Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Öxarfjarðarhreppur - Tillaga frá áheyranda tekin fyrir á sveitarstjórnarfundi

Steindór Sigurðsson                                                                                          

Bakkagötu 15

670 Kópaskeri

Reykjavík, 30. júní 2000

Tilvísun: FEL00040004/1001/SÁ/--

 

 

 

 

      Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dags. 31. mars 2000, þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins á ákvörðun sveitarstjórnar Öxarfjarðarhrepps frá 29. mars sl. um að taka á dagskrá með afbrigðum tillögu frá íbúa sem var áheyrandi á sveitarstjórnarfundi og tengdist hvorki sveitarstjórn né annarri stofnun sveitarfélagsins. Ennfremur er bent á að í tillögunni hafi falist krafa um að taka úr höndum löglega kosinnar sveitarstjórnar og löglega skipaðrar skólanefndar málefni sem tvímælalaust væri á þeirra verksviði.

 

      Umrædd tillaga var breytingartillaga við tillögu Rúnars Þórarinssonar oddvita um að sameina grunnskóla sveitarfélagsins í eina stofnun og lögð hafði verið fram á fundi sveitarstjórnar hinn 29. mars sl. Samþykkti sveitarstjórnin að taka breytingartillöguna fyrir. Tillagan var svohljóðandi: „Sveitarstjórn Öxarfjarðarhrepps ákveður að núverandi skólaskipan skuli haldast óbreytt skólaárið 2000–2001. Ennfremur að skipaður verði vinnuhópur er hafi það að markmiði að vinna að hagræðingu í skólahaldi hreppsins með fagleg og byggðaleg sjónarmið í huga. Vinnuhópinn skipi fulltrúar fagaðila og foreldra grunnskólabarna í hreppnum, með skólanefnd og sveitarstjórn sem bakhópa. Stefnt skal að því að vinnuhópurinn skili tillögum eigi síðar en í nóvember árið 2000.“ Breytingartillaga þessi var felld en áður höfðu sveitarstjórnarmenn þó lagt fram ýmsar breytingartillögur við hana. Í framhaldi af þessu dró oddvitinn tillögu sína tilbaka. Að lokum báru fjórir sveitarstjórnarmenn upp svohljóðandi tillögu: „Sveitarstjórn Öxarfjarðarhrepps samþykkir að fela sveitarstjóra að hefja nú þegar undirbúning að því að sameina grunnskóla sveitarfélagsins í eina stofnun með sameiginlegri stjórn og skólastjóra. Stefnt skal að meiri samvinnu skólanna og tilflutningi nemenda og kennara á milli skóla eftir því sem þurfa þykir. Nauðsynlegt er að þessari vinnu verði hraðað eins og kostur er, en stefnt er að óbreyttu skólahaldi veturinn 2000-2001. Við þennan undirbúning skal sveitarstjóri hafa fullt samráð við skólanefnd, viðkomandi stofnanir og sveitarstjórnir Öxarfjarðar og Kelduneshrepps. Niðurstöður liggi fyrir 15. desember 2000.“ Þessi tillaga var svo samþykkt.

 

Niðurstaða ráðuneytisins

 

      Í 25. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 segir svo:

      „Sveitarstjórnir skulu setja sér fundarsköp sem senda skal ráðuneytinu til staðfestingar ásamt samþykkt skv. 10. gr.

      Ráðuneytið semur fyrirmynd að fundarsköpum fyrir sveitarstjórnir og birtir hana í Stjórnartíðindum. Gilda þau fyrir sveitarstjórn þar til staðfest hafa verið sérstök fundarsköp fyrir hana.“

 

      Í sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986 var að finna samsvarandi ákvæði.

 

      Um stjórn og fundarsköp Öxarfjarðarhrepps gildir samþykkt nr. 40/1995 en hún var sett á grundvelli eldri sveitarstjórnarlaga. Samþykktin heldur gildi sínu þótt ný sveitarstjórnarlög nr. 45/1998 hafi verið sett en þau ákvæði hennar sem fara í bága við ákvæði nýju laganna víkja fyrir lagaákvæðum og samsvarandi ákvæðum í auglýsingu um fyrirmynd að samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélaga nr. 527/1998.

 

      Í 15. gr. samþykktar nr. 40/1995 er að finna ákvæði um dagskrá sveitarstjórnarfunda og er það sambærilegt við 11. gr. auglýsingar nr. 527/1998 en þar segir í 1. mgr.: „Sveitarstjóri semur dagskrá hreppsnefndarfundar.“ Í 2. mgr. er svo talið upp hvað skuli vera á dagskrá en í 3. tölul. 2. mgr. segir að á dagskrá skuli meðal annars vera: „Önnur mál sem falla undir verksvið hreppsnefndar og sveitarstjóri ákveður að taka á dagskrá eða ef einhver hreppsnefndarmanna óskar að tekin verði á dagskrá. Hreppsnefndarmaður sem óskar að fá mál tekið á dagskrá hreppsnefndarfundar skal tilkynna það sveitarstjóra skriflega með tillögu eða fyrirspurn a.m.k. þremur sólarhringum fyrir fund.“ Að lokum segir í 3. mgr. sömu greinar: „Dagskrá hreppsnefndarfundar skulu fylgja afrit fundargerða, tillagna og annarra gagna sem sveitarstjóri telur nauðsynleg.“ Samkvæmt 16. gr. samþykktarinnar á sveitarstjóri að kynna hreppsnefndarmönnum dagskrá fundarins í meginatriðum í síðasta lagi þremur sólarhringum fyrir fund.

 

      Af ofangreindu verður ráðið að mikilvægt þykir að sveitarstjórnarmenn fái tíma til þess að undirbúa sig undir fundi og gera sér grein fyrir afstöðu sinni til þeirra mála sem ræða á. Í 2. mgr. 23. gr. samþykktarinnar er þó að finna undantekningu frá þessu en þar segir: „Heimilt er að taka til meðferðar á hreppsnefndarfundi mál sem ekki hefur verið á dagskrá ef 2/3 viðstaddra hreppsnefndarmanna samþykkja slíkt afbrigði.“ Þessa heimild ber almennt að nýta einungis í undantekningartilvikum.

 

      Sveitarstjórnarfundi skal almennt halda fyrir opnum dyrum, sbr. 16. gr. sveitarstjórnarlaga og 2. mgr. 20. gr. samþykktarinnar. Almenningi er því heimilt að vera viðstaddur fundi og hlýða á umræður. Samkvæmt 4. mgr. 18. gr. sveitarstjórnarlaga skal gera dagskrá sveitarstjórnarfunda aðgengilega almenningi fyrir fundi en það stuðlar að opnari stjórnsýslu og telst til vandaðra stjórnsýsluhátta.

 

      Ráðuneytið telur að af 29. og 55. gr. sveitarstjórnarlaga sem og 27. og 39. gr. samþykktarinnar sé ljóst að einungis sveitarstjórnarmenn og framkvæmdastjóri sveitarfélags hafi málfrelsi og tillögurétt á fundum sveitarstjórnar. Af þessum ákvæðum sem og 3. tölul. 2. mgr. 15. gr. samþykktar nr. 40/1995 telur ráðuneytið einnig ljóst að einungis er hægt að taka á dagskrá tillögu sem borin er fram af sveitarstjórnarmanni eða framkvæmdastjóra en undantekningarheimild 2. mgr. 23. gr. samþykktarinnar verður að skýra í samræmi við þetta ákvæði sveitarstjórnarlaga.

 

      Tillagan sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar Öxarfjarðarhrepps var um að sveitarstjóri skyldi hefja undirbúning að sameiningu skólanna í sveitarfélaginu.

 

      Lög um grunnskóla nr. 66/1995 fela skólanefndum að sjá um ákveðna málaflokka. Í 12. og 13. gr. grunnskólalaga er mælt fyrir um hlutverk og fyrirkomulag skólanefnda en skólanefnd er fjölskipað stjórnvald sem sveitarstjórn kýs þar sem fulltrúar foreldra og kennara eiga einnig lögboðin rétt til setu. Hlutverk skólanefnda er að fara með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn eða sveitarstjórnir kunna að fela henni. Í reglum um skólanefnd er hvergi sérstaklega tekið fram að skólanefnd eigi að vinna að undirbúningi að sameiningu grunnskóla í sveitarfélögum. Með tilliti til sjálfstjórnarréttar sveitarfélaga sem tryggður er í 78. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. sveitarstjórnarlaga verður að telja að sveitarstjórn sé heimilt að fela öðrum en skólanefnd að hefja undirbúning að sameiningu grunnskóla í sveitarfélaginu enda sé ekki verið að fela fullnaðarákvörðunarvald um framtíðarskipan málaflokksins í hendur annarra en sveitarstjórn.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta