Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Ótímabundin vísun úr framhaldsskóla

Ár 2013, miðvikudagurinn 13. júní, var kveðinn upp í mennta– og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR

I

Með bréfi, sem barst mennta– og menningarmálaráðuneyti þann 18. desember sl. kærðu X and Y, f.h. sonar síns Z (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun skólameistara A frá 11. desember sl. að vísa kæranda ótímabundið úr skólanum skv. 33. gr. a laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008.  Með hliðsjón af gögnum málsins er krafa kæranda skilin á þann hátt að þess sé krafist að ákvörðun skólameistara um að vísa kæranda tímabundið úr A verði felld úr gildi. Af hálfu stjórnenda skólans má ráða að hin kærða ákvörðun sé staðfest.

Þann 15. nóvember sl. fékk kærandi munnlega áminningu frá skólameistara þess efnis að ef hann myndi nota munntóbak aftur í skólanum myndi honum verða vikið úr skólanum. Þann 10. desember sl. er kæranda sent tölvubréf þar sem óskað er eftir að kærandi komi til viðtals við skólameistara daginn eftir og gott væri ef foreldrar gætu komið með. Þann 11. desember sl. er kæranda gert að segja sig frá skólanum sökum munntóbaksnotkunar en gefinn kostur á að taka haustannarpróf í janúar. Honum var gerð munnlega grein fyrir því að hann færi ekki sjálfkrafa inn á vorönn í skólanum heldur yrði hann að sækja sérstaklega um skólavist. Með tölvubréfi, dags. 18. desember sl., skaut kærandi ákvörðun skólameistara til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

II

Stjórnsýslukæra var móttekin í ráðuneytinu 18. desember sl. Með bréfi dags. 11. janúar sl., leitaði ráðuneytið umsagnar og afstöðu A um kæruna. Umsögn og afstaða skólans barst ráðuneytinu 22. janúar sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 22. febrúar sl., voru athugasemdir A kynntar kæranda og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Kærandi sendi ráðuneytinu athugasemdir við umsögn skólans með bréfi, mótt. 11. mars sl.

III

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður hér einungis fjallað um málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

Í máli þessu er deilt um hvort farið hafi verið að stjórnsýslulögum þegar skólameistari ákvað að vísa kæranda úr skólanum en ákvörðunina má rekja til brota kæranda á skólareglum skólans. Ágreiningur er hjá málsaðilum um málavexti og ber að skoða málavaxtalýsingu þessa í því ljósi.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi notað munntóbak í skólanum og verið boðaður á fund skólameistara vegna þessa með tölvubréfi. Þar hafi honum verið veitt munnleg áminning og gert grein fyrir að skyldi þessi hegðun endurtaka sig yrði honum vikið úr skólanum. Foreldrum kæranda var ekki boðið á fyrrgreindan fund né fengu þeir skriflegar upplýsingar um málið en kærandi var ólögráða á þessum tíma. Hins vegar var kæranda gert að ræða við foreldra sína og biðja þá að hafa samband við skólameistara. Kærandi lét foreldra sína vita og höfðu þeir samband við skólameistara. 

Einnig kemur fram í kæru að þann 11. desember 2012 hafi kærandi aftur notað munntóbak í skólanum og honum ásamt foreldrum hans sent tölvubréf frá skólameistara þar sem kærandi er boðaður á fund daginn eftir. Á þeim fundi var kæranda vikið úr skóla út skólaönnina en gefinn kostur á að taka haustpróf í janúar. Þar er honum einnig gerð grein fyrir að kærandi fari ekki beint inn í skólann á vorönn heldur verði hann að sækja sérstaklega um skólavist á vorönn ásamt því að gera grein fyrir hvernig hann hyggist stunda nám næstu vorönn.

Í umsögn A er staðfestur framangreindur málsferill en vísað er til uppeldissjónarmiða skólameistara um að hann vilji sýna ólögráða nemendum sem brjóta skólareglur það traust að skýra sjálfir foreldrum sínum frá málavöxtum. Einnig kemur fram í umsögn A að litið væri svo á að kærandi hefði sagt sig úr skóla þar sem hann hefði ekki farið að skólareglum. Það væri hluti af uppeldi þeirra að þurfa að sækja formlega um skóla, t.d. vegna brota á skólareglum. Hins vegar kemur fram í umsögn A að til þess að draga úr ósætti og vanlíðan kæranda hefði verið ákveðið að krefjast þess ekki af honum að sækja formlega um skólavist á vorönn 2013. Kæranda hafi verið tilkynnt sú ákvörðun með tölvubréfi frá skólanum þann 20. desember sl. Fram kemur í umsögn A að kærandi hóf nám sitt í annað sinn á fyrsta ári haustönnina 2012. Hafði kærandi ekki sinnt námi sínu að fullu og er þeim nemendum sem sinna námi sínu ekki að fullu gert að gera grein fyrir því formlega hvernig þeir hyggjast sinna námi sínu betur á vorönn. Slíkt skjal er sent heim til foreldra nemenda til undirritunar. Í því skjali er ákvæði um skólasókn, ástundun og verkefnaskil og aðgengi foreldris að þeim upplýsingum um barn þeirra. Þetta ferli er gert til að hvetja þá nemendur sem eru í brottfallshættu úr skólanum til að gera sitt besta í náminu og tengist ekki brottvísun kæranda úr skólanum.

Í umsögn kæranda kemur fram að hann telji sig hafa verið vísað úr skólanum en ekki sagt sig úr honum og hafi það haft neikvæð áhrif á hann. Hann vísar í reglur skólans um viðbrögð þegar brot á skólareglum verður. Að auki er kærandi ósáttur við málsmeðferð skólans og finnst refsingin ekki vera í neinu samhengi við brotið.

IV

Um A gilda lög um framhaldsskóla nr. 92/2008. Samkvæmt 3. gr. laganna fer mennta- og menningarmálaráðherra með yfirstjórn þeirra mála er lögin taka til og ber ábyrgð á aðalnámskrá, eftirliti með skólastarfi og námsefni, ráðgjöf um kennslu og þróunarstarf í framhaldsskólum og söfnun og dreifingu upplýsinga um skólastarf. Í 2. mgr. 6. gr. laganna segir að skólameistari veiti skólanum forstöðu. Hann stjórni daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gæti þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Þá segir í 1. mgr. 6. gr. laganna að mennta- og menningarmálaráðherra skipi skólameistara til fimm ára í senn að fenginni tillögu hlutaðeigandi skólanefndar. Með hliðsjón af framansögðu heyrir A stjórnarfarslega undir mennta- og menningarmálaráðherra og skólinn því lægra sett stjórnvald gagnvart honum. Í 5. mgr. 33. gr. a laganna kemur fram að við ákvörðun skólameistara um rétt eða skyldur skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, svo sem brottvísun úr skóla í fleiri en einn skóladag eða að nemanda sé meinað að sækja kennslutíma í ákveðnu fagi eða námsgrein um nokkurt skeið, skal fylgja reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð. Um málsskot gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga. Hin kærða ákvörðun var tekin af skólameistara A í máli þessu og hún er því réttilega kærð til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og innan kærufrests samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga.

Það að A beri við að kærandi hafi sjálfur sagt sig úr skólanum en ekki að skólinn hafi vísað honum úr honum á sér ekki stoð. Kæranda var meinað að mæta til skóla sökum ákvörðunar A þar til í skólabyrjun næstu annar og því er um að ræða tímabundna brottvísun úr skóla.

Í fyrrgreindri 33. gr. a framhaldsskólalaga kemur fram að nemendum beri að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks framhaldsskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur. Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber skólanum að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans sé hann yngri en 18 ára. Meðan mál skv. 3. mgr. er óútkljáð getur skólameistari vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann nemandanum, og foreldrum hans sé hann yngri en 18 ára, tafarlaust þá ákvörðun. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Skólinn skal leiðbeina nemanda yngri en 18 ára, sem vísað er úr skóla ótímabundið, um mögulega endurkomu í nám óski hann þess.

Í 13. gr. stjórnsýslulaga er meginregla stjórnsýslulaga um andmælarétt. Samkvæmt reglunni skal aðili máls eiga þess kost á að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum máls afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt augljóslega óþarft. Í andmælarétti felst meðal annars að málsaðili á að eiga kost á því að gæta réttar síns og hagsmuna með því að kynna sér gögn máls, tjá sig um efni þess og framkomnar upplýsingar í því og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun. Óumdeilt er í máli þessu að kærandi var staðinn að því að brjóta skólareglur og fékk leyfi til að andmæla þá þegar. Hins vegar er það alveg skýrt að veita átti foreldrum kæranda rétt til að tjá sig áður en ákvörðun var tekin þar sem kærandi var ólögráða.

Eins og fyrr greinir er óumdeilt að kærandi braut skólareglur en deilur eru um hvort að fylgt hafi verið stjórnsýslulögum þegar ákvörðun um brottvísun úr skólanum var tekin.

Í 12. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um að stjórnvöld skulu því aðeins taka íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægari móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Í meðalhófsreglunni felast þrír meginþættir. Í fyrsta lagi er gerð sú krafa að efni ákvörðunarinnar sé til þess fallið að ná því markmiði sem að er stefnt, í öðru lagi skal velja það úrræði sem vægast er þar sem fleiri úrræða er völ og geta þjónað því markmiði sem að er stefnt og í þriðja lagi er gerð sú krafa að gætt sé hófs í beitingu þess úrræðis sem valið hefur verið. Því er óheimilt að beita úrræðinu á harkalegri hátt en nauðsyn ber til. Eins og áður hefur verið rakið varðar ákvörðun um brottrekstur mikilverða hagsmuni nemenda, réttindi þeirra og skyldur og er íþyngjandi fyrir þann sem í hlut á.

Af gögnum þessa máls verður ekki séð að í upphafi hafi verið könnuð önnur og vægari úrræði sem kynnu að hafa komið í veg fyrir að grípa þyrfti til brottvísunar og krefja kæranda um að sækja um skólavist að nýju. Hins vegar var kæranda heimilt að þreyta haustannarpróf þrátt fyrir brottvísun og skólinn dró hluta af ákvörðun sinni til baka þannig að kæranda var heimilt að stunda nám sitt án þess að sækja um skólavist að nýju. Með þessu telur ráðuneytið að komið hafi verið í veg fyrir brot á meðalhófsreglunni skv. 12. gr. stjórnsýslulaga en telur þó að viðurlög við brotinu hafi verið fremur harkaleg þrátt fyrir að dregið hafi verið úr þeim.

A hefur sett sér vinnureglur og birt þær á heimasíðu skólans um hvernig eigi að bregðast við þegar nemandi brýtur skólareglur. Í þeim reglum kemur m.a. fram að brjóti nemandi reglur skólans er honum veitt skrifleg viðvörun áður en til áminningar kemur. Fái nemandi áminningu skuli hún vera skrifleg þar sem komi fram tilefni áminningar og viðbrögð ef nemandi brjóti aftur af sér. Nemandanum skal gefinn kostur til að andmæla áminningu. Þar að auki kemur fram að brjóti ólögráða nemandi reglur skólans eru foreldrar látnir vita um það með skriflegum hætti. Senda skal foreldrum ólögráða nemanda afrit af skriflegum viðvörunum og áminningum sem nemandinn hlýtur. Ráðuneytið telur þessar reglur vera til fyrirmyndar og ámælisvert að skólameistari fari ekki eftir eigin reglum. Þrátt fyrir góðar reglur bendir ráðuneytið á að nauðsynlegt sé að heimila andmæli áður en ákvörðun sé tekin til þess að andmælaréttur sé virtur í reynd.

Að lokum vill ráðuneytið taka það fram að skv. 14. gr. stjórnsýslulaga ber stjórnvaldi að vekja athygli aðila máls á því að mál hans sé til meðferðar hjá stjórnvaldi eigi hann rétt á að tjá sig. Þegar um er að ræða brottvísun úr skóla þá á aðili eins og að framan greinir rétt til þess að tjá sig um málið áður en ákvörðun er tekin. Stjórnsýslulögin mæla ekki fyrir um form þessarar tilkynningar. Eðlilegast er þó að tilkynning um meðferð máls er varðar mikilvæga hagsmuni, eins og brottvísun, sé skrifleg. Þá telur ráðuneytið eðlilegt að íþyngjandi ákvarðanir séu gerðar skriflegar m.t.t. réttaröryggis borgaranna.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða ráðuneytisins í máli þessu að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi A átt að fylgja þeim vinnureglum sem skólinn hefur sett sér sjálfur, tilkynna foreldrum kæranda um meðferð máls sem og að veita þeim möguleika á að tjá sig um málavexti. Einnig lítur ráðuneytið svo á að þegar um svo alvarleg viðurlög við brotum er að ræða eins og brottvísun úr skóla þá beri að hafa alla málsmeðferð skriflega. Er það mat ráðuneytisins að umræddir annmarkar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið slíkir að þeir leiði óhjákvæmilega til ógildingar hennar, eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun skólameistara A um brottvísun kæranda úr skólanum, sem tilkynnt var munnlega þann 11. desember 2012, er felld úr gildi.

 

 

Fyrir hönd ráðherra

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta