Vesturbyggð - Lögmæti yfirlýsingar bæjarfulltrúa um frávik við boðun varamanna á bæjarstjórnarfundi
Vesturbyggð 3. október 2002 FEL02070025/1001
Jón B. G. Jónsson, forseti bæjarstjórnar
Aðalstræti 63
450 PATREKSFIRÐI
Hinn 3. október 2002 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi
úrskurður:
Með erindi, dags. 2. júlí 2002, óskaði forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar eftir því að ráðuneytið úrskurðaði um lögmæti bókunar bæjarfulltrúa S-lista Samstöðu frá 20. júní 2002. Bókunin er svohljóðandi: „Með vísun til 24. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og 22. gr. samþykkta um stjórn og fundasköp Vesturbyggðar hefur S-listi ákveðið að ef 2. maður á lista Samstöðu í bæjarstjórn Vesturbyggðar forfallast skal fyrst boða 8. mann af listanum. Að öðru leyti skulu varamenn kallaðir inn eftir þeirri röð sem þeir skipa listann.“
Málshefjandi gerir þá kröfu, í ljósi þess að í tilkynningu um framboð til sveitarstjórnarkosninga 25. maí 2002, sem send var til yfirkjörstjórnar, var einungis talað um S-lista Samstöðu og engin greining frekar á því framboði, að ráðuneytið úrskurði hvort ofangreind bókun standist lög og þá hvort S-lista Samstöðu beri ekki að kalla til 1. varamann listans en ekki 8. mann á framboðslistanum.
Með bréfi, dags. 11. júlí 2002, óskaði ráðuneytið umsagnar bæjarfulltrúa S-lista um málið. Var í bréfinu vakin athygli á úrskurði setts félagsmálaráðherra frá 16. desember 1998 (ÚFS 1998:195), varðandi Reykjavíkurborg, og bent á að aðstæður virtust um margt sambærilegar við það mál sem hér er til afgreiðslu. Umsögn barst með bréfi dags. 29. júlí 2002. Einnig ákvað ráðuneytið að óska umsagnar yfirkjörstjórnarinnar í Vesturbyggð um málið, samanber bréf dags. 16. ágúst 2002. Umsögn yfirkjörstjórnar barst ráðuneytinu 27. september 2002.
I. Efni umsagna
Í umsögn oddvita S-lista Samstöðu segir m.a. eftirfarandi:
„Að lista Samstöðu, S-lista, við sveitarstjórnarkosningar hinn 25. maí sl. stóðu eftirfarandi stjórnmálaöfl: Framsóknarflokkurinn, Vinstri grænir, Samfylkingin, Bæjarmálafélagið Samstaða og Blágóma-hreyfing ungs fólks í Vesturbyggð. Sú breyting varð á framboðinu við kosningarnar nú frá kosningunum 1998 að áðurnefnd stjórnmálasamtök fylktu liði undir heitinu Samstaða og listabókstafnum S, en í kosningunum 1998 stóð Bæjarmálafélagið Samstaða eitt að listanum með óbeinum stuðningi félagshyggjuafla í Vesturbyggð.
Undirrituð var samstarfsyfirlýsing milli þessara stjórnmálaafla 1. maí 2002, þar sem lýst er yfir þeirri ákvörðun „að vinna saman að bæjarmálum í Vesturbyggð næsta kjörtímabil með sameiginlegu framboði til bæjarstjórnar Vesturbyggðar í maí 2002 og bjóða fram undir merkjum S-lista Samstöðu“. Allir hópar sem stóðu að S-listanum nema Blágóma eru skráð með sjálfstæða kennitölu sem stjórnmálasamtök. Í allri kynningu á framboðinu, s.s. á öllum framboðsfundum, í blaðagreinum ..... og í munnlegri kynningu til yfirkjörstjórnar við framlagningu listans var þess getið hverjir stæðu að S-lista Samstöðu. Ekki var gerð athugasemd við þetta fyrirkomulag af hálfu kjörstjórnar.
Í samningaviðræðum milli framboðsaðila var strax m.a. gert samkomulag um ákveðna skiptingu varamannasæta og var það skýrt frá upphafi að varamaður 2. manns á S-listanum sem kemur frá Bíldudal og er fulltrúi bæjarmálafélagsins Samstöðu myndi kalla inn næsta mann á listanum sem einnig kæmi frá Bíldudal og væri fulltrúi bæjarmálafélagsins Samstöðu. Niðurstaðan er sú að þessi varamaður er 8. maður á listanum þ.e. Jón Þórðarson fv. bæjarfulltrúi. ...“
Í umsögninni lýsir oddviti S-lista þeirri skoðun að mörgu sé á annan veg háttað í því máli sem hér er til afgreiðslu en í úrskurði ráðuneytisins varðandi R-listann í Reykjavík árið 1998. Í þeim úrskurði komi fram að keppst hafi verið um í fjölmiðlum að kynna framboð R-listans sem framboð Reykjavíkurlistans, fremur en þeirra stjórnmálaafla sem að listanum stóðu. Í Vesturbyggð hafi frambjóðendur kynnt framboð S-listans sem sameiginlegt framboð þeirra stjórnmálaafla sem getið er að framan. Einnig er bent á í umsögninni að mál R-listans hafi verið úrskurðað á grundvelli eldri sveitarstjórnarlaga og í gildandi lögum séu reglur skýrari um skipan varamanna samsettra framboða.
Oddviti S-lista bendir á að í 24. gr. sveitarstjórnarlaga sé ekki gerður áskilnaður um að kjörseðill sé lagður fram með sérstökum hætti til að heimilt sé að beita heimild ákvæðisins til að leggja fram yfirlýsingu um mismunandi röð varamanna eftir því hver aðalmanna hefur forfallast. Yfirkjörstjórn hafi engar leiðbeiningar veitt um að þörf væri á að leggja framboðslista fram með öðrum hætti en gert var eins og tilefni hefði þó verið til ef svo væri. S-listinn telur sig hafa farið eftir lögum og reglum og meðal annars leitað álits lögfræðings félagsmálaráðuneytis áður en bókun listans var lögð fram á bæjarstjórnarfundi 20. júní 2002.
Í umsögn yfirkjörstjórnar Vesturbyggðar kemur fram að kjörstjórnin tekur ekki afstöðu til þess hvort S-listi Samstöðu teljist sjálfstætt stjórnmálaafl eða kosningabandalag, en vísar til kynningar framboðsins í fjölmiðlum og dreifiritum. Þá segir í umsögninni að oddviti listans hafi gert yfirkjörstjórn munnlega grein fyrir því hverjir stæðu að framboðinu þegar listinn var lagður fram. Ekki var fjallað um hvernig heiti framboðsins skyldi tilgreint á kjörseðli, að öðru leyti en því hvaða bókstafur skyldi notaður. Loks segir í umsögninni að kjörstjórn hafi ekki gefið út kjörbréf til Jóns Þórðarsonar.
II. Niðurstaða ráðuneytisins
Úrslit máls þessa ráðast af túlkun á ákvæði 2. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sem er svohljóðandi:
„Nú er framboðslisti borinn fram af tveimur eða fleiri stjórnmálaflokkum eða samtökum og geta þá aðalmenn listans komið sér saman um mismunandi röð varamanna eftir því hver aðalmanna hefur forfallast. Yfirlýsing um slíkt samkomulag skal lögð fram á fyrsta eða öðrum fundi sveitarstjórnar eftir kosningar.“
Samkvæmt yfirlýsingu sem lögð var fram á öðrum fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar að loknum kosningum hafa bæjarfulltrúar S-lista Samstöðu ákveðið að í forföllum annars manns á lista Samstöðu, Sonju Jónsdóttur, skuli boða áttunda mann listans, Jón Þórðarson, til setu á fundum bæjarstjórnar. Bæði eru þau félagar í bæjarmálafélaginu Samstöðu, auk þess sem bæði koma þau frá Bíldudal. Fjórði maður listans, sem jafnframt er fyrsti varamaður listans, Haukur Már Sigurðsson, kemur úr sömu stjórnmálasamtökum en hann er búsettur á Patreksfirði.
Ágreiningur aðila snýst um það hvort bæjarfulltrúar Samstöðu eigi rétt á að leggja fram yfirlýsingu á grundvelli 2. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga, með vísan til þess að á kjörseðli og í yfirlýsingu til yfirkjörstjórnar var ekki að finna upptalningu á þeim stjórnmálasamtökum sem stóðu að S-listanum. Niðurstaða málsins veltur þar af leiðandi á því hvort S-listi Samstöðu telst borinn fram af þeim stjórnmálaflokkum sem að stofnun hans stóðu eða af sjálfstæðu stjórnmálaafli, Samstöðu, sem borið hafi listann fram undir eigin merkjum.
Á svipað ágreiningsefni reyndi á grundvelli eldri sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, í úrskurði setts félagsmálaráðherra frá 16. desember 1998 (ÚFS 1998:195), varðandi R-listann í Reykjavík. Réðist niðurstaða í því máli meðal annars af því að sá aðalmaður sem tímabundið vék sæti úr borgarstjórn Reykjavíkur nýtti sér ekki heimild í 4. mgr. 35. gr. laganna til að tilnefna varamann í sinn stað. Sambærilega heimild er ekki að finna í núgildandi sveitarstjórnarlögum. Jafnframt kemur fram í úrskurði ráðuneytisins að Reykjavíkurlistinn er sjálfstæð stjórnmálasamtök og var framboðslisti R-listans einungis borinn fram af þeim samtökum, sbr. 3. mgr. 37. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Var niðurstaða ráðuneytisins sú að yfirlýsing borgarfulltrúa R-lista þess efnis að ef um forföll borgarfulltrúa til lengri tíma væri að ræða tæki varaborgarfulltrúi frá sömu stjórnmálasamtökum sæti í borgarstjórn, samræmdist ekki ákvæði 2. mgr. 35. gr. laga nr. 8/1986.
Mál það sem hér er til úrlausnar er að því leyti frábrugðið máli R-listans í Reykjavík að S-listi Samstöðu er ekki skráð stjórnmálasamtök og yfirlýsing bæjarfulltrúa S-lista sem véfengd er í máli þessu varðar öll forföll 2. manns á S-lista en yfirlýsing borgarfulltrúa R-lista varðaði einungis forföll til lengri tíma. Einnig er þess að gæta að 24. gr. núgildandi sveitarstjórnarlaga er að nokkru frábrugðin 35. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Að mati ráðuneytisins er þó ekki um grundvallarmun að ræða á þessum málum.
Regla 2. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga kom fyrst í lög við setningu sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Í athugasemdum við 35. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 8/1986 segir eftirfarandi: „Greinin fjallar um sama efni og 3. mgr. 20. gr. núgildandi sveitarstjórnarlaga, en það nýmæli er í 2. mgr. að aðilar, sem standa sameiginlega að framboðslista, geta gert samkomulag um mismunandi röð varamanna, eftir því hver aðalmanna hefur forfallast, og skal þá leggja fram yfirlýsingu um samkomulag á 1. eða 2. fundi sveitarstjórnar eftir kosningar.“
Út frá lögskýringargögnum hefur ráðuneytið um nokkurt skeið verið þeirrar skoðunar að fyrrgreindur úrskurður setts félagsmálaráðherra varðandi R-listann í Reykjavík hafi byggst á of strangri lagatúlkun. Verður að fallast á það sjónarmið oddvita S-lista Samstöðu að ekki er í 2. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga gerð krafa um að framboðslisti sé borinn fram með ákveðnum hætti. Slíkar kröfur eru raunar ekki heldur gerðar í VI. kafla laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, þótt af 3. mgr. 37. gr. þeirra laga verði dregin sú ályktun að nauðsynlegt sé að tilgreina í tilkynningu til yfirkjörstjórnar heiti þeirra samtaka sem standa að framboðslista.
Fram kemur í umsögn yfirkjörstjórnar og öðrum gögnum málsins að í kynningu á S-lista Samstöðu hafi forráðamenn framboðsins leitast við að upplýsa að um væri að ræða kosningabandalag fimm sjálfstæðra stjórnmálaflokka eða samtaka. Í ljósi þessa og með vísan af öllu því sem að framan er rakið telur ráðuneytið að bókun bæjarfulltrúa S-lista Samstöðu á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var 20. júní 2002 eigi sér næga stoð í 2. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.
ÚRSKURÐARORÐ
Bókun bæjarfulltrúa S-lista Samstöðu frá 20. júní 2002, um að 8. maður á lista taki sæti í bæjarstjórn við forföll 2. manns listans, er gild.
F. h. r.
Hermann Sæmundsson (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)
Afrit:
S-listi Samstöðu