Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Hafnarfjarðarkaupstaður - Ný kosning í hafnarstjórn og skólanefnd grunnskóla

Magnús Gunnarsson bæjarfulltrúi                      21. apríl 1997                                                     97030024

Heiðvangi 72                                                                                                                                                1001

220 Hafnarfjörður

            

 

 

 

 

             Mánudaginn 21. apríl 1997 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með erindi, dagsettu 4. mars 1997, lögðu Magnús Gunnarsson og Valgerður Sigurðardóttir, bæjarfulltrúar, fram stjórnsýslukæru vegna annars vegar ákvörðunar bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 11. febrúar 1997 um nýja kosningu í hafnarstjórn og skólanefnd grunnskóla og hins vegar vegna málsmeðferðar forseta bæjarstjórnar á sama fundi.

 

             Kæran var send “meirihluta” bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar til umsagnar með bréfi, dagsettu 7. mars 1997. Umsögn barst ráðuneytinu þann 2. apríl 1997 með bréfi, dagsettu 25. mars s.á.

 

I.          Málavextir.

 

             Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar þann 11. febrúar 1997 var m.a. fjallað um fundargerð bæjarráðs frá 6. sama mánaðar. Í 15. lið fundargerðar bæjarráðs var fjallað um nefndarkjör (ný kosning í hafnarstjórn og skólanefnd grunnskóla). Einn bæjarstjórnarmanna kvaddi sér hljóðs um fundarsköp og var síðan kosningu í nefndirnar frestað.

 

             Þá tók til máls Magnús Gunnarsson og lagði fram eftirfarandi bókanir ásamt Valgerði Sigurðardóttur:

             “a. Bókun og ósk um úrskurð.

             Þrátt fyrir þann úrskurð félagsmálaráðuneytisins dags. 21. nóvember s.l. sem hér hefur verið kynntur, er það skoðun okkar að hann standist ekki að minnsta kosti í þessum tveimur tilfellum. Því teljum við að tillaga Valgerðar Guðmundsdóttur, Tryggva Harðarsonar og Ellerts Borgars Þorvaldssonar á bæjarráðsfundi 6. febrúar 1997, 15. liður “að kosið verði að nýju í skólanefnd og hafnarstjórn” sé hvorki í samræmi við lög um grunnskóla nr. 66 1995 né hafnarlög nr. 56 1981, sbr. hafnarreglugerð nr. 375 1985 með breytingum 1987.

             Í 13. gr. hafnarreglugerðar sem sett er skv. hafnarlögum nr. 56 1981 segir: Hafnarstjórn skipa fimm fulltrúar og fimm til vara og er kjörtímabil þeirra hið sama og bæjarstjórnar. Hvorki hefur ákvæðum laga né reglugerðum verið breytt efnislega síðan kjör í þessar nefndir fór fram í upphafi kjörtímabils í júní 1994 né er í lögum þessum eða reglugerð gert ráð fyrir að hægt sé af bæjarstjórn að svipta skólanefnd eða hafnarstjórn umboði þeirra og kjósa á nýjan leik.

             Það er því ljóst að núverandi skólanefnd og hafnarstjórn eru rétt kjörnir (sic.) til næstu bæjarstjórnarkosninga að okkar dómi, eins og bæjarfulltrúar, og því getur bæjarstjórn ekki breytt með samþykkt tillögu Valgerðar Guðmundsdóttur, Tryggva Harðarsonar og Ellerts Borgars Þorvaldssonar.

             Áður en kemur til atkvæðagreiðslu um áður greinda tillögu er þess óskað að forseti bæjarstjórnar úrskurði um lögmæti hennar og verði sá úrskurður rökstuddur og skriflegur. Áskilinn er réttur til þess að óska atkvæðagreiðslu í bæjarstjórn um úrskurðinn.

             ...

             b. Úrskurður um vanhæfi um fundarsköp.

             Áður en forseti bæjarstjórnar úrskurðar í þessu máli viljum við mótmæla þeirri málsmeðferð að forseti bæjarstjórnar Ellert Borgar Þorvaldsson eða 1. varaforseti Tryggvi Harðarson úrskurði í máli þessu með vísan til 3. gr. 1. málsgr. 37/1993 um stjórnsýslu (sic.) en þar segir “starfsmaður eða nefndarmaður” er vanhæfur til meðferðar máls ef hann er aðili máls eða umboðsmaður. Hér eru bæði aðalforseti og 1. varaforseti flutningsmenn tillögu sem hefur verið mótmælt og óskað að gangi til úrskurðar hvað lögmæti snertir og eru því vanhæfir. Óskað er eftir því að úrskurðað verði skriflega um vanhæfni (sic.) forseta og 1. varaforseta bæjarstjórnar. Áskilinn er réttur til að gera kröfu um staðfestingu bæjarstjórnar.”

 

             Í fundargerð fundarins kemur fram að forseti hafi kveðið upp þann úrskurð að hann teldi sig ekki vanhæfan í þessu máli. Magnús Gunnarsson óskaði þá eftir nafnakalli við atkvæðagreiðslu um úrskurð forseta. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var sú að sex samþykktu úrskurð forseta, tveir voru andvígir og þrír sátu hjá.

 

             Síðar á fundinum var fjallað um kosningu í hafnarstjórn (19. liður fundargerðar) og skólanefnd grunnskóla (20. liður).

 

             Forseti bæjarstjórnar lagði fram svohljóðandi úrskurð undir báðum liðum:

             “Þ. 21. nóvember 1996 úrskurðaði félagsmálaráðuneytið varðandi nefndarkjör á Húsavík í kjölfar meirihlutaskipta í bæjarstjórn staðarins.

             Með bréfi félagsmálaráðuneytisins dags. 4. febrúar 1997 til bæjarstjórans í Hafnarfirði staðfestir ráðuneytið úrskurð sinn frá 21. nóvember 1996, og jafnframt að það eigi einnig við um bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Bréfið er undirritað af tveimur embættismönnum ráðuneytisins.

             Með vísan til framangreinds úrskurðar og bréfs ráðuneytisins og 119. gr. sveitarstjórnarlaga úrskurðar forseti bæjarstjórnar að kosning skuli fara fram í hafnarstjórn.”

 

             Magnús Gunnarsson óskaði undir 19. lið eftir atkvæðagreiðslu að viðhöfðu nafnakalli um úrskurð forseta. Niðurstaðan var sú að sjö greiddu atkvæði með úrskurði forseta, tveir voru andvígir og tveir sátu hjá.

 

             Í framhaldi af því fór fram bundin hlutfallskosning í hafnarstjórn. Samskonar kosning fór síðan fram í skólanefnd grunnskóla.

 

II.         Málsástæður.

 

             Kærendur vitna í erindi sínu í 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Þeir telja að kosning á framangreindum bæjarstjórnarfundi samræmist hvorki lögum um grunnskóla nr. 66/1995, hafnarlögum nr. 58/1981 (nú lög nr. 23/1994), sbr. hafnarreglugerð nr. 375/1985, með breytingu 1987, né 57. gr. sveitarstjórnarlaga. Samkvæmt 2. gr. hafnarreglugerðar sé kjörtímabil hafnarstjórnar hið sama og bæjarstjórnar og í lögum um grunnskóla sé í 13. gr. kveðið á um að skólanefnd skuli kosin í upphafi hvers kjörtímabils. Með vísan til þess séu hafnarstjórn og skólanefnd grunnskóla sem kjörnar voru í upphafi kjörtímabilsins rétt kjörnar til loka kjörtímabils bæjarstjórnar þar sem hvorki hafnarreglugerð né lögum um grunnskóla hafi verið breytt.

 

             Í kærunni er jafnframt vitnað til þess að forseti bæjarstjórnar hafi verið vanhæfur til að kveða upp úrskurð um lögmæti tillögunnar á fundinum og er varðandi það atriði vitnað til 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

             Í umsögn “meirihluta” bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar er vísað til niðurstöðu ráðuneytisins frá 21. nóvember 1996. “Meirihlutinn” telji samkvæmt því með hliðsjón af almennum ákvæðum 57. gr. sveitarstjórnarlaga að sveitarstjórn hafi heimild til að afturkalla umboð nefndar eða einstakra nefndarmanna sem sveitarstjórn hefur kjörið til trúnaðarstarfa á sínum vegum.

 

             Hvað varðar meint vanhæfi forseta bæjarstjórnar í málinu er vísað til þess að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi ekki við, sbr. 2. mgr. 2. gr. þeirra laga. Um hæfi forsetans fari því eftir 45. gr. sveitarstjórnarlaga. Farið hafi verið eftir því lagaákvæði og með vísan til þess hafi forseti bæjarstjórnar verið hæfur.

 

III.        Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Í 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 er svohljóðandi ákvæði: “Sveitarstjórn kýs menn í nefndir, ráð og stjórnir eftir því sem fyrir er mælt í lögum og samþykkt um stjórn sveitarfélagsins og veitir þeim lausn frá störfum. Kjörtímabil slíkra nefnda skal vera hið sama og kjörtímabil sveitarstjórnar nema annað sé ákveðið í lögum eða af sveitarstjórn.”

 

             Sveitarstjórn hvers sveitarfélags, sem kjörin er í almennum kosningum af kjörgengum íbúum sveitarfélagsins, ber ábyrgð á því að lögskyld verkefni hennar séu rækt, sbr. 2. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Af þessari ábyrgð leiðir að henni ber að gæta þess að stjórnkerfi sveitarfélagsins starfi með eðlilegum hætti. Í því felst m.a. að mati ráðuneytisins að sveitarstjórn skuli sjá til þess að starfandi séu nefndir sem njóti trausts bæjarstjórnar hverju sinni.

 

             Ráðuneytið telur með hliðsjón af framangreindu og almennum ákvæðum 57. gr. sveitarstjórnarlaga að sveitarstjórn hafi heimild til að afturkalla umboð nefndar eða einstakra nefndarmanna, sem sveitarstjórnin hefur kjörið til trúnaðarstarfa á sínum vegum. Gildir það hvort sem viðkomandi nefndarmenn hafi í upphafi verið kjörnir af sveitarstjórn til fjögurra ára eða styttri tíma. Er m.a. sérstaklega tekið fram í 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga að sveitarstjórn veiti kjörnum nefndarmönnum lausn frá störfum. Slíkt ákvæði væri væntanlega óþarft ef um bindandi kosningu til tiltekins tíma væri ætíð að ræða.

 

             Það er síðan í verkahring sveitarstjórnar hverju sinni að meta hvort ástæða er til að afturkalla umboð nefndar eða einstakra nefndarmanna m.a. þegar um er að ræða nefnd sem kosin er til að sinna verkefnum sem sveitarstjórnin ber ábyrgð á samkvæmt lögum.

 

             Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að kosning á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar þann 11. febrúar 1997 í hafnarstjórn og skólanefnd grunnskóla brjóti ekki í bága við ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Jafnframt telur ráðuneytið að í hafnalögum nr. 23/1994, hafnarreglugerð nr. 373/1985, eða lögum um grunnskóla nr. 66/1995 sé ekki að finna ákvæði sem breytt geti þeirri niðurstöðu.

 

             Hvað varðar meint vanhæfi forseta bæjarstjórnar til að fjalla um tiltekin mál á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar þann 11. febrúar 1997 skal eftirfarandi tekið fram:

 

             Í 2. málslið 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir svo: “Um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna og annarra þeirra sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga fer þó eftir sveitarstjórnarlögum.” Ljóst er því að varðandi hæfi sveitarstjórnarmanna til afgreiðslu einstakra mála gildir 45. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

             Ráðuneytið telur hins vegar rétt að víkja að hlutverki forseta bæjarstjórnar á bæjarstjórnarfundum. Í 22. gr. samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 625/1994 segir svo m.a.: “Forseti bæjarstjórnar stýrir fundum hennar. Hann setur fund, kannar lögmæti hans og stjórnar umræðum og afgreiðslu mála, sér um að fundargerðir séu færðar og slítur fundi, þegar dagskrá hans er tæmd. Forseti úrskurðar um skilning á fundarsköpum, en skjóta má úrskurði hans til úrlausnar bæjarstjórnar. Forseti sér um, að allt fari skipulega og löglega fram á bæjarstjórnarfundum og er bæjarstjórnarmönnum skylt að lúta valdi hans að því er varðar fundarsköp og góða reglu.”

 

             Í bókun bæjarfulltrúanna Magnúsar Gunnarssonar og Valgerðar Sigurðardóttur á fundi þann 11. febrúar 1997, var óskað eftir að forseti bæjarstjórnar úrskurðaði um lögmæti tillögu um nýja kosningu í hafnarstjórn og skólanefnd grunnskóla. Ráðuneytið telur að slík beiðni falli utan ramma 22. gr. samþykktarinnar og annarra ákvæða um hlutverk forseta bæjarstjórnar, en í 22. gr. er gert ráð fyrir að forseti úrskurði um skilning á fundarsköpum. Ákvæði um að forseti sjái m.a. um að allt fari löglega fram á bæjarstjórnarfundum getur að mati ráðuneytisins ekki leitt til þess að hann skuli fjalla um lögmæti efnis þeirra tillagna sem fram koma. Það ákvæði á fyrst og fremst við um formhlið sveitarstjórnarfunda. Það var því ekki í verkahring forseta bæjarstjórnar að úrskurða um lögmæti efnis umræddrar tillögu heldur var það hlutverk bæjarstjórnarinnar að greiða atkvæði um hana, en samkvæmt 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga hafa allir sveitarstjórnarmenn tillögurétt á sveitarstjórnarfundum. Aðilum máls var síðan heimilt að skjóta ákvörðun bæjarstjórnarinnar til félagsmálaráðuneytisins sem hefur úrskurðarvald í málinu á grundvelli 1. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

             Með hliðsjón af framangreindu er vísað frá kröfu um að ráðuneytið úrskurði um hæfi Ellerts Borgars Þorvaldssonar, forseta bæjarstjórnar, til að fjalla um kröfu Magnúsar Gunnarssonar og Valgerðar Sigurðardóttur um úrskurð forseta bæjarstjórnar um lögmæti fyrrgreindrar tillögu um nefndakjör á fundi bæjarstjórnarinnar þann 11. febrúar 1997, þar sem efnislegur úrskurður um það hefur ekki áhrif á niðurstöðu máls þessa.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Ákvarðanir bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 11. febrúar 1997 varðandi kosningu í hafnarstjórn og skólanefnd grunnskóla eru gildar.

             Vísað er frá kröfu um að ráðuneytið úrskurði um hæfi Ellerts Borgars Þorvaldssonar, forseta bæjarstjórnar, til að fjalla um tillögu tveggja bæjarfulltrúa tengda málinu á sama fundi.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

Samrit:  Valgerður Sigurðardóttir.

Afrit:  “Meirihluti” bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar.

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta