Skeiða- og Gnúpverjahreppur - Fækkun kennslustaða grunnskóla, hæfi
Jónas Yngvi Ásgrímsson
16. júní 2005
FEL05030040/1001
Brautarholti
801 SELFOSS
Hinn 16. júní var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi
úrskurður:
Með erindi, dags. 16. mars 2005, kærðu tveir íbúar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þau Katrín
Andrésdóttir og Jónas Yngvi Ásgrímsson, hér eftir nefnd kærendur, málsmeðferð hreppsnefndar
Skeiða- og Gnúpverjahrepps, hér eftir nefndur kærði, á fundi hreppsnefndar 8. mars 2005 þar sem
ákveðið var að leggja niður skólastarf í húsnæði Þjórsárskóla í Brautarholti næsta vetur og kenna
einungis í Árnesi.
Með bréfi, dags. 16. mars 2005, óskaði ráðuneytið eftir umsögn kærða um framkomna kæru.
Umsögnin barst með bréfi, dags. 14. apríl 2005. Kærendum var með bréfi, dags. 18. apríl 2005,
gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við umsögn kærða. Svar kærenda er dagsett 29.
apríl 2005. Samkvæmt beiðni kærða voru athugasemdir kærenda sendar kærða með bréfi
ráðuneytisins, dags. 4. maí 2005. Andsvör kærða, dags. 18. maí 2005, bárust ráðuneytinu 24. maí
2005. Andsvör kærða voru send kærendum til upplýsinga og bárust athugasemdir þeirra
ráðuneytinu með bréfi, dags. 30. maí 2005.
I. Kröfur
Ráðuneytið leggur þann skilning í erindi kærenda að þess sé krafist að ákvörðun kærða um
sameiningu skólahalds Þjórsárskóla og skólans í Árnesi á einn skólastað, Árnes, verði felld úr gildi
vegna annmarka á málsmeðferð við ákvarðanatökuna. Um kæruheimild vísast til 103. gr.
sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Kæran er komin fram innan lögmæts kærufrests.
II. Málavextir
Skeiðahreppur og Gnúpverjahreppur sameinuðust í eitt sveitarfélag, Skeiða- og Gnúpverjahrepp
árið 2002. Í gögnum málsins kemur fram að hreppsnefnd hefur frá upphafi kjörtímabils síns rætt af
og til um málefni grunnskóla sveitarfélagsins, Þjórsárskóla, á hreppsnefndarfundum. Þann 21.
október 2003 samþykkti aðalfundur foreldra- og kennarafélags Skeiða- og Gnúpverjahrepps
ályktun þess efnis að óska eftir að sem fyrst færi fram úttekt af hlutlausum aðila á
grunnskólastarfinu. Skólanefndarfundur haldinn 25. nóvember 2003 tók undir þá ályktun.
Hreppsnefnd samþykkti á fundi sínum 2. desember 2003 að leita eftir aðilum til að taka út
skólastarfið og var samið um það við Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.
Á almennum borgarafundi 24. febrúar 2005 voru drög að skýrslu Rannsóknarstofnunar
Kennaraháskóla Íslands (KHÍ) kynnt. Skýrsludrögin, sem bera heitið „Mat á Þjórsárskóla og
hugmyndir um framtíðarskipan“, fela í sér að annar megintilgangur verkefnisins hafi verið að
leggja mat á það hvort hægt væri og heppilegt að flytja alla starfsemi skólans á einn skólastað en
kennt hefur verið á tveimur stöðum, í Brautarholti og Árnesi.
Þann 26. febrúar 2005 var haldinn skólanefndarfundur sem tók málið til umagnar.
Á fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps 8. mars 2005 voru teknar til umræðu tvær
tillögur um sameiningu Þjórsárskóla á einn stað með vísun til fundargerða skólanefndar frá 15. og
26. febrúar 2005. Tillögurnar eru svohljóðandi:
„Tillaga A. Hreppsnefnd samþykkir að sameina starfsemi Þjórsárskóla á einn stað.
Haustið 2002 voru 70 nemendur í Brautarholts- og Gnúpverjaskóla eða 29 nemendur í
Brautarholtsskóla og 39 í Gnúpverjaskóla. Á yfirstandandi skólaári eru nemendur 64. Áætlaður
nemendafjöldi haustið 2005 er 54 og horfur á enn frekari fækkun á næstu árum eða niður í 41 árið
2009. Í hverjum árgangi eru nú 3 til 13 börn. Rannsóknarstofnun KHÍ er ákveðið þeirrar skoðunar
að skólastarfinu sé betur borgið á einum stað en tveimur. Því til stuðnings er nefnd bæði fagleg
hagræðing og veruleg fjárhagsleg hagræðing. Könnun KHÍ meðal foreldra gefur þá niðurstöðu að
foreldrar telja langflestir að skólastarfið ætti að sameina á einn stað og telja það megin veikleika
skólans að hann skuli vera á tveimur stöðum.
Hreppsnefnd samþykkir að Þjórsárskóli verði í Árnesi.
Skólahúsið í Árnesi getur tekið við nemendum næsta haust án mikilla tilfæringa innan húss. Þar er
mun rýmra almennt kennsluhúsnæði. Í Brautarholti þyrfti hinsvegar að notast við lausar
kennslustofur til að koma starfseminni fyrir.
Tillaga B. Breytingartillaga Matthildar. Hreppsnefnd samþykkir að sameina starfsemi
Þjórsárskóla á einn stað.
Haustið 2002 voru 70 nemendur í Brautarholts- og Gnúpverjaskóla eða 29 nemendur í
Brautarholtsskóla og 39 í Gnúpverjaskóla. Á yfirstandandi skólaári eru nemendur 64. Áætlaður
nemendafjöldi haustið 2005 er 54 og horfur á enn frekari fækkun á næstu árum eða niður í 41 árið
2009. Í hverjum árgangi eru nú 3 til 13 börn. Rannsóknarstofnun KHÍ er ákveðið þeirrar skoðunar
að skólastarfinu sé betur borgið á einum stað en tveimur. Því til stuðnings er nefnd bæði fagleg
hagræðing og veruleg fjárhagsleg hagræðing. Könnun KHÍ meðal foreldra gefur þá niðurstöðu að
foreldrar telja langflestir að skólastarfið ætti að sameina á einn stað og telja það megin veikleika
skólans að hann skuli vera á tveimur stöðum.
Þar sem áðurnefnd úttekt tekur ekki á rauntölum við endurbætur sem fylgir því að koma
starfseminni undir eitt þak og til að sem víðtækust sátt náist um málið samþykkir hreppsnefnd að
fela arkitekt að meta hvort skólahúsið henti betur fyrir starfsemi Þjórsárskóla. Lagt verði mat á
hvort gera þurfi breytingar á húsnæðinu og áætlaðan kostnað við þær.
Hreppsnefnd samþykkir enn fremur að fela sveitarstjóra í samstarfi við endurskoðendur hreppsins
að meta rekstrarkostnað Þjórsárskóla annarsvegar í Árnesi og hinsvegar í Brautarholti.
Niðurstöður þessara athugana liggi fyrir í lok mars og ákvörðun um staðsetningu verði tekin á
næsta hreppsnefndarfundi 5. apríl.“
Oddviti bar upp tillögu A og var hún samþykkt með fimm atkvæðum, en tveir voru á móti.
III. Málsrök kærenda.
Í erindi sínu til ráðuneytisins færa kærendur fram eftirfarandi rök fyrir kæru sinni:
Í fyrsta lagi greina kærendur frá forsögu málsins og undirbúningi. Fyrir síðustu
sveitarstjórnarkosningar hafi Skeiðahreppur og Gnúpverjahreppur verið sameinaðir í eitt
sveitarfélag. Í framboði til sveitarstjórnar voru síðan tveir listar og meðal stefnumála beggja lista
var að kenna áfram í báðum grunnskólum sameinaðs sveitarfélags. Síðastliðinn vetur hafi kærði
hins vegar ráðist í að fá Rannsóknarstofnun KHÍ til að gera úttekt á skólamálum í hinu sameinaða
sveitarfélagi. Á almennum borgarfundi 24. febrúar 2005 voru lögð fram drög að skýrslu
Rannsóknarstofnunar KHÍ til kynningar. Á þeim fundi kom fram vilji nokkurra
sveitarstjórnarmanna til að flytja allt skólastarf í Árnes. Á fundinum kom skýrt fram óánægja
meðal íbúa sveitarfélagsins með vinnubrögð kærða þar sem ekki lá fyrir kostnaðargreining vegna
reksturs skólans. Jafnframt kom þar fram að íbúar vildu skoða skýrslu Rannsóknarstofnunar KHÍ
þegar hún væri komin í endanlegt form til að geta tekið upplýsta afstöðu til málsins. Þá taka
kærendur fram að samlegðaráhrif samstarfs leikskóla og skóla hafi ekki verið metin, en leikskóli
sveitarinnar standi á sama hlaði og skólahúsið í Brautarholti. Leikskólinn hafi nýtt mötuneyti,
íþróttasal og aðra aðstöðu í skólahúsinu. Einnig hafi samþætting leikskóla og skóla verið til
sérstakrar fyrirmyndar og sé það í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla.
Þann 26. febrúar 2005 var haldinn fundur í skólanefnd þar sem formaður lagði til að skólastarf yrði
flutt að Árnesi. Var sú tillaga samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur. Í framhaldi af því
hafi tveir íbúar sent dreifibréf á öll heimili í sveitarfélaginu þar sem taldir voru upp kostir
skólastarfs í Brautarholti og ítrekuð afstaða íbúa að fá að skoða málið þegar öll gögn lægju fyrir,
þ.e. bæði skýrsla Rannsóknarstofnunar KHÍ og samanburður á kostnaði við rekstur skóla á hvorum
stað fyrir sig. Á sveitarstjórnarfundi 8. mars 2005 hafi sveitarstjórn samþykkt að flytja allt
skólahald í Árnes á komandi vetri og hafi þannig hunsað óskir íbúa um að málið yrði skoðað
faglega.
Í athugasemdum kærenda við umsögn kærða, sbr. bréf kærenda, dags. 29. apríl 2005, segir að
löngu hafi verið ljóst að til sameiningarkosninga kæmi en meðal annars á þeim forsendum hafi
báðir framboðslistar Skeiða- og Gnúpverjahrepps heitið því að skólahald yrði með óbreyttu sniði á
báðum stöðum út kjörtímabilið. Kærendur segja að skólabörn hafi komið heim úr skóla með
eyðublöð um könnun á skólastarfi. Í bréfinu stóð að „formlegt mat“ ætti að gera á gæðum
skólastarfs Þjórsárskóla og að stefnt væri að því að afla gagna sem nýst gætu við hugsanlega
sameiningu skólans á einn skólastað. Taka kærendur fram að könnun þessi hafi hvergi verið kynnt
áður. Auk þess sé könnunin þannig úr garði gerð að hún hafi augljóslega ekki verið unnin
vísindalega, þannig vantaði til dæmis upplýst samþykki þátttakenda fyrir þátttöku og skilgreiningu
á úrtaki. Hvergi hafi komið fram að nota ætti niðurstöðu könnunarinnar sem einu gögnin sem
leggja ætti til grundvallar ákvarðanatöku um sameiningu skólahalds. Í athugasemdum kærenda er
jafnframt sett fram í spurnarformi hvers vegna kærði hafi ekki tekið mið af yfirvofandi
sameiningarkosningum og óhjákvæmilegum breytingum á skólastarfi í kjölfar þeirra. Í stað þess
hafi verið farið í kostnaðarsama úttekt og tekin ákvörðun sem hleypt hafi öllu sveitarfélaginu í
uppnám.
Í öðru lagi greina kærendur hið eiginlega kæruefni, þ.e. málsmeðferð hreppsnefndar Skeiða- og
Gnúpverjahrepps á fundi hennar 8. mars 2005, niður í fjóra þætti. Þeir eru:
1. Ekki hafi legið fyrir í fundarboði, hvorki skólanefndar né sveitarstjórnar, að ákvörðun ætti
að taka um flutning á skólastarfseminni á annan staðinn. Það hafi því komið nokkrum
hreppsnefndarmönnum í opna skjöldu að það ætti að ræða, hvað þá að taka endanlega
ákvörðun í málinu á fundinum.
2. Málið hafi verið afgreitt á einum fundi sveitarstjórnar, en kærendur spyrja hvort ekki sé
skylt að svo mikilvægt mál sem þetta fái tvær umræður í sveitarstjórn. Vísa kærendur í því
samband í 21. gr. samþykktar Skeiða- og Gnúpverjahrepps þar sem segir að hreppsnefnd
skuli hafa tvær umræður um áætlanir fyrir sveitarfélagið sem gilda eiga til lengri tíma, svo
sem um þriggja ára áætlanir. Jafnframt benda kærendur á 65. gr. sveitarstjórnarlaga um að
skylt sé að leggja fyrir sveitarstjórn umsögn sérfróðs aðila um kostnaðaráætlun hyggist
sveitarstjórn ráðast í fjárfestingar og áætlaður heildarkostnaður eða hlutur sveitarfélagsins í
henni nemi hærri fjárhæð en fjórðungi skatttekna yfirstandandi reikningsárs.
3. Ekki komi fram í fundargerð hvort hæfi hreppsnefndarmanna til ákvörðunartöku í þessu
máli hafi verið metið, sbr. 23. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og
Gnúpverjahrepps. Kærendur benda í fyrsta lagi á að oddviti sveitarstjórnar hafi atvinnu af
skólaakstri og að tekjur hans séu í réttu hlutfalli við ekna kílómetra. Færa megi rök fyrir því
að akstursvegalengdin geti aukist við það að skólinn flytjist í Árnes. Í öðru lagi hafi einn
sveitarstjórnarmaður atvinnu af ræstingu í skólahúsnæði í Árnesi og loks starfi maki eins
hreppsnefndarmanns í mötuneyti Brautarholtsskóla.
4. Tillaga skólanefndar hafi ekki verið tekin fyrir á fundi hreppsnefndar, heldur hafi
meirihlutinn lagt fram nýja tillögu sem ekki kom fram í fundarboði. Jafnframt að á
fundinum hafi komið fram breytingartillaga við tillögu um flutning í Árnes, en
breytingartillagan hafi ekki verið borin upp áður en gengið var til atkvæða um upprunalegu
tillöguna, eins og þó sé gert ráð fyrir í almennum fundarsköpum. Spurt sé hvort
hreppsnefndin hafi farið að fundarsköpum.
Í athugasemdum kærenda við umsögn kærða taka kærendur síðan fram: Um 1. lið í kæru ítreka
þeir efni hans, en benda jafnframt á varðandi fundarboð skólanefndar að minnihluti skólanefndar
hafi ekki verið sammála túlkun skólanefndarformanns á niðurstöðum fundarins, en minnihlutinn
hafi talið sig vera ofurliði borinn.
Um nauðsyn á tveimur umræðum í sveitarstjórn, sbr. 2. lið í kæru, benda kærendur á að
hreppsnefnd hafi sjálf orðað það svo í svari til kærenda að „rekstur grunnskóla sé stærsti
rekstrarþáttur sveitarfélaga á Íslandi“ og ítreka því spurningu sína hvort ekki sé skylt að taka mál
af þessari stærðargráðu til tveggja umræðna. — Um 3. lið í kæru sinni, vanhæfi, taka kærendur
fram að oddvita beri að vekja máls á vanhæfi þótt hreppsnefndarmenn átti sig ekki sjálfir á því.
Kærendur mótmæla því að dagleg 40–50% vinna níu mánuði ársins sé aukavinna, jafnframt spyrja
þeir hvernig vitað sé af hálfu kærða að akstur hans „muni ekki breytast neitt“ og vilja fá það
rökstutt. Um ræstitækninn spyrja kærendur hvort 90% vinna níu mánuði ársins sé hlutastarf og
benda í því sambandi á að hætt hafi verið við mjólkurframleiðslu á búi hans. Loks benda þeir á
varðandi starf maka hreppsnefndarmanns í mötuneyti Brautarholtsskóla að makinn sé hluthafi í
félagsbúi, en vinni fullan vinnudag í mötuneyti allt skólaárið. Vanhæfi verði, lögum samkvæmt, að
meta fyrirfram en ekki eftir málalyktum. Jafnframt er bent á í þessu sambandi að sveitarfélagið sé
láglaunasvæði og allar „auka“tekjur skipti máli. — Að lokum taka kærendur fram varðandi 4. lið í
kæru um fundarsköp að ósamræmi hafi verið milli þess sem sagði í 1. lið fundarboðs:
„Fundargerðir til staðfestingar, þ.m.t. fundargerðir skólanefndar frá 15. og 26. feb.“ Í fundargerð
hreppsnefndar standi hins vegar að „fundargerðir hafi verið staðfestar með framkomnum
breytingum“. Hreppsnefnd hafi ekki borið upp tillögu skólanefndar heldur sína eigin sem kölluð
var Tillaga A. Tillaga B. Breytingartillaga... var ekki borin upp á undan tillögu hreppsnefndar eins
og gera á við breytingartillögu“ eins og segir orðrétt í bréfi kærenda.
IV. Málsrök kærða
Í umsögn kærða, dags. 14. apríl 2005, kemur fram að hreppsnefndin hafi frá upphafi kjörtímabils
síns rætt af og til um málefni grunnskólans á fundum sínum. Hafi meðal annars verið rætt um að
leita ráðgjafar utanaðkomandi fagaðila til að byggja grunninn undir ákvarðanir hreppsnefndar, en
formleg tillaga þess efnis kom fyrst fram á fundi hreppsnefndar þann 3. desember 2002. Þá segir
að þann 21. október 2003 hafi aðalfundur foreldra- og kennarafélags Skeiða- og Gnúpverjahrepps
samþykkt ályktun um að óska eftir að sem fyrst færi fram úttekt af hálfu hlutlauss aðila á
grunnskólastarfinu og hafi fundur skólanefndar 25. nóvember 2003 tekið undir þá ályktun.
Hreppsnefndin samþykkti á fundi sínum 2. desember 2003 að leita eftir aðilum til að taka út
skólastarfið og var samið við Rannsóknarstofnun KHÍ um að taka verkið að sér.
Kærði bendir á að úttekt Rannsóknarstofnunar KHÍ fjalli ekki eingöngu um hvort kenna skuli á
einum eða tveimur stöðum eða hvar skólinn skuli staðsettur. Skýrslan feli í sér mat á starfi
Þjórsárskóla í hreppnum. Kærði bendir sérstaklega á að við mat á starfsemi Þjórsárskóla hafi ekki
skipt máli þótt skýrslan hafi ekki verið tilbúin í endanlegri mynd þar sem fulltrúar
Rannsóknarstofnunar KHÍ hafi talið sig tilbúna með efnislega niðurstöðu varðandi þennan þátt.
Endanleg skýrsla sem fjallar um víðtækari efni sé væntanleg síðar.
Af lýsingu á verkefninu og inngangi skýrslunnar megi sjá að víðtækt samráð hafi verið haft við
alla aðila sem unnt var að tengja við málið. Þann 26. febrúar 2005 hafi verið haldinn
skólanefndarfundur sem tók málið til umsagnar og hreppsnefnd hafi síðan komið saman 8. mars
2005, staðfest tillögur skólanefndar og samþykkt bókun. Á fundi hreppsnefndar hafi umsögn
foreldraráðs legið fyrir.
Að framangreindu virtu telur kærði að málið hafi fengið vandaðan undirbúning, öll stjórnsýsla
verið málefnaleg og niðurstaða fengin með hlutlægum hætti.
Hvað varðar hið eiginlega kæruefni, þ.e. meinta annmarka á málsmeðferð sveitarstjórnar á fundi 8.
mars 2005 við ákvörðunartöku um sameiningu skólahalds á einn stað sem kærendur telja upp í
fjórum liðum, tekur kærði eftirfarandi fram:
Um að það hafi komið nokkrum hreppsnefndarmönnum í opna skjöldu að ræða ætti, hvað þá að
taka endanlega ákvörðun um flutning skólastarfseminnar á annan staðinn, bendir kærði á að enginn
nefndarfulltrúi gerði athugasemd þar um, hvorki í skólanefnd né hreppsnefnd. Allir
hreppsnefndarmenn hafi ritað athugasemdalaust undir allar fundargerðirnar. Jafnframt tekur kærði
fram að í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum, og 11. gr.
samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps, séu allir fundir hreppsnefndar
boðaðir bréflega og fylgir dagskrá fundarins þá með fundarboðinu. Á fundi skólanefndar þann 15.
febrúar 2005 hafi verið ákveðið að fundur til umfjöllunar um starfsemi Þjórsárskóla yrði haldinn
þann 26. febrúar 2005 og var það bókað í fundargerð. Ekki var sérstaklega bókað í fundargerðina
hvert tilefni fundarins þann 26. febrúar væri, en nefndarmönnum átti öllum að hafa verið
fullkunnugt um fundarefnið sem ræða ætti á þessum laugardagsfundi sem haldinn yrði til þess að
ná að ljúka umsögn skólanefndar í tæka tíð fyrir fyrirhugaðan hreppsnefndarfund þann 8. mars
2005. Á fundi skólanefndar þann 26. febrúar 2005 hafi eina umræðuefni fundarins verið málefni
Þjórsárskóla. Á þeim fundi tóku allir fulltrúar til máls og lýstu þar skoðun sinni á málinu. Þar var
samþykkt tillaga um að nefndin legði til að allt grunnskólahald Þjórsárskóla yrði á einum stað
næsta skólaár 2005–2006.
Hvað varðar nauðsyn á tveimur umræðum um málefnið í sveitarstjórn bendir kærði á að ekki hafi
verið talin þörf á því við umrætt mál. Málefni Þjórsárskóla hafi verið rædd af og til á
hreppsnefndarfundum frá upphafi kjörtímabils. Undirbúningur málsins hafi því verið nægur og
málsmeðferð fyllilega vönduð. Kærði tekur fram að vísan til ákvæða 21. gr. sveitarstjórnarlaga,
sbr. einnig 21. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps, eigi hér ekki
við þar sem nefnd ákvæði kveði sérstaklega á um að nánar tilgreind málefni þurfi tvær umræður,
en skipan skólamála, svo sem hér um ræðir, falli þar ekki undir. Þá sé vandséð að vísan til 65. gr.
sveitarstjórnarlaga, um miklar fjárfestingar og sölu fasteigna, eigi við um málefni Þjórsárskóla.
Viðvíkjandi hæfi sveitarstjórnarmanna bendir kærði á að um það efni gildi ákvæði 19. gr.
sveitarstjórnarlaga og 23. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Umrædd ákvæði eigi einnig við um hæfi fulltrúa í nefndum sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. 47. gr.
sveitarstjórnarlaga. Kærði tekur fram að á hreppsnefndarfundi þann 8. mars sl. hafi ekki komið
fram neinar efasemdir eða vangaveltur um hæfi eða vanhæfi hreppsnefndarmanna til þess að fjalla
um málefni Þjórsárskóla. Um hugsanleg tengsl sveitarstjórnarmanna við málefni skólans tekur
kærði eftirfarandi fram:
„Oddviti sveitarfélagsins er í hálfu starfi sem oddviti, hann rekur ferðaþjónustufyrirtæki í sveitinni
og ekur skólabíl í aukavinnu. Sá akstur sem hann sinnir í þágu skólans mun ekki breytast neitt, við
flutning skólans að Árnesi. Það er hægt að sýna fram á með nákvæmum gögnum og rökstuðningi,
ef óskað verður. Hreppsnefnd telur því að afar langsótt verði að telja oddvitann vanhæfan af þeim
sökum. Öllum nefndarmönnum var þessi staða ljós og þótti engum ástæða til þess að hann viki sæti
við meðferð og afgreiðslu málsins enda varðaði þessi staða hans ekki málefnið, með þeim hætti,
svo sérstaklega, að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótaðist að einhverju leiti þar af.
Í stjórnsýslukæru segir að einn nefndarmaður hafi atvinnu af ræstingu skólahúsnæðis í Árnesi. Af
því tilefni þykir rétt að upplýsa að ræstitæknirinn á og rekur kúabú, ásamt eiginmanni sínum, í
sveitinni. Hún er í hlutastarfi við ræstingar í skólanum í Árnesi. Sem hreppsnefndarmaður býr hún
jafnframt yfir þeim upplýsingum að við sameiningu skólahaldsins á einn stað verði líklega aðeins
þörf á einum ræstitækni í stað tveggja. Því má færa rök fyrir því, að með því að hún greiddi
atkvæði með flutningi skólans og sameiningu skólahaldsins, sé ræstitæknirinn jafnframt að fórna
þessu hlutastarfi sínu. Hreppsnefnd hafnar því að umræddan nefndarmann skorti hæfi til þess að
taka þátt í afgreiðslu málsins enda varðaði þessi staða hennar ekki málefnið, með þeim hætti, svo
sérstaklega, að almennt megi ætla að viljaafstaða hennar mótaðist að einhverju leiti þar af.
Þá segir í stjórnsýslukæru að maki þriðja nefndarmanns starfi í mötuneyti Brautarholtsskóla. Það
er rétt að umræddur maki starfar í mötuneyti Brautarholtsskóla, jafnframt því að eiga og reka
kúabú í sveitinni. Með því að umræddur nefndarmaður greiddi atkvæði með flutningi skólans að
Árnesi þá má færa rök fyrir því að hann hafi jafnframt tekið þátt í að leggja niður starf eiginkonu
sinnar. Hreppsnefnd hafnar því að umræddan nefndarmann skorti hæfi til þess að taka þátt í
afgreiðslu málsins enda varðaði þessi staða hans ekki málefnið, með þeim hætti, svo sérstaklega,
að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótaðist að einhverju leiti þar af.
Að framangreindu virtu þá er það mat hreppsnefndar að öll stjórnsýsla við afgreiðslu þessa
málefnis hafi verið málefnaleg og niðurstaða fengin með hlutlægum hætti.“
Að lokum fjallar kærði um þá málsástæðu kæranda að tillaga skólanefndar hafi ekki verið tekin
fyrir á fundi hreppsnefndar. Um það segir kærandi eftirfarandi:
„Af því tilefni vísast til endurrits af fundargerð hreppsnefndarfundar frá 8. mars sl., þar sem segir í
lok fyrsta tl. á dagskrá, að fundargerðirnar séu staðfestar með framkomnum breytingum.
Við undirbúning fyrir hreppsnefndarfundinn, sem haldinn var þann 8. mars sl. komu fram tvær
tillögur, sem kallaðar voru tillögur A og B.
Sveitarstjóra var falið að stilla þessum tillögum upp. Það var gert og tillögurnar þannig lagðar
báðar fram á hreppsnefndarfundinum, þar sem fjallað var um þær í einu lagi. Misskilnings gætir
því í stjórnsýslukærunni, þar sem segir að á fundinum hafi komið fram breytingartillaga við tillögu
um flutning í Árnes. Sú tillaga lá fyrir í upphafi fundarins og var rædd þar samhliða hinni
tillögunni.
Á hreppsnefndarfundinum fór fram ítarleg umræða um málefni Þjórsárskóla, þar sem allir
nefndarmenn tóku til máls. Tillaga A var síðan borin undir atkvæði, enda gekk hún lengra en
tillaga B. Tillagan var síðan samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur. Þar sem meirihluti
hreppsnefndar hafði samþykkt tillögu A þá stóðu ekki rök til þess að bera tillögu B undir atkvæði.
Eins og málum var háttað hafði tillaga B því verið felld, með samþykki tillögu A. Lögvarðir
hagsmunir stóðu því ekki til þess að tillaga B yrði tekin til frekari meðferðar. Það skal áréttað, í
þessu ljósi, að báðar tillögurnar lágu fyrir við upphaf fundar og hlutu þar samhliða umfjöllun.“
Í andsvari kærða, dags. 18. maí 2005, er bent á skýrslu Rannsóknarstofnunar KHÍ sem er
aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagins varðandi undirbúningsvinnu að sameiningu skólahalds.
Hvað fundarboð bæði skólanefndar og hreppsnefndar snertir er ítrekað að í ljósi undangenginna
umræðna um sameiningu skólahalds á einn stað hafi öllum nefndarmönnum mátt og átt að vera
fullljóst að það málefni yrði tekið fyrir á þeim fundum sem um ræðir. Orðrétt segir síðan:
„Í máli því er hér um ræðir var öllum fundarmönnum því gefið færi á að undirbúa sig og móta sér
skoðun, ásamt því að ráðfæra sig við þá er þeir kusu, áður en til afgreiðslu málsins kom. Þá er
vakin athygli á að nefndarmenn tóku allir þátt í afgreiðslu málsins, án þess að athugasemdir eða
aðfinnslur kæmu fram um að einhverjir þeirra teldu sig ofurliði borna eða málið ekki tækt til
umræðu eða afgreiðslu vegna ófullnægjandi undirbúnings. Það er skylda nefndarmanna að
upplýsa eða gera athugasemdir á fundi, ef þeir telja mál þar upp borin án nægjanlegs
undirbúnings. Gera verður kröfu til þess að nefndarmaður taki ekki, án athugasemda, þátt í
umræðum og afgreiðslu málefnis, sem hann telur sig ekki hafa nægjanlega innsýn í eða verið
gefinn kostur á að kynna sér nægjanlega. Hvergi er að finna að nefndarmenn hafi gert eða látið
bóka athugasemdir um málatilbúning þann er hér um ræðir. Slíkar athugasemdir verða ekki
bornar fram að fundi loknum. Fullyrðingum kærenda um að minnihluti skólanefndarmanna hafi
verið ofurliði bornir er vísað á bug enda ekki rök til annars. Þann 2. maí sl. ritaði einn
skólanefndarmaður hreppnefnd bréf, þar sem lýst er óánægju með undirbúning málsins og
ákvörðunartöku. Þær athugasemdir, sem þar koma fram hefðu með vísan til framanritaðs átt að
koma fram áður en málið var endanlega afgreitt. Eins og fram hefur komið er hvergi að finna
neinar athugasemdir þar um, hvorki frá umræddum nefndarmanni né öðrum. Nefndarmönnum var
í lófa lagið að gera athugasemdir við afgreiðslu málsins á nefndarfundum, hafi þeir talið ástæðu
til þess. Gera verður kröfu til þess að nefndarmenn taki ekki þátt í endanlegri afgreiðslu mála, án
þess að hafa fengið ráðrúm til þess að kynna sér allar hliðar máls, eins og áður hefur verið rakið.
Telji nefndarmaður þau réttindi skert, með ónógum undirbúningi eða kynningu, þá ber þeim sama
að láta bóka athugasemdir þar um í fundargerð. Síðari athugasemdir hljóta að skoðast sem of
seint fram komnar. Önnur skýring þar á er varhugaverð, í ljósi skilvirkni og áræðanleika formlega
réttrar ákvarðanatöku og fundarskapa í stjórnsýslu, svo sem hér um ræðir.“
Um vanhæfi segir svo í andsvari kærða, dags. 18. maí 2005:
„Starfsmaður mötuneytis: Starfshlutfall viðkomandi starfsmanns nemur 50%. Við mötuneyti
skólans í Brautarholti starfar fastráðin matráðskona í fullu starfi. Með henni er síðan
aðstoðarkona, sem er eiginkona hreppsnefndarmanns. Aðstoðarkonan er ráðin frá ári til árs, ekki
er þar um fastráðningu að ræða. Mötuneyti skólans í Árnesi er rekið af verktaka, sem jafnframt
starfrækir veitingasölu í Árnesi. Hreppurinn hefur því engan á launaskrá vegna mötuneytis þar.
Við afgreiðslu málsins lá fyrir að mötuneyti Brautarholtsskóla yrði aflagt, a.m.k. í núverandi
mynd, við sameiningu og vísast í því sambandi einnig til skýrslu KHÍ.
Ræstitæknir: Starfshlutfall viðkomandi starfsmanns nemur 86%. Ekki er um fastráðningu að ræða.
Kærendur upplýsa að mjólkurframleiðslu hafi verið hætt á búi starfsmannsins. Af því tilefni þykir
rétt að fram komi að mjólkurframleiðsla var aflögð þar, eftir afgreiðslu þessa máls. Atvik sem
gerast eftir að stjórnvaldsákvörðun er tekin, koma ekki til skoðunar, við mat á hæfi eða vanhæfi
viðkomandi nefndarmanns, við afgreiðslu þess máls er hér um ræðir.
Oddviti: Hann hefur tekjur af skólaakstri í sveitarfélaginu, eins og skýrt er í fyrri athugasemdum
sveitarfélagsins frá 14. apríl sl. Um er að ræða aukastarf. Um tekjur vísast til upplýsinga, er þegar
hafa verið sendar ráðuneytinu. Núna starfa sex bílstjórar við skólaaksturinn. Einn af þessum sex
bílstjórum hefur upplýst að hann hyggst hætta eftir yfirstandandi skólaár. Skólanefndin hefur
auglýst lausa stöðu skólabílstjóra, þar sem krafa er gerð til þess að viðkomandi hafi yfir að ráða
bíl er taki a.m.k. 25 farþega. Það skilyrði er m.a. vegna fyrirhugaðrar sameiningar og flutnings
skólans að Árnesi. Tekið skal fram að oddvitinn hefur ekki yfir slíkri bifreið að ráða og verður
engin breyting þar á. Tekjur bílstjóranna eru ákvarðaðar á hverju hausti, þar sem tekið er mið af
gjaldskrá, sem að stofni til byggir á gjaldskrá sem upphaflega var gefin út af Sambandi íslenskra
sveitarfélaga um skólaakstur. Skólaaksturinn er skipulagður á hverju hausti og þá er m.a. leitast
við að skipta akstrinum sem jafnast milli hinna sex skólabílstjóra. Það skal ítrekað að
skólaaksturinn er einungis aukastarf oddvitans og hafa tekjur af þeim akstri ekki áhrif á afkomu
hans, sem nemið geti, til þess að áhrif hafi á afstöðu hans til sameiningar skólanna og flutnings að
Árnesi.
Að framangreindu virtu þykir ljóst að afgreiðsla skólanefndar og síðan hreppsnefndar á máli því
er hér um ræðir snerti ekki sérstaka og verulega fjárhagslega framtíðarhagsmuni nefndarmanna,
hvorki til hagnaðar né taps, þannig að vanhæfi varðaði. Niðurstaða var fengin með málefnalegum
hætti, sem byggði m.a. á sérfræðiskýrslu þeirri er unnin var af rannsóknarnefnd KHÍ. Ákvörðun
um úttekt á skólahaldinu var tekin á fundi hreppsnefndar þann 2. desember 2003. Sérstakir
persónulegir hagsmunir eða sjónarmið einstakra nefndarmanna réðu ekki ferðinni, heldur var
lögð áhersla á að niðurstaða fengist á grundvelli framlagðra gagna.“
V. Niðurstaða ráðuneytisins.
A. Undirbúningur málsins. Samráð.
Áður en kemur að töku ákvörðunar hjá sveitarstjórn skal ávallt leitast við að mál sé nægilega
upplýst og undirbúið og samráð verið haft við aðila eins og lög gera ráð fyrir.
Eins og lýst er í málavöxtum hér að framan hófst undirbúningur að sameiningu skólastarfs
Þjórsárskóla á einn skólastað seinni part ársins 2003 og samþykkti hreppsnefnd 2. desember 2003
að fá Rannsóknarstofnun KHÍ til að vinna úttekt á skólastarfinu. Hafði skólanefnd á fundi 25.
október 2003 tekið undir þá ákvörðun.
Skýrsludrög Rannsóknarstofnunar KHÍ frá 17. febrúar 2005 voru kynnt á þremur samráðsfundum,
með starfsmönnum skólans, hreppsnefnd og skólanefnd. Jafnframt var hún kynnt á íbúafundi 24.
febrúar 2005. Einnig kemur fram að umsögn foreldraráðs lá fyrir á fundi hreppsnefndar 8. mars
2005.
Ráðuneytið telur ljóst að skýrsludrög Rannsóknarstofnunar KHÍ beri með sér faglegan undirbúning
fyrir ákvörðun um sameiningu skólanna auk þess sem skýrslan felur í sér mat á starfi Þjórsárskóla.
Ráðuneytið telur í því sambandi ekki skipta meginmáli þótt skýrslan sem heild hafi þá verið í
drögum þar sem athugunarefnið um sameiningu skólanna er reifað í skýrslunni og fulltrúar
Rannsóknarstofnunar KHÍ töldu sig tilbúna með niðurstöður um þann þátt málsins.
Hvað lögbundið samráð sveitarstjórnar við aðra aðila varðar liggur fyrir að málið fór fyrir
skólanefnd og foreldraráð veitti umsögn, sbr. 12. og 16. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995.
Hvað snertir þá málsástæðu kærenda að íbúum hafi ekki verið kynnt kostnaðaráætlun vegna
sameiningar skólanna bendir ráðuneytið á að hvorki í lögum né samþykktum hreppsins kemur fram
skylda sveitarfélags til að kynna íbúum slíka kostnaðaráætlun. Ekkert liggur fyrir um það í málinu
að sameining skólanna hafi mikil fjárútlát fyrir sveitarfélagið í för með sér heldur er hagræðing eitt
af markmiðum breytingarinnar og því engin rök sem benda til þess að málefnið falli undir 65. gr.
sveitarstjórnarlaga sem tekur eingöngu til mikilla fjárfestinga.
Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að undirbúningur málsins gefi ekki tilefni til
athugasemda af hálfu ráðuneytisins.
B. Málsmeðferð hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps á fundi 8. mars 2005.
Fundarboðun á fund skólanefndar 26. febrúar og hreppsnefndar 8. mars 2005.
Kærendur benda á að hvorki í fundarboði skólanefndar né sveitarstjórnar hafi legið fyrir að
ákvörðun ætti að taka um kennslustað. Þannig hafi það komið nokkrum nefndarmönnum í opna
skjöldu að ræða ætti, hvað þá að taka endanlega ákvörðun, um flutning skólastarfseminnar á einn
stað.
Í fundarboði skólanefndarfundar 26. febrúar 2005 segir svo um málefnið: „1. Farið yfir
niðurstöður KHÍ um úttekt á starfsemi Þjórsárskóla.“ Í fundarboði til hreppsnefndar Skeiða- og
Gnúpverjahrepps 8. mars 2005 segir síðan í lið 1: „Fundargerðir til staðfestingar.“, „b.
Skólanefndar frá 15. og 26. febrúar.“
Um dagskrá hreppsnefndarfundar er ákvæði í 11. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiðaog
Gnúpverjahrepps. Þar segir í 2. tölul. að á dagskrá hreppsnefndarfundar skuli taka fram þær
fundargerðir nefnda, ráða og stjórna á vegum hreppsins sem leggja eigi fyrir fundinn, auk þess sem
taka eigi fram önnur mál sem falli undir verksvið hreppsnefndar og oddviti ákveður að taka á
dagskrá, sbr. 3. tölul. 11. gr.
Eins og lýst er í málavöxtum hér að framan hélt sveitarstjórn almennan borgarafund um málefni
Þjórsárskóla þann 24. febrúar sl. Var sá fundur auglýstur með opinberum hætti í Fréttabréfi
Skeiða- og Gnúpverjahrepps og fundarefnið „Málefni Þjórsárskóla“ kynnt efnislega. Í fundargerð
íbúafundarins 24. febrúar kemur síðan fram að fundarefnið hafi verið skýrsla Rannsóknarstofnunar
KHÍ „Mat á Þjórsárskóla og hugmyndir um framtíðarskipan“.
Hvað varðar þær málsástæður kærenda að málefnið hafi komið nefndarmönnum og
sveitarstjórnarfulltrúum í opna skjöldu og því ekki verið tækt til afgreiðslu, tekur ráðuneytið undir
þau sjónarmið kærða, sem fram koma í andsvari frá 18. maí 2005, að nefndarmenn og
sveitarstjórnarfulltrúar tóku þátt í afgreiðslu málsins á fundunum, án athugasemda um að málið
væri ekki dagskrá.
Ráðuneytið telur að fundarboð á fund skólanefndar 26. febrúar og hreppsnefndar 8. mars séu
hvorugt eins nákvæm og æskilegt væri. Efni fundarboðanna og forsaga málsins í heild sinni veldur
á hinn bóginn því, að mati ráðuneytisins, að hreppsnefndarmönnum og nefndarmönnum í
skólanefnd hafi mátt vera ljóst að málefni Þjórsárskóla myndi verða tekið til umfjöllunar á
viðkomandi fundum.
Um tvær umræður í sveitarstjórn
Um þau rök kærenda að við afgreiðslu máls af þessari stærðargráðu hafi átt að hafa tvær umræður,
sbr. 21. gr. sveitarstjórnarlaga og 21. gr. samþykktar Skeiða- og Gnúpverjahrepps, tekur ráðuneytið
fram:
Í d-lið 21. gr. sveitarstjórnarlaga og 4. tölul. 21. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiðaog
Gnúpverjahrepps kemur fram að áætlanir fyrir sveitarfélagið, sem gilda eigi til a.m.k. þriggja
ára, skulu ræddar í tveimur umræðum. Ákvæðið á einkum við um skipulagsáætlanir og
samsvarandi áætlanir. Ákvörðun um fækkun kennslustaða á ekki þar undir. Ráðuneytið fellst því
ekki á að skylt hafi verið að viðhafa tvær umræður um málið í sveitarstjórn.
Um hæfi þriggja hreppsnefndarmanna
Í 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga og í 1. mgr. 23. gr. samþykktar hreppsins segir að
sveitarstjórnarmanni beri að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann svo
sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Markmiðið
með reglu sveitarstjórnarlaga um sérstakt hæfi er að stuðla að málefnalegri stjórnsýslu og að
almenningur geti treyst því að stjórnvald leysi úr málum á hlutlægan hátt. Hefur verið litið svo á að
virðing fyrir hinum sérstöku hæfisreglum í stjórnsýslunni sé nauðsynlegt skilyrði fyrir eðlilegum
samskiptum almennings og stjórnvalda og því trausti sem stjórnvöld verða að njóta. Við túlkun
ákvæðisins verður að hafa að leiðarljósi framangreint markmið þess.
Við mat á því hvort sveitarstjórnarmaður er vanhæfur til að taka þátt í meðferð og afgreiðslu máls
er litið til þess hversu náið hann tengist viðkomandi máli og hvers konar hagsmuna hann hefur að
gæta. Samkvæmt hinni matskenndu hæfisreglu 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga ber
sveitarstjórnarmanni að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls ef það varðar hann eða nána
venslamenn hans svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju
leyti þar af. Jafnframt er ljóst af ákvæðinu að séu hagsmunir minni háttar er viðkomandi ekki
vanhæfur, hagsmunirnir verða að vera það verulegir að almennt verði talin hætta á að ómálefnaleg
sjónarmið geti haft áhrif á afstöðu venjulegs manns til málsins. Þá má einnig nefna að þótt
ákvörðun í máli varði sveitarstjórnarmann fjárhagslega en þó ekki með öðrum hætti en aðra íbúa
sveitarfélagsins veldur það ekki vanhæfi. Hagsmunir hans verða með öðrum orðum að vera
sérstakir borið saman við hagsmuni annarra íbúa sveitarfélagsins, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í
máli nr. 2110/1997.
Kærendur benda á þrjá sveitarstjórnarfulltrúa sem þeir telja hafa slíkra hagsmuna að gæta vegna
ákvörðunartöku um staðsetningu Þjórsárskóla að vanhæfi kunni að varða. Í fyrsta lagi hafi oddviti
sveitarstjórnar atvinnu af skólaakstri og séu tekjur hans í réttu hlutfalli við ekna kílómetra. Færa
megi rök fyrir því að akstursvegalengdin geti aukist við það að skólinn verði í Árnesi. Í öðru lagi
benda kærendur á að einn sveitarstjórnarmaður hafi atvinnu af ræstingum í skólahúsnæði í Árnesi
og loks að maki eins hreppsnefndarmanns starfi í mötuneyti skólans í Brautarholti.
Í 5. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um skyldu sveitarstjórnarmanns sem veit hæfi sitt
orka tvímælis til að vekja athygli á því. Sveitarstjórn sker umræðulaust úr um hvort mál er svo
vaxið að einhver sveitarstjórnarmanna sé vanhæfur. Sveitarstjórnarmaður sem hlut á að máli má
taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt.
Fram hefur komið við meðferð málsins að á fundi hreppsnefndar 8. mars 2005 fór engin umræða
fram um hugsanlegt vanhæfi umræddra hreppsnefndarmanna. Verður nú vikið nánar að hæfi
þeirra, hvers um sig.
1.
Hvað varðar oddvita hreppsnefndar segir í kæru að hann hafi atvinnu af skólaakstri og tekjur hans
séu í réttu hlutfalli við ekna kílómetra. Jafnframt segir í kærunni að færa megi rök fyrir því að
akstursvegalengd hans geti aukist við flutning skólans í Árnes. Í umsögn kærða segir að oddvitinn
sé í hálfu starfi hjá sveitarfélaginu, en hann reki ferðaþjónustufyrirtæki í sveitinni og aki skólabíl í
aukavinnu. Akstur hans muni ekki breytast neitt við flutning skólans í Árnes og sé hægt að sýna
fram á það með nákvæmum gögnum og rökstuðningi ef óskað er. Í athugasemdum kærenda við
umsögn kærða er spurt hvort dagleg 40–50% vinna níu mánuði ársins geti talist aukavinna og
jafnframt hvernig vitað sé að akstur oddvitans muni ekki breytast neitt eins og fram komi í umsögn
sveitarfélagsins.
Í andsvari kærða kemur fram að skólaaksturinn er skipulagður á hverju hausti og þá sé m.a. leitast
við að skipta akstrinum sem jafnast milli skólabílstjóranna sem séu sex talsins. Tekið sé mið af
gjaldskrá sem að stofni til byggi á gjaldskrá um skólaakstur sem upphaflega hafi verið gefin út af
Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Kærði ítrekar að skólaaksturinn sé einungis aukastarf oddvitans
og hafi tekjur af þeim akstri ekki svo mikil áhrif á afkomu hans að hugsanleg akstursaukning hafi
áhrif á afstöðu hans til sameiningar skólanna.
Í skýrslu Rannsóknarstofnunar KHÍ kemur fram að við það að skólahald flytjist til Árness verði
skólaakstur lengri fyrir meirihluta barnanna en meirihluti barnanna búi nú nær Brautarholtsskóla.
Það atriði mátti því vera hreppsnefndarmönnum kunnugt við ákvörðunartökuna á fundi
hreppsnefndar. Í tölvupósti kærða til ráðuneytisins, dags. 19. maí 2005, er sýndur útreikningur á
væntanlegum tekjum við skólaakstur ef hann eykst um 6–10% á ári miðað við núverandi aðstæður.
Skilur ráðuneytið þau skilaboð svo að sú hækkun kunni að vera raunhæf í ljósi lengri vegalengdar
eftir sameiningu skólanna. Ráðuneytið telur ekki upplýst í málinu að um sé að ræða svo verulega
hagsmuni að almennt megi ætla að viljaafstaða oddvitans til áforma um breytingu á skólahaldi í
sveitarfélaginu hafi mótast af þeim hagsmunum. Að mati ráðuneytisins var þó tilefni til þess að
oddviti vekti athygli á hugsanlegu vanhæfi vegna þessa, sbr. 5. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga.
2.
Í öðru lagi benda kærendur á að einn hreppsnefndarmaður hafi atvinnu af ræstingu skólahúsnæðis í
Árnesi. Kærði bendir á að ræstitæknir sé ráðinn frá ári til árs, starfshlutfall sé 86% og launin
120.840 kr. á mánuði. Jafnframt er tekið fram að vegna stöðu sinnar búi viðkomandi
hreppsnefndarmaður yfir upplýsingum um að við sameiningu skólahaldsins á einn stað verði
líklega aðeins þörf á einum ræstitækni í stað tveggja og því megi færa rök fyrir því að með því að
greiða atkvæði með sameiningu skólahaldsins sé hreppsnefndarmaðurinn jafnframt að fórna
hlutastarfi sínu við ræstingar. Þá bendir kærði á að viðkomandi hreppsnefndarmaður eigi og reki
kúabú í sveitinni og sé því í hlutastarfi við ræstingar í skólanum.
Í athugasemdum kærenda við umsögn kærða segir að mjólkurframleiðslu á búi
hreppsnefndarmannsins hafi verið hætt og spurt hvort 90% vinna hans við ræstingar níu mánuði
ársins geti talist hlutastarf. Í andsvari kærða er tekið fram að enda þótt mjólkurframleiðsla á búi
hans hafi nú verið aflögð hafi það gerst eftir að ákvörðun um sameiningu skólanna var tekin og því
eigi sú málsástæða ekki við í þessu máli.
Á fundi hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps 8. mars sl. lágu fyrir tvær tillögur, A og B. Í
tillögu A hljóðaði niðurlag svo: „Hreppsnefnd samþykkir að Þjórsárskóli verði í Árnesi.“ Tillaga
B fól í sér að málið yrði athugað betur hvað varðar húsnæði og kostnað, meta skyldi
rekstrarkostnað Þjórsárskóla annars vegar í Árnesi og hins vegar í Brautarholti. Niðurlag
tillögunnar hljóðaði svo: „Niðurstöður þessara athugana liggi fyrir í lok mars og ákvörðun um
staðsetningu verði tekin á næsta hreppsnefndarfundi 5. apríl.“ Tillaga A var samþykkt með fimm
atkvæðum en tveir voru á móti. Þannig lá fyrir að tekin yrði ákvörðun á fundinum um tvo kosti,
annars vegar að skólahald yrði framvegis eingöngu í Árnesi og hins vegar að ákvörðun um
fyrirkomulag skólahalds yrði frestað fram að næsta hreppsnefndarfundi á meðan frekari athugun
færi fram á valkostum.
Eins og fram hefur komið leiðir ákvörðun um breytingu á fyrirkomulagi skólahalds til þess að
líklega er aðeins þörf á einum starfsmanni við ræstingar í stað tveggja áður. Þá er ekki hægt að
horfa fram hjá því að viðkomandi hreppsnefndarmaður hefur starfað í skólanum í Árnesi. Við
þessar aðstæður bar honum að vekja athygli hreppsnefndar á hugsanlegu vanhæfi sínu, sbr. 5. mgr.
19. gr. sveitarstjórnarlaga. Það er mat ráðuneytisins að hagsmunir hans af að skólahald haldi áfram
í Árnesi séu sérstakir og jafnframt verulegir og því sé hætta á því að þeir hafi að einhverju leyti
hafa mótað afstöðu hans til þeirra valkosta sem hreppsnefnd stóð frammi fyrir. Viðkomandi
hreppsnefndarmaður var því vanhæfur til að taka þátt í meðferð og afgreiðslu málsins.
3.
Loks tiltaka kærendur að maki eins hreppsnefndarmanns starfi í mötuneyti Brautarholtsskóla, þ.e. á
þeim skólastað sem leggja á niður samkvæmt hinni kærðu ákvörðun. Í umsögn kærða segir að það
sé rétt að maki eins hreppsnefndarmanns starfi í mötuneyti Brautarholtsskóla, en með því að
hreppsnefndarmaðurinn hafi greitt atkvæði með flutningi skólans að Árnesi megi færa rök fyrir því
að hann hafi jafnframt tekið þátt í að leggja niður starf eiginkonu sinnar. Kærði hafnar því að
umræddan hreppsnefndarmann skorti hæfi til að taka þátt í afgreiðslu málsins. Í athugasemdum
kærenda við umsögn kærða segir að starfsmaðurinn sé í hlutastarfi á félagsbúi en vinni fullan
vinnudag í mötuneyti allt skólaárið. Kærendur benda í þessu sambandi á að vanhæfi verði lögum
samkvæmt að meta fyrirfram en ekki eftir málalyktum. Auk þess benda þeir á að sveitarfélagið sé
láglaunasvæði og því skipti allar „auka“ tekjur máli.
Við athugun á þessu atriði aflaði ráðuneytið frekari upplýsinga frá kærða, sbr. tölvupóst
sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps til ráðuneytisins, dags. 18. maí 2005. Þar kemur fram að
maki viðkomandi hreppsnefndarmanns sé aðstoðarkona í mötuneyti skólans í Brautarholti í 50%
starfi með ráðningu frá ári til árs. Mötuneyti skólans í Árnesi sé hins vegar rekið af verktaka sem
starfrækir veitingasölu í Árnesi og hafi hreppurinn engan á launaskrá við þá starfsemi. Á fundi
hreppsnefndar 8. mars sl. hafi legið fyrir að mötuneytið við Brautarholtsskóla yrði aflagt í þeirri
mynd sem það er nú ef skólahald yrði eingöngu í Árnesi. Jafnframt tekur sveitarstjórinn fram að í
skýrslu Rannsóknarstofnunar KHÍ sé það nefnt sem röksemd fyrir því að halda starfsemi skólans
áfram á báðum stöðum að fólk missi ekki störf sín.
Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið ljóst að umræddur hreppsnefndarmaður hafi staðið
frammi fyrir því að taka ákvörðun sem gat haft áhrif á atvinnumöguleika makans. Málið hafi því
varðað náinn venslamann hans svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans hafi að
einhverju leyti mótast þar af. Hreppsnefndarmaðurinn var því vanhæfur til að taka þátt í umræðu
og afgreiðslu um tillögur um breytt fyrirkomulag skólahalds í sveitarfélaginu, sbr. 1. mgr. 19. gr.
sveitarstjórnarlaga og bar honum að vekja á því athygli í upphafi fundar, sbr. 4. mgr. sömu greinar.
Ráðuneytið telur hins vegar sannað að umræddir hagsmunir hafi ekki haft áhrif á afstöðu
hreppsnefndarmannsins til málsins enda liggur fyrir í gögnum málsins að hann greiddi atkvæði
með tillögu um að skólahald verði framvegis eingöngu í Árnesi.
Niðurstaða um hæfi
Af framangreindu telur ráðuneytið liggja fyrir að tveir hreppsnefndarmenn hafi verið vanhæfir við
afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar. Að mati ráðuneytisins er það alvarlegur galli á málsmeðferð
hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps að á fundi hennar 8. mars 2005 var engin afstaða tekin
til hugsanlegs vanhæfis umræddra tveggja hreppsnefndarmanna, sem og oddvita sem einnig var
fjallað um að framan. Í ljósi þess að atvinna tveggja hreppsnefndarmanna og maka hins þriðja er
tengd grunnskólanum verður að ætla að þessum hreppsnefndarmönnum hafi verið rétt og skylt að
vekja athygli á hugsanlegum hagsmunaárekstri og telur ráðuneytið verulega aðfinnsluvert að þessa
var ekki gætt.
Almennt verður að líta svo á að þátttaka vanhæfs aðila í afgreiðslu máls teljist alvarlegur ágalli
sem leitt geti til ógildingar stjórnsýsluákvörðunar. Þetta gildir þó ekki ef sannað þykir að sá ágalli
hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu máls. Með vísan til umfjöllunar að framan telur ráðuneytið sannað
að einn hreppsnefndarmaður sem var vanhæfur og hefði því átt að víkja sæti með vísan til 19. gr.
sveitarstjórnarlaga hafi ekki látið atvinnuhagsmuni maka síns hafa áhrif á afstöðu sína til þeirra
tillagna sem lágu fyrir hreppsnefnd. Verður ákvörðunin því ekki ógilt af þeim sökum. Hins vegar
leikur vafi á því hvort vanhæfi annars hreppsnefndarmanns, sem vinnur við ræstingar í
skólahúsnæðinu í Árnesi, hafi haft áhrif á afstöðu hans til málsins. Vafa um þetta atriði verður að
túlka kærendum í hag.
Um fundarsköp
1.
Kærendur benda á að tillaga skólanefndar hafi ekki verið tekin fyrir og staðfest á fundi
hreppsnefndar 8. mars sl. þrátt fyrir að í fundarboði hreppsnefndar hafi staðið: „Fundargerðir til
staðfestingar“ ... „b Skólanefndar frá 15. og 26. febrúar.“ Á fundinum hafi meirihluti
sveitarstjórnar lagt fram nýja tillögu sem ekki kom fram í fundarboði. Þetta þýði, segja kærendur,
að fundargerðir séu lagðar fram til staðfestingar og undirritunar með áorðnum breytingum í þeirri
nefnd þar sem fundur var haldinn. Hreppsnefnd fái síðan fundargerðir til staðfestingar, en geti ekki
breytt þeim. Á fundinum hafi einnig komið fram breytingartillaga við tillögu um flutning í Árnes,
en breytingartillagan hafi ekki verið borin upp áður en gengið var til atkvæða um upprunalegu
tillöguna eins og þó sé gert ráð fyrir í almennum fundarsköpum.
Í umsögn kærða er bent á að við undirbúning fyrir fund hreppsnefndar 8. mars sl. hafi komið fram
tvær tillögur sem nefndar voru A og B. Tillögurnar voru báðar lagðar fram á
hreppsnefndarfundinum þar sem fjallað var um þær í einu lagi. Það sé misskilningur hjá kærendum
þegar þeir segja að á fundinum hafi komið fram breytingartillaga um flutning í Árnes. Báðar
tillögurnar hafi legið fyrir við upphafi fundar og hlotið þar samhliða umfjöllun.
Samkvæmt 49. gr. sveitarstjórnarlaga skulu fundargerðir nefnda á vegum sveitarfélagsins lagðar
fyrir sveitarstjórn til fullnaðarafgreiðslu í viðkomandi málaflokki, sbr. og 2. tölul. 11. gr.
samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Ráðuneytið bendir á að meginreglan í þessum efnum er sú að fundargerðir nefnda eru eingöngu
lagðar fram til kynningar á fundi sveitarstjórnar, en ekki til staðfestingar nema í fundargerð felist
ákvörðun sem sveitarstjórn þurfi að staðfesta, sbr. 49. gr. sveitarstjórnarlaga og 2. tölul. 11. gr.
samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Þar sem skólanefnd tók enga
ákvörðun um fyrirkomulag skólahalds á fundi sínum, heldur var þar einungis afgreidd tillaga til
sveitarstjórnar, var samkvæmt framansögðu ekki nauðsynlegt að staðfesta fundargerð skólanefndar
í sveitarstjórn. Fyrirsögn í fundargerð hreppsnefndar frá 8. mars 2005 um að fundargerðir
skólanefndar frá 15. og 26. febrúar hafi verið staðfestar er því villandi, enda var ekki í þeim að
finna ákvarðanir sem þörfnuðust staðfestingar.
2.
Hvað varðar þá athugasemd kærenda að meirihluti sveitarstjórnar hafi lagt fram nýja tillögu á
fundi sínum sem ekki hafi komið fram í fundarboði hefur ráðuneytið borið saman tillögu sem
samþykkt var á fundi skólanefndar annars vegar og tillögu sem samþykkt var á hreppsnefndarfundi
hins vegar. Í fundargerð skólanefndar kemur fram að eina málið á dagskrá var að fara yfir
niðurstöður Rannsóknarstofnunar KHÍ á úttekt á starfsemi Þjórsárskóla. Á fundinum var samþykkt
tillaga þar sem niðurlagið hljóðar svo: „og er það því tillaga nefndarinnar að Gnúpverjaskóli verði
fyrir valinu.“ Á fundi sveitarstjórnar var samþykkt tillaga A sem hreppsnefnd lagði fram, en þar
segir í lokaorðum tillögunnar: „Hreppsnefnd samþykkir að Þjórsárskóli verði í Árnesi.“
Um þetta tekur ráðuneytið fram að eins og sést af þessum samanburði eru tillögurnar efnislega þær
sömu, þ.e. þótt efnistök í tillögunum séu ekki þau sömu þá fjalla þær engu að síður báðar um
rökstuðning fyrir þeirri niðurstöðu að skólahald verði í Árnesi.
3.
Kærendur byggja einnig á þeirri málsástæðu að á fundi hreppsnefndar 8. mars 2005 hafi einnig
komið fram breytingartillaga við tillöguna um flutning í Árnes, en sú tillaga hafi ekki verið borin
upp áður en gengið var til atkvæða um upprunalegu tillöguna eins og þó sé gert ráð fyrir í
almennum fundarsköpum.
Um þetta tekur ráðuneytið fram að það er oddviti sveitarstjórnar sem stjórnar fundinum. Komi upp
ágreiningur um ákvarðanir fundarstjóra er hægt að skjóta honum til sveitarstjórnar á fundinum, sbr.
28. gr. sveitarstjórnarlaga og 28. gr. um samþykktar um stjórn og fundarsköp Skeiða- og
Gnúpverjahrepps. Að mati ráðuneytisins er því hér um að ræða atriði sem leysa verður á fundi
sveitarstjórnar og sætir það ekki endurskoðun ráðuneytisins. Ráðuneytið telur hins vegar ekkert
benda til þess að mistök hafi verið gerð við stjórn umrædds fundar enda gengur tillaga A lengra en
tillaga B.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur ráðuneytið það alvarlegan ágalla á
málsmeðferð og afgreiðslu hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps á tillögu um staðsetningu
Þjórsárskóla í Árnesi, sem tekin var á fundi hreppsnefndar 8. mars 2005, að ekki var hugað að hæfi
hreppsnefndarmanna í samræmi við 19. gr. sveitarstjórnarlaga. Sveitarstjórnarmönnum er skylt að
vekja athygli á því á fundi sveitarstjórnar ef þeir tengjast ákvörðunarefni á einhvern þann hátt að
ætli megi að það geti valdið tortryggni út á við, þ.e. ef þeir telja hæfi sitt orka tvímælis, sbr. 5. mgr.
19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Sú staðreynd að hugsanlegt vanhæfi þriggja
hreppsnefndarmanna kom ekki til umræðu á fundi hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps
þann 8. mars 2005 hefur þó ekki áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar hafi viðkomandi
sveitarstjórnarfulltrúar ekki verið vanhæfir í skilningi 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga.
Að framan hefur ráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að oddviti hreppsnefndar hafi ekki verið
vanhæfur til að fjalla um fyrirhugaðar breytingar á skólahaldi þrátt fyrir að vinna hans við
skólaakstur kunni að aukast óverulega og að honum hefði verið rétt að vekja athygli hreppsnefndar
á þessum aðstæðum. Hins vegar hefur ráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að tveir aðrir
hreppsnefndarmenn hafi verið vanhæfir umrætt sinn. Þótt ráðuneytið telji sannað með hliðsjón af
því hvernig atkvæði féllu um hina kærðu ákvörðun að annar þessara hreppsnefndarmanna hafi ekki
látið stjórnast af hugsanlegum atvinnuhagsmunum maka síns við atkvæðagreiðslu um málið er
ekki hægt að líta framhjá því að viðkomandi hreppsnefndarmönnum láðist að vekja athygli á
vanhæfi sínu og var málið afgreitt án þess að hreppsnefnd tæki afstöðu til þess hvort þeim væri
heimilt að taka þátt í afgreiðslu málsins. Ráðuneytið telur þennan annmarka vera svo alvarlegan að
ógilda beri ákvörðunina og leggja fyrir hreppsnefnd að fjalla um málið að nýju að tilkvöddum
varamönnum.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá fundi 8. mars 2005 um að leggja niður
skólastarf í Brautarholti frá hausti 2005 og kenna þess í stað eingöngu í Árnesi, er ógild.
F. h. r.
Guðjón Bragason (sign.)
Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)
Samrit:
Katrín Andrésdóttir
Afrit:
Skeiða- og Gnúpverjahreppur
16. júní 2005 - Skeiða- og Gnúpverjahreppur - Fækkun kennslustaða grunnskóla, hæfi (PDF)