Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Búðahreppur - Framkvæmd sveitarstjórnar við úthlutun byggðakvóta

Bæjarmálafélag Fáskrúðsfjarðarlistans                             14. október 1999                                                         99090006

Óðinn Magnason                                                                                                                                                               1001

Pósthólf 40

750 Fáskrúðsfjörður

 

 

 

        Með erindi, dagsettu 30. ágúst 1999, kærði Óðinn Magnason, fyrir hönd Bæjarmálafélags Fáskrúðsfjarðarlistans, framkvæmd sveitarstjórnar Búðahrepps við úthlutun byggðakvóta.

 

        Kæran var send sveitarstjórn Búðahrepps til umsagnar með bréfi, dagsettu 2. september 1999. Umsögn barst ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 15. sama mánaðar. Viðbótarupplýsingar um málið bárust síðan frá Búðahreppi með bréfi, dagsettu 12. október 1999.

 

I.      Málavextir.

 

        Með bréfi, dagsettu 26. júlí 1999, tilkynnti Byggðastofnun Búðahreppi um úthlutun byggðakvóta á grundvelli bráðabirgðaákvæðis IV í lögum nr. 1/1999, þ.e. um skiptingu kvótans milli sveitarfélaga. Var gert ráð fyrir að nánari ráðstöfun kvótans á hverjum stað myndi fara fram í samvinnu Byggðastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar.

 

        Bréfið var kynnt á fundi sveitarstjórnar Búðahrepps þann 5. ágúst 1999 og var þar samþykkt að vísa bréfi Byggðastofnunar um úthlutun byggðakvóta til byggðarráðs og að auglýsa reglur um úthlutun byggðakvóta á hefðbundnum auglýsingastöðum í bænum. Í framhaldi af þessu var á staðnum birt auglýsing um málefnið, en ekki kom þar fram neinn lokafrestur til að skila hugmyndum um nýtingu kvótans.

 

        Hinn 11. ágúst 1999 var haldinn fundur í byggðarráðinu. Þá höfðu fjögur erindi borist varðandi kvótann. Búðahreppi barst eitt nýtt erindi varðandi byggðakvótann hinn 14. ágúst. Fundur var síðan haldinn í byggðarráðinu 17 ágúst og var þar rætt við aðstandendur þeirra tveggja erinda sem ekki hafði áður verið rætt við. Á fundinum var einnig kynnt bréf frá sex einstaklingum, sem staðið höfðu að þremur innsendum erindum um kvótann, þar sem mótmælt var þeirri málsmeðferð að taka til greina erindið sem barst Búðahreppi hinn 14. ágúst, þ.e. eftir að áðurkomin fjögur erindi höfðu verið kynnt í byggðarráði. Erindinu var vísað til sveitarstjórnar og jafnframt ákvað byggðarráðið að vísa úthlutun byggðakvóta til sveitarstjórnarinnar.

 

        Aukafundur var haldinn í sveitarstjórn Búðahrepps hinn 20. ágúst 1999 og var eina málið á dagskrá „málefni vegna úthlutunar byggðakvóta“. Var þar fyrst kynnt áðurnefnt bréf það sem mótmælt var framgöngu byggðarráðsins í málinu. Þrír sveitarstjórnarmenn Fáskrúðsfjarðarlistans lögðu fram tillögu um að allri umræðu og ákvörðun um úthlutun byggðakvóta yrði frestað. Tillaga þessi var borin upp til atkvæða og felld með fjórum atkvæðum gegn þremur. Í framhaldi af því lögðu þrír fulltrúar Fáskrúðsfjarðarlistans fram bókun þar sem þeir neituðu að taka þátt í frekari fundahöldum sveitarstjórnarinnar þar sem fjallað er um úthlutun byggðakvótans og gengu þeir síðan af fundi.

 

        Næst samþykkti sveitarstjórnin á fundinum með fjórum greiddum atkvæðum að erindið varðandi byggðakvóta frá 14. ágúst yrði „jafngilt öðrum áður komnum bréfum“. Var þá gerð grein fyrir meðferð málsins í byggðarráðinu og að því loknu gerði einn sveitarstjórnarmanna tillögu um úthlutun byggðakvótans. Eftir umræður um tillöguna var hún samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum.

 

        Á fundi sveitarstjórnar Búðahrepps hinn 7. október 1999 voru meðal annars til umfjöllunar bréf frá Byggðastofnun, dagsett 13. september 1999, og bréf frá ráðgjafa Byggðastofnunar, dagsett 4. október 1999. Í bréfi Byggðastofnunar er þess meðal annars farið á leit við sveitarstjórnina „að teknar verði til endurskoðunar þær tillögur sem fyrir liggja.“ Er í bréfinu nánar útfært að hverju slík endurskoðun þurfi einkum að beinast. Á fyrrgreindum fundi kom fram tillaga um „að úthlutun byggðakvótans hér yrði endurupptekin og hann auglýstur aftur.“ Var tillagan samþykkt í sveitarstjórninni með fjórum atkvæðum, en þrír sátu hjá.

 

II.    Niðurstaða ráðuneytisins.

 

        Í erindi því sem hér er til meðferðar er kærð „framkvæmd sveitarstjórnar við úthlutun kvótans.“ Eru sérstaklega gerðar athugasemdir við málsmeðferðina á fundi sveitarstjórnar hinn 20. ágúst 1999 og að lögð hafi verið fram á fundinum tillaga um afgreiðslu málsins sem ekki hafði fylgt með fundarboði.

 

        Um úthlutun umrædds byggðakvóta er fjallað í bráðabirgðaákvæði IV í lögum nr. 1/1999, um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Ljóst er samkvæmt því ákvæði að Byggðastofnun er ætlað að úthluta byggðakvótanum „í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir.“ Endanleg úthlutun er þannig á ábyrgð Byggðastofnunar.

 

        Vegna tilmæla Byggðastofnunar ákvað sveitarstjórn Búðahrepps á fundi sínum hinn 7. október 1999 að endurupptaka alla málsmeðferðina og ákvörðun sína frá 20. ágúst 1999 varðandi tillögur um úthlutun á byggðakvóta. Með vísan til þess telur félagsmálaráðuneytið að ekki liggi lengur fyrir hagsmunir aðila málsins til að fá úrskurð um þá kæru sem nú liggur fyrir. Er málinu því, eins og það liggur fyrir, vísað frá ráðuneytinu.

 

F. h. r.

 

Berglind Ásgeirsdóttir (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

Afrit: Sveitarstjórn Búðahrepps.

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta