Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Reykholtsdalshreppur - Umsögn um vegalagningu til umhverfisráðuneytis. Tveir hreppsnefndarmenn meðal kærenda til ráðuneytisins

Reykholtsdalshreppur                                           28. október 1997                                               97100102

Gunnar Bjarnason oddviti                                                                                                                         1001

Reykholti

320 Reykholt

 

             Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 21. október 1997, þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins á hæfi nokkurra aðal- og varamanna í hreppsnefnd Reykholtsdalshrepps til að fjalla um erindi umhverfisráðuneytisins frá 10. október 1997.

 

             Fram kemur í erindi yðar að bréf umhverfisráðuneytisins sé sent hreppsnefnd í tilefni af kæru átta einstaklinga í Reykholtsdalshreppi þar sem þeir krefjast þess að úrskurður skipulagsstjóra frá 22. ágúst 1997 verði felldur úr gildi. Kæra sú er meðal annars undirrituð af tveimur aðalmönnum í hreppsnefnd, Þóri Jónssyni og Sigurði Bjarnasyni, og tveimur varamönnum í hreppsnefnd, Jóni Björnssyni og Bernhard Jóhannessyni.

 

             Um hæfi sveitarstjórnarmanna til afgreiðslu einstakra mála gildir 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Rétt er að taka fram að stjórnsýslulög nr. 37/1993 eiga ekki við í þessu sambandi, enda segir í 2. mgr. 2. gr. þeirra laga að um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna og annarra þeirra sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga fari eftir sveitarstjórnarlögum.

 

             Í 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga segir m.a. svo:

             “Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.”

 

             Ráðuneytið telur ljóst að umfjöllun hreppsnefndar Reykholtsdalshrepps um framangreinda kæru varði kærendur svo sérstaklega að ætla megi að viljaafstaða þeirra mótist að einhverju leyti þar af. Af þeim sökum eru Bernhard Jóhannesson, Jón Björnsson, Sigurður Bjarnason og Þórir Jónsson vanhæfir til þess að fjalla um málið í hreppsnefnd Reykholtsdalshrepps.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta