Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Kaldrananeshreppur - Endurupptaka, tveir sveitarstjórnarmenn vanhæfir við afgreiðslu máls

Kaldrananeshreppur                                   10. júlí 2003                                  FEL01100009/1001

520 DRANGSNESI

 

 

Með erindi, dags. 29. apríl 2003, hefur Guðjón Vilhjálmsson farið fram á það við ráðuneytið að það taki að nýju til meðferðar erindi hans frá 1. október 2001 varðandi skiptingu byggðakvóta í Kaldrananeshreppi. Málinu var lokið með úrskurði, dags. 19. desember 2003, en í bréfi Guðjóns er vísað til álits umboðsmanns Alþingis frá 28. mars 2003 til stuðnings beiðni hans um endurupptöku málsins. Í álitinu kemur fram að umboðsmaður er ósammála  niðurstöðu ráðuneytisins sem fram kemur í fyrrgreindum úrskurði. Telur hann að tveir fulltrúar í sveitarstjórn Kaldrananeshrepps, sem báðir eiga sæti í stjórn Fiskvinnslunnar Drangs ehf., hafi verið vanhæfir til að taka þátt í umfjöllun sveitarstjórnar um erindi Guðjóns, dags. 14. maí 2001, þar sem farið var fram á endurskoðun samkomulags sem gert var 28. mars 2000 um úthlutun byggðakvóta sem Byggðastofnun hefur úthlutað til Kaldrananeshrepps. Í umræddu samkomulagi er tekið fram að það gildi út fiskveiðiárið 2003/2004.

 

Eins og fram kemur í úrskurði ráðuneytisins frá 19. desember 2001 er það stjórn Byggðastofnunar sem ákveður úthlutun byggðakvótans, í samráði við viðkomandi sveitarstjórn, á grundvelli laga um stjórn fiskveiða. Engu að síður verður að hafa í huga að núverandi skipting byggist á samkomulagi sem undirritað var 28. mars 2000 og hafði sú skipting því aðeins verið í gildi í eitt ár þegar Guðjón fór fram á umrædda breytingu á árinu 2001. Engin gögn voru þá lögð fram til stuðnings kröfunni en í erindi hans til sveitarstjórnar var því haldið fram að aflatölur frá Fiskistofu gæfu ekki rétta mynd af þeirri verðmætasköpun sem ætti sér stað í þeim tveimur fiskvinnslufyrirtækjum sem hlut áttu að máli. Svar sveitarstjórnar er dags. 29. maí 2001 og var þar vitnað til svohljóðandi bókunar á sveitarstjórnarfundi sem haldinn var 28. maí 2001: „Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps sér ekki að svo stöddu neina ástæðu til að breyta skiptingu byggðakvótans frá því sem verið hefur, en samþykkir að útgerðarmenn með lögheimili í sveitarfélaginu hafi forgang við úthlutun byggðakvótans hjá fyrirtækjunum.“

 

Framangreindri niðurstöðu sveitarstjórnar vildi Guðjón ekki una og sendi hann bréf til stjórnarmanna Byggðastofnunar þann 13. ágúst 2001. Kemur fram í niðurlagi bréfsins að þar sem stjórn Byggðastofnunar hafi það hlutverk að staðfesta skiptingu byggðakvótans ár hvert óski Guðjón eftir því að stjórnarmenn „ígrundi mál þetta vel og líti framhjá flokkshagsmunum“. Að sögn Guðjóns hefur ekkert svar borist við því bréfi. Sama dag ritaði hann erindi til sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps þar sem hann óskaði rökstuðnings fyrir synjun á beiðni um endurskoðun samkomulagsins og tók sveitarstjórn það fyrir á fundi sem haldinn var 27. ágúst 2001. Í svarbréfi oddvita, dags. 28. ágúst 2001, kemur fram að með hliðsjón af tölum um landaðan afla sé það álit sveitarstjórnar að nokkuð vel hafi tekist til við úthlutun byggðakvótans. Ekki sé við aðrar opinberar tölur að styðjast og ítreki sveitarstjórn fyrri afstöðu sína að ekki sé að svo stöddu ástæða til að breyta skiptingu kvótans. Varðandi tillögu Guðjóns, sem fram kom í bréfi hans dags. 14. maí 2001, taldi sveitarstjórn að einungis væri um ábendingu að ræða sem ekki væri unnt að fallast á, enda ekki ljóst við hvaða veltutölur ætti að styðjast.

 

Eins og áður er rakið hefur umboðsmaður Alþingis nú komist að þeirri niðurstöðu að tveir þeirra sveitarstjórnarmanna sem tóku þátt í afgreiðslu sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps á erindum Guðjóns Vilhjálmssonar hafi verið vanhæfir til þess að taka þátt í afgreiðslu málsins, sbr. 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Einnig telur ráðuneytið gögn málsins benda til þess að sveitarstjórn hafi ekki gætt nægilega rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu sinnar við meðferð málsins, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að hún hefði átt að gefa Guðjóni kost á að rökstyðja erindi sitt betur ef hún taldi óljóst á hvaða rökum það væri byggt.

 

Í beiðni sinni um endurupptöku fer Guðjón fram á að ráðuneytið ógildi ákvörðun um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2002-2003. Einnig skilur ráðuneytið erindi hans svo að hann óski eftir áliti ráðuneytisins á því hvort rétt hafi verið staðið að skiptingu byggðakvóta til Saltfisverkunar Guðjóns Vilhjálmssonar og Fiskvinnslunnar Drangs ehf. á fundi sveitarstjórnar hinn 27. desember 1999, með tilliti til álits umboðsmanns Alþingis um vanhæfi tveggja sveitarstjórnarmanna.

 

Á hvoruga framangreindra krafna er unnt að fallast í því máli sem hér er til meðferðar, og varðar beiðni um endurupptöku á úrskurði ráðuneytisins frá 19. desember 2001. Í umræddum úrskurði var einungis til umfjöllunar synjun á beiðni Guðjóns um endurskoðun fyrrgreinds samkomulags um úthlutun byggðakvóta. Vegna ákvæða VII. kafla um kærufresti er ekki unnt að taka afstöðu til meints vanhæfis einstakra sveitarstjórnarmanna á sveitarstjórnarfundi sem haldinn var 1999. Þá skal tekið fram að formleg ákvörðun um úthlutun byggðakvóta er í höndum stjórnar Byggðastofnunar og ákvarðanir hennar eru ekki kæranlegar til félagsmálaráðuneytisins.

 

Eftir samráð við málshefjanda telur ráðuneytið engu að síður rétt að fallast á beiðni hans um endurupptöku málsins. Í ljósi hnökra á málsmeðferð sem fjallað er um í áliti umboðsmanns Alþingis frá 28. mars 2003, og þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin, beinir ráðuneytið því til sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps, með vísan til 102. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, að hún taki að nýju til meðferðar erindi Guðjóns Vilhjálmssonar frá 14. maí 2001, er varðar endurskoðun samkomulags um skiptingu byggðakvóta í Kaldrananeshreppi. Jafnframt beinir ráðuneytið því til sveitarstjórnar að hún gæti ákvæða 19. gr. sveitarstjórnarlaga og þeirra sjónarmiða sem fram koma í áliti umboðsmanns Alþingis, að því er varðar hugsanlegt vanhæfi einstakra sveitarstjórnarmanna. Í því sambandi má hafa í huga að skv. 20. gr. sveitarstjórnarlaga er sveitarstjórn ályktunarhæf ef meira en helmingur sveitarstjórnarmanna er viðstaddur á fundi.

 

Enn fremur telur ráðuneytið rétt að beina því til sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps að við afgreiðslu erindis Guðjóns verði honum og öðrum er málið kann að varða gefinn kostur á því að koma að sjónarmiðum sínum og röksemdum og að leiðbeiningarskyldu verði gætt eftir því sem þörf krefur. Verði niðurstaðan sú að breyttar forsendur kalli á endurskoðun samkomulagsins fyrir næsta fiskveiðiár telur ráðuneytið jafnframt eðlilegt að sveitarstjórn kanni hvort tilefni sé til að koma á einhvern hátt til móts við sjónarmið Guðjóns varðandi fyrri úthlutanir byggðakvóta.

 

Þess er vænst að ráðuneytinu verði tilkynnt um niðurstöðu málsins þegar hún liggur fyrir.

 

 

F. h. r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

Afrit:

Guðjón Vilhjálmsson

Byggðastofnun

Umboðsmaður Alþingis




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta