Skógarstrandarhreppur - Lausaganga hrossa. Hreppsnefndarmaður nágranni sem varð fyrir ágangi
Málflutningsskrifstofa Snæfellsness sf. 1. mars 1996 95120039
Pétur Kristinsson hdl. 1001
Smiðjustíg 3, pósthólf 55
340 Stykkishólmur
Föstudaginn 1. mars 1996 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með erindi, dagsettu 6. desember 1995, sem barst ráðuneytinu hinn 12. sama mánaðar, kærði Pétur Kristinsson hdl., fyrir hönd Daníels Njálssonar, Breiðabólstað, Skógarstrandarhreppi, ákvörðun hreppsnefndar Skógarstrandarhrepps frá 27. september 1995 um bann við lausagöngu hrossa á jörðunum Narfeyri, Ytra-Leiti, Stóra-Langadal, Klettakoti, Haukabrekku, Klungurbrekku og Ósi í Skógarstrandarhreppi.
Kæran var send hreppsnefnd Skógarstrandarhrepps til umsagnar með bréfi, dagsettu 12. desember 1995. Samkvæmt fundargerð hreppsnefndarfundar hinn 5. janúar 1996 reyndist hreppsnefnd “ekki fær um að taka neina afstöðu til málsins.” Hins vegar áskildu tveir hreppsnefndarmenn, Guðmundur Jónsson Emmubergi og Kolbeinn Kristinsson Haukabrekku, sér rétt til að senda ráðuneytinu sjónarmið sín. Umsögn Guðmundar Jónssonar barst ráðuneytinu hinn 18. janúar 1996 og umsögn Kolbeins Kristinssonar barst ráðuneytinu hinn 26. janúar 1996. Með báðum umsögnunum fylgdu afrit af fundargerðum hreppsnefndar og ýmsum öðrum gögnum er málinu tengjast.
I. Málavextir og málsástæður.
Á fundi hreppsnefndar Skógarstrandarhrepps þann 27. september 1995 var eftirfarandi samþykkt:
“Sveitarstjórn Skógarstrandarhrepps í Snæfellsnessýslu hefir samkvæmt heimild í 5. grein laga um búfjárhald nr. 46/1991 svo og fjallskilasamþykkt Snæfellsness og Hnappadalssýslu frá 22. september 1986 32. grein, ákveðið að lausagöngubann hrossa verði sett á eftirtöldum jörðum í Skógarstrandarhreppi: Narfeyri, Ytra-Leiti, Stóra-Langadal, Klettakoti, Haukabrekku, Klungurbrekku og Ósi.
Er umráðamönnum og eigendum téðra jarða skylt að hafa hross sín í öruggri vörslu allt árið innan gripheldra girðinga.
Einnig er öðrum hrossaeigendum í Skógarstrandarhreppi gert skylt að gæta þess að hross þeirra valdi ekki ágangi á áðurtaldar jarðir.
Bann þetta gildir frá 10. október 1995.”
Ofangreint var samþykkt með tveimur atkvæðum Guðmundar Jónssonar og Kolbeins Kristinssonar gegn einu atkvæði Daníels Njálssonar, en tveir sátu hjá.
Kærandi gerir þær kröfur að ákvörðun hreppsnefndar verði ógilt og færir fram eftirfarandi rök fyrir kröfum sínum:
“Í fyrsta lagi telur kærandi að annar þeirra hreppsnefndarmanna sem samþykktu bannið hafi verið vanhæfur vegna deilna við þann sem bannið beinist gegn. Samkvæmt 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 ber sveitarstjórnarmanni að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Augljóst er að ákvæðið á við bóndann á Haukabrekku og hefði hann því átt að víkja sæti við atkvæðagreiðsluna.
Í öðru lagi bendir kærandi á að oddviti hafi borið fundinum skilaboð frá sýslumanni um nauðsyn ákvörðunarinnar. Síðar hafi komið í ljós að sýslumaður bað ekki fyrir þau skilaboð. Þannig voru rangar forsendur fyrir fundinum og kunna þær að hafa haft áhrif á afstöðu hreppsnefnarmanna, sérstaklega þeirra sem sátu hjá.
Í þriðja lagi fullyrðir kærandi að bannið beinist gegn einum aðila, bóndanum í Stóra-Langadal, sem er eini hrossabóndinn á því svæði sem bannið nær til þótt e.t.v. kunni að vera örfá hross á öðrum bæjum á svæðinu. Hefði hreppsnefndin því átt að gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við ákvörðunina og m.a. átt að gefa bóndanum kost á að tala máli sínu áður en ákvörðun var tekin sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga sbr. 1. gr. laganna.”
Guðmundur Jónsson og Kolbeinn Kristinsson rekja í umsögnum sínum forsögu málsins allt frá árinu 1992, m.a. varðandi gróðurástand jarðarinnar Stóra-Langadals, hrossafjölda þar og ágang hrossa þaðan á nærliggjandi jarðir. Þeir mótmæla jafnframt að bannið hafi verið sett sérstaklega til höfuðs bóndanum í Stóra-Langadal og að Kolbeinn Kristinsson hafi verið vanhæfur til að fjalla um málið.
Í umsögn Kolbeins Kristinssonar segir m.a. svo:
“Þetta mál snýst um réttindi og skyldur allra íbúa á því svæði sem lausagöngubann hrossa var sett á þ. 27.09.1995.
Það er fólk sem greiðir atkvæði, óháð efnahag, í þessu tilfelli jarðafjölda.
Á umræddu svæði búa 10 atkvæðisbærir menn/konur. Af þeim hafa aðeins 2 mótmælt, það er Sigurjón Helgason í Stóra Langadal ... og hlutastarfsmaður hans Magnús Jóhannesson, Ytra-Leiti ...”
Síðan segir m.a. svo í umsögn Guðmundar Jónssonar:
“Haukabrekkubóndinn hefir oft kvartað yfir ágangi hrossa frá Stóra-Langadal bæði til sveitarstjórnar og yfirvalda lengst af fyrir daufum eyrum.
Til áherslu þeim kvörtunum tók hann í haust hross í hald sem brutust inn á tún hans. Þeim var seinna sleppt með samkomulagi.
Um að ágangur sé meintur vil ég taka fram eftirfarandi: Stóra-Langadals bóndi er með 250 hross og folöld að auki á landi sem samkvæmt mati Landgræðslunnar og RALA ber 80 til 100 hross svo hver og einn ætti að sjá það að ágangur hlýtur að vera mikill á nágrannalönd og ekki aðeins meintur.
Lausagöngubann var síðan rætt á fundi sveitarstjórnar 28. nóv. 1994, afgreiðslu frestað og ákveðið að reyna til þrautar að ná ásættanlegri lausn með öðrum ráðum. Slíkt tókst ekki og ágangur jókst stöðugt á nágrannalönd Stóra-Langadals. Yfirvöld aðhöfðust lítt í málinu, báru við að Skógarstrandarhreppur gerði ekki sitt til að skapa grundvöll til að hægt væri að aðhafast eitthvað og beita þeim ráðum sem tiltæk væru til að vernda ótvíræðan rétt landeigenda til að verja eignar- og afnotarétt eigna sinna samkvæmt 67. gr. stjórnarskrár og 42. gr. lögreglusamþykktar Snæfellsness og Hnappadalssýslu.
Undirritaður taldi því sveitarstjórn skylt að freista þess að fullgilda 5. gr. laga um búfjárhald og 32. gr. fjallskilasamþykktar fyrir Snæfellsness og Hnappadalssýslu ef það væi svo að það að þær voru ekki fullgiltar af sveitarstjórn gerðu það að verkum að stjórnarskráin gilti ekki.
Undirritaður bar svo fram tillögu um lausagöngubannið og hafði til hliðsjónar ábendingu í bréfi sýslumanns frá 4. maí 1995 svo og bréfi sýslumanns frá 6. september 1995 ...”
II. Niðurstaða ráðuneytisins.
Í 1. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 er svohljóðandi ákvæði: “Ráðuneytið skal úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerðir þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum.”
Þetta almenna ákvæði sveitarstjórnarlaga verður að skýra svo að ráðuneytið eigi því aðeins úrskurðarvald um ákvarðanir sveitarstjórna að slíkt vald sé ekki fengið öðrum ráðuneytum að lögum.
Í máli þessu er efnislega deilt um lögmæti banns hreppsnefndar Skógarstrandarhrepps við lausagöngu hrossa á tilteknu svæði í sveitarfélaginu. Slík samþykkt hreppsnefndar er grundvölluð á 5. gr. laga um búfjárhald nr. 46/1991, en þau lög heyra undir verksvið landbúnaðarráðuneytisins, sbr. 2. gr. laganna.
Af þessum sökum telur félagsmálaráðuneytið sig bresta vald til að kveða upp úrskurð í kærumáli þessu að því er varðar 2. og 3. lið kærunnar. Hins vegar er það hlutverk félagsmálaráðuneytisins að úrskurða um hugsanlegt vanhæfi hreppsnefndarmanns í máli þessu á grundvelli 45. gr. sveitarstjórnarlaga.
Í 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga segir svo: “Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Honum er þó heimilt að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni. Sveitarstjórn sker umræðulaust úr hvort mál er svo vaxið. Sveitarstjórnarmaður, sem hlut á að máli, má taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt. Sveitarstjórnarmanni, sem veit hæfi sitt orka tvímælis, ber að vekja athygli á því.” Síðan segir í 2. mgr. að sveitarstjórnarmaður sem vanhæfur er við úrlausn máls skuli yfirgefa fundarsal sveitarstjórnar við afgreiðslu þess.
Tilgangur 45. gr. sveitarstjórnarlaga er að tryggja málefnalega umfjöllun í sveitarstjórn um þau erindi sem henni berast og að almenningur og þeir sem hlut eiga að máli geti treyst því að sveitarstjórn leysi úr málum á hlutlægan hátt. Í 1. mgr. 45. gr. er tekið fram að sveitarstjórnarmanni beri að víkja sæti þegar mál varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.
Af gögnum málsins er ljóst að mál þetta er margþætt og á sér langan aðdraganda. Jafnframt er ljóst af gögnum málsins að Kolbeinn Kristinsson bóndi að Haukabrekku hefur oftsinnis orðið fyrir ágangi hrossa frá Stóra-Langadal og kvartað yfir því til hreppsnefndar Skógarstrandarhrepps og sýslumannsins í Stykkishólmi, án aðgerða af þeirra hálfu fyrr en á fundi hreppsnefndar þann 27. september 1995.
Í ljósi þessara samskipta telur ráðuneytið að Kolbeinn Kristinsson hafi verið vanhæfur til að fjalla um bann við lausagöngu hrossa á umræddu svæði í hreppsnefnd. Telja verður að málið hafi varðað hann svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans hafi mótast af tengslum hans við það, sbr. orðalag 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga.
Rétt er að taka fram að ráðuneytið telur að í gögnum málsins hafi ekki komið fram atvik sem leiða til vanhæfis annarra hreppsnefndarmanna sem sátu fund hreppsnefndar þann 27. september 1995.
Þar sem atkvæði Kolbeins Kristinssonar réði úrslitum í atkvæðagreiðslu um tillögu um bann við lausagöngu hrossa á umræddu svæði á fundi hreppsnefndar Skógarstrandarhrepps þann 27. september 1995, er óhjákvæmilegt að fella ákvörðun hreppsnefndarinnar úr gildi og leggja fyrir hreppsnefnd að taka málið fyrir á ný á löglegum fundi. Er þá rétt að kallaður verði inn varamaður fyrir þann hreppsnefndarmann sem vanhæfur telst.
Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Samþykkt hreppsnefndar Skógarstrandarhrepps frá 27. september 1995 um bann við lausagöngu hrossa á jörðunum Narfeyri, Ytra-Leiti, Stóra-Langadal, Klettakoti, Haukabrekku, Klungurbrekku og Ósi í Skógarstrandarhreppi er ógild.
Hreppsnefnd ber að taka málið fyrir á ný á löglegum hreppsnefndarfundi.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)
Ljósrit: Hreppsnefnd Skógarstrandarhrepps.