5. apríl 2006, um synjun námsstyrks til A á vorönn 2006 er staðfest.

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta