Ákvörðun um að leita samkomulags vegna ágreinings, beitarafnot hreppsnefndarmanns af jörð gagnaðila
Jónas Jóhannesson 18. desember 2002 FEL02100046/1001
Jörfa
311 Borgarnesi
Hinn 18. desember 2002 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi
úrskurður:
Með erindi, dags. 9. október 2002, hefur Jónas Jóhannesson, hreppsnefndarmaður í Kolbeinsstaðahreppi, leitað til ráðuneytisins og óskað úrskurðar um lögmæti ákvarðana hreppsnefndar Kolbeinsstaðahrepps sem teknar voru á fundi 8. október 2002 og varða málefni Haffjarðarár. Telur kærandi að einn hreppsnefndarmanna hafi verið vanhæfur til að taka þátt í afgreiðslu málsins og krefst hann þess að ráðuneytið ógildi umræddar ákvarðanir.
Með bréfi, dags. 29. október 2002, óskaði ráðuneytið eftir umsögn hreppsnefndar um kæruna. Umsögn barst með bréfi dagsettu 12. nóvember 2002. Með bréfi, dags. 14. nóvember 2002, gaf ráðuneytið kæranda kost á að gera athugasemdir við umsögnina og er svar kæranda dagsett 28. nóvember 2002.
I. Málavextir og málsástæður aðila
Með hliðsjón af umsögn meirihluta hreppsnefndar Kolbeinsstaðahrepps, sem dagsett er 12. nóvember 2002, má lýsa málavöxtum á eftirfarandi hátt:
Það mál sem var til afgreiðslu þegar krafa um að einn hreppsnefndarmaður væri vanhæfur vegna hagsmunatengsla kom fram var tillaga um að lögfræðingi Kolbeinsstaðahrepps yrði falið að fá dómkvadda matsmenn til að meta þær eignir Oddnýjar Kristinsdóttur í Kolbeinsstaðahreppi sem hreppurinn á forkaupsrétt að. Forsaga málsins er sú að árið 1996 seldi Oddný allar eignir sínar í Eyja- og Miklaholtshreppi og Kolbeinsstaðahreppi til Akurholts ehf. Í Kolbeinsstaðahreppi er það jörðin Landbrot, 50% jarðanna Stóra-Hrauns og Ölviskross og fjórðungur í Haffjarðará og Oddastaðavatni ásamt hólmum.
Við söluna var sveitarfélögunum boðinn forkaupsréttur að eignunum í einu lagi en verð einstakra eigna var ekki sundurliðað. Þessu vildu sveitarfélögin ekki una og töldu að sundurliða ætti hverja eign fyrir sig og bjóða forkaupsrétt þannig. Var höfðað mál sem vannst fyrir Hæstarétti. Í dómi Hæstaréttar frá 12. júní 1997 kemur fram að óheimilt er að bjóða forkaupsrétt með þessum hætti og að sveitarfélögin höfðu ekki fyrirgert forkaupsrétti sínum þó lögboðinn frestur til að taka forkaupsrétti væri liðinn. Síðan þá hefur Eyja- og Miklaholtshreppur samið við Akurholt ehf. og fallið frá forkaupsrétti að þeim eignum sem tilheyra því sveitarfélagi en Kolbeinsstaðahreppur hefur ítrekað farið fram á skiptingu þeirra eigna Oddnýjar sem eru í Kolbeinsstaðahreppi en því hefur aldrei verið svarað. Nú síðast var væntanlegum kaupendum gefinn lokafrestur til að koma fram með fullnægjandi forkaupsréttartilboð ellegar yrði farið fram á mat á eignunum. Frestur var gefinn til 1. júní 2002 en ekkert svar barst. Í framhaldi af því kom svo tillaga eins hreppsnefndarmanns um að lögfræðingi hreppsins yrði falið að fá dómkvadda menn til þess að meta eignirnar.
Afgreiðslu málsins í sveitarstjórn er lýst á svohljóðandi hátt í fundargerð hreppsefndar frá 8. október 2002, undir lið 4. – Haffjarðarármál:
„Rætt var um málefni varðandi Haffjarðaráreignirnar og bar Jónas fram þá tillögu að lögfræðingi sveitarinnar Ólafi Sigurgeirssyni yrði falið að krefjast mats á þessum eignum. A. lýsti sig andvígan þeirri tillögu. Jónas bar fram að A. væri vanhæfur að fjalla um þessi Haffjarðarármál vegna beinna hagsmunatengsla við eigendur þar, og óskaði eftir að sveitarstjórn afgreiddi þá tillögu löglega, sem hún gerði og var tillagan felld. Jónas tók það fram um leið og hann bar fram vanhæfistillöguna að ef hann teldi hana ekki rétt afgreidda, þá myndi hann kæra afgreiðsluna til félagsmálaráðuneytisins. Tillaga Jónasar sem hann bar fram á undan var felld með 3 atkv. á móti 2.
A. bar fram tillögu um að byrjað yrði á að tala við Einar Sigfússon. Þessi tillaga var samþ. með 3 atkv. gegn 1. 1 sat hjá. Verði A. úrskurðaður vanhæfur eru afgreiðslur undir 4. lið ógildar.“
Fram kemur í erindi kæranda til ráðuneytisins að ofangreindur hreppsnefndarmaður, A., hefur beitarafnot fyrir sauðfé sitt á jörðum sem tilheyra eigendum Haffjarðarár og telur kærandi að ætla megi að viljaafstaða hans mótist að töluverðu leyti af hagsmunatengslum hans við eigendur jarðanna. Telur kærandi að það myndi verða umræddum hreppsnefndarmanni örðugra að stunda arðbæran sauðfjárbúskap ef hann missti beitarafnotin, sem gerst gæti ef eigendur jarðanna teldu framvindu mála sér andstæða og fulltrúinn ætti þar hlut að.
Í sameiginlegri umsögn þriggja hreppsnefndarmanna segir eftirfarandi um meint vanhæfi A.:
„Árið 1996 gerði A. munnlegan samning við eigendur Höfða og Ytrirauðamels um upprekstur á sauðfé og hefur hann alla tíð greitt fyrir hann. Sauðfjárbúskapur er ekki stór hluti af tekjum A. og þótt hann fái eitthvað vænni lömb með því að reka þarna upp veltur afkoma hans ekki á því. Auk þess teljum við að ef túlka á sveitarstjórnarlög svo þröngt að smæstu hagsmunir geri menn vanhæfa komi slík mál svo oft upp að sveitarstjórn verður nánast óstarfhæf.“
Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 28. nóvember 2002, segir m.a. að A. sé eini bóndinn í Kolbeinsstaðahreppi sem hefur viðskipti við eigendur Haffjarðarár og ágóða þar af. Meirihluti í sveitarstjórn velti á hans atkvæði í þessum málum og það hafi ítrekað komið fram í umræðum sveitarstjórnar um málefni Haffjarðarár að meirihlutinn telji til greina koma að fórna forkaupsrétti sveitarfélagsins fyrir aðgang að heitu vatni á jörðinni Landbrotum, en sú jörð er ein þeirra eigna sem um er að ræða. Í Landbrotum var borað eftir heitu vatni með bærilegum árangri árið 1999 en kærandi telur að það vatn sem þar er að finna geti aldrei orðið til notkunar fyrir nema um helming af íbúum sveitarfélagsins, vegna fjarlægðar og ónógs hita. Væri þessi leið farin fengi hinn helmingur íbúanna ekkert fyrir forkaupsréttinn. Þetta kallar kærandi að mismuna íbúum eftir búsetu.
II. Niðurstaða ráðuneytisins
Um árabil hefur staðið mikill styr og málaferli milli sveitarstjórna Kolbeinsstaðahrepps og Eyja- og Miklaholtshrepps annars vegar og eigenda Haffjarðarár hins vegar um skattlagningu laxveiðihlunninda og forkaupsrétt að jörðum sem eiga land að Haffjarðará. Erindi kæranda varðar ákvarðanir hreppsnefndar Kolbeinsstaðahrepps um undirbúning hugsanlegs dómsmáls á hendur þessum aðilum. Óumdeilt er að í húfi kunna að vera fjárhagslegir hagsmunir fyrir eigendur Haffjarðarár, en í ákvörðun hreppsnefndar frá 8. október 2002 felst að ákveðið hefur verið að leita eftir samkomulagi við eigendur árinnar um lausn á deilumálum þessara aðila. Telur ráðuneytið að unnt sé að kæra umræddar ákvarðanir til ráðuneytisins á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.
Í 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, er kveðið á um að sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans ráðist að einhverju leyti þar af. Vanhæfi getur einkum orsakast af því að sveitarstjórnarmaður eða nánir venslamenn hans eigi beina hagsmuni af tilteknu máli sem til umfjöllunar er í sveitarstjórn. Ekki er þó útilokað að óbeinir hagsmunir geti einnig leitt til vanhæfis, að því skilyrði uppfylltu að mál varði sveitarstjórnarmann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að ætla megi að viljaafstaða hans ráðist að einhverju leyti þar af.
Í því máli sem hér er til úrlausnar hefur kærandi haldið því fram að einn þeirra þriggja hreppsnefndarmanna sem mynduðu meirihluta við samþykkt hinna kærðu ákvarðana hafi óbeinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta vegna viðskipta hans við eigendur Haffjarðarár. Telur kærandi að umræddir hagsmunir séu nægir til að ætla megi að viljaafstaða hreppsnefndarmannsins ráðist að einhverju leyti þar af enda gæti hann hugsanlega misst beitarrétt sinn á jörðum við Haffjarðará ef hann greiddi atkvæði í bága við hagsmuni eigenda. Þá segir kærandi það ítrekað hafa komið fram í umræðum sveitarstjórnar um þessi mál að meirihlutinn telji til greina koma að fórna forkaupsrétti að umræddum jörðum fyrir aðgang að heitu vatni en slíkt samkomulag telur hann einungis gagnast hluta íbúa sveitarfélagsins.
Nauðsynlegt er að hafa í huga við úrlausn þessa máls að í hinum kærðu ákvörðunum felst ekki endanleg ráðstöfun sakar í hugsanlegu dómsmáli Kolbeinsstaðahrepps gagnvart eigendum Haffjarðarár. Einungis er um það að ræða að hreppsnefnd hefur samþykkt að ganga til viðræðna um lausn ágreinings þessara aðila en endanlegt samkomulag yrði að leggja fyrir hreppsnefnd til staðfestingar. Í ljósi allra aðstæðna telur ráðuneytið að A. geti ekki haft slíka hagsmuni af hinum kærðu ákvörðunum að leitt geti til vanhæfis hans eða ógildingar hinna kærðu ákvarðana.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu hefur ráðuneytið ákveðið að rita hreppsnefnd Kolbeinsstaðahrepps bréf og benda á að tilgangur hinnar sérstöku hæfisreglu 19. gr. sveitarstjórnarlaga er m.a. að stuðla að því að almenningur geti treyst því að stjórnvöld leysi úr málum á hlutlægan og málefnalegan hátt og að það sé mat ráðuneytisins að vegna hagsmuna A. af viðskiptum við eigendur Haffjarðarár sé ekki rétt að hann komi að gerð eða staðfestingu samkomulags við þá aðila né að öðrum þeim ákvörðunum sem fela í sér endanlega lausn ágreiningsmáls Kolbeinsstaðahrepps við Akurholt ehf.
Að lokum telur ráðuneytið rétt að taka fram að í máli þessu er einungis til úrlausnar meint vanhæfi eins hreppsnefndarmanns Kolbeinsstaðahrepps á hreppsnefndarfundi sem haldinn var 8. október 2002. Samkomulag hefur ekki verið gert um lausn ágreinings við eigendur Haffjarðarár um lausn ágreiningsmála þeirra við sveitarfélagið og á þessari stundu er ekki unnt að taka afstöðu til þess hvort slíkt samkomulag geti hugsanlega falið í sér brot á jafnræði gagnvart hluta íbúa sveitarfélagsins.
ÚRSKURÐARORÐ
Hafnað er kröfu Jónasar Jóhannesson um að ráðuneytið ógildi ákvarðanir hreppsnefndar Kolbeinsstaðahrepps frá 8. október 2002, að óska ekki að svo stöddu eftir dómkvaðningu matsmanna vegna ágreinings við Akurholt ehf. um forkaupsrétt og kanna þess í stað hvort samkomulag náist um lausn deilunnar.
F. h. r.
Garðar Jónsson (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)