Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Undanþága frá skyldunámi í íþróttum

Ár 2011, föstudaginn 10. júní, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur úrskurður

Kæruefnið

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu barst með tölvubréfi, þann 7. október 2010, stjórnsýslukæra X (hér eftir nefnd kærandi).  Kærð er sú ákvörðun skólastjóra B að hafna beiðni kæranda um undanþágu frá skyldunámi í íþróttum fyrir hönd dóttur hennar, Y, nemanda í 8. bekk B.  Af málflutningi kæranda má ráða að gerð sé sú krafa að hin kærða ákvörðun skólastjóra B verði felld úr gildi.  Í greinargerð Reykjavíkurborgar fyrir hönd B er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. 

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 19. október 2010, var óskað umsagnar skólastjóra B um kæruna, sem barst með bréfi borgarlögmanns, mótt. 26. sama mánaðar.  Umsögnin var send til kæranda með bréfi ráðuneytisins, dags. 1. desember sl., og gefinn kostur á að koma að athugasemdum, sem bárust með tölvubréfi, mótt. 7. sama mánaðar.  Með bréfi ráðuneytisins, dags. 28. apríl sl., var kallað eftir nánari skýringum skólastjóra og bárust svör borgarlögmanns við því erindi með bréfi, mótt. 13. maí sl.  Það bréf var kynnt kæranda með tölvubréfi ráðuneytisins, dags. 25. maí sl., og bárust athugasemdir kæranda samdægurs.

Málsatvik og málsástæður I.

Fram kemur í kæru að dóttir kæranda, Y, nemandi í 8. bekk B, stundi einnig nám í listdansi á 5. stigi við Listdansskóla Íslands.  Það nám hafi hún stundað frá níu ára aldri og æfi nú 8,5 klukkustundir á viku.  Kærandi hafi því lagt fram rökstudda beiðni um undanþágu fyrir Y í leikfimi hjá skólastjóra B með bréfi, dags. 8. september 2010.  Skólastjórinn hafi hins vegar hafnað beiðninni með bréfi, dags. 22. september sl., á þeim forsendum að það væri mat hans að listdansnám dóttur kæranda uppfyllti ekki eitt og sér lokamarkmið í íþróttum samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla 2007.  Þá var einnig vakin athygli á því í bréfinu að veitti skólastjóri tímabundna undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein skyldu foreldrar sjá til þess að nemendur ynnu upp það sem þeir kynnu að missa úr námi meðan á undanþágu stæði.  Slíkt teldi hann ekki mögulegt í þessu tilviki.  Þá benti skólastjóri kæranda á að skipulagt nám sem stundað væri utan B mætti meta sem valgrein við skólann.  Með tölvubréfi, dags. 24. september 2010, óskaði kærandi eftir því að skólastjóri endurskoðaði ákvörðun sína með tilliti til læknisvottorðs frá heimilislækni Y, þar sem fram kemur það mat hans að skólaleikfimi til viðbótar við nám stúlkunnar við Listdansskólann yki hættu á álagsmeiðslum og því væri æskilegt út frá læknisfræðilegu sjónarmiði að undanþága yrði veitt frá leikfimisiðkun í skólanum þar sem Y væri nú þegar í mikilli líkamsrækt.  Skólastjórinn tók ekki afstöðu til þess heldur vísaði málinu til Menntasviðs Reykjavíkurborgar.  Þá er vísað til þess í kærunni að samnemendur Yí Listdansskólanum sem stunda nám í öðrum grunnskólum hafi allir fengið þessa undanþágu, enda sé Listdansskólinn viðurkenndur af ráðuneytinu og kenni samkvæmt námskrá.  Um þetta hafi skólastjóra B verið vel kunnugt þegar hann hafnaði beiðninni.  Öll börn í grunnskólum borgarinnar eigi að hafa sömu réttindi og skyldur og þarna sé um mismunun að ræða sem ekki sé hægt að horfa framhjá.  Í kærunni er jafnframt vísað til óformlegs samtals kæranda við umboðsmanns barna þar sem gerðar hafi verið athugasemdir við meðferð máls þessa innan skólans.  Þá er tekið fram í kærunni að kæranda sé kunnugt um að skólastjóri B hafi veitt bekkjarsystur Y, sem æfir listhlaup á skautum, undanþágu frá leikfimi gegn framvísun læknisvottorðs.  Kæranda sé til efs að undanþágan hafi verið veitt vegna veikinda heldur mun frekar vegna læknisfræðilegs álits um aukna hættu á álagsmeiðslum sé leikfimi stunduð samhliða öðrum íþróttum.  Hér sé því ekki aðeins um að ræða mismunun milli skóla heldur einnig milli nemenda í sama skóla.

 

II.

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað á þeim forsendum að skólastjóra B sé heimilt en ekki skylt að veita nemendum undanþágu frá skyldunámi, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga um grunnskóla.  Tekið er fram að þau málefnalegu sjónarmið sem skólastjóri hafi lagt til grundvallar ákvörðun sinni byggist einkum á ákvæðum aðalnámskrár grunnskóla og skólanámskrá B, en samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um grunnskóla veiti skólastjóri skólanum faglega forustu.  Þá er vísað til þess að grunnskólarnir skulu reknir af sveitarfélögum, sbr. 5. gr. laganna og í samræmi við viðmiðunarkröfur aðalnámskrár grunnskóla, sbr. 24. og 25. gr.  Aðalnámskrá grunnskóla skilgreini og lýsi sameiginlegum markmiðum sem grunnskólum beri að stefna að, en í greinahlutum aðalnámskrár sem eru tólf alls sé fjallað um markmið, inntak og skipulag náms á tilteknum námssviðum.  Í sérstökum hluta aðalnámskrár grunnskóla, sem fjallar um greinasviðið íþróttir – líkams- og heilsurækt í grunnskóla sé sérstaklega fjallað um kröfur til náms og kennslu, áfangamarkmið og námsmat skólaíþrótta, auk þess sem þar komi fram að hlutverk íþróttakennslu í skólum sé að stuðla að því að grunnskólinn nái þeim markmiðum sem sett eru fram og vísa til líkams- og heilsuræktar í gildandi lögum um grunnskóla. Til nánari útfærslu á aðalnámskrá skuli grunnskólar gefa út skólanámskrá og starfsáætlun, sbr. 29. gr. laga um grunnskóla.  Þar komi fram að skólanámskrá skuli vera útfærsla á markmiðum og inntaki náms og námsmati annars vegar og starfsháttum og mati á árangri og gæðum skólastarfs hins vegar.  Auk þess skuli þar birtast stefna skólans og þau gildi sem hún grundvallast á og hvernig skólinn útfærir ýmis almenn fagbundin markmið aðalnámskrár, skipulag kennslu og kennsluhætti.  Í greinargerð Reykjavíkurborgar er vísað til skólanámskrár B og því haldið fram að samkvæmt námsmarkmiðum og gögnum máls að öðru leyti uppfylli ballettnám hvorki námsmarkmið aðalnámskrár grunnskóla né skólanámskrár B.  Styðjist sú niðurstaða við það að í umræddum námsmarkmiðum sé lögð rík áhersla á að nemandi fái tækifæri til að stunda fjölbreytta þjálfun í því skyni að öðlast færni og skilning á sem flestum íþróttagreinum.  Þannig sé gert ráð fyrir því að þjálfun nemenda nái til alhliða líkams- og heilsuræktar, almenningsíþrótta og íþróttagreina.  Þá komi fram í aðalnámskrá grunnskóla að nám samkvæmt aðalnámskrá sé skyldunám og því sé ekki um almennar undanþágur að ræða, en þar sé þó mælt fyrir um nokkrar undanþágur frá því.  Þá víki skólareglur B að undanþágum frá skyldunámi með tvennum hætti, annars vegar í formi leyfis og forfalla og hins vegar þegar veittar eru lengri undanþágur frá skyldunámi í íþróttum eða sundi af læknisfræðilegum ástæðum.  Reykjavíkurborg hafni því að læknisvottorð sem lagt hefur verið fram í málinu verði lagt til grundvallar undanþágu frá skyldunámi í íþróttum þar sem ekki sé þar staðfest að dóttir kæranda geti ekki sinnt skyldunámi í íþróttum sökum læknisfræðilegra ástæðna auk þess sem vottorðið sé hvorki tímabundið né ótímabundið.  Þá hafi skólastjóri B hafnað því að nemendum í sambærilegri aðstöðu að þessu leyti væri mismunað innan skólans þegar grennslast var fyrir um það með óformlegum hætti af hálfu Reykjavíkurborgar.  Sé því framkvæmd B í samræmi við reglur skólans um leyfi vegna íþrótta eða sunds, sbr. skólareglur skólans, en skólastjóri hafi hins vegar viðurkennt nám í íþróttum og listgreinum sem fram fara utan grunnskólans sem ígildi valfaga eins og vakin var athygli á í bréfi til kæranda, dags. 22. september sl.  Reykjavíkurborg hafnar því að ákvörðun skólastjóra B feli í sér ólögmæta mismunun og brot gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

III.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Reykjavíkurborgar bárust 6. desember sl.  Þar er tekið fram að allir samnemendur Y á 5. stigi við Listdansskóla Íslands sem sótt hafi um undanþágu frá leikfimi hjá sínum skólastjóra í öðrum grunnskólum Reykjavíkurborgar en B hafi fengið þá undanþágu.  Telur kærandi að hin kærða ákvörðun skólastjóra B standist engan veginn, hvorki með tilliti til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins né heldur út frá réttlætissjónarmiði.  Í óformlegum samskiptum kæranda við embætti umboðsmanns barna hafi verið lýst undrun með ákvörðun skólastjóra.  Dóttir kæranda eigi ekki að gjalda þess að reglur sem um þetta mál gilda séu ekki skýrar og eigi réttindi hennar ekki að vera háð geðþótta eins manns.  Þá þyki kæranda útskýring skólastjóra á því hvers vegna hann veitti bekkjarsystur Y undanþágu frá leikfimi gegn framvísun læknisvottorðs afar ótrúverðug.  Kæranda sé kunnugt um að sá nemandi stundi listhlaup á skautum tvisvar á dag og því sé alveg ljóst að sá nemandi sé ekki ófær um að stunda leikfimi af heilsufarsástæðum.  Kærandi hafi rökstuddan grun um að í því læknisvottorði sé vísað til áhættu af álagsmeiðslum, sem sé nákvæmlega sama orðalag og er í því læknisvottorði sem framvísað var til skólastjóra í máli þessu en hann kaus að taka ekki tillit til.  Séu lög og reglur sem lúta að málefnum barna í grunnskólum borgarinnar óskýr þá eigi nemendur ekki að gjalda þess.  Kærandi geti ekki unað því að nemendum sé mismunað og þetta mál snúist um réttlæti.  Það sé þegar búið að veita samnemendum Y undanþágu frá leikfimi skólaárið 2010-2011 sem ekki verði teknar til baka.  Það geti ekki talist eðlileg málsmeðferð að taka einn nemanda úr hópnum og beita hann órétti líkt og hér hafi verið gert.  Í greinargerð kærða kemur fram að af hálfu borgarlögmanns hafi verið grennslast fyrir um málið með óformlegum hætti í símtali við skólastjóra skólans, sem hafi vísað slíkum fullyrðingum alfarið á bug. 

 

IV.

Við meðferð máls þessa ákvað ráðuneytið að kalla eftir nánari skýringum skólastjóra á þessum þætti málsins með bréfi, dags. 28. apríl sl.  Þar var óskað nánari skýringa hans á þeim fullyrðingum kæranda að verið væri að mismuna tveimur nemendum í sambærilegri aðstöðu innan sama skóla og forsendum fyrir mismunandi afgreiðslu þessara tveggja mála, að því marki sem unnt væri að teknu tilliti til persónuverndar þess nemanda sem ekki á aðild að máli þessu.  Einnig var óskað upplýsinga um það hvort B geri undantekningarlaust kröfu um að læknisvottorð staðfesti að álagsmeiðsl hafi þegar átt sér stað svo undanþága frá leikfimi verði veitt eða hvort slík undanþága hafi í einhverjum tilvikum verið veitt vegna hættu á álagsmeiðslum í ljósi mikillar íþróttaiðkunar nemenda.  Í bréfi borgarlögmanns, mótt. 13. maí sl., er því hafnað að verið sé að mismuna nemendum í sambærilegri aðstöðu innan B og að læknisvottorð samnemanda Y sé með öllu ósambærilegt því læknisvottorði sem hafi legið til grundvallar í máli hennar.  Þegar af þeirri ástæðu sé því hafnað að um sambærileg mál sé að ræða.  Þá kemur fram að B geri undantekningarlaust kröfu um framlagningu læknisvottorðs þegar sótt er um undanþágu frá skyldunámi í íþróttum, en skólinn geri hins vegar ekki kröfu um að læknisvottorð staðfesti að álagsmeiðsl hafi þegar átt sér stað svo undanþága verði veitt.  Þá er tekið fram að skólastjóra B sé ekki kunnugt um að læknisvottorð um hættu á álagsmeiðslum í ljósi mikillar íþróttaiðkunar nemenda hafi nokkru sinni legið til grundvallar ákvarðanatöku í máli af þessu tagi innan skólans.

Kærandi sendi inn athugasemdir við framangreint bréf borgarlögmanns með tölvubréfi, dags. 25. maí sl.  Þar hafnar kærandi þeim skýringum skólastjóra að um ósambærileg mál sé að ræða.  Samnemandi Y stundi listhlaup á skautum, suma daga tvisvar á dag, og hafi tjáð henni að í umræddu læknisvottorði sé vísað til hættu á álagsmeiðslum vegna mikillar íþróttaiðkunar.  Þá segi það sig sjálft að nemandi sem leggur stund á svo erfiða íþrótt mörgum sinnum í viku sé ekki ófær um að sækja skólaleikfimi af heilsufarsástæðum.  Þá ítrekar kærandi að nemendum Listdansskóla Íslands sé mismunað hvað varðar undanþágu frá leikfimi eftir því hvaða grunnskóla þeir sækja, en allir samnemendur dóttur hennar sem hafi óskað eftir undanþágu frá leikfimi hjá sínum skólastjóra hafi fengið hana án þess að leggja fram læknisvottorð.  Skólastjórnendum beri að taka ákvarðanir með hagsmuni nemenda sinna í huga og slík mismunum sé ólíðandi.  Þá tekur kærandi fram að skólastjóra B hafi verið vel kunnugt um þessa málavöxtu þegar hann ákvað að hafna beiðni kæranda um undanþágu frá leikfimi fyrir dóttur hennar og vitað að sú ákvörðun myndi leiða til mismununar og óréttlætis.

 

Rökstuðningur niðurstöðu I.

Í 1. mgr. 15. gr. laga um grunnskóla er kveðið á um að nemendum sé skylt að sækja grunnskóla, sbr. 3. gr. sömu laga.  Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. er skólastjóra heimilt að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því.  Enn fremur er skólastjóra heimilt að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi grunnskólanáms. Sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti, sbr. 4. mgr. s.gr., er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður.  Foreldrar skulu þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.  Samkvæmt 5. mgr. 15. gr. gilda ákvæði stjórnsýslulaga um ákvörðun um veitingu undanþágu eða synjun hennar, sbr. 3. og 4. mgr. sömu greinar.  Er slík ákvörðun kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. laga um grunnskóla. 

II.

Samkvæmt 24. gr. laga um grunnskóla setur ráðherra grunnskólum aðalnámskrá sem er endurskoðuð reglulega.  Í henni er m.a. kveðið nánar á um uppeldishlutverk grunnskólans og meginstefnu í kennslu og kennsluskipan í samræmi við hlutverk grunnskólans, sbr. 2. gr. laganna.  Í 24. gr. laganna er nánar fjallað um þá þætti sem leggja skal áherslu á í aðalnámskrá.  Samkvæmt 25. gr. skal í aðalnámskrá kveða á um meginmarkmið náms og kennslu, uppbyggingu og skipan náms, svo og hlutfallslega skiptingu tíma milli námssviða og námsgreina í grunnskóla.  Þess skal gætt að námið verði sem heildstæðast, en hver grunnskóli ákveður hvort námsgreinar og námssvið eru kennd aðgreind eða samþætt.  Í aðalnámskrá skal skilgreina þekkingar- og hæfniþætti á hverju námssviði.  Þá skulu nemendur eiga þess kost að uppfylla námsmarkmið einstakra námsgreina og námssviða með mismunandi hætti.  Í aðalnámskrá skulu sett árangursviðmið um það hvenær nemandi telst hafa lokið einstökum námsgreinum eða námssviðum.  Einnig skulu sett ákvæði um inntak og skipulag náms í einstaka námsgreinum, þar á meðal skólaíþróttum.  Í 29. gr. laga um grunnskóla er kveðið á um að í hverjum grunnskóla skuli gefa út skólanámskrá og starfsáætlun, en skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð þeirra og skal semja þær í samráði við kennara.  Skólanámskrá er nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla um markmið, inntak náms og námsmat, starfshætti og mat á árangri og gæðum skólastarfs.

III.

Samkvæmt gildandi námskrá fyrir greinasviðið íþróttir – líkams- og heilsurækt greinist námssviðið í tvo hluta, skólaíþróttir og skólasund.  Í inngangskafla hennar er meðal annars kveðið á um að hlutverk íþróttakennslu í skólum sé að stuðla að því að grunnskólinn nái þeim markmiðum sem sett eru fram og vísa til líkams- og heilsuræktar í lögum um grunnskóla.  Mikilvægt sé að líta á greinarnar tvær sem eina heild þar sem lokamarkmið þeirra sé m.a. að stuðla að alhliða þroska hvers nemanda, efla heilsufar hans og afkastagetu.  Lögð er áhersla á fjölbreytt hreyfinám og mikilvægi þess að tengja fræðilega innlögn um íþróttir – líkams- og heilsurækt við útfærslu verklegra æfinga og leikja.  Íþróttakennslan sé vel til þess fallin að efla þessa samþættingu, en eitt meginmarkmið skólaíþrótta sé að örva skyn- og hreyfiþroska hvers nemanda, þrek hans og afkastagetu og stuðla þannig að heilbrigði einstaklingsins.  Framvinda eðlilegs þroska sé að miklu leyti háð hæfilegri áreynslu og samspili markvissra æfinga og leikja.  Með kerfisbundinni þjálfun eða útfærslu leikja sé hægt að auka starfsemi líkamans og sinna mismunandi þroskaþáttum.  Þá er gerð grein fyrir lokamarkmiðum í skólaíþróttum sem eiga að lýsa því í meginatriðum hvaða kunnáttu, skilnings og færni er krafist af nemendum almennt að loknu grunnskólanámi í greininni og þrepamarkmið í skólaíþróttum fyrir einstaka bekki grunnskólans útfærð nánar.

Í almennum hluta gildandi aðalnámskrár grunnskóla er meðal annars fjallað um undanþágur frá aðalnámskrá.  Þar er tekið fram að grunnskólinn sé lögboðinn og öllum nemendum á aldrinum 6-16 ára skylt að sækja skóla.  Námið samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla sé skyldunám, en nokkur ákvæði í lögum um grunnskóla heimili undanþágur frá skyldunámi og fyrirmælum aðalnámskrár.  Þá er tekið fram að samkvæmt lögum um grunnskóla sé heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því.  Með því sé t.d. átt við undanþágu nemenda með annað móðurmál en íslensku frá skyldunámi í dönsku og undanþágu fyrir nemendur með sérþarfir eða fötlun frá ákveðnum námsgreinum.  Einnig sé hægt að nýta þessa undanþáguheimild fyrir nemendur sem hafa sýnt afburðaárangur á ákveðnu sviði, t.d. í íþróttum.  Skólastjórum grunnskóla sé þannig heimilt, samkvæmt lögum um grunnskóla, að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein séu gildar ástæður fyrir hendi.  Veiti skólastjóri tímabundna undanþágu samkvæmt 15. gr. laganna skulu foreldrar sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.

IV.

Samkvæmt 29. gr. laga um grunnskóla skal í hverjum grunnskóla gefa út skólanámskrá og starfsáætlun, en skólanámskrá er nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla um markmið, inntak náms og námsmat, starfshætti og mat á árangri og gæðum skólastarfs, en jafnframt gefur hún kost á að laga fyrirmæli aðalnámskrár að sérstöðu hvers skóla og staðbundnum aðstæðum.  Þannig setur aðalnámskrá skólum almenn viðmið en hver skóli hefur tækifæri til að útfæra þau nánar í skólanámskrá, bæði með tilliti til nemendahóps skólans og þeirra kennsluhátta sem skólinn aðhyllist.  Eins og kveðið er á um í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla skal birta í skólanámskrá stefnu skólans og þau gildi sem hún grundvallast á og hvernig skólinn útfærir ýmis almenn og fagbundin markmið aðalnámskrár, skipulag kennslu og kennsluhætti.  Meðal gagna máls þessa er skólanámskrá B fyrir íþróttir í 8. bekk skólaárið 2010 – 2011.  Í greinargerð Reykjavíkurborgar er vísað til þess að þar sé að finna fjölþætt námsmarkmið fyrir almennar íþróttir og sund.  Þá er tekið fram að samkvæmt umræddum námsmarkmiðum og gögnum málsins að öðru leyti uppfylli ballettnám hvorki námsmarkmið aðalnámskrár grunnskóla né skólanámskrár B.  Styðjist sú niðurstaða við það að í námsmarkmiðum sé lögð rík áhersla á að nemandi fái tækifæri til að stunda fjölbreytta þjálfun í því skyni að öðlast færni og skilning á sem flestum íþróttagreinum.  Þannig sé gert ráð fyrir því að þjálfun nemenda nái til alhliða líkams- og heilsuræktar, almenningsíþrótta og íþróttagreina.  Í námsmarkmiðum skólanámskrár B er meðal annars kveðið á um að íþróttakennsla skuli vera fjölbreytt og skemmtileg til þess að nemandinn fái aukið tækifæri til að þroska sína hreyfifærni og hreyfireynslu og jafnframt að auka skuli tækifæri nemenda til að iðka íþróttagrein að eigin vali.

V.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið hafa skólastjórar grunnskóla rúmt svigrúm til að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein, mæli gild rök með því.  Þá kemur bæði fram í gildandi námskrá fyrir greinasviðið íþróttir – líkams- og heilsurækt og skólanámskrá B, sem sett er á grundvelli 29. gr. laga um grunnskóla, sú áhersla sem lögð er á tækifæri nemenda til að ástunda fjölbreytta íþróttaþjálfun sem ætlað er að þjóna námsmarkmiðum aðalnámskrár og skólanámskrár.  Þá er í aðalnámskrá gert ráð fyrir því að veiting undanþágu frá skyldunámi samkvæmt aðalnámskrá megi til að mynda nýta í þeim tilvikum er nemendur hafa sýnt afburðaárangur á ákveðnu sviði, t.d. í íþróttum.  Undanþáguheimild frá skólaíþróttum hefur þannig ekki verið afmörkuð með nánari hætti í gildandi aðalnámskrá en skólastjórum einstakra grunnskóla falið svigrúm til mats og ákvörðunar í þessum málum að öðru leyti, eins og kveðið er á um í 15. gr. laga um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla.  Það fyrirkomulag og sá sveigjanleiki sem skólastjórum er búinn að þessu leyti leiðir hins vegar til þess að ekki er tryggt að umsóknir um undanþágu frá aðalnámskrá séu afgreiddar með samræmdum hætti milli einstakra grunnskóla sveitarfélaga, án þess þó að það kunni að vera í ósamræmi við framangreinda heimild og ákvörðunarvald skólastjóra í þessum efnum.  Skólastjórum grunnskóla er þó skylt að byggja slíka ákvörðun á gildum og málefnalegum rökum, að undangenginni þeirri málsmeðferð sem kveðið er á um í stjórnsýslulögum, og leysa úr sambærilegum málum á grundvelli sömu sjónarmiða.  Eins og að framan er rakið hefur kærandi fullyrt að tveimur nemendum í sambærilegri aðstöðu væri mismunað innan skólans.  Þar sem sá samnemandi dóttur kæranda sem vísað er til í kæru er ekki aðili að máli þessu, og persónuupplýsingum hans því ekki til að dreifa í máli þessu, ákvað ráðuneytið að óska nánari skýringa skólastjóra B í tilefni af framangreindum fullyrðingum kæranda.  Í bréfi borgarlögmanns, sem svaraði fyrirspurnum ráðuneytisins, er því haldið fram að læknisvottorð samnemandans sé með öllu ósambærilegt því læknisvottorði sem lá til grundvallar í máli dóttur kæranda og þegar af þeirri ástæðu sé því hafnað að um sambærileg mál sé að ræða.  Í ljósi afdráttarlausra fullyrðinga borgarlögmanns, sem og hinnar ríku skyldu og ábyrgðar að lögum sem hvílir á skólastjórnendum að gæta jafnræðis milli nemenda, og góðra stjórnsýsluhátta að öðru leyti, þá telur ráðuneytið ekki unnt að véfengja sannleiksgildi svara borgarlögmanns, sem haft geta úrslitaþýðingu í málum sem sæta endurskoðun æðra stjórnvalds.  Þá er það mat ráðuneytisins, með hliðsjón af þeim réttarheimildum sem hin kærða ákvörðun byggir á og þeim áherslum sem þar eru nánar útfærðar, að hin kærða ákvörðun sé studd nægilega málefnalegum rökum og rúmist innan þess svigrúms sem skólastjórum er veitt að þessu leyti samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga um grunnskóla, að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem kveðið er á um í gildandi aðalnámskrá. 

Samkvæmt öllu framansögðu skal hin kærða ákvörðun staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun skólastjóra B um synjun beiðni um undanþágu frá íþróttum fyrir Y, sem tilkynnt var um í bréfi til kæranda, dags. 22. september 2010, er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta