Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Brottvikning úr skóla

Ár 2009, miðvikudagur 1. júlí, var kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svofelldur

 

 

 

ÚRSKURÐUR

 

 

Kæruefnið

 

I.

Þann 6. janúar sl. barst menntamálaráðuneytinu stjórnsýslukæra A og B (kærendur) f.h. sonar þeirra, C nemanda við skóla X. Kærð er sú ákvörðun skólastjóra skóla X að vísa C tímabundið úr skóla, dagana 16. og 17. desember sl., en ákvörðunin var tilkynnt foreldrum með bréfi, dags. 16. desember 2008.

 

Af kærunni má ráða að kærendur geri þær kröfur að framangreind ákvörðun skólastjóra Akurskóla verði felld úr gildi.

 

Af athugasemdum skólastjóra skóla X, mótt. 23. janúar sl., má ráða að þess sé krafist að ákvörðun um tímabundna brottvísun nemandans, dags. 16. desember sl., verði staðfest.

 

II.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 14. janúar sl., var óskað eftir afstöðu skólastjóra til fyrirliggjandi kæru, auk upplýsinga um meðferð málsins og stöðu þess. Umsögn skólastjóra um kæruna barst ráðuneytinu með bréfi, mótt. 23. s.m., og var send kærendum með bréfi, dags. 10. febrúar sl. Að beiðni kærenda var frestur til að skila athugasemdum við umsögn skólastjóra framlengdur og bárust athugasemdir þeirra með bréfi, mótt. 14. apríl sl.

 

Málavextir og málsástæður

 

I.

Í máli þessu er deilt um hvort sú ákvörðun  að vísa C tímabundið úr skóla X hafi verið lögmæt. Í upphafi skal tekið fram að verulegur ágreiningur er hjá málsaðilum um málavexti og ber að skoða málavaxtalýsingu í því ljósi.

 

Í kæru er einnig vikið að atburði sem átt hafi sér stað 4. september sl., þar sem foreldrar ásaka einn kennara skólans um að hafa beitt son þeirra harðræði, en skólastjóri hefur í umsögn sinni mótmælt þeim fullyrðingum foreldra. Fram kemur í athugasemdum foreldra að 6. apríl sl. hafi þeim þætti málsins verið vísað til barnaverndarnefndar og fræðsluyfirvalda í bæjarfélagi Y. Í lögum um grunnskóla er sérstaklega kveðið á um það í hvaða málum unnt er að skjóta ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli laganna til endanlegrar úrlausnar menntamálaráðherra. Kæruréttur er því almennt ekki fyrir hendi nema á grundvelli heimildar í einstökum ákvæðum laganna. Það er mat ráðuneytisins að þessi þáttur kærunnar lúti að meintri háttsemi viðkomandi starfsmanns skólans, en ákvæði laga um grunnskóla gera ekki ráð fyrir því að slík mál sæti kæru til ráðuneytisins. Það fellur því utan valdsviðs þess að hafa eftirlit með störfum starfsmanna sveitarfélaga eða hvernig fjallað er um slík mál af hálfu skólastjóra, sem fer m.a. með starfsmannamál grunnskóla eða eftir atvikum sveitarstjórnar sem fer með æðsta vald í málefnum sveitarfélagsins. 

 

II.

Þann 16. desember sl. ritaði skólastjóri skóla X bréf til kærenda þar sem tilkynnt er um tímabundna brottvísun sonar þeirra úr skólanum í tvo daga, 16. og 17. sama mánaðar, vegna brota á 14. gr. laga um grunnskóla. Þá er bent á að samkvæmt stjórnsýslulögum hafi foreldri/forráðamaður og nemandi rétt til að andmæla málsmeðferð, framlögðum gögnum og ákvörðun sem skólastjóri kann að taka síðar. Í bréfinu eru kærendur boðaðir á fund í skólanum 18. s.m., ásamt umsjónarkennara og yfirsálfræðingi Fræðsluskrifstofu bæjarfélags Y.

 

Í fyrirliggjandi kæru mótmæla kærendur harðlega þeirri meðferð sem sonur þeirra er sagður hafa þurft að þola af hálfu kennara síns og skólastjóra. Af gögnum málsins má ráða að samskiptaörðugleikar hafa verið milli kærenda og skólayfirvalda, en meðal gagna málsins er útprentun úr Mentor þar sem ýmis atvik, sem varða samskipti C við nemendur og starfsmenn skólans, eru rakin. Af hálfu kærenda eru gerðar athugasemdir við atvikalýsingu þar sem hún sé rituð eftir frásögn nemenda, en kennari hafi ekki verið viðstaddur.  Í skýringum skólastjóra eru afskipti skólans af C rakin frá því hann kom í skólann árið 2005, og samskipti skólans við foreldra. Af skýringum skólastjóra má ráða að atvik það, sem fjallað er um í fyrirliggjandi kæru, hafi loks orðið þess valdandi að tekin var ákvörðun um tímabundinn brottrekstur C úr skólanum.

 

Í kæru er fjallað um atvik það sem mun hafa átt sér stað þann 15. desember sl.  Samkvæmt frásögn í kæru mun C þann dag hafa lent í pústri við skólasystur sína og átti hann að hafa snúið upp á hendi hennar, snúið hana niður og sagt henni að sleikja gólfið. Taka foreldrar fram að umsjónarkennari hafi ekki verið vitni að þessum atburði, sem sé ritaður eftir frásögn stúlkunnar. Að sögn kærenda hafi vitni að atburðinum hins vegar lýst honum á þann veg að C hafi sett hendi skólasystur sinnar fyrir aftan bak þannig að hún rétt beygði bakið og hafi þá kveinkað sér. Hann hafi þá sleppt henni strax og beðið hana afsökunar, hún hafi sparkað í hann og farið til kennarans. Kennarinn hafi vísað C til skólastjóra en hann valið þann kost að fara beint heim,  þar sem hann hafi ekki treyst skólastjóra eða kennara sínum vegna fyrri atvika sem gerst höfðu í skólanum. 

 

Í umsögn skólastjóra við kæruna kemur fram að ástæða brottrekstrar C dagana 16. og 17. desember sl. hafi átt sér langan aðdraganda og hafi það atvik sem kæran fjallar um verið kornið sem fyllti mælinn. Kemur m.a. fram að C hafi hafið nám við skóla X haustið 2005, þegar skólinn tók til starfa, og ekki liðið á löngu þar til umsjónarkennari gerði athugasemdir við hegðun hans þar sem hann missti stjórn á skapi sínu. Í febrúar 2006 hafi skólastjórnendur óskað eftir sérfræðiaðstoð hjá skólasálfræðingi, þá hafi nemandinn fengið stuðningsviðtöl hjá skólasálfræðingi þar sem unnið var með reiðistjórnun.  Hafi C sýnt starfsmönnum skólans óvirðingu með hegðun sinni, auk þess sem komið hafi upp mál er tengdust neikvæðri hegðun hans. Þá hafi móðir eldri drengs í skólanum tilkynnt að C legði son hennar í einelti og á skólaárinu 2006-2007 hafi skólastjórnendur oft fengið kvartanir frá foreldrum þess efnis að C væri að áreita yngri börn í skólanum. Fleiri atvik eru nefnd í umsögn skólastjóra, sem vísar til skráninga í Mentor auk þess sem ekki hafi öll atvik verið skráð þar. Eru þar m.a. nefnd tilvik um að C hafi gengið í skrokk á öðrum nemendum og lent í ýmsum útistöðum við þá, auk þess að hafa sýnt starfsfólki skólans dónaskap.  

 

Í athugasemdum kærenda við umsögn skólastjóra eru hins vegar gerðar margvíslegar athugasemdir við lýsingar skólastjóra af málsatvikum, sem þau telja í heild sinni fjarri því að vera sannleikanum samkvæmt. Þá hafi kærendur iðulega fengið þau viðbrögð frá skólanum að það sem úrskeiðis hafi farið sé C að kenna. Telja kærendur að þegar þau hafa borið fram kvartanir við skólann þá sé þeim kvörtunum iðulega eytt og þess í stað brugðist við eins og sonur þeirra eigi ávallt sökina.

 

Rökstuðningur niðurstöðu

 

I.

Í 3. mgr. 14. gr. laga um grunnskóla er kveðið á um að reynist hegðun nemanda verulega áfátt beri kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og kennara hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans sem leita leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda. Í 4. mgr. sömu greinar kemur fram að skólastjóri geti vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið meðan mál skv. 3. mgr. er óútkljáð, enda tilkynni hann foreldrum nemanda og skólanefnd tafarlaust þá ákvörðun. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Brottvísun úr skóla sem er ætlað að vara lengur en einn dag telst stjórnvaldsákvörðun og gilda því um hana ákvæði stjórnsýslulaga, sbr. álit umboðsmanns Alþingis 24. febrúar 1994, máli nr. 761/1993. Um þá ákvörðun sem tilkynnt var kærendum með bréfi, dags. 16. desember sl., um brottvísun sonar þeirra úr skólanum, giltu því ákvæði stjórnsýslulaga. 

II.

Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, er kveðið á um að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í órjúfanlegum tengslum við greinina eru ákvæði 14. og 15. gr. sömu laga, þar sem annars vegar er mælt fyrir um skyldu stjórnvalds til þess að tilkynna aðila um meðferð máls og um rétt aðila til þess að fá að kynna sér gögn máls. Í athugasemdum með frumvarpi til laga þeirra sem síðan urðu að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 kemur fram að kjarni andmælareglunnar sé sá að ekki verði tekin ákvörðun um réttarstöðu aðila fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á því að kynna sér málsgögn og málsástæður sem ákvörðun byggist á og að tjá sig um málið. Í reglunni felist því að aðili máls skuli eiga kost á því að tryggja réttindi sín og hagsmuni með því að kynna sér gögn máls og málsástæður sem ákvörðun mun byggjast á, leiðrétta fram komnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Loks segir að andmælareglan eigi ekki aðeins að tryggja hagsmuni aðila. Tilgangur hennar sé einnig sá að stuðla að því að mál verði betur upplýst. Tengist hún þannig rannsóknarreglunni, þ.e. að stjórnvöld eigi að stuðla að því að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga (Alþt. 1992-93, A-deild, bls. 3295).

 

Samkvæmt gögnum málsins sendi skólastjóri bréf til kærenda, dags. 16. desember sl.  þar sem tilkynnt var um brottvísun C úr skóla X dagana 16. og 17. desember. Í bréfinu bendir skólastjóri á rétt málsaðila til að „andmæla málsmeðferð, framlögðum gögnum og ákvörðun sem skólastjóri kann að taka síðar.“ Af þessu telur ráðuneytið mega ráða að þess misskilnings hafi gætt hjá skólastjóra að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið stjórnvaldsákvörðun, þ.e. ákvörðun um réttindi og skyldur umrædds nemanda sem lyti ákvæðum stjórnsýslulaga eins og kveðið er á um í 4. mgr. 14. gr. laga um grunnskóla.

 

Samkvæmt því sem gögn málsins bera með sér höfðu kærendur þessa máls því ekki átt kost á að koma á framfæri andmælum sínum við þá ákvörðun skólastjóra að vísa syni þeirra úr skólanum, sem þegar hafði verið tekin og þeim tilkynnt um samdægurs. Var réttur kærenda samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga til að kynna sér þau gögn og rök er lágu til grundvallar ákvörðuninni og koma á framfæri athugasemdum og andmælum við hana því í reynd ekki virtur við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Brot á andmælarétti aðila máls telst verulegur annmarki á stjórnvaldsákvörðun og verður því ekki hjá því komist að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun skólastjóra um brottreksturinn, eins og nánar greinir í úrskurðarorðum. 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun skólastjóra skóla X um tímabundna brottvikningu C úr skóla X, sem tilkynnt var um í bréfi til forelda hans, dags. 16. desember 2008, er felld úr gildi.

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta