Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Arnarneshreppur - Auglýsing hreppsnefndarfunda

Þórður Þórðarson                                                  27. júlí 1998                                                       98060009

Hvammi, Arnarneshreppi                                                                                                                           1001

601 Akureyri

            

 

             Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 25. maí 1998, þar sem þér óskið eftir að Jóhannes Hermannsson, oddviti hreppsnefndar Arnarneshrepps, verði áminntur sökum þess að sveitarstjórnarfundir hafa aldrei verið auglýstir. Fóruð þér fram á það við hreppsnefnd með bréfi í mars 1998 að auglýstir yrðu fundir sveitarstjórnar en haldinn hefði verið a.m.k. einn fundur síðan og hafði hann ekki verið auglýstur.

 

             Erindi yðar var sent til umsagnar hreppsnefndar Arnarneshrepps með bréfi, dagsettu 11. júní 1998. Umsögnin barst ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 4. júlí 1998.

 

             Í umsögninni kom fram að erindi yðar um auglýsingu funda sveitarstjórnar Arnarneshrepps var til umfjöllunar í hreppsnefnd og var ákveðið að fundur sem halda átti um 20. maí 1998 skyldi auglýstur. Fram kemur skýring á af hverju fundur í sveitarstjórn þann 9. maí var ekki auglýstur en þar segir m.a. að “ástæða þess að flýta þurfti fyrrgreindum fundi var sú að framlengdur frestur til að skila svörum við athugasemdir varðandi aðalskipulagið, sem höfundur aðalskipulagsins, Benedikt Björnsson, taldi auðsótt að fá, er ekki lengur veittur af Skipulagsstofnun skv. umsögn starfsmanns hennar. Því þurfti að skila athugasemdum og svörum við þeim, endanlega afgreiddum af hreppsnefnd, fyrir 14/5 1998. Þurfti því að boða hreppsnefndarmenn til fundarins mjög skyndilega, eða með eins sólarhrings fyrirvara. Það þótti of skammur tími til að auglýsa fundinn.“

 

             Um auglýsingar á hreppsnefndarfundi var að finna ákvæði í 2. mgr. 50. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og 2. mgr. 14. gr. fyrirmyndar að samþykkt um stjórn og fundarsköp N.N. hrepps, sbr. auglýsingu nr. 106/1987, en sú samþykkt gilti fyrir Arnarneshrepp þar sem sveitarfélagið hafði ekki sett sér sérstaka samþykkt skv. 49. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga. Í 2. mgr. 50. gr. laganna sagði að kunngera skyldi “íbúum sveitarfélags með auglýsingu hvar og hvenær sveitarstjórn heldur fundi.“ Samskonar ákvæði var í 2. mgr. 14. gr. fyrirmyndarinnar.

 

             Samkvæmt framangreindum ákvæðum er ljóst að hreppsnefnd Arnarneshrepps var skylt að auglýsa fundi sína. Jafnframt er ljóst af gögnum málsins að hreppsnefndin hefur brotið þessi ákvæði laganna og fyrirmyndarinnar og er það ámælisvert. Fram hefur hins vegar komið ætlun hreppsnefndarinnar að bæta úr þessum ágalla.

 

             Hvað varðar fund hreppsnefndar sem haldinn var þann 9. maí sl. er ljóst að um aukafund var að ræða, ekki reglulegan fund. Í umsögn hreppsnefndar kemur fram að boðað hafi verið til hans í skyndi eða með eins sólarhrings fyrirvara, þar sem frestbeiðni hafði verið hafnað af hálfu Skipulagsstofnunar. Í lokaákvæði 1. mgr. 48. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 sagði að aukafundi í hreppsnefnd skyldi halda eftir þörfum. Í 3. mgr. 12. gr. fyrrgreindrar fyrirmyndar sagði ennfremur að aukafundi skyldi halda í hreppsnefnd eftir því sem þörf krefði að mati oddvita hreppsins. Í 17. gr. fyrirmyndarinnar sagði að auki að oddviti skyldi boða aukafundi í hreppsnefnd símleiðis a.m.k. sólarhring fyrir fund.

 

             Ráðuneytið telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við það mat oddvita að þörf hafi verið á að boða til aukafundar í hreppsnefnd Arnarneshrepps þann 9. maí sl. Að auki verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að gætt hafi verið ákvæða laganna og fyrirmyndarinnar um fundarboðun.

 

             Vegna þess hve skammur tími leið um boðun fyrrgreinds aukafundar telur ráðuneytið ljóst að ekki hafi unnist tími til að auglýsa fundinn tímanlega gagnvart íbúum sveitarfélagsins, enda var ekki fyrir hendi venja í sveitarfélaginu um hvernig ætti að auglýsa fundina.

 

             Að lokum ber að geta þess að í 18. gr. núgildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. bráðabirgðalög nr. 100/1998, er skýrt kveðið á um skyldu sveitarstjórnar til að auglýsa fundi sína þannig að sem flestir íbúar sveitarfélagsins hafi greiðan aðgang að auglýsingu um sveitarstjórnarfundi. Skal sveitarstjórn skv. 2. mgr. 18. gr. núgildandi sveitarstjórnarlaga taka ákvörðun um hvernig fundir hennar skuli auglýstir og með hvaða fyrirvara. Skal sú ákvörðun kynnt íbúum sveitarfélagsins með tryggum hætti, t.d. í dreifibréfi eða auglýsingu í staðbundnu fréttablaði. Jafnframt kemur fram í 4. mgr. 18. gr. laganna að dagskrá sveitarstjórnarfundar skuli vera aðgengileg íbúum sveitarfélagsins eftir að hún hefur verið send sveitarstjórnarmönnum.

 

             Ráðuneytið mun því skora á nýkjörna hreppsnefnd að hrinda fyrirætlunum sínum um auglýsingu hreppsnefndarfunda í framkvæmd hið fyrsta og sjá til þess að fundir hreppsnefndar verði auglýstir framvegis í samræmi við lög.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

Afrit:  Hreppsnefnd Arnarneshrepps.

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta