Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Skorradalshreppur - Flutningur jarða í annað/önnur sveitarfélög. Hreppsnefndarmenn eigendur jarðanna og eiginkona eiganda

Inger Helgadóttir                                                   2. apríl 1998                                                       98030064

Indriðastöðum, Skorradalshreppi                                                                                                             1001

311 Borgarnes

            

 

 

 

 

             Þann 2. apríl 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með bréfi, ódagsettu, sem barst þann 18. mars 1998, óskaði Inger Helgadóttir eftir úrskurði félagsmálaráðuneytisins um hæfi fjögurra aðal- og varamanna í hreppsnefnd Skorradalshrepps til að fjalla um erindi þess efnis að kannað verði hvort jarðirnar Dagverðarnes, Vatnsendi og Háafell í Skorradal geti orðið hluti af Lundarreykjadalshreppi og jarðirnar Hálsar og Horn í Skorradal hluti af Andakílshreppi. Sama dag barst samskonar erindi frá oddvita Skorradalshrepps.

 

             Í gögnum málsins er að finna lýsingu á tengslum tveggja aðalmanna og þriggja varamanna í hreppsnefndinni við málin. Tengslin eru með eftirgreindum hætti:

1.      Jón Jakobsson, aðalmaður í hreppsnefnd, er eigandi Dagverðarness.

2.      Pálmi Ingólfsson, aðalmaður í hreppsnefnd, er eigandi Hálsa.

3.      Kristín Guðbrandsdóttir, varamaður í hreppsnefnd, er eiginkona Jóns Jakobssonar.

4.          Ingibjörg Ingólfsdóttir, varamaður í hreppsnefnd, er eigandi Hálsa og einnig systir Pálma Ingólfssonar.

 

            Í 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 er fjallað um hæfi sveitarstjórnarmanna til að fjalla um einstök mál og í 1. mgr. segir m.a. svo: “Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.“

 

             Í 45. gr. sveitarstjórnarlaga er fjallað um hæfi sveitarstjórnarmanna til meðferðar einstakra mála. Sú hæfisregla sem þar kemur fram er að nokkru leyti annars eðlis en reglur þær sem fram koma í stjórnsýslulögum nr. 37/1993, en vegna fámennis í sumum sveitarfélögum hefur ekki þótt fært að gera eins strangar kröfur til þeirra sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga og gert er í II. kafla laga nr. 37/1993, sbr. lokamálslið 2. mgr. 2. gr. þeirra laga.

 

             Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands voru íbúar í Skorradalshreppi 52. Aðal- og varamenn í hreppsnefnd Skorradalshrepps eru því um 10% af íbúum sveitarfélagsins. Ef hin minnstu tengsl hreppsnefndarmanna hver við annan ættu að valda vanhæfi þeirra í máli því sem hér um ræðir gæti hreppsnefndin orðið mjög fáskipuð og lítt starfhæf við meðferð málsins.

 

             Í máli þessu er annars vegar um að ræða eigendur jarðarinnar Dagverðarness, sem óskað hafa eftir að kannað verði hvort jörð þeirra geti orðið hluti af Lundarreykjadalshreppi, og hins vegar eigendur jarðarinnar Hálsa, sem óskað hafa eftir að kannað verði hvort jörð þeirra geti orðið hluti af Andakílshreppi.

 

             Ráðuneytið telur ljóst að umræddir aðal- og varamenn í hreppsnefnd Skorradalshrepps geti ekki fjallað um og afgreitt sín eigin erindi, þ.e. Jón Jakobsson og Kristín Guðbrandsdóttir geta ekki fjallað um jörðina Dagverðarnes og Pálmi Ingólfsson og Ingibjörg Ingólfsdóttir geta ekki fjallað um jörðina Hálsa.

 

             Í ljósi áðurgreindra aðstæðna almennt í Skorradalshreppi, tilgangs 45. gr. sveitarstjórnarlaga svo og þess að um er að ræða erindi um könnun á flutningi jarða í sitt hvort sveitarfélagið er það niðurstaða ráðuneytisins að umræddir aðal- og varamenn í hreppsnefndinni séu ekki vanhæfir til að fjalla um önnur erindi svipaðs eðlis, þ.e. Jón Jakobsson og Kristín Guðbrandsdóttir eru ekki vanhæf til að fjalla um jörðina Hálsa og Pálmi Ingólfsson og Ingibjörg Ingólfsdóttir eru ekki vanhæf til að fjalla um jörðina Dagverðarnes.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Jón Jakobsson og Kristín Guðbrandsdóttir eru vanhæf til að fjalla um jörðina Dagverðarnes og Pálmi Ingólfsson og Ingibjörg Ingólfsdóttir eru vanhæf til að fjalla um jörðina Hálsa.

             Jón Jakobsson og Kristín Guðbrandsdóttir eru ekki vanhæf til að fjalla um jörðina Hálsa og Pálmi Ingólfsson og Ingibjörg Ingólfsdóttir eru ekki vanhæf til að fjalla um jörðina Dagverðarnes.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

Samrit:  Oddviti Skorradalshrepps.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta