Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun námsstyrkjanefndar um greiðslu námsstyrks

Ár 2013, föstudagurinn 22. nóvember, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR:

 

I.

Kröfur aðila.

Með tölvubréfi sem barst mennta- og menningarmálaráðuneytinu, þann 6. september sl. kærði A f.h. barns síns B (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun námsstyrkjanefndar (hér eftir kærði), dags. 5. júlí sl., um að synja umsókn hans um greiðslu námsstyrk fyrir vorönn 2013 skv. lögum um námsstyrki nr. 79/2003 og reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003, með áorðnum breytingum.

Kærandi fer fram á að ákvörðun kærða verði felld úr gildi og honum verði úrskurðaður námsstyrkur fyrir vorönnina 2013.

Af hálfu kærða er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda sé hún í samræmi við lög og reglur.

II.

Málsatvik

Kærandinn, sem stundar nám við [framhaldsskólann] X, sótti um námsstyrk skv. lögum um námsstyrki og reglugerð um námsstyrki fyrir vorönnina 2013. Með bréfi kærða, dags. 5. júlí sl., var umsókninni synjað á þeim grundvelli að kærandi hafði áður fengið greiddan námsstyrk í átta annir en skv. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar um námsstyrki er hámarksaðstoðartími fjögur ár eða átta annir.

III.

Málsmeðferð.

Stjórnsýslukæra kæranda var móttekin 6. september sl. Með bréfi, dags. 12. september sl., leitaði ráðuneytið umsagnar kærða um kæruna. Umsögn kærða barst ráðuneytinu 9. október sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 17. október sl., voru athugasemdir kærða kynntar kæranda og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvubréfi móttekið þann 24. október sl.

Samkvæmt 3-lið 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 71/2013 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem er gerður með vísan til 15. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og laga um Stjórnarráðið nr. 115/2011 kemur fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið fari með námsaðstoð, þar á meðal: námslán og námsstyrki. Ákvörðun nefndarinnar er því réttilega kærð til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og barst hún ráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

IV.

Málsástæður og lagarök kæranda.

Í stjórnsýslukærunni kemur fram að kærandi hafi greinst með krabbamein fyrir […] árum og við hafi tekið meðferðarferli með meðfylgjandi áfallastreituröskun og lýtalæknisaðgerðum. Hann hafi gert það meira af vilja en mætti að sækja nám í [framhaldsskólanum] Y á meðan þessu stóð. Það nám gekk með lágmarksárangri, enda hafi hann verið oft veikur og mætingar takmarkaðar í skólann. Fyrir […] síðan hafi hann verið andlega og líkamlega örmagna og nauðsynlegt fyrir andlegt bataferli að skipta um umhverfi. Hann hafi byrjað nám við X og hefur nú lokið fjórum önnum og stefni á útskrift þaðan.

Kærandi óskar eftir að ráðuneytið gerir undantekningu frá lögunum og ógildi úrskurð námsstyrkjanefndar þar sem hann hafi verið veikur. Kærandi leggur til að, þar sem hann hafi fengið skólaakstursstyrk í tvö ár og dvalarstyrk í tvö ár, draga frá skólaaksturstyrkinn þannig að ekki sé verið að mismuna nemendum.

V.

Málsástæður og lagarök kærða.

Í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun, sbr. bréf kærða, dags. 3. október sl., segir að skv. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar um námsstyrki er hámarksaðstoðartími fjögur ár eða átta annir. Þar sem kærandi hafi nú þegar fengið greiddan námsstyrk í átta annir sem og að engin heimild er til að víkja frá hámarksaðstoðartíma umfram það sem kveðið er á um í reglugerðinni hafi hin kærði ekki geta fallist á að veita kæranda námsstyrk á vorönn 2013.

Kærði telur ákvörðun sína í máli þessu vera í samræmi við lög og reglur og fer fram á það að ráðuneytið staðfesti hana.

VI.

Rökstuðningur niðurstöðu.

Um skilyrði laga um námsstyrki, nr. 79/2003.

Í lögum um námsstyrki nr. 79/2003 er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga. Samkvæmt 2. gr. laganna njóta m.a. þeir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og geta ekki stundað sambærilegt nám frá lögheimili sínu eða öðrum jafngildum dvalarstað. Í 8. gr. laganna segir að mennta- og menningarmálaráðuneytið setji reglugerð er mæli nánar fyrir um hvernig lögin skuli framkvæmd.

Reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur mælt nánar fyrir um framkvæmd laganna. Við móttöku framangreindrar stjórnsýslukæru var í gildi reglugerð nr. 692/2003, með síðari breytingum, sem kærði hefur byggt á við úrlausn máls þessa. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja tilgreindum skilyrðum rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni.

Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að hámarksaðstoðartími er fjögur ár eða átta annir.

Niðurstaða.

Umsókn kæranda um námsstyrk fyrir vorönnina 2013 var synjað þann 5. júlí sl. Í lögum um námsstyrki nr. 79/2003 eru skilyrði fyrir því að nemandi geti notið réttar til námstyrkja. Í 8. gr. laganna kemur fram að mennta- og menningarmálaráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. þeirra reglugerðar kemur fram að hámarksaðstoðartími er fjögur ár eða átta annir.

Í máli kæranda reynir fyrst og fremst á það hvort heimild sé fyrir hendi að víkja frá ákvæðum reglugerðar um hámarksaðstoðartíma sökum þess að hann hafi verið veikur á þeim tíma er hann naut námsstyrkja.

Í fyrrgreindum lögum og reglugerð um námsstyrki er ekki að finna heimild til að veita undanþágu frá skilyrðum þess að fá úthlutað námsstyrk. Það er því ekki á valdi ráðuneytisins að ógilda úrskurð námsstyrkjanefndar í umræddu máli á þeim forsendum.

Kærandi hefur fengið skólaaksturstyrk tvö ár og dvalarstyrk í tvö ár. Vegna athugasemd kæranda um að hægt sé að draga skólaakstursstyrk sem hann fékk í tvö ár frá á þann hátt að ekki sé verið að mismuna nemendum ber að benda á að samkvæmt 3. gr. laganna um námsstyrki skiptist námsstyrkur í þrenns konar styrki. Hann skiptist í dvalarstyrk, skólaakstursstyrk og sérstaka styrki sem að námsstyrkjanefnd er heimilt að veita efnalitlum nemendum. Í 1. gr. reglugerðarinnar um námsstyrki koma fram almenn skilyrði sem að nemendur verða að fullnægja til að eiga rétt á námsstyrk. Í 2. mgr. 1. gr. kemur fram að hámarksaðstoðartími er fjögur ár eða átta annir og má því telja að hámarksaðstoðartíminn sé tilgreindur sem heildartími fyrir allar tegundir námsstyrkja, skv. lögum um námsstyrki, á þann hátt að ekki sé hægt að fara yfir hámarkstíma óháð því hvaða tegund af námsstyrk nemandi hefur áður fengið.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur að afgreiðsla námsstyrkjanefndar hafi verið í samræmi við 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 692/2003, með síðari breytingum, sbr. 8. gr. laga um námsstyrki, og að óhjákvæmilegt sé að byggja niðurstöðu á þeim lögum og reglugerð sem var í gildi þegar kærandi sótti um námsstyrk fyrir vorönnina 2013.

Með vísan til þess sem að framan greinir er hin kærða ákvörðun staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin kærða ákvörðun um synjun um styrk til jöfnunar á námskostnaði til B, dags. 5. júlí 2013, vegna vorannar 2013 er staðfest.   

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta