Húsavíkurkaupstaður - A með leigusamning við Heilbrigðisstofnunina á Húsavík. Seta hans í stjórn stofnunarinnar
Húsavíkurkaupstaður 7. júlí 1998 98060086
Einar Njálsson bæjarstjóri 1001
Ketilsbraut 9
640 Húsavík
Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 26. júní 1998, þar sem óskað er eftir úrskurði ráðuneytisins um hæfi Sigurjóns Benediktssonar bæjarfulltrúa til setu í stjórn Heilbrigðisstofnunarinnar á Húsavík fyrir hönd Húsavíkurkaupstaðar.
Í gögnum málsins kemur fram að Sigurjón er tannlæknir og starfar hjá einkahlutafélagi sem leigir aðstöðu til tannlæknaþjónustu af Sjúkrahúsi Þingeyinga sem nú er rekið af Heilbrigðisstofnun Húsavíkur. Einkahlutafélagið greiðir leigu fyrir húsnæðið samkvæmt átta ára gömlum samningi við heilbrigðisráðuneytið og með breytingum og hækkunum gerðum í samkomulagi við framkvæmdastjóra stofnunarinnar.
Um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna til afgreiðslu einstakra mála eru ákvæði í 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og um sérstakt hæfi í stjórnsýslunni að öðru leyti gilda ákvæði 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í máli þessu koma hins vegar til skoðunar almennar neikvæðar hæfisreglur, þ.e. hvort viðkomandi einstaklingur er almennt hæfur til að sitja í stjórn Heilbrigðisstofnunarinnar á Húsavík.
Við mat á því hvort um almennt vanhæfi er að ræða er litið til þess hvort fyrirsjáanlegt sé að einstaklingurinn muni hafa hagsmuna að gæta við úrlausn margra mála sem horfur eru á að lögð verði fyrir viðkomandi stjórnvald til úrlausnar. Með almennum neikvæðum hæfisreglum er reynt að stuðla að því að fyrirfram sé minni hætta á að starfsmaður/nefndarmaður sé í slíkum tengslum við úrlausnarefni þau sem kunna að verða lögð fyrir stjórnvaldið að draga megi í efa óhlutdrægni hans við meðferð málanna.
Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að þau tilvik, þar sem Sigurjón Benediktsson yrði talinn vanhæfur í stjórn Heilbrigðisstofnunarinnar á Húsavík, varði fyrst og fremst leigusamning fyrrgreinds einkahlutafélags um húsnæði fyrir tannlæknastofu og snertir því rekstur Heilbrigðisstofnunarinnar að litlu leyti. Önnur tengsl verða ekki ráðin af gögnum málsins. Með hliðsjón af því verður ekki talið að Sigurjón Benediktsson sé almennt vanhæfur til að sitja í stjórn Heilbrigðisstofnunarinnar fyrir hönd Húsavíkurkaupstaðar, þó hann sé vanhæfur til að fjalla um leigusamning áðurgreinds húsnæðis í stjórninni.
F. h. r.
Sturlaugur Tómasson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)