Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Þórshafnarhreppur - Tveir hreppsnefndarmenn með svipaða starfsreynslu og hvor á að boða fyrsta fund

Þórshafnarhreppur                                                 12. júní 1998                                                      98060028

Reinhard Reynisson sveitarstjóri                                                                                                             1001

Langanesvegi 16a

680 Þórshöfn

            

 

             Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 11. júní sl., þar sem óskað er eftir túlkun ráðuneytisins á því hvernig telja beri setu í sveitarstjórn þannig að ljóst sé hver boða skuli til fyrsta fundar nýkjörinnar sveitarstjórnar í Þórshafnarhreppi.

 

             Um er að ræða tvo einstaklinga og er staða þeirra eftirfarandi:

 

             Gunnlaugur Ólafsson var kjörinn aðalmaður í hreppsnefnd Þórshafnarhrepps hins nýja 1994 og sat sem slíkur kjörtímabilið 1994-1998. Þá var hann aðalmaður í hreppsnefnd Fjallahrepps 1986-1990.

 

             Henrý Már Ásgrímsson var kjörinn varamaður í hreppsnefnd Þórshafnarhrepps 1990, en tók sæti sem aðalmaður á miðju ári 1991, þegar einn aðalmanna flutti úr sveitarfélaginu, og sat sem slíkur út það kjörtímabil. Þá var hann kjörinn varmaður í hreppsnefnd Þórshafnarhrepps 1986-1990 og sat alls 16 fundi á tímabilinu. Einnig kjörinn varamaður kjörtímabilið 1994-1998 og sat alls 6 fundi eða hluta funda.

 

             Í 2. mgr. 13. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er svohljóðandi ákvæði:

             “Sá kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn sem á að baki lengsta setu í sveitarstjórninni kveður hana til fyrsta fundar eigi síðar en 15 dögum eftir að hún tekur við störfum eftir kosningar og stýrir fundi þar til oddviti hefur verið kjörinn. Hafi tveir eða fleiri fulltrúar í sveitarstjórn átt jafnlengi setu í sveitarstjórninni fer aldursforseti þeirra með verkefni samkvæmt þessari málsgrein.“

 

             Í athugasemdum með breytingartillögu félagsmálanefndar Alþingis við 13. gr. frumvarps til sveitarstjórnarlaga segir svo meðal annars: “Í öðru lagi er tekið á því að sú staða getur komið upp að aldursforseti eigi stuttan feril sem fulltrúi í sveitarstjórn eða jafnvel að hann sé að sitja sinn fyrsta fund. Eðlilegra þykir því að sá sem lengsta reynslu hefur sem kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn stjórni upphafi fyrsta fundar á nýju kjörtímabili.“

 

             Ljóst er að litlu munar um starfsreynslu framangreindra tveggja einstaklinga í sveitarstjórn og vandséð um hvar greina beri á milli. Því telur ráðuneytið rétt að nota ákvæði lokamálsliðar 2. mgr. 13. gr. sveitarstjórnarlaga í þessu tilviki, þ.e. að aldursforseti þeirra boði fyrsta fund. Samkvæmt erindinu er Gunnlaugur Ólafsson fæddur 1951 og Henrý Már Ásgrímsson fæddur 1955. Með hliðsjón af því er rétt að Gunnlaugur Ólafsson boði fyrsta fund nýkjörinnar hreppsnefndar Þórshafnarhrepps.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta