Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Vesturbyggð - Dagskrá sveitarstjórnarfunda, úrskurðarvald og fundarstjórn oddvita

Jón B. G. Jónsson , bæjarfulltrúi
8. júní 2007
FEL07030025

Mýrum 4

450 Patreksfirði

Hinn 7. júní 2007 er kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

Með erindi, dags. 26. febrúar 2007, óskaði Jón B.G. Jónsson, bæjarfulltrúi D-lista í bæjarstjórn Vesturbyggðar, hér eftir nefndur kærandi, eftir úrskurði félagsmálaráðuneytisins vegna vinnubragða forseta bæjarstjórnar og meintra brota á bæjarmálasamþykkt á tveimur fundum bæjarstjórnar Vesturbyggðar, hér eftir nefnd kærði, sem fram fóru 17. janúar og 21. febrúar 2007 (175. og 176. fundur bæjarstjórnar).

Erindið var sent bæjarstjórn Vesturbyggðar til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 12. mars 2007. Umsögn bæjarstjórnar, dags. 11. apríl 2007, barst ráðuneytinu hinn 14. apríl 2007. Umsögnin var send kæranda með bréfi ráðuneytisins, dags. 17. apríl 2007.

I. Málavextir.

 

Kærandi kvartar undan tveimur atvikum sem áttu sér stað á 175. fundi bæjarstjórnar hinn 17. janúar 2007 og einu atviki frá 176. fundi bæjarstjórnar hinn 21. febrúar 2007.

Tilboð í Aðalstræti 52

 

Í fyrsta lagi varðar kvörtunin umfjöllun um sölu fasteignar í eigu sveitarfélagsins. Á 175. fundi var tekinn til staðfestingar liður 5 úr fundargerð bæjarráðs undir heitinu „Sala fasteigna á Patreksfirði". Um það segir í fundargerð bæjarráðs að um miðjan desember 2006 hafi verið auglýstar fasteignir Vesturbyggðar við Aðalstræti 52 og var óskað eftir tilboði. Borist hafi kauptilboð og fagnaði bæjarráð framkomnu tilboði og samþykkti það einróma.

Þegar málið kom til staðfestingar í bæjarstjórn hinn 17. janúar 2007 spurðist einn bæjarstjórnarfulltrúi fyrir um það hvort ekki hefðu borist tvö tilboð í eignina. Bæjarstjórinn skýrði frá því að hinn 11. janúar 2007 hefði borist annað tilboð í umrædda eign.

Kærandi tók þá til máls og fjallaði um samþykkt bæjarráðs um sölu á fasteigninni Aðalstræti 52 frá 9. janúar 2007 og taldi að bæjarráð hefði ekki fullnaðarumboð til afgreiðslu og það sé bæjarstjórnar að fjalla um sölu eigna.

Á fundi bæjarstjórnar var síðan bókað að borist hafi tvö tilboð í eignina, annað sem barst eftir afgreiðslu bæjarráðs hinn 9. janúar 2007 frá GP: „Tilboð [G] barst þann 11. janúar s.l. Eftirtaldir samþykkir að tilboð frá [GP] verði tekið inn á dagskráliðinn Ú.B.T., A.J., J.H.Á. og G.I.G. Jón B.G. Jónsson mótmælir harðlega þessum vinnubrögðum."

Varðandi umræðu um tilboðin tvö gerði kærandi grein fyrir atkvæði sínu og óskaði eftir að bókað yrði að bæjarfulltrúar D-listans áskilji sér rétt til að skjóta til úrskurðar félagsmálaráðuneytisins þeirri ákvörðun forseta bæjarstjórnar að þvinga inn á dagskrána með fjórum atkvæðum meirihlutans gegn þremur atkvæðum minnihlutans að taka til afgreiðslu tvö tilboð í húseignina að Aðalstræti 52. Tilboðin hafi ekki verið send út með fundargögnum og þau hafi ekki legið fyrir til skoðunar á fundinum.

Málefni Fasteigna Vesturbyggðar ehf.

 

Í öðru lagi varðar kvörtun kæranda málsmeðferð á 175. fundi bæjarstjórnar á tillögu hans um að bæjarstjórn samþykkti vantraust á formann stjórnar Fasteigna Vesturbyggðar ehf. Um það atriði vísast nánar til kaflans um sjónarmið kæranda.

Uppsögn framkvæmdastjóra Fasteigna Vesturbyggðar ehf.

 

Í þriðja og síðasta lagi tekur kvörtun kæranda til eins atviks á 176. fundi bæjarstjórnar hinn 21. febrúar 2007. Kærandi gerði athugasemd við fundarboðið og taldi að ekki hefði verið farið eftir 11. og 12. gr. fundarskapa Vesturbyggðar. Athugasemd þessi hafi verið gerð vegna óskar kæranda um að taka fyrir bréf frá FosVest vegna uppsagnar framkvæmdastjóra Fasteigna Vesturbyggðar ehf. sem var hafnað og að gögn varðandi fundinn hafi borist í tölvupósti rétt fyrir fund. Hafi kærandi óskað eftir afbrigði á dagskrá. Um það er bókað í fundargerð: „...forseti ber upp afbrigðið til atkvæðagreiðslu að við bætist dagskrárliður nr. 9 samþykkir (Þ.I. J.B.G.J., og N.J.), 3 á móti (Ú.B.T., A.J. A.H) og einn situr hjá (G.I.G). Dagskrárliðurinn ekki tekinn fyrir þar sem forseti telur að málið hafi fallið á jöfnu."

Kærandi lagði fram eftirfarandi bókun um fundarstjórn forseta bæjarstjórnar: „Undirritaður fór fram á það við bæjarstjóra á bæjarráðsfundi hinn 13. febrúar s.l. að tekið yrði á dagskrá bæjarstjórnarfundar í dag 21. febrúar bréf frá FosVest sem stílað var á bæjarstjórn og varðaði uppsögn [OG] framkvæmdastjóra FastVest. Þar sem ljóst er að þessi uppsögn framkvæmdastjóra er ólögleg og getur skaðað bæjarsjóð fjárhagslega er rétt og skylt að ræða það í bæjarstjórn. Þegar það svo kemur í ljós á útsendum fundargögnum bæjarstjórnarfundarins að fyrrnefnt bréf er ekki með gerði undirritaður athugasemd við bæjarstjóra sem upplýsti þá að forseti bæjarstjórnar, Úlfar Thoroddsen, neiti að taka bréfið inn á fundinn sem eins og áður sagði er stílað á bæjarstjórn. Þessi framkoma forseta bæjarstjórnar er klárlega brot á bæjarmálasamþykkt Vesturbyggðar sbr. 11. grein hennar."

Um málavexti að öðru leyti vísast til þess sem fram kemur í sjónarmiðum kæranda og kærða.

II. Sjónarmið kæranda.

 

Tilboð í Aðalstræti 52

 

Kærandi tekur fram að á 175. fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar hinn 18. janúar 2007 hafi forseti bæjarstjórnar ákveðið undir 5. lið fyrsta máls á dagskrá „að þvinga inn á dagskrána sem afbrigði nýtt tilboð í fasteignina Aðalstræti 52, Patreksfirði" sem bæjarfulltrúar höfðu áður ekki haft aðgang að. Samþykkt hafi verið með fjórum atkvæðum gegn þremur að taka málið, þ.e. hið nýja tilboð, á dagskrá sem sé ekki nægilegt þegar afbrigði frá boðaðri dagskrá eigi í hlut. Kærandi tekur fram í þessu sambandi að bæjarráð Vesturbyggðar hafði ekki samþykkt sölu viðkomandi fasteignar en þá hafði einungis eitt tilboð verið til umræðu.

Málefni Fasteigna Vesturbyggðar ehf.

 

Þá tekur kærandi fram að hann hafi óskað eftir því fyrir umræddan bæjarstjórnarfund að tekin yrðu á dagskrá málefni Fasteigna Vesturbyggðar ehf. Það félag sé alfarið í eigu bæjarfélagsins og var stofnað utan um félagslegar fasteignir bæjarfélagsins. Orðið var við þessari beiðni en fundargögn ekki send út með öðrum fundargögnum, heldur hluti þeirra sendur sem tölvupóstur. Kærandi spyr í því sambandi hvort slíkt sé í samræmi við bæjarmálasamþykkt.

Kærandi tekur enn fremur fram að að loknum umræðum á fundinum hafi hann lagt fram tillögu um að bæjarstjórn samþykkti vantraust á formann stjórnar Fasteigna Vesturbyggðar ehf., sem bæjarstjórn skipar, vegna starfa hans sem stjórnarformanns. Hafi forseti bæjarstjórnar neitað kæranda að leggja tillöguna fram án nokkurs rökstuðnings.

Uppsögn framkvæmdastjóra Fasteigna Vesturbyggðar ehf.

 

Hvað 176. fund bæjarstjórnar varðar tekur kærandi fram að hann hafi óskað eftir því við bæjarstjóra með lögbundnum fyrirvara samkvæmt bæjarmálasamþykkt að tekið yrði á dagskrá bréf sem Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum hafi sent meðal annars bæjarstjórn vegna uppsagnar framkvæmdastjóra Fasteigna Vesturbyggðar ehf. Hafi bæjarstjóri samþykkt að taka málið á dagskrá enda bréfið sent bæjarstjórn með tveggja til þriggja vikna fyrirvara. Síðan hafi kærandi fengið tölvupóst þar sem fram kom að forseti bæjarstjórnar neiti að taka málið á dagskrá. Engin rök hafi fylgt þeirri ákvörðun. Vandséð sé hvernig kjörnir fulltrúar eigi að sinna starfi sínu ef þeir hafi ekki aðgang að þeim málum sem berist bæjarstjórn. Þá tekur kærandi fram að bæjarfulltrúum hafi ekki borist þetta bréf heldur hafi það verið sent til bæjarskrifstofu Vesturbyggðar. Kærandi hafi frétt það utan frá að umrætt bréf hafi verið sent bæjarstjórn.

Í lok erindis síns tekur kærandi fram að það sé skilningur hans að öll þau mál sem snerti stjórnun bæjarfélagsins skuli vera „uppi á borðinu" og til umræðu í bæjarstjórn óski bæjarfulltrúar eftir því. Þannig virki væntanlega lýðræði og góð stjórnsýsla.

III. Sjónarmið kærða.

 

Tilboð í Aðalstræti 52.

 

Hvað varði kvörtun kæranda undan því að nýtt tilboð í eignina Aðalstræti 52, Patreksfirði, hefði verið „þvingað" inn á 175. fund bæjarstjórnar, bendir kærði á að það mál hafi heyrt undir dagskrárliðinn „Sala fasteigna". Vísað er til innsendra gagna í því sambandi. Þegar sá dagskrárliður hafi komið til umræðu hafi forseti bæjarstjórnar gert bæjarstjórnarmönnum grein fyrir því að nýtt tilboð hefði borist eftir að dagskrá var send út. Það hafi verið mat forseta bæjarstjórnar að reglan um 2/3 hluta atkvæða, um nýtt mál sem ekki hafi verið í boðaðri dagskrá, ætti ekki við heldur dygði einfaldur meirihluti. Með þessu hafi forseti viljað gæta jafnræðis milli tilboðsgjafa í meðferð málsins. Hafi forseti talið að það hefði verið grófleg mismunun í ljósi aðstæðna að ganga fram hjá því tilboði sem barst inn á fundinn. Efni tilboðsins hefði verið það einfalt og skýrt í framsetningu að ekki hefði þurft að koma til sérstaks fundar um það eða fresta dagskrárliðnum í heild til næsta fundar. Hér hafi jafnræði í málsmeðferð verið ráðandi sjónarmið.

Málefni Fasteigna Vesturbyggðar ehf.

 

Hvað varðar kvörtun kæranda þess efnis að forseti bæjarstjórnar hafi á 175. fundi hafnað að taka við tillögu kæranda um tillögu um vantraust á formann stjórnar Fasteigna Vesturbyggðar ehf., tekur kærði eftirfarandi helst fram: Forseti bæjarstjórnar hafi litið svo á að tillaga um vantraust á formann stjórnar Fasteigna Vesturbyggðar ehf. ætti ekki erindi inn á fund bæjarstjórnar þar sem Fasteignir Vesturbyggðar ehf. væru sjálfstætt félag í eigu Vesturbyggðar og með sjálfstæðri stjórn. Um starfsemina gildi samþykktir sem mótaðar voru og staðfestar af bæjarstjórn Vesturbyggðar á 122. fundi hennar hinn 9. apríl 2003. Eftir þeim samþykktum beri að fara um meðferð málefna félagsins. Kærandi hafi lagt fram sömu tillögu um vantraust á formanninn í stjórn félagsins á fundi stjórnarinnar hinn 3. janúar 2007 og síðan hafi virst sem hann ætlaði sér í framhaldi af því að fara með sama mál á fyrrgreindan fund bæjarstjórnar Vesturbyggðar. Stjórnsýslulega gangi slík málsmeðferð ekki upp. Í því ljósi hafi forseta bæjarstjórnar borið að vísa málinu frá með fyrrgreindum rökstuðningi. Rétta leiðin fyrir bæjarfulltrúa hafi verið sú að óska eftir fundi í stjórn félagsins í samræmi við 22. gr. samþykkta um Fasteignir Vesturbyggðar ehf., enda fari félagið með sínar eigin valdheimildir sem bæjarstjórn Vesturbyggðar hafi framselt því.

Uppsögn framkvæmdastjóra Fasteigna Vesturbyggðar ehf.

 

Hvað 176. fund bæjarstjórnar Vesturbyggðar varðar lýtur kvörtun kæranda að því að forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar hafi neitað að verða við tilmælum kæranda um að taka á dagskrá bréf sem stílað var á stjórn Fasteigna Vesturbyggðar ehf. Sjónarmið og rök kærða um það atriði eru eftirfarandi:

Umrætt bréf var stílað á stjórn Fasteigna Vesturbyggðar ehf. og afrit meðal annars sent bæjarstjórn Vesturbyggðar. Þar sem bréfið var stílað á stjórn félagsins hafi það ekki verið viðfangsefni bæjarstjórnar

Vesturbyggðar að fjalla um efni þess. Meðferð þess máls hafi heyrt undir stjórn Fasteigna Vesturbyggðar ehf. og það ætti kæranda að vera vel kunnugt um þar sem hann sé einn þriggja stjórnarmanna í félaginu. Jafnframt tekur kærði fram að á þessum tíma hafði stjórn félagsins ekki tekið efni bréfsins til umfjöllunar. Í því sambandi vísar kærði í stjórnsýslulega stöðu Fasteigna Vesturbyggðar ehf. sem áður hafi verið greint frá í umsögn hans.

Þá tekur kærði fram að með öllu sé óskiljanlegt að kærandi, sem sé bæjarstjórnarmaður og jafnframt stjórnarmaður í viðkomandi félagi, væni forseta bæjarstjórnar um að víkja frá þeim reglum sem settar eru í stjórnsýslu Vesturbyggðar og reyni ítrekað að komast hjá þeim um leið. Vísar kærði í því sambandi til þess að kærandi hafi reynt til þrautar að bera upp erindi sem ekki eigi undir bæjarstjórn að svo stöddu.

Í lokin tekur kærði fram að að baki kærunni og aðdraganda öllum virðist fremur liggja ómálefnaleg sjónarmið en óskir um rétta stjórnsýsluhætti. Vísar kærði til sérstakrar bókunar á 176. fundi bæjarstjórnar í því sambandi.

IV. Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Ráðuneytið lítur svo á að erindið falli undir úrskurðarvald þess skv. 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, þar sem segir að ráðuneytið skuli úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna.

Tilboð í Aðalstræti 52

 

Í fyrsta lagi tekur kæran til þess hvort nýtt tilboð í fasteign, sem tekið var fyrir í máli sem fram kom í fundarboði, sbr. fundargerð 407. fundar bæjarráðs, undir heitinu „Sala fasteigna á Patreksfirði" á 175. fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar, hafi falið í sér nýtt mál sem ekki var á dagskrá og því hafi þurft 2/3 hluta viðstaddra bæjarstjórnarmanna til að samþykkja slíkt afbrigði, sbr. 2. mgr. 20. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Vesturbyggðar, nr. 512/2002, með síðari breytingum, ellegar hvort hér hafi einungis verið um að ræða framlagningu nýs gagns í sama máli og því aðeins þurft einfaldan meirihluta til að taka ákvörðun um það.

Um fundarstjórn forseta bæjarstjórnar er fjallað í 2. mgr. 19. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Vesturbyggðar. Þar segir að forseti úrskurði um skilning á fundarsköpum en skjóta megi úrskurði hans til úrlausnar bæjarstjórnar. Í 2. mgr. 20. gr. samþykktarinnar kemur fram að heimilt sé að taka til meðferðar á bæjarstjórnarfundi mál sem ekki hafi verið á dagskrá ef 2/3 hluti viðstaddra bæjarstjórnarmanna samþykki slíkt afbrigði. Ákvæðið hefur almennt verið túlkað svo að það eigi ekki við ef umrætt mál hefur verið á dagskrá, sbr. úrskurð félagsmálaráðuneytisins frá 22. febrúar 2006, enda þótt ný gögn væru lögð fram í málinu.

Í fundarboði 175. fundar bæjarstjórnar Vesturbyggðar kom fram að á dagskrá væri meðal annars til staðfestingar fundargerð 407. fundar bæjarráðs. Í fundargerð bæjarráðsfundarins var 5. liður „Sala fasteigna á Patreksfirði." Í fundargerð bæjarráðsins segir meðal annars: „Um miðjan desember sl. voru auglýstar fasteignir Vesturbyggðar við Aðalstræti 52 og fiskverkunarhús í Vatnskrók. Óskað var eftir tilboðum í eignirnar. Borist hefur tilboð í Aðalstræti 52 frá [O] að upphæð kr. 2.000.000,00 sem greiðist að fullu við kaupsamning og útgáfu afsals. ... Bæjarráð fagnar framkomnu tilboði og samþykkir það einróma. Bæjarstjóri gangi frá málinu."

Hvað varðar tilkomu annars tilboðs sem tekið var fyrir á fundinum vísar kærði til jafnræðis milli tilboðsgjafa og fjárhagslegra hagsmuna Vesturbyggðar. Báðir tilboðsgjafar séu innan sveitarfélagsins og því hagsmunir íbúa einir undir. Það liggi í hlutarins eðli að í svo fámennu sveitarfélagi á borð við Vesturbyggð geti verið vandrataður meðalvegur varðandi almenn samkeppnissjónarmið. Þegar staðan sé slík sem hér var varðandi þessa tilteknu eign hafi ekki verið vafi um að þessara sjónarmiða hafi verið gætt

af bæjarstjórn og hafi það verið í fullu samræmi við fundarboðun, þ.e. dagskrárliðinn „Sala fasteigna á Patreksfirði".

Eitt af því sem til skoðunar kemur í máli þessu er hversu nákvæmlega tilgreina þurfi þau mál sem eru á dagskrá sveitarstjórnarfunda. Engin fyrirmæli eru í sveitarstjórnarlögum eða samþykktum sveitarfélagsins sem með beinum hætti taka á þessu álitaefni, enda má ætla að torvelt sé að setja nákvæm fyrirmæli um slíkt. Ljóst er þó að það meginsjónarmið er lagt til grundvallar, bæði í sveitarstjórnarlögum og samþykktum sveitarfélagsins, að sveitarstjórnarmaður á að eiga þess kost að undirbúa sig nægilega fyrir þau mál sem á dagskrá eru, sbr. til dæmis 15. og 17. gr. sveitarstjórnarlaga. Dagskrá sveitarstjórnarfundar þarf því að vera samin með þeim hætti að sveitarstjórnarmenn þurfi ekki að velkjast í vafa um hvaða mál eru til umfjöllunar.

Það er mat ráðuneytisins að sú tilgreining í fundarboði 175. fundar bæjarstjórnar Vesturbyggðar að á dagskrá yrði til staðfestingar fundargerð 407. fundar bæjarráðs ásamt því að fundarboðinu fylgdi fundargerð þess fundar sé nægjanleg til þess að bæjarfulltrúar hafi getað átt þess kost að undirbúa sig fyrir fundinn að því er varðar dagskrárliðinn „Sala fasteigna á Patreksfirði". Að mati ráðuneytisins eru ekki rök til að túlka heimildir bæjarstjórnar til efnislegrar umræðu um mál sem sett hafa verið á dagskrá svo þröngt að gögn sem berast eftir að dagskrá er send út og tengjast beint máli á dagskránni geti almennt ekki talist hluti af umræddum dagskrárlið. Styðst það bæði við skilvirknisjónarmið og stjórnarskrárvarinn sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar.

Rétt er að taka fram í þessu sambandi að bæjarfulltrúar eiga skýlausan rétt á að kynna sér slík gögn áður en ákvörðun er tekin í viðkomandi máli af bæjarstjórn, sbr. meðal annars 30. gr. sveitarstjórnarlaga. Af gögnum málsins verður ekki séð að bæjarfulltrúum hafi verið neitað um aðgang að gögnum er vörðuðu tilboð í eignina Aðalstræti 52. Er því ekki ástæða til að fjalla frekar um þennan lið málsins.

Á hinn bóginn er ástæða til að gera athugasemdir við tiltekna þætti málsmeðferðarinnar. Í lögum er ekki með beinum hætti kveðið á um aðferðir sveitarfélaga við að auglýsa eignir sínar til sölu. Almennt er þó litið svo á að það sé í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að birta auglýsingar þess efnis til að gefa sem flestum kost á að leggja inn tilboð. Ef óskað er eftir tilboðum í eignir er enn fremur rétt að tilgreina fresti til að skila inn tilboðum, einkum í því skyni að gefa þeim sem hug hafa á að bjóða í viðkomandi eignir tækifæri til þess á jafnræðisgrundvelli.

Kemur þá til skoðunar hvort rétt hafi verið að taka til umfjöllunar hjá bæjarstjórn Vesturbyggðar síðar tilkomið tilboð frá GP í fasteignina Aðalstræti 52. Á fundi bæjarráðs hinn 9. janúar 2007 var fjallað um tilboð sem barst í eignina frá O hf. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum að því tilboði yrði tekið. Hinn 11. janúar 2007 barst síðan tilboðið frá GP sem kynnt var á fundi bæjarstjórnarinnar 17. janúar 2007, en ekki var greint frá því tilboði í fundarboði.

Að mati ráðuneytisins er málsmeðferð sem þessi ekki til þess fallin að stuðla að jafnræði þeirra sem bjóða í fasteignir í eigu sveitarfélagsins því ljóst er að þegar upplýst hefur verið um efni framkomins tilboðs geti aðrir aðilar tekið mið af því við sína tilboðsgerð. Er því ástæða til að gera athugasemd við málsmeðferð bæjarstjórnarinnar hvað þetta varðar.

Á hinn bóginn telur ráðuneytið að þessi ágalli á málsmeðferðinni sé ekki til þess fallinn að valda ógildi ákvörðunar bæjarstjórnarinnar, enda ákvað bæjarstjórnin að taka tilboði O hf.

Málefni Fasteigna Vesturbyggðar ehf.

 

Í öðru lagi tekur kæran til þess hvort taka hefði átt fyrir á fundi bæjarstjórnar tillögu kæranda um að samþykkt yrði vantraust á formann stjórnar Fasteigna Vesturbyggðar ehf. eða hvort sú tillaga ætti heima hjá stjórn félagsins.

Kærandi tekur fram að hann hafi óskað eftir því fyrir 175. fund bæjarstjórnar að tekin yrðu á dagskrá málefni Fasteigna Vesturbyggðar ehf. Kærði svarar því til að málefni er varða Fasteignir Vesturbyggða ehf. ættu ekki erindi inn á bæjarstjórnarfund þar sem um væri að ræða sjálfstætt félag í eigu Vesturbyggðar með sjálfstæðri stjórn.

Samkvæmt 38. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, er sveitarfélagi heimilt að stofna hlutafélag, sjálfseignarstofnun eða félag með ótakmarkaðri ábyrgð er annist útleigu íbúða í eigu sveitarfélagsins.

Við athugun á samþykktum Fasteigna Vesturbyggðar ehf. sem staðfestar voru á stofnfundi félagsins á Patreksfirði hinn 30. apríl 2003 og staðfestar í félagsmálaráðuneytinu 22. maí 2003 er ljóst að um er að ræða félag sem sveitarfélagið stofnaði með heimild í 38. gr. laga um húsnæðismál. Félagið fer með félagslegar íbúðir sveitarfélagsins í samræmi við VIII. kafla laga um húsnæðismál og reglugerð um lánveitingar til leiguíbúða, ráðstöfun þeirra og rekstur, nr. 873/2001.

Um félagsformið og félagið sjálft fer eftir lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, sbr. 33. gr. samþykktanna. Í 2. mgr. 8. gr. þeirra laga segir að ákvörðun um stofnun félags skuli tekin á stofnfundi. Þar skal leggja fram undirritaðan stofnsamning, tillögur að samþykktum og önnur skjöl sem nauðsynleg eru. Félagið telst stofnað ef stofnendur eru einhuga um það og þann grundvöll sem félagið er byggt á. Þá hljóðar 1. og 2. mgr. 39. gr. laganna svo: „Í stjórn einkahlutafélags skulu eiga sæti fæst þrír menn nema hluthafar séu fjórir eða færri, þá nægir að stjórnina skipi einn eða tveir menn. Ef stjórn félags er skipuð einum manni skal valinn a.m.k. einn varamaður. Hluthafafundur kýs stjórn. Í samþykktum er heimilt að veita stjórnvöldum eða öðrum rétt til að tilnefna einn eða fleiri stjórnarmenn. Meiri hluti stjórnar skal þó ætíð kjörinn af hluthafafundi. Þeir stjórnarmenn, sem kosnir eru, skulu allir kosnir á sama fundi."

Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að um setu stjórnarmanna í félaginu Fasteignir Vesturbyggðar ehf. fari eftir samþykktum félagsins og lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Ljóst er því að málefni er varða kjör í stjórn félagsins og þar af leiðandi spurningin um vantraust á einstaka stjórnarmenn heyrir undir verksvið hluthafafundar, sbr. meðal annars 20. gr. samþykktar félagsins, en ekki undir sveitarstjórn.

Með vísun í framangreint er niðurstaða ráðuneytisins sú að höfnun forseta bæjarstjórnar Vesturbyggðar á að taka fyrir tillögu um vantraust á formann stjórnar Vesturbyggðar hafi verið í samræmi við lög um einkahlutafélög og samþykktir félagsins og hafi ekki brotið í bága við ákvæði sveitarstjórnarlaga og samþykktar um stjórn og fundarsköp Vesturbyggðar.

Í þriðja lagi er efni kærunnar hvort forseta bæjarstjórnar hafi verið heimilt á 176. fundi bæjarstjórnar hinn 21. febrúar 2007 að hafna því að verða við tilmælum kæranda um að taka á dagskrá bréf, dags. 25. janúar 2007, sem stílað var á stjórn Fasteigna Vesturbyggðar ehf.

Um þetta atriði vísar ráðuneytið til þess sem áður er rakið um stöðu félagsins Fasteignir Vesturbyggðar ehf., en um er að ræða einkahlutafélag sem starfar samkvæmt samþykktum sínum og lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Erindi varðandi starfsmannamál félagsins heyrir því ekki undir sveitarstjórn heldur stjórn félagsins.

Rétt er að vekja athygli á því að umrætt bréf var sent til stjórnar Fasteigna Vesturbyggðar ehf. en afrit þess var meðal annars sent til bæjarstjórnar Vesturbyggðar.

Með vísun í framangreint er niðurstaða ráðuneytisins sú að höfnun forseta bæjarstjórnar Vesturbyggðar á að taka bréf þetta til umfjöllunar að svo stöddu hafi verið í samræmi við lög um einkahlutafélög og

samþykktir félagsins og hafi hvorki brotið í bága við ákvæði sveitarstjórnarlaga né samþykktar um stjórn og fundarsköp Vesturbyggðar, enda var efnishlið málsins þá til umfjöllunar hjá stjórn einkahlutafélagsins.

Ráðuneytið vill í þessu sambandi taka fram að almenn umfjöllun um málefni einkahlutafélags í eigu sveitarfélags hlýtur eðli máls samkvæmt að geta verið á dagskrá sveitarstjórnarfundar. Skilgreina verður hins vegar þegar óskað er eftir að slík málefni séu tekin til umfjöllunar hvað fjalla eigi um og gæta verður þess að sveitarstjórn taki ekki til afgreiðslu málefni sem lög gera ráð fyrir að stjórn einkahlutafélagsins fjalli um og ólokið er á vettvangi stjórnarinnar. Vísar ráðuneytið í þessu samhengi til 3. tölul. 2. mgr. 11. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Vesturbyggðar, en þar er tilgreint að taka skuli á dagskrá bæjarstjórnarfundar mál sem „falla undir verksvið bæjarstjórnar".

Að lokum telur ráðuneytið rétt að taka fram að í þeim tilvikum er forseti bæjarstjórnar neitar að taka mál á dagskrá bæjarstjórnarfundar á bæjarfulltrúi ætíð þann möguleika að bera málið undir bæjarstjórn, sbr. ákvæði 2. mgr. 20. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Vesturbyggðar, en þar segir: „Heimilt er að taka til meðferðar á bæjarstjórnarfundi mál sem ekki hefur verið á dagskrá ef 2/3 viðstaddra bæjarstjórnarmanna samþykkja slíkt afbrigði." Einnig geta bæjarfulltrúar skotið úrskurði forseta bæjarstjórnar um skilning á fundarsköpum til úrlausnar bæjarstjórnar, sbr. 2. mgr. 19. gr. samþykktarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

 

Samþykkt bæjarstjórnar Vesturbyggðar á sölu á fasteigninni Aðalstræti 52 á Patreksfirði á 175. fundi bæjarstjórnar er gild.

Frávísanir forseta bæjarstjórnar Vesturbyggðar á málum er varða Fasteignir Vesturbyggðar ehf. í tengslum við 175. og 176. fund bæjarstjórnar brutu hvorki gegn ákvæðum sveitarstjórnarlaga né samþykktar um stjórn og fundarsköp Vesturbyggðar.

Fyrir hönd ráðherra

Sesselja Árnadóttir (sign.)

Stefanía Traustadóttir (sign.)

8. júní 2007 - Vesturbyggð - Dagskrá sveitarstjórnarfunda, úrskurðarvald og fundarstjórn oddvita (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta