Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Tálknafjarðarhreppur - Hæfi skólastjóra til að ráða í kennarastöður

Grunnskóli Tálknafjarðar                                                                           17. desember 1996                       96090073

Matthías Kristinsson skólastjóri                                                                                                                             1001

460 Tálknafjörður

 

 

 

 

           Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 25. september 1996, varðandi hæfi skólastjóra til að ráða í kennarastöður.

 

           Í 3. mgr. 23. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995 er svohljóðandi ákvæði:

           “Um ráðningu kennara og annarra starfsmanna fer eftir ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Séu þar eigi sérstök ákvæði þessa efnis gefur sveitarstjórn eða byggðarráð fyrirmæli til skóla um hvernig staðið skuli að ráðningu starfsmanna.”

 

           Ákvæði um ráðningu starfsmanna hjá Tálknafjarðarhreppi er að finna í VI. kafla samþykktar um stjórn og fundarsköp Tálknafjarðarhrepps nr. 399/1996, sbr. 60.-62. gr.

 

           Um hæfi sveitarstjórnarmanna við afgreiðslu einstakra mála er ákvæði í 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Segir þar m.a. í 1. mgr.: “Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.”

 

           Regla þessi gildir einnig um starfslið við stjórnsýslu sveitarfélaga, sbr. ennfremur 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

           Í samræmi við orðalag erindis yðar er gengið út frá því í svarbréfi þessu að hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps hafi falið skólastjóra grunnskóla að sjá um ráðningu kennara við skólann.

 

           Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið eðlilegt að skólastjóri taki ekki ákvörðun um ráðningu í kennarastöðu ef einhver umsækjenda er maki hans, hvort sem makinn er eini umsækjandinn eða ekki. Rétt er í slíkum tilvikum að sveitarstjóri eða hreppsnefnd taki endanlega ákvörðun um ráðningu. Hvað “aðra ættingja” en maka varðar, sbr. fyrirspurn yðar, skal á það bent að 45. gr. sveitarstjórnarlaga á við um “nána venslamenn”. Niðurstaða um hæfi skólastjóra til að ráða “aðra ættinga” en maka fer þar af leiðandi eftir því hve skyldleikinn er mikill, þ.e. hvort um “nána venslamenn” er að ræða eða ekki.

 

           Afgreiðsla erindis yðar hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta