Raufarhafnarhreppur - Úthlutun á rekstri bars í félagsheimili. Oddviti leigutaki
Jón Eiður Jónsson 25. september 1997 97060043
Aðalbraut 24 1001
675 Raufarhöfn
Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 13. júní 1997, þar sem óskað er eftir að ráðuneytið fjalli um deilumál yðar við hreppsnefnd Raufarhafnarhrepps varðandi m.a. rekstur á bar í félagsheimilinu Hnitbjörgum og rekstur tjaldstæðis.
Erindi yðar var sent til umsagnar hreppsnefndar Raufarhafnarhrepps með bréfi, dagsettu 1. júlí 1997. Umsögn hreppsnefndarinnar barst ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 29. júlí 1997.
Með erindi, dagsettu 4. febrúar 1997, báruð þér fram kvörtun við umhverfisráðuneytið vegna afgreiðslu hreppsnefndar á umsókn yðar um leyfi fyrir rekstri tjaldstæðis á Raufarhöfn. Í svari þess ráðuneytis kemur fram að það bresti lagaheimild til þess að taka málið til efnislegrar umfjöllunar þar sem kærufrestur var liðinn, sbr. bréf dagsett 24. febrúar 1997 og 21. maí 1997.
Þann 12. júní 1997 tók samkeppnisráð ákvörðun í máli er varðaði kvörtun Vertshússins á Raufarhöfn yfir niðurgreiðslum Raufarhafnarhrepps á rekstri Hótels Norðurljósa, en Vertshúsið er í eigu yðar.
Um kvörtun yðar vegna afgreiðslu á umsókn um leyfi til að opna tjaldstæði á Raufarhöfn gilda byggingarlög nr. 54/1978 sem heyra undir verksvið umhverfisráðuneytisins. Ljóst er því að félagsmálaráðuneytið er ekki bært lögum samkvæmt að fjalla um þennan þátt málsins, enda hefur umhverfisráðuneytið leitt það mál til lykta í samræmi við lög. Hvað varðar þann þátt málsins er snýr að samkeppnisaðstöðu Vertshússins og Hótel Norðurljósa er ennfremur ljóst að félagsmálaráðuneytið er ekki bært til að fjalla um það atriði, enda gilda um það samkeppnislög nr. 8/1993 sem eru á verksviði viðskiptaráðuneytisins, en samkeppnisráð, Samkeppnisstofnun og áfrýjunarnefnd samkeppnismála fara með daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.
Samkvæmt gögnum málsins var félagsheimilið Hnitbjörg fram til ársins 1997 rekið af eigendanefnd þess sem samanstóð af Raufarhafnarhreppi, Verkalýðsfélagi Raufarhafnar, Kvenfélaginu Freyju og Slysavarnadeild kvenna. Á fundi hreppsnefndar Raufarhafnarhrepps þann 22. janúar 1997 var bókað í fundargerðarbók að “eignaraðilar félagsheimilisins séu tilbúnir til að afhenda sveitarfélaginu eignarhluti sína í því” og var sveitarstjóra falið að ganga frá samningi um yfirtöku eigna og skulda. Gengið var endanlega frá fyrrgreindum samningi í apríl 1997 og var hann samþykktur á hreppsnefndarfundi þann 16. apríl 1997.
Í félagsheimilinu hefur verið rekinn bar frá árinu 1994 en í kjölfar yfirtöku Raufarhafnarhrepps á starfsemi félagsheimilisins var hann auglýstur til leigu. Samkvæmt gögnum málsins var hann auglýstur í fréttabréfi sem nefnist Raufarhafnartíðindi er dreift var í hvert hús á staðnum. Þrír aðilar leituðu upplýsinga hjá sveitarstjóra varðandi reksturinn á barnum en eftir að hafa kynnt sér málin drógu tveir þeirra sig til baka. Gengið var frá samningi um rekstur á barnum á hreppsnefndarfundi þann 27. júní 1997 við Árna H. Gylfason og Erlu Guðmundsdóttur, en Árni er oddviti hreppsnefndar.
Sá þáttur málsins er félagsmálaráðuneytið getur fjallað um er hvort gætt hafi verið formreglna sveitarstjórnarlaga þegar málið var til umfjöllunar á fundi hreppsnefndar þann 27. júní 1997. Kemur þá fyrst og fremst til skoðunar hvort fylgt hafi verið ákvæði 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 um hæfi sveitarstjórnarmanna til að taka þátt í afgreiðslu einstakra mála.
Í 1. mgr. 45. gr. laganna segir m.a.: “Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.”
Ljóst er af ákvæði þessu að Árni H. Gylfason var vanhæfur til að fjalla um og afgreiða framangreint mál, þar sem hann er aðili samningsins ásamt eiginkonu sinni. Bar honum því að yfirgefa fundarsal við afgreiðslu þess.
Ljóst er samkvæmt fundargerð fyrrgreinds hreppsnefndarfundar að þetta ákvæði sveitarstjórnarlaga var uppfyllt við afgreiðslu leigusamningsins, en bókað er sérstaklega í fundargerðinni að Árni hafi vikið fundi við afgreiðslu málsins. Með vísan til þess telur ráðuneytið ekki ástæðu til að gera athugasemd við afgreiðslu þessa máls hjá hreppsnefnd Raufarhafnarhrepps.
Hvað varðar efni leigusamnings Árna H. Gylfasonar og Erlu Guðmundsdóttur við Raufarhafnarhrepp og þýðingu hans varðandi samkeppnisstöðu félagsheimilisins og annarra samkomuhúsa á Raufarhöfn vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi:
Ljóst er að félagsmálaráðuneytið hefur ekki lagaheimild til að fjalla um þann þátt málsins, enda gilda um það samkeppnislög nr. 8/1993, en eins og áður segir eru þau lög á verksviði viðskiptaráðuneytisins, en samkeppnisráð, Samkeppnisstofnun og áfrýjunarnefnd samkeppnismála fara með daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.
Dregist hefur að svara erindi yðar vegna sumarleyfa og mikilla anna í ráðuneytinu.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)
Ljósrit: Hreppsnefnd Raufarhafnarhrepps.