Kaldrananeshreppur - Úthlutun byggðakvóta, seta oddvita og sveitarstjórnarmanns í stjórn einkahlutafélags
Guðjón Vilhjálmsson 19. desember 2001 FEL01100009/1001
Kvíabala 8
520 DRANGSNES
Hinn 19. desember 2001 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi:
úrskurður
Með erindi, dags. 1. október 2001, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra frá Guðjóni Vilhjálmssyni varðandi skiptingu byggðakvóta Kaldrananeshrepps. Ráðuneytið túlkar erindi kæranda svo að þess sé krafist að ráðuneytið úrskurði um lögmæti fundar sveitarstjórnar sem haldinn var þann 27. ágúst 2001, þar sem fjallað var um beiðni kæranda, dags. 14. maí 2001, um að reglur um skiptingu byggðakvótans yrðu endurskoðaðar.
Ráðuneytið óskaði umsagnar sveitarstjórnar með bréfi, dags. 31. október 2001. Jafnframt var afrit kærunnar sent Byggðastofnun til kynningar. Umsögn sveitarstjórnar er dagsett 18. nóvember. Með bréfi, dags. 21. nóvember 2001, var kæranda gefinn kostur á andsvörum. Svar hans er dagsett 26. nóvember 2001.
I. Málavextir og málsástæður kæranda
Í lögum nr. 1/1999, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, er að finna bráðabirgðaákvæði XXVI, sem kveður á um að á fiskveiðiárunum 1999/2000 til og með fiskveiðiársins 2005/2006 hefur Byggðastofnun árlega til ráðstöfunar aflaheimildir sem nema 1.500 þorskígildislestum, miðað við óslægðan fisk, til að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Skal þeim úthlutað í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir.
Í hlut Kaldrananeshrepps komu í upphafi 63 þorskígildislestir samkvæmt ákvörðun stjórnar Byggðastofnunar. Gert var samkomulag, dags. 28. mars 2000, milli Byggðastofnunar, Kaldrananeshrepps, Fiskvinnslunnar Drangs ehf. og Saltfiskverkunar Guðjóns Vilhjálmssonar „um veiðar og vinnslu 63 tonna byggðakvóta sem Byggðastofnun hefur úthlutað til Kaldrananeshrepps“. Gerir samkomulagið ráð fyrir að kvótinn verði fluttur án endurgjalds á þá báta sem fyrirtækin tilnefna og í samræmi við samstarfssamning milli þeirra og útgerða viðkomandi báta. Fyrirtækin skuldbinda sig jafnframt til þess að á næstu fimm árum verði unnið úr fiskafla hjá fyrirtækjunum sem nemur a.m.k. þreföldum þeim byggðakvóta sem þau fá úthlutað.
Í hlut Fiskvinnslunnar Drangs ehf. (FD) komu 54 þorskígildistonn, eða 86% byggðakvótans, en í hlut Saltfiskverkunar Guðjóns Vilhjálmssonar (SGV) komu 9 þorskígildistonn, sem jafngildir 14%. Skiptingin byggði á líklegu umfangi fyrirtækjanna þar sem horft var m.a. til þeirra möguleika sem fyrirtækin áttu miðað við húsa- og tækjakost, fjölda starfsmanna, líklegs afla sem unninn yrði í fyrirtækjunum og almennra áhrifa sem slík fyrirtæki hafa í sveitarfélaginu.
Í 6. gr. samkomulagsins er kveðið á um að Kaldrananeshreppur tekur að sér eftirlit fyrir hönd Byggðastofnunar á meðferð þeirra aflaheimilda sem hér um ræðir. Óski aðilar eftir því að gerð verði breyting á samkomulaginu skal slíkt borið undir Byggðastofnun hverju sinni.
Með bréfi, dags. 14. maí 2001, fór Guðjón Vilhjálmsson fram á það við sveitarstjórn Kaldrananeshrepps að hún tæki til endurskoðunar skiptingu byggðakvóta hreppsins milli vinnslustöðva. Gerði hann það að tillögu sinni að tekið yrði mið af umfangi rekstrar, þ.e. veltu fyrirtækjanna í framtíðinni (verðmæti seldra afurða) og að slík skipting yrði endurskoðuð árlega. Taldi kærandi að ávinningur af slíkri skiptingu yrði að stöðvarnar reyndu að velta sem mestu hráefni í gegnum vinnsluna á ári og með því myndu skapast fleiri störf til hagsbóta fyrir íbúana.
Svar sveitarstjórnar er dags. 29. maí 2001 og er þar vitnað til svohljóðandi bókunar á sveitarstjórnarfundi sem haldinn var 28. maí 2001:
„Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps sér ekki að svo stöddu neina ástæðu til að breyta skiptingu byggðakvótans frá því sem verið hefur, en samþykkir að útgerðarmenn með lögheimili í sveitarfélaginu hafi forgang við úthlutun byggðakvótans hjá fyrirtækjunum.“
Þessari niðurstöðu sveitarstjórnar vildi kærandi ekki una og sendi hann bréf til stjórnarmanna Byggðastofnunar þann 13. ágúst 2001. Kemur fram í niðurlagi bréfsins að þar sem stjórn Byggðastofnunar þarf að staðfesta skiptingu byggðakvótans ár hvert óski kærandi eftir því að stjórnarmenn „ígrundi mál þetta vel og líti framhjá flokkshagsmunum“. Sama dag ritaði hann erindi til sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps þar sem hann óskaði rökstuðnings fyrir synjun sinni og tók sveitarstjórn það fyrir á fundi sem haldinn var 27. ágúst 2001.
Í svarbréfi oddvita til kæranda, dags. 28. ágúst 2001, kemur fram að með hliðsjón af tölum um landaðan afla telji sveitarstjórn að nokkuð vel hafi tekist til við úthlutun byggðakvótans. Ekki sé við aðrar opinberar tölur að styðjast og ítrekaði sveitarstjórn fyrri afstöðu sína að ekki væri að svo stöddu ástæða til að breyta skiptingu kvótans. Varðandi tillögu kæranda, sem fram kom í bréfi hans dags. 14. maí 2001, taldi sveitarstjórn að einungis væri um ábendingu að ræða sem ekki væri unnt að fallast á, enda ekki ljóst við hvaða veltutölur ætti að styðjast.
Í erindi sínu heldur kærandi því fram að nokkrir sveitarstjórnarmanna hafi verið vanhæfir til að fjalla um erindi hans vegna tengsla við fyrirtækið Drang ehf., sem hefur yfir að ráða 86% byggðakvóta Kaldrananeshrepps. Hefur kærandi lagt fram yfirlit um meint tengsl fjögurra sveitarstjórnarmanna við Drang ehf. og/eða við Kaupfélag Steingrímsfjarðar, sem sé einn af stærstu hluthöfum Drangs ehf.
Jafnframt telur kærandi að ekki sé unnt að styðjast við aflatölur við úthlutun byggðakvótans og vísar hann til þess að Fiskvinnslan Drangur ehf. hafi á síðasta kvótaári tekið fisk í umboðssölu af öllum bátum á staðnum, að þorski undanskildum, og selt í gegnum fiskmarkað Ísafjarðar eða til annarra fiskverkenda. Þótt þessi afli sé inni í aflatölum frá Fiskistofu skapi hann sáralitla vinnu á staðnum. Einnig telur kærandi að sveitarstjórn væri unnt að skipa óháða aðila til að koma með tillögur um skiptingu kvótans ef vilji væri fyrir hendi og væri unnt að styðjast við bókhald beggja fyrirtækja varðandi verðmæti seldra afurða, sem er sú viðmiðun sem kærandi telur eðlilegast að miða við varðandi úthlutun byggðakvótans.
II. Málsástæður kærða
Ráðuneytið óskaði eftir umsögn Kaldrananeshrepps um málið með bréfi, dags. 31. október 2001. Sérstaklega var óskað upplýsinga um eftirfarandi:
1. Hvort sveitarstjórn liti svo á að á umræddum fundi hafi erindi kæranda um endurskoðun reglna um skiptingu byggðakvótans fengið formlega afgreiðslu. Einnig hvort atkvæðagreiðsla átti sér stað eða bókanir verið gerðar um málið.
2. Hvort einhverjir sveitarstjórnarmenn séu eða telji sig vera vanhæfa til að fjalla um málefni Drangs ehf. vegna tengsla við félagið eða einstaka hluthafa þess, sbr. 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, og hvort venja sé að þeir sveitarstjórnarmenn sem svo háttar um víki af sveitarstjórnarfundum þegar fjallað er um málefni félagsins í sveitarstjórn. Um þennan lið vísaði ráðuneytið að öðru leyti til yfirlits sem kærandi hafði lagt fram um meint tengsl sveitarstjórnarmanna við félagið og var farið fram á að í umsögn sveitarstjórnar kæmu fram athugasemdir við það sem frá greinir í yfirlitinu.
Í umsögninni, sem er dags. 15. nóvember 2001, er vísað til þess að í svarbréfum sveitarstjórnar til kæranda kemur fram afgreiðsla sveitarstjórnar, sem hafi ekki talið til þess ástæðu að svo stöddu að breyta skiptingu byggðakvótans og telst það því að mati sveitarstjórnarinnar formleg afgreiðsla með bókun í fundargerð sem síðan er undirrituð af sveitarstjórn.
Jafnframt er vísað til þess að í fundargerðum sveitarstjórnar kemur fram að Óskar Torfason sveitarstjórnarmaður, sem jafnframt er framkvæmdastjóri Fiskvinnslunnar Drangs ehf., lýsti sig vanhæfan við afgreiðslu málsins og vék af þeirri ástæðu af tveimur fundum sveitarstjórnar, 28. maí og 27. ágúst 2001. Frá stofnun Fiskvinnslunnar Drangs ehf. hefur ekki verið fjallað um málefni fyrirtækisins í sveitarstjórn að undanskildu erindi Guðjóns, en þá vék Óskar af fundi, sem að framan greinir. Aðrir sveitarstjórnarmenn telja sig ekki vanhæfa til að fjalla um það mál sem hér um ræðir, sbr. ákvæði 19. gr. sveitarstjórnarlaga og 23. gr. samþykkta sveitarfélagsins.
Í umsögninni eru rakin tildrög þess að Fiskvinnslan Drangur ehf. var stofnuð. Á árinu 1999 var staða útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Hólmadrangs hf. á Hólmavík orðin mjög slæm og var unnið linnulaust í því að fá samstarfsaðila inn í reksturinn og freista þess að sameinast öðru fyrirtæki. Hólmadrangur hf. rak m.a. saltfiskverkun í húsnæði fyrirtækisins á Drangsnesi, en til margra ára var þar rekin rækjuvinnsla þar til rækjuveiðar lögðust af í Húnaflóa um 1998. Var þetta stærsti vinnustaðurinn í sveitarfélaginu og búinn að vera það í fjölda ára eins og víða er í litlum sjávarplássum.
Svo var komið á haustmánuðum 1999 að stefnt var að sameiningu Hólmadrangs hf. við Útgerðarfélag Akureyringa hf.(ÚA). Það lá þó strax fyrir af hálfu ÚA að það myndi ekki verða með starfsemi á Drangsnesi. Þessi afstaða var formlega tilkynnt til sveitarstjórnar af stjórn Hólmadrangs. Sveitarstjórn fundaði með forsvarsmönnum Hólmadrangs hf. og útgerðarmönnum á staðnum í desember 1999 og þar skapaðist jarðvegur fyrir stofnun Fiskvinnslunnar Drangs ehf. sem var stofnuð í lok janúar 2000 með þátttöku flestra þeirra aðila sem nú eru hluthafar.
Fullyrt er miðað við forsögu málsins að allir hluthafar komu að málinu vegna annarra sjónarmiða en arðsemi hlutafjárins og því ljóst að hefðbundin fjárfestingarsjónarmið lágu ekki að baki hlutafjárkaupum í FD. Tillaga að skipun stjórnar fyrirtækisins var í umræðunni frá upphafi og aðilar sammála um að þrír menn af fimm kæmu úr röðum útgerðarmanna að þeirra tillögu. Kaldrananeshreppur gerði tillögu um einn mann og Hraðfrystihús Drangsness hf. gerði tillögu um einn mann.
Á árinu 1999 úthlutaði Byggðastofnun svonefndum byggðakvóta til nokkurra sveitarfélaga á Íslandi til að efla útgerð og fiskvinnslu og treysta þar með búsetu þar. Úthlutun kvótans yrði í höndum sveitarfélaganna en staðfest af Byggðastofnun. Ljóst var að sveitarstjórnarmönnum víða var vandi á höndum að vinna úr slíku verkefni og víðast hvar urðu deilur um úthlutunina, en úthlutað var með ýmsum hætti sem ekki verður rakið hér. Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps vildi freista þess að deila þessum heimildum til fyrirtækja og báta í sveitarfélaginu eingöngu. Á þessum tímapunkti kom í fang sveitarstjórnar það verkefni að taka þátt í og beita sér fyrir endurreisn fjölmennasta vinnustaðar sveitarfélagsins, eins og að framan greinir. Því hlaut það að koma til álita að allur byggðakvótinn færi á væntanlegt fyrirtæki. Það var hins vegar ákvörðun sveitarstjórnarinnar að úthluta einnig til Guðjóns Vilhjálmssonar sem um tíma hafði rekið saltfiskverkun þar sem hann starfaði sjálfur en var ekki með neinn fastráðinn starfsmann. Skiptingin 14% til Guðjóns og 86% til nýrrar fiskvinnslu í húsnæði Hólmadrangs hf. var að mati sveitarstjórnar og margra annarra alls ekki ósanngjörn í garð Guðjóns. Hún byggði á líklegu umfangi fyrirtækjanna þar sem horft var m.a. til þeirra möguleika sem fyrirtækin áttu miðað við húsa- og tækjakost, fjölda starfsmanna, líklegs afla sem unninn yrði í fyrirtækjunum og almennra áhrifa sem slík fyrirtæki hafa í sveitarfélaginu. Þrátt fyrir að sveitarstjórnin hafi ákveðið og tilkynnt þessa skiptingu var sjálf úthlutunin til bátanna eftir og hafði sveitarstjórnin ekki önnur afskipti af því en að ganga frá pappírsvinnu í því sambandi og staðfesta þá.
Sveitarstjórn telur ljóst að hagsmunir slíkrar úthlutunar liggja ekki eingöngu hjá fiskvinnslufyrirtækjunum, heldur einnig hjá útgerðum, sjómönnum og verkafólki. Þessa heildarhagsmuni telur sveitarstjórnin sig hafa verið að verja með öllum sínum athöfnum við úthlutun byggðakvótans, enda í anda þess markmiðs sem Byggðastofnun setti í upphafi. Úthlutað hefur verið í tvö fiskveiðiár, en ávallt hefur farið fram endurskoðun á þeim samningum sem gerðir eru í þessu sambandi þótt hlutfalli fyrirtækjanna hafi ekki verið breytt. Að baki þeim breytingum sem orðið hafa liggja samningar á milli útgerða og fiskverkanda. Fyrir liggur að úthluta fyrir fiskveiðiárið 2001/2002 á næstu vikum eða mánuðum.
Sveitarstjórnin telur að eðlilega hafi verið staðið að úthlutun byggðakvóta Kaldrananeshrepps fram til þessa og lítur ekki svo á að hún sé vanhæf til verksins utan þess sem fram kemur í fundargerðum. Þau tengsl sem reynt er af hálfu Guðjóns Vilhjálmssonar að gera tortryggileg eru tæpast öðruvísi en víðast er í fámennum samfélögum, með hliðsjón af forsögu málsins. Þá ber einnig að hafa í huga að verkefninu verður að sinna og meint vanhæfi gæti einnig komið upp þótt varamenn í sveitarstjórn væru kallaðir til. Erindi Guðjóns sem hér um ræðir og barst sveitarstjórn í bréfi, dags. 14. maí 2001, er með þeim hætti að óskað er eftir að skiptingu byggðakvótans verði breytt að gefnu tilefni, en ekki getið um hvert það tilefni er. Þá ber hann fram tillögu um skiptingu sem taki mið af veltu fyrirtækjanna í framtíðinni, en landaður afli til þeirra segi að hans sögn nákvæmlega ekkert um umfang og veltu þeirra. Er það að mati sveitarstjórnar afar sérkennileg fullyrðing.
Þá telur sveitarstjórn vandséð að sveitarstjórn sem er af kæranda talin vera vanhæf til að skipta kvótanum á milli fyrirtækjanna sé ekki einnig vanhæf að skipa óháða menn til verksins. Einnig mætti í þessu sambandi velta fyrir sér hæfi viðkomandi fyrirtækja til að úthluta til einstakra útgerða. Engar tölur hafa verið lagðar fram er sýna að tillaga GV muni færa honum aukinn hlut í byggðakvótanum og því meiningar um varnarbaráttu einstakra sveitarstjórnarmanna fyrir hlut FD tilhæfulausar með öllu. Fljótt á litið álítur sveitarstjórnin allt eins hugsanlegt að hlutur GV minnki ef farið yrði að tillögum hans, þó að því tilskildu að miðað væri við raunverulegar tölur næstliðins árs og önnur gögn en ekki framtíðarspár.
Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps lítur því svo á að upphafleg úthlutun byggðakvótans til fyrirtækjanna standi þar til annað verður með lögmætum hætti samþykkt í sveitarstjórn Kaldrananeshrepps, enda snýst kæran um að úrskurða um lögmæti fundar 27. ágúst 2001 þar sem m.a. var fjallað um bréf til kæranda. Því álítur sveitarstjórnin að ekki leiki vafi á öðru en að svar sveitarstjórnar við erindi GV hafi verið afgreitt með lögmætum hætti.
III. Niðurstaða ráðuneytisins
A. Inngangur
Í máli þessu er deilt um afgreiðslu sveitarstjórnar á erindi kæranda um breytta skiptingu á byggðakvóta Kaldrananeshrepps. Virðast báðir málsaðilar þeirrar skoðunar að það sé sveitarstjórn sem úthluti byggðakvóta. Telur ráðuneytið rétt að árétta að samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða er það stjórn Byggðastofnunar sem ákveður úthlutun byggðakvótans, í samráði við viðkomandi sveitarstjórn. Erindi kæranda var því ekki í upphafi beint til rétts stjórnvalds. Segja má þó að úr þeim ágalla hafi að nokkru verið bætt með bréfi kæranda til stjórnar Byggðastofnunar, dags. 13. ágúst 2001. Þar sem síðari umfjöllun sveitarstjórnar fór fram eftir þann tíma telur ráðuneytið ekki tilefni til að vísa málinu frá vegna þess að ekki hafi verið um stjórnsýsluákvörðun að ræða, enda er ljóst að afstaða sveitarstjórnar hefur mikla þýðingu við ákvörðun Byggðastofnunar um endanlega úthlutun.
Engu að síður verður að hafa í huga að núverandi skipting byggist á samkomulagi sem undirritað var 28. mars 2000 og hafði sú skipting því aðeins verið í gildi í eitt ár þegar kærandi fór fram á umrædda breytingu. Hann hefur ekki lagt fram gögn til stuðnings kröfu sinni en hefur hins vegar bent á að aflatölur frá Fiskistofu gefi ekki rétta mynd af þeirri verðmætasköpun sem eigi sér stað í þeim tveimur fiskvinnslufyrirtækjum sem hlut eiga að máli. Þar sem samkomulaginu er ætlað að gilda til ársins 2004 er ljóst að mikið þarf að koma til ef breyta á skiptingu kvótans þegar skammt er liðið á samningstímann. Ákvörðun um að hafna því að leggja til breytingar á núverandi skiptingu hlýtur jafnframt að verulegu leyti að byggjast á frjálsu mati sveitarstjórnar og er það ekki á valdi ráðuneytisins að endurskoða slíkt mat.
Ráðuneytið telur hins vegar að þar sem öðrum stjórnvöldum er ekki falið að fjalla um ákvarðanir sveitarstjórnar sem teknar eru á grundvelli ákvæða laga um stjórn fiskveiða hljóti ágreiningur um málsmeðferð sveitarstjórnar að vera kæranlegur til ráðuneytisins, með vísan til 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Stjórnsýslukæran er fram komin innan þriggja mánaða frá því rökstuðningur var veittur, sbr. 22. og 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og eru skilyrði laga því uppfyllt til að ráðuneytið fjalli um meint vanhæfi sveitarstjórnarmanna við meðferð málsins.
B. Um meint vanhæfi
Kærandi hefur haldið því fram að fjórir sveitarstjórnarmenn séu tengdir Fiskvinnslunni Drangi ehf. með þeim hætti að varðað geti vanhæfi. Um er að ræða eftirtalda:
- Guðmundur B. Magnússon, oddviti, sem er fulltrúi sveitarstjórnar í stjórn Fiskvinnslunnar Drangs ehf., jafnframt því sem hann er starfsmaður Kaupfélags Steingrímsfjarðar og annast meðal annars í því starfi bókhald fyrir FD. Guðmundur á einnig 0,16% eignarhlut í FD.
- Óskar Torfason, framkvæmdastjóri FD og formaður stjórnar Kaupfélags Steingrímsfjarðar.
- Guðbrandur Sverrisson, bóndi, sem á sæti í stjórn FD fyrir Kaupfélag Steingrímsfjarðar. Guðbrandur á 0,16% eignarhlut í FD.
- Jenný Jensdóttir, er starfsmaður hreppsins og á 0,16% hlut í FD.
Eins og áður er komið fram vék Óskar Torfason sæti vegna vanhæfis á þeim tveimur fundum þar sem fjallað var um erindi kæranda og liggur ekki fyrir að hann hafi haft nein afskipti af málinu. Einnig telur ráðuneytið ótvírætt að 0,16% eignarhlutur Jennýjar Jensdóttur getur ekki valdið vanhæfi hennar við afgreiðslu málsins, með vísan til 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Er það því einungis meint vanhæfi Guðmundar B. Magnússonar og Guðbrands Sverrissonar sem ráðuneytið telur þörf á að athuga nánar, en efasemdir um hæfi þeirra virðast byggjast annars vegar á setu þeirra í stjórn FD og hins vegar á tengslum þeirra við Kaupfélag Steingrímsfjarðar (KS). Telur kærandi að vegna eignarhalds KS á 90% hlutafjár Hraðfrystihúss Drangsness ehf., sem er skráður eigandi að 20,40% eignarhlut í FD, geti starf oddvitans fyrir Kaupfélagið einnig stuðlað að vanhæfi hans til að fjalla um málefni FD, sbr. bréf kæranda til ráðuneytisins, dags. 26. nóvember 2001.
Kaldrananeshreppur er fámennt sveitarfélag. Við síðustu sveitarstjórnarkosningar kom einungis fram einn framboðslisti, listi sameinaðra kjósenda, og varð því sjálfkjörið til sveitarstjórnar. Fiskvinnslan Drangur ehf. er stærsti vinnuveitandinn í sveitarfélaginu og einnig tengjast margir einstaklingar og fyrirtæki í sveitarfélaginu FD með einum eða öðrum hætti. Af yfirliti sem fylgir greinargerð kærða má ráða að einungis einn varamaður til sveitarstjórnar er ekki tengdur fyrirtækinu með þeim hætti að vanhæfi varði. Telur ráðuneytið því ákveðin vandkvæði á því að gera ýtrustu hæfiskröfur til aðalmanna í sveitarstjórn á grundvelli 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga í því máli sem hér er til umfjöllunar. Ráðuneytið hefur áður talið óhjákvæmilegt að slaka á hæfiskröfum í málum af svipuðum toga, sbr. t.d. álit ráðuneytisins frá 16. febrúar 1994, varðandi Djúpárhrepp (ÚFS 1994:33).
Við mat á því hvort sveitarstjórnarmaður er vanhæfur er litið til þess hversu náið hann tengist viðkomandi máli og hvers konar hagsmuna hann hefur að gæta. Ráðuneytið telur óumdeilt að seta oddvita Kaldrananeshrepps í stjórn FD stafar fyrst og fremst af hlutafjáreign sveitarfélagsins í FD. Hefur ráðuneytið ítrekað kveðið upp úrskurði þess efnis að við þær aðstæður valdi stjórnarseta ekki vanhæfi sveitarstjórnarmanna. Það eru því fyrst og fremst störf oddvitans fyrir Kaupfélag Steingrímsfjarðar sem valdið geta vafa um hæfi hans til að fjalla um málefni FD. Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir í málinu telur ráðuneytið að þau tengsl séu ekki svo náin að falli undir 1. mgr. 19. gr., sem kveður á um að sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti ef mál varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Verður Guðmundur B. Magnússon því ekki talinn hafa verið vanhæfur umrætt sinn.
Í gögnum málsins kemur fram að Guðbrandur Sverrisson er bóndi að aðalstarfi en situr í stjórn FD og á 0,16% eignarhlut. Telur kærandi að hann hafi verið tilnefndur í stjórn sem fulltrúi Kaupfélags Steingrímsfjarðar og er því ekki mótmælt af hálfu kærða. Ráðuneytið hefur kveðið upp allmarga úrskurði í undanförnum árum þar sem seta í stjórn hlutafélags hefur leitt til vanhæfis sveitarstjórnarmanna. Við mat á því hvort viðkomandi stjórnarmaður er vanhæfur hefur þó verið litið til fleiri atriða, svo sem til þess hversu stóran hlut viðkomandi sveitarstjórnarmaður á í viðkomandi fyrirtæki og þeirra hagsmuna sem sveitarstjórn þarf að taka afstöðu til. Í því máli sem hér er til umfjöllunar er ljóst að 0,16% eignarhlutur veldur ekki vanhæfi, sbr. það sem áður segir um meint vanhæfi Jennýjar Jensdóttur.
Aflaheimildir fela í sér fjárhagsleg verðmæti. Ákvörðun sveitarstjórnar varðaði því óumdeilanlega fjárhagslega hagsmuni fyrir hlutaðeigandi fyrirtæki, þ.e. hvort ástæða væri til að breyta skiptingu byggðakvótans milli fiskvinnslufyrirtækja á Drangsnesi. Til hins ber þó að líta að núverandi skipting byggist á samkomulagi milli sveitarstjórnar, Byggðastofnunar og umræddra fyrirtækja og er sveitarstjórn einungis umsagnaraðili um málið. Með tilliti til þessa, og einnig þess að hæfum varamönnum var ekki til að dreifa við meðferð málsins, telur ráðuneytið að Guðbrandi Sverrissyni hafi ekki verið skylt að víkja sæti við afgreiðslu á erindi kæranda.
Samkvæmt öllu framansögðu er það niðurstaða ráðuneytisins að þeir sveitarstjórnarmenn Kaldrananeshrepps sem fjölluðu um erindi kæranda á fundum sveitarstjórnar 28. maí og 27. ágúst 2001 hafi ekki verið vanhæfir á grundvelli 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Engu að síður fellst ráðuneytið á það sjónarmið kæranda að tengsl sveitarstjórnar og Fiskvinnslunnar Drangs ehf. eru um margt óþægilega mikil og er slíkt fallið til þess að valda tortryggni í garð sveitarstjórnar þegar hún fjallar um mál tengd fyrirtækinu. Þrátt fyrir þetta telur ráðuneytið að í því máli sem hér er til umfjöllunar sé ekki tilefni til að gera athugasemdir við afgreiðslu sveitarstjórnar á erindi kæranda, en bent skal á að stjórn Byggðastofnunar tekur endanlega ákvörðun um úthlutun byggðakvótans og er kæranda unnt að beina sjónum stofnunarinnar að atriðum sem hann telur að sveitarstjórn hafi ekki tekið tillit til í umsögn sinni.
ÚRSKURÐARORÐ
Þeir sveitarstjórnarmenn Kaldrananeshrepps sem fjölluðu um erindi kæranda, Guðjóns Vilhjálmssonar, um breytta skiptingu byggðakvóta hreppsins, á fundum sveitarstjórnar 28. maí og 27. ágúst 2001, voru ekki vanhæfir til að fjalla um málið.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)
Samrit:
Kaldrananeshreppur