Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Hveragerðisbær - Heimild til að loka fundi bæjarstjórnar vegna sölu á rafveitu

Knútur Bruun, bæjarfulltrúi                                              28. desember 1999                                                          99120010

Hverhamri                                                                                                                                                                              1001

810 Hveragerði

 

 

 

        Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 1. desember 1999, varðandi lokun fundar bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar þann sama dag. Á þeim fundi var eingöngu til umfjöllunar dagskrárliðurinn Rafveita Hveragerðisbæjar, niðurstöður könnunarhóps um valkosti.

 

        Í upphafi skal þess getið að erindið er í formi kæru, en vegna óska yðar um að svör lægju fyrir frá ráðuneytinu fyrir 29. desember 1999, er svarið ekki formlegur úrskurður, enda er þörf á að leita frekari gagna til að unnt sé að kveða upp úrskurð.

 

I.      Málavextir og málsástæður.

 

        Í upphafi fundarins var borin upp eftirfarandi tillaga af forseta bæjarstjórnar:

        Í samræmi við 2. ml. 3. mgr. 17. gr. samþykkta Hveragerðisbæjar um stjórn og fundarsköp sem og 2. ml. 1. mgr. 16. gr. sveitarstjórnarlaganna samþykkir bæjarstjórn að dagskrá fundarins verði lokuð til að mæta óskum þeirra aðila sem hlut eiga að máli um trúnað.

        Rétt er að vekja athygli á því að skv. 4. tl. sömu greinar samþykktanna er óheimilt að skýra frá því sem fram kemur við umræður á lokuðum fundi.

 

        Var tillagan samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur.

 

        Knútur Bruun, bæjarfulltrúi, lagði fram eftirfarandi bókanir:

        Ég greiði atkvæði gegn þessari tillögu um að 257. fundur Bæjarstjórnar Hveragerðis verði lokaður. Með því tel ég að verið sé að útiloka íbúa Hveragerðis svo og fjölmiðla að fylgjast með því baktjaldamakki sem meirihluti Bæjarmálafélagsins hefur viðhaft við afgreiðslu þessa máls. Ég tel þvert á móti að þetta mál eigi að ræðast fyrir opnum tjöldum og helst á borgarafundi þar sem öllum íbúum Hveragerðis gæfist kostur á að láta í ljós skoðanir sínar.

        Með tilvísun til 17. gr. samþykkta Hveragerðisbæjar og 16. gr. sveitarstjórnarlaga lýsi ég því yfir að ég tel að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til þess að loka þessum bæjarstjórnarfundi ég mun því kæra þessa málsmeðferð til félagsmálaráðuneytis og lýsi jafnframt yfir að ég tel mér heimilt að skýra í öllum atriðum frá störfum fundarins.

 

        Árni Magnússon, bæjarfulltrúi, lagði fram eftirfarandi bókun:

        Þetta mál er ekki þess eðlis að það þoli ekki opna umræðu. Auðvelt að færa fyrir því rök að það sé þvert á móti allt sem mælir með því að bæjarbúar geti fylgst með umræðunni. Lokaður fundur er fyrst og fremst til þess fallinn að ala á tortryggni. Undarlegt að falla í slíka gryfju, ekki síst af fulltrúum Bæjarmálafélags, sem hlaut kosningu um helmings bæjarbúa fyrir ríflega ári síðan.

 

        Eftir nokkrar umræður og bókanir á víxl var samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur eftirfarandi tillaga:

        Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkir á fundi sínum hinn 1. desember 1999 að fela bæjarstjóra að ganga frá samningi við RARIK um kaup RARIK á dreifikerfi Rafveitu Hveragerðisbæjar á grundvelli bréfs RARIK frá 29. nóvember 1999.

 

        Í erindinu eru meðal annars jafnframt færðar fram eftirfarandi málsástæður:

        Aðalreglan samkvæmt 16. gr. sveitarstjórnarlaga er sú að sveitarstjórnarfundir skuli haldnir fyrir opnum dyrum, þó getur sveitarstjórn haldið fundi fyrir luktum dyrum teljist slíkt nauðsynlegt vegna eðlis máls. Í greinargerð með lögunum er sérstaklega tekið fram að greinin sé samhljóða 3. mgr. 48. gr. laga nr. 8/1986 en bætt er við viðmiðun um að sveitarstjórn geti ákveðið að einstök mál verði rædd fyrir luktum dyrum þegar hún telur slíkt nauðsynlegt vegna eðlis máls. Er með þessari orðalagsbreytingu einungis verið að skerpa regluna og tengja hana skýrar við efni og eðli þess máls sem til umfjöllunar er hverju sinni. Ofannefnd 17. gr. samþykkta um fundarsköp Hveragerðisbæjar 3. mgr. skilgreinir síðan nánar hvers konar mál megi ákveða að ræða á lokuðum fundi eða eins og segir í samþykktunum, svo sem viðkvæm einkamál manna eða viðskiptamál, sem æskilegt er vegna hagsmuna bæjarins (leturbr. mín) að rædd verði fyrir luktum dyrum. Hvorugu þessu var til að dreifa á umræddum fundi. Þvert á móti höfðu öll gögn sem fram voru lögð á fundinum verið send mörgum aðilum og ennfremur var fjölmiðlum kunnugt um efni þeirra allra. Ekkert tilefni var því til þess að loka þessum fundi þvert á móti var verið að ræða mál sem varðaði hagsmuni allra bæjarbúa og var þegar komið til vitundar fjölmargra aðila.

 

II.    Svar ráðuneytisins.

 

        Í 2. málsl. 16. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 segir: Sveitarstjórn getur ákveðið að einstök mál skuli rædd fyrir luktum dyrum þegar slíkt telst nauðsynlegt vegna eðlis málsins.

 

        Á grundvelli þessa ákvæðis er eftirfarandi regla í 3. mgr. 17. gr. samþykktar um stjórn Hveragerðisbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 549/1999: Bæjarstjórn getur ákveðið, að einstök mál verði rædd fyrir luktum dyrum þegar það telst nauðsynlegt vegna eðlis málsins, svo sem viðkvæm einkamál manna eða viðskiptamál, sem æskilegt er vegna hagsmuna bæjarins, að rædd verði fyrir luktum dyrum. Jafnframt getur bæjarstjórnin ákveðið að bæjarstjórnarfundur þar sem eingöngu er fjallað um slík mál verði haldinn fyrir luktum dyrum. Tillaga um að mál skuli rædd fyrir luktum dyrum skal afgreidd umræðulaust í bæjarstjórn.

 

        Almenna reglan er hins vegar sú að fundir sveitarstjórna skuli haldnir fyrir opnum dyrum, sbr. 1. málsl. 16. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

        Ráða má af fyrri úrskurðum og álitum ráðuneytisins að sveitarstjórnum sé heimilt að loka fundi ef um er að ræða viðkvæm fjármálaleg atriði t.d. við útboð sem eðlilegt er að leynt fari vegna hagsmuna sveitarfélagsins, einstaklinga eða tilboðsgjafa, sbr. t.d. álit ráðuneytisins frá 16. febrúar 1990 (ÚFS 1990-1991:24), úrskurð frá 25. júní 1996 (ÚFS 1996:82), álit frá 25. nóvember 1996 (ÚFS 1996:122) og álit frá 9. janúar 1998 (ÚFS 1998:16).

 

        Ef allar viðkomandi upplýsingar hafa hins vegar verið gerðar opinberar fyrir fund sveitarstjórnar verður almennt að telja að ekki sé þörf á að loka fundi sveitarstjórnarinnar þegar málið er tekið þar til meðferðar.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta