Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Austur-Hérað - Hæfi skoðunarmanna, forföll aðalmanna og boðun varamanna í nefndum

Austur-Hérað                                                                           4. febrúar 1999                                                        99020015

Bj. Hafþór Guðmundsson, bæjarstjóri                                                                                                                            1001

Lyngási 12

700 Egilsstaðir

 

 

 

          Vísað er til erindis yðar sem barst félagsmálaráðuneytinu með tölvupósti hinn 27. janúar sl.  Í erindinu er óskað eftir áliti ráðuneytisins um hæfi skoðunarmanns og ýmsa þætti varðandi forföll aðalmanna og boðun varamanna.

 

Hæfi skoðunarmanns:

 

          Valinn hefur verið til að gegna starfi skoðunarmanns ársreikninga Austur-Héraðs Sævar Sigbjarnarson, en hann var fyrstu mánuði ársins 1998 oddviti eins af þeim sveitarfélögum, sem nú mynda hið nýja sveitarfélag.  Tekið er fram að bæjarráð sé fyrir sitt leyti sammála um skipun Sævars enda komi hann ekki að endurskoðun ársreikningsins 1998 og varamaður hans sinni verkinu vegna þess árs. Óskað er eftir áliti félagsmálaráðuneytisins um hvort heimilt sé að ákveða þá málsmeðferð að Sævar víki úr sæti sem aðalmaður vegna vanhæfis við umfjöllun ársreikninga Austur-Héraðs 1998 og varamaður taki sæti hans. Reiknað er með að Sævar gegni hlutverkinu öll önnur rekstrarár viðkomandi kjörtímabils, séu ekki taldir meinbugir á því af ráðuneytinu. Tekið er fram að Sævar hætti beinum afskiptum af sveitarstjórnarmálum við seinustu sveitarstjórnarkosningar

 

          Í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er svohljóðandi ákvæði:  „Á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar skal hún kjósa tvo skoðunarmenn og jafnmarga til vara til loka kjörtímabils sveitarstjórnar.  Skoðunarmenn skulu hafa kosningarrétt og kjörgengi í hlutaðeigandi sveitarfélagi.  Aðal- og varamenn í sveitarstjórn og starfsmenn sveitarfélagsins eru eigi kjörgengir sem skoðunarmenn hjá sveitarfélaginu.“

 

          Af framangreindu ákvæði er ljóst að Sævar Sigbjarnarson getur ekki verið skoðunarmaður vegna ársreikninga Austur-Héraðs 1998 þar sem hann var oddviti eins þeirra sveitarfélaga sem mynda hið nýja sveitarfélag fram að sveitarstjórnarkosningum síðastliðið vor.  Ráðuneytið telur hins vegar ekki ástæðu til að gera athugasemd við að hann hafi verið kjörinn skoðunarmaður ársreikninga til loka yfirstandandi kjörtímabils þar sem vanhæfi hans nær yfir tiltölulega lítinn hluta tímabilsins, enda víki hann sæti við skoðun ársreiknings sveitarfélagsins 1998 og varamaður taki sæti hans vegna þess árs.

 

Forföll aðalmanna og boðun varamanna:

 

          Í erindinu er spurst fyrir um hvort til sé meginregla um boðun varamanna.  Jafnframt er spurst fyrir um hver skuli þá boða varamann, þ.e. a) aðalmaður sem forfallast, b) formaður viðkomandi nefndar / ráðs að beiðni aðalmannsins eða c) skrifstofa sveitarfélagsins að beiðni aðalmannsins.  Að auki er óskað eftir áliti á því hvort nokkuð mæli gegn því að einhver framangreindra leiða og ákvæði þar um (meginregla) verði sett inn í samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins.

 

          Í 43. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er fjallað um hvernig varamenn í nefndum taka sæti.  Nánari útfærsla á tilkynningu um forföll og hver boða skuli varamenn á að vera í samþykkt sveitarfélagsins um stjórn og fundarsköp, en tiltekna meginreglu er ekki að finna í sveitarstjórnarlögunum.  Til hliðsjónar skal bent á ákvæði 2. mgr. 22. gr. og 46. gr. fyrirmyndar að samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélaga, sbr. auglýsingu nr. 527/1998.  Þær leiðir sem nefndar eru í erindinu koma allar til greina í þessu tilliti, en lögð er áhersla á að skýrt ákvæði verði að finna í samþykkt sveitarfélagsins.

 

          Ennfremur er í erindinu spurst fyrir um hvað teljist forföll um stundarsakir.  Um forföll sveitarstjórnarmanna og nefndarmann er fjallað í 24. og 43. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Með orðalaginu „um stundarsakir“ er átt við tímabundin forföll, svo sem á einum fundi vegna annarra anna eða veikinda.  Ef fyrirséð er að um lengri tíma forföll sé að ræða, svo sem um sex mánaða skeið vegna námsleyfis, er rétt að viðkomandi sveitarstjórnarmaður eða nefndarmaður fái tímabundið leyfi frá störfum með vísan til 1. mgr. 34. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

          Að lokum er varpað fram fyrirspurn um hvort nokkuð geti hindrað að aðalmaður, sem forfallast um stundarsakir geti boðað varamann í sinn stað t.d. í eina klukkustund og tekið sæti hans að þeim tíma liðnum.  Því er til að svara að sveitarstjórnarlög nr. 45/1998 standa ekki í vegi fyrir að slíkt verði gert.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta