Sveitarfélagið Vogar - Framkvæmd kosningar fulltrúa á landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga
Inga Sigrún Atladóttir, bæjarfulltrúi
13. september 2006
FEL06070027
Aragerði 12
190 Vogum
Þann 13. september 2006 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneyti svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með bréfi, dags. 12. júlí 2006, óskaði Inga Sigrún Atladóttir, f.h. minnihlutans í bæjarstjórn
Sveitarfélagsins Voga, eftir því að félagsmálaráðuneytið úrskurðaði um lögmæti þess að
meirihluti í bæjarstjórn sveitarfélagsins skipaði tvo menn úr sínum röðum á landsþing Sambands
íslenskra sveitarfélaga, 27.–29. september nk., auk tveggja varamanna. Er í því efni vísað til
fundargerðar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 20. júní 2006 (á að vera 27. júní 2006).
Kæran var send til umsagnar Sveitarfélagsins Voga, hér eftir nefnt kærði, með bréfi, dags. 26. júlí
2006. Var sérstaklega óskað eftir upplýsingum um ástæður þess að ekki fóru fram
hlutfallskosningar í samræmi við 31. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins
Voga við afgreiðslu fulltrúa á landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Umsögn barst
ráðuneytinu þann 14. ágúst 2006 með bréfi, dags. 10. sama mánaðar, en afrit af því bréfi hafði
verið sent Ingu Sigrúnu Atladóttur, hér eftir nefnd kærandi. Athugasemdir kæranda, dags. 30.
ágúst 2006, bárust ráðuneytinu 4. september 2006.
I. Málavextir.
Málið snýst um kjör fulltrúa Sveitarfélagsins Voga á landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga
sem haldið verður 27.–29. september n.k.. Vegna fjölgunar íbúa í sveitarfélaginu á bæjarstjórn nú
rétt á að tilnefna tvo fulltrúa á landsþingið í stað eins áður. Málið var tekið fyrir á fundi
bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga, þann 27. júní 2006, og gerð svofelld bókun:
„2. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 14. júní 2005.
Meirihlutinn leggur fram tillögu um aðalmenn og varamenn vegna landsþings Sambands
íslenskra sveitarfélaga sem fram fer þann 27.–29.september n.k.
Aðalmenn: Birgir Örn Ólafsson, forseti bæjarstjórnar. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri.
Varamenn: Anný Helena Bjarnadóttir, formaður bæjarráðs. Inga Rut Hlöðversdóttir,
bæjarfulltrúi.
Sigurður Kristinsson leggur fram tillögu um að landsþingsfulltrúunum verði skipt milli
minnihluta og meirihluta þannig að þeir fái einn hvor.
Forseti ber upp breytingartillögu Sigurðar.
Felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Forseti ber upp tillögu meirihlutans.
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.“
Eftir að erindi kæranda barst ráðuneytinu leitaði meirihlutinn eftir sátt í málinu á fundi 9. ágúst
2006. Minnihlutinn hafnaði að farin yrði sáttaleið.
II. Málsrök kæranda.
Málsrök kæranda koma fram í erindi hans til félagsmálaráðuneytis, dags. 12. júlí 2006, og í
athugasemdum hans við umsögn kærða, dags. 30. ágúst 2006.
Kærandi tekur fram að minnihlutinn í bæjarstjórn hafi talið víst að fulltrúar á landsþing
Sambands íslenskra sveitarfélaga yrðu kosnir hlutfallskosningu eins og kveðið er á um í 31. gr.
samþykktar um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Voga, nr. 1230/2005 og 40. gr.
sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum. Á fundi bæjarstjórnar þann 27. júní 2006
hafi meirihluti bæjarstjórnar fellt formlega tillögu minnihlutans þess efnis og skipað tvo menn úr
sínum röðum auk tveggja varamanna.
Með framangreindri málsmeðferð telji kærandi að brotið hafi verið á rétti minnihlutans til að
skipa annan tveggja fulltrúa sveitarfélagsins á landsþinginu.
Kærandi bendir í athugasemdum sínum við umsögn kærða, dags. 10. ágúst 2006, á að ef forseti
bæjarstjórnar hafi talið víst að hlutfallskosning ætti að fara fram hafi honum borið að kalla eftir
lista frá minnihluta bæjarstjórnar. Minnihlutinn hafi lagt fram tillögu um að annar fulltrúinn af
tveimur kæmi frá minnihlutanum eins og niðurstaða hlutfallskosningu hefði orðið, en undir stjórn
forsetja bæjarstjórnar hafi sú tillaga verið felld. Svo virðist sem forseti bæjarstjórnar hafi ákveðið
að virða rétt minnihlutans að engu, ekki hafi verið um mistök eða yfirsjón vegna vanþekkingar að
ræða. Kærandi telji framkomu forseta bæjarstjórnar og afgreiðslu meirihlutans í málinu það
vítaverða að rétt væri að óska úrskurðar félagsmálaráðuneytisins þannig að ljóst mætti vera að
núverandi minnihluti myndi ekki una því, án aðgerða, að meirihlutinn bryti á rétti hans.
Afgreiðsla meirihlutans á tillögu minnihlutans um kjör á þing Sambandsins sé skýr og þurfi ekki
annað en að lesa fundargerð bæjarstjórnar frá 27. júní 2006. Kærandi tekur fram að í þessu
sambandi sé hægt að skoða með hverjum hætti staðið hafi verið að kjöri fulltrúa í nefndir og ráð á
vegum sveitarfélagsins, en þar hafi meirihluti og minnihluti tilnefnt sína fulltrúa, eins og venja
hafi verið í sveitarfélaginu um margra ára skeið, án þess að lagðir hafi verið fram listar. Til að
fengin verði leiðrétting á kjöri fulltrúa á landsþingið þyki rétt að málið haldi áfram í þeim farvegi
sem það sé komið í og því hafi sáttaumleitan, sem meirihlutinn lagði til á fundi 9. ágúst 2006,
verið hafnað. Kærandi óskar eftir því að ráðuneytið úrskurði um lögmæti samþykktar
meirihlutans og hlutist til um að lögum sé fylgt.
III. Málsrök kærða.
Kærði tekur fram að talið hafi verið víst að fram færi hlutfallskosning um umrædda tvo fulltrúa
og því hafi af hans hálfu verið lagður fram listi yfir aðal- og varafulltrúa. Fulltrúar minnihlutans
hafi ekki lagt fram lista yfir sína fulltrúa og því verði að telja ólíklegt að minnihlutinn hafi talið
víst að hlutfallskosning færi fram. Auk þess mótmælir kærði því að felld hafi verið tillaga
minnihlutans um að fram færi hlutfallskosning. Hið rétta sé að minnihlutinn hafi lagt fram tillögu
um helmingaskipti á fulltrúum, eins og sjá megi í fundargerð bæjarstjórnar frá 27. júní 2006, en á
þeim fundi hafi aldrei komið fram ósk um að hlutfallskosning færi fram.
Þegar ljóst hafi verið að minnihlutinn var óánægður með afgreiðslu málsins hafi verið leitað sátta
í málinu, en minnihlutinn hafnaði því. Þyki meirihlutanum sú afstaða minnihlutans mjög miður
Loks tekur kærði fram að hafnað sé ásökunum um að meirihlutinn hafi brotið á rétti
minnihlutans. Bent er á að minnihlutanum hafi láðst að leggja fram lista svo að hlutfallskosning
gæti farið fram. Ítrekað er að meirihlutinn hafi boðist til að taka málið upp að nýju en þeirri
tillögu verið hafnað.
IV. Niðurstaða ráðuneytisins.
Málið er tekið til úrskurðar skv. 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Aðild kæranda að
málinu byggist á setu hans í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Voga.
Mál þetta snýst um eftir hvaða reglum kosning fulltrúa sveitarstjórna á landsþing Sambands
íslenskra sveitarfélaga fari.
Í lögum Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem samþykkt voru 26. nóvember 2004, segir svo í 4.
gr. um kosningu fulltrúa á landsþing: „Kosning fulltrúa fer eftir sömu reglum og gilda um
kosningu nefnda samkvæmt sveitarstjórnarlögum.“ Í 1. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga, nr.
45/1998, segir svo um kosningu í nefndir: „Sveitarstjórn kýs fulltrúa í nefndir, ráð og stjórnir eftir
því sem fyrir er mælt í lögum og samþykkt um stjórn sveitarfélagsins ....“ Um sama atriði segir
svo í 3. mgr. 31. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Voga nr. 1230/2005,
með síðari breytingum: „Kosningar sem fara fram í bæjarstjórn skulu vera hlutfallskosningar ....“
Samkvæmt framangreindu er ljóst að í Sveitarfélaginu Vogum skal kosning fulltrúa til landsþings
Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem fram fer á fundi bæjarstjórnar, vera hlutfallskosning.
Samkvæmt 22. gr. sveitarstjórnarlaga stjórnar oddviti umræðum á fundum sveitarstjórnar og skal
sjá til þess að þar fari allt löglega fram.
Kærandi bendir á að fulltrúar minnihluta í bæjarstjórn hafi talið víst að fulltrúar á landsþingið
yrðu kosnir hlutfallskosningu eins og reglur kveði á um, sbr. 31. gr. samþykktar Sveitarfélagsins
Voga og 40. gr. sveitarstjórnarlaga. Kærði bendir hins vegar á að þar sem minnihlutinn lagði ekki
fram lista yfir sína fulltrúa á landsþing Sambandsins, þegar málið var tekið fyrir fundi
bæjarstjórnar 27. júní 2006, verði að telja ólíklegt að minnihlutinn hafi talið víst að
hlutfallskosning færi fram.
Með hliðsjón af þeirri skyldu og ábyrgð sem hvílir á forseta bæjarstjórnar skv. 22. gr.
sveitarstjórnarlaga um að málsmeðferð á fundum sveitarstjórnar fari löglega fram, telur
ráðuneytið að forseti bæjarstjórnar hafi ekki gætt þess nægilega við meðferð málsins á fundinum
27. júní 2006 að kosning færi fram í samræmi við 31. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp
sveitarfélagsins. Að mati ráðuneytisins bar forseta að beina meðferð málsins í þann löglega
farveg að um það færi fram hlutfallskosning og í því sambandi kalla eftir lista minnihluta með
nafni a.m.k. eins aðalmanns og annars til vara.
Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að ekki verði hjá því komist að ógilda niðurstöðu
atkvæðagreiðslu um kjör fulltrúa Sveitarfélagsins Voga á landsþing Sambands íslenskra
sveitarfélaga og beina því til bæjarstjórnar að endurupptaka málið hið fyrsta.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga, á fundi þann 27. júní 2006, um kjör tveggja
aðalmanna og tveggja varamanna á landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fram fer 27.–
29. september nk., er ógild.
Fyrir hönd ráðherra
Guðjón Bragason (sign.)
Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)