Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Djúpárhreppur - Fundarstjórn oddvita, frestun auglýstra dagskrárliða, brottganga hreppsnefndarmanna af fundi, krafa um áminningu

Sigurbjartur Pálsson                                                          16. ágúst 2000                                                             FEL00060029/1001

Skarði, Þykkvabæ

851 Hella

 

 

 

 

 

Með erindi, dagsettu 14. júní 2000, óskuðu Sigurbjartur Pálsson og Guðjón Guðnason, fulltrúar í minnihluta sveitarstjórnar Djúpárhrepps, eftir áliti félagsmálaráðuneytisins á fundarstjórn og embættisfærslu oddvita Djúpárhrepps á sveitarstjórnarfundi sem haldinn var fimmtudaginn 8. júní 2000.

 

Fyrirspurn bréfritara er svohljóðandi:

Getur meirihluti tekið af dagskrá mál sem fundur er boðaður út af og komið þannig í veg fyrir að mál séu rædd og niðurstaða fengin þó svo að óþægilegt kunni að vera?

 

Ráðuneytið óskaði með bréfi, dagsettu 16. júní 2000, eftir umsögn meirihluta sveitar- stjórnar Djúpárhrepps um framangreint erindi. Umsögnin barst með bréfi dagsettu 9. júlí 2000.

 

I.       Málsatvik

 

Á dagskrá umrædds sveitarstjórnarfundar var meðal annars umræða um mótmæli fjöl- margra íbúa sveitarfélagsins vegna fyrirhugaðrar byggingar íþróttahúss í sveitarfélaginu og tillaga frá minnihluta sveitarstjórnar um að hætt verði við framkvæmdina.

 

Við upphaf fundarins var samþykkt samhljóða tillaga oddvita um breytingu frá auglýstri dagskrá þess efnis að bætt yrði við tveimur liðum, þ.e. niðurstöðu útboðs í bygginguna (sem opnað hafði verið daginn áður) og fundargerð skólanefndar frá 6. júní 2000. Var síðan gengið til dagskrár og kynnti oddviti fyrst niðurstöðu útboðs. Kom fram að aðeins eitt tilboð barst í verkið og reyndist það u.þ.b. 40% umfram kostnaðaráætlun. Tillaga oddvita um að tilboðinu yrði hafnað var samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa meirihluta en minnihlutinn greiddi ekki atkvæði.

 

Að þessari afgreiðslu lokinni lagði oddviti til að frekari umræðu um fyrirhugað íþrótta- hús yrði frestað þar sem ekki lægi á þeirri umræðu í ljósi fyrrgreindrar afgreiðslu. Þessu mótmælti minnihlutinn en fulltrúar meirihluta samþykktu þessa málsmeðferð. Þessu næst, er oddviti hugðist kynna næsta mál á dagskrá, lagði annar fulltrúi minnihlutans til að öðrum dagskrárliðum yrði þá einnig frestað til næsta reglulegs fundar sveitarstjórnar. Þessu hafnaði oddviti og minnti á að hann einn færi með fundarstjórn. Óskuðu fulltrúar minnihluta þá eftir að bókuð yrðu mótmæli við fundarstjórn oddvita og að svo búnu viku fulltrúar minnihlutans af fundinum.

 

Í umsögn meirihluta sveitarstjórnar er að finna ítarlega umfjöllun um málsmeðferð sveitarstjórnar frá því fyrst var hafin umræða um byggingu íþróttahúss í sveitarfélaginu. Í umsögninni eru hins vegar litlar skýringar gefnar á ástæðum þeirra ákvarðana oddvita og/eða meirihluta sveitarstjórnar sem minnihlutinn gerir athugasemdir við en tekið skal fram að í öllum verulegum atriðum ber aðilum saman um málsatvik. Í fundargerð sveitar- stjórnar frá 8. júní 2000 kemur hins vegar skýrt fram að ákvörðun um að fresta frekari umræðu um byggingu íþróttahúss var tekin „í ljósi nýrra aðstæðna“. Telur ráðuneytið að þar sé vísað til þess að ekkert viðunandi tilboð hafi borist í framkvæmdina.

 

Í niðurlagi umsagnarinnar segir síðan:

Það er skilningur meirihluta sveitarstjórnar í Djúpárhreppi að við höfum reynt eftir bestu getu að fara eftir sveitarstjórnarlögum og fundarsköpum Djúpárhrepps á þessum fundi sem og öðrum hingað til. Það er okkur hinsvegar áhyggjuefni að minnihlutinn víki á þennan hátt af fundi sveitarstjórnar og víki sér þannig undan skyldum sínum sem sveitar- stjórnarmenn (sjá 33. gr. í fundarsköpum Djúpárhrepps og 27. gr. sveitarstjórnarlaga). Meirihluti sveitarstjórnar Djúpárhrepps fer því fram á að minnihluti sveitarstjórnar verði víttur og áminntur um réttindi sín og skyldur sem réttkjörnir sveitarstjórnarmenn í sveitar- stjórn Djúpárhrepps.

 

II.      Álit ráðuneytisins

 

Í gögnum þeim sem aðilar hafa lagt fram kemur greinilega fram að það ósætti sem varð á fundi sveitarstjórnar Djúpárhrepps þann 8. júní sl. á sér nokkra forsögu. Ráðuneytið telur hins vegar óþarft að fara ítarlega ofan í þau mál og mun því einskorða umfjöllun sína við tvö atriði, þ.e. annars vegar hvort oddviti hafi við fundarstjórn gerst brotlegur við sveitarstjórnarlög og samþykkt um stjórn og fundarsköp Djúpárhrepps og hins vegar hvort fulltrúum minnihluta hafi verið heimilt að víkja af sveitarstjórnarfundi með þeim hætti sem að framan er lýst.

 

Ákvörðun oddvita um að fresta umræðu

 

Í 19. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Djúpárhrepps nr. 223/2000 segir meðal annars svo:

Oddviti sveitarstjórnar stýrir fundum hennar. Hann setur fund, kannar lögmæti hans, stjórnar umræðum og afgreiðslu mála og slítur fundi þegar dagskrá hans er tæmd. Jafn- framt sér hann um að fundargerðir séu skipulega færðar í gerðabók sveitarstjórnarinnar og að allar ályktanir og samþykktir séu rétt og nákvæmlega bókaðar. Oddviti úrskurðar um skilning á fundarsköpum en skjóta má úrskurði hans til úrlausnar sveitarstjórnar. Oddviti sér um að allt fari skipulega og löglega fram á sveitarstjórnarfundum og er sveitarstjórnarmönnum skylt að lúta valdi hans að því er varðar fundarsköp og góða reglu.

 

 

 

 

 

Ákvæði þetta er nánari útfærsla á 22. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

 

20. gr. samþykktarinnar er síðan svohljóðandi:

Mál skulu tekin til umræðu og afgreidd í þeirri röð sem þau eru á dagskrá nema oddviti eða sveitarstjórn ákveði annað.

Heimilt er að taka til meðferðar á sveitarstjórnarfundi mál sem ekki hefur verið á dagskrá ef 2/3 viðstaddra sveitarstjórnarmanna samþykkja slíkt afbrigði.

 

Síðarnefnda ákvæðið kveður ekki berlega á um að sveitarstjórn sé heimilt að fresta einstökum dagskrárliðum án þess að umræða um þá fari fram. Ráðuneytið telur hins vegar að þá heimild sé að finna í 28. og 29. gr. samþykktarinnar og gildi sú heimild um öll þau mál sem ekki ber að afgreiða fyrir tiltekinn tíma, sbr. lokamálslið 29. gr. Er ljóst af fundar- gerð umrædds sveitarstjórnarfundar að frestunartillaga kom fram frá oddvita og að sú tillaga var samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa meirihluta gegn tveimur atkvæðum fulltrúa minnihluta.

 

Að mati ráðuneytisins var hin umdeilda afgreiðsla því í samræmi við tilvitnuð ákvæði samþykktarinnar. Auk þess voru hinir frestuðu dagskrárliðir teknir til umræðu á næsta fundi sveitarstjórnar sem haldinn var 22. júní 2000. Telur ráðuneytið því ljóst að afgreiðsla sveitarstjórnar Djúpárhrepps frá 8. júní sl. hafi ekki brotið gegn sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998.

 

Brotthvarf fulltrúa minnihluta af sveitarstjórnarfundi

 

Fulltrúar meirihluta sveitarstjórnar vísa í umsögn sinni réttilega til ákvæða 27. gr. sveitarstjórnarlaga og 33. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Djúpárhrepps nr. 223/2000 til stuðnings þeirri kröfu sinni „að minnihluti sveitarstjórnar verði víttur og áminntur um réttindi sín og skyldur sem réttkjörnir sveitarstjórnarmenn í sveitarstjórn Djúpárhrepps.“

 

Samhljóða ákvæði eldri sveitarstjórnarlaga hafa verið túlkuð svo að með því að ganga af sveitarstjórnarfundi án lögmætra forfalla, til dæmis í mótmælaskyni áður en dagskrá fundarins er tæmd, brjóti sveitarstjórnarmenn í raun þá skyldu sína að sitja sveitar- stjórnarfundi, sbr. álit ráðuneytisins frá 5. júlí 1996 (ÚFS 1996:92) og frá 25. nóvember 1996 (ÚFS 1996:122).

 

Ef sveitarstjórnarmenn eru ekki sáttir við fundarstjórn oddvita eða ákvarðanir meiri- hluta sveitarstjórnar eiga þeir kost á að láta bóka mótmæli og fylgja því síðan eftir með því að óska eftir úrskurði félagsmálaráðuneytisins ef um vafaatriði er að ræða, sbr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga. Brotthvarf af fundi í mótmælaskyni er því í raun ekki í samræmi við sveitarstjórnarlög.

 

Krafa um að ráðuneytið áminni fulltrúa minnihluta sveitarstjórnar byggist á 2. mgr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga. Í framkvæmd hefur ráðuneytið túlkað umrætt ákvæði þröngt. Áminning verður því aðeins veitt ef brot er stórfellt, ítrekað eða að ásettu ráði. Ráðuneytið telur að ákvörðun fulltrúa minnihluta sveitarstjórnar Djúpárhrepps verði að túlka meðal annars í ljósi þess að það mál sem varð kveikja að útgöngunni hafði verið hitamál í sveitar- félaginu um allnokkurt skeið. Er þá einnig tekið tillit til þess að tæpur helmingur atkvæðis- bærra íbúa sveitarfélagsins hafði undirritað mótmæli gegn byggingu íþróttahúss í sveitar- félaginu og að umræddur sveitarstjórnarfundur var boðaður að ósk fulltrúa minnihlutans til þess að ræða þau mótmæli.

 

 

 

 

 

 

Með vísan til framangreinds er telur ráðuneytið ekki tilefni til að áminna fulltrúa minnihluta sveitarstjórnar Djúpárhrepps vegna brots á 27. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og 33. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Djúpárhrepps nr. 223/2000.

 

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

 

Samrit: Guðjón Guðnason

Afrit: Meirihluti sveitarstjórnar Djúpárhrepps

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta