Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Kópavogsbær - Hæfi við málsmeðferð og undirbúning ákvörðunar

Flosi Eiríksson, bæjarfulltrúi
10. maí 2006
FEL06050005/1001

Melgerði 34

200 Kópavogi

Vísað er til erindis bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í Kópavogi, dags. 3. maí 2006, þar sem

óskað er eftir leiðbeiningum ráðuneytisins um málsmeðferð og hæfi bæjarstjórans í Kópavogi

við meðferð mála sem snerta Hestamannafélagið Gust og íþróttasvæði þeirra.

Fram kemur í erindinu að á vegum Kópavogsbæjar hefur verið unnið að hugmyndum um að

bærinn komi að uppkaupum á hesthúsum í Glaðheimum, svæði Gusts í Kópavogi, og að

bærinn gangi inn í samning milli aðila um uppkaup á stórum hluta þess. Við umræðu og

afgreiðslu málsins í bæjarráði Kópavogs, þann 27. apríl sl., vék bæjarstjóri af fundi vegna

tengsla við einn af eigendum hesthúss á svæðinu. Í erindinu kemur hins vegar fram að

bæjarstjóri hafi tekið þátt í undirbúningi málsins á mörgum stigum þess og haldi áfram að

vinna í málinu eins og ítrekað hafi komið fram í fjölmiðlum.

Af þessu tilefni tekur ráðuneytið fram:

Um hæfi sveitarstjórnarmanna gildir 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, svo og ákvæði

26. gr. samþykktar um stjórn Kópavogsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar sem samþykkt var í

bæjarstjórn 19. desember 1997. Í 1. mgr. 19. gr. laganna segir að sveitarstjórnarmanni beri að

víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann svo sérstaklega að almennt

megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Ákvæði 26. gr. í samþykktum

Kópavogsbæjar er efnislega það sama. Markmiðið með reglunni er að stuðla að málefnalegri

stjórnsýslu og að fólk geti treyst því að stjórnvald leysi úr málum á hlutlægan hátt. Hefur verið

litið svo á að virðing fyrir hinum almennu hæfisreglum í stjórnsýslunni sé nauðsynlegt

skilyrði fyrir eðlilegum samskiptum almennings og stjórnvalda og því trausti sem stjórnvöld

verða að njóta.

Í 19. gr. sveitarstjórnarlaga er ekki með beinum hætti kveðið á um það hvort

sveitarstjórnarmaður, sem vanhæfur er til meðferðar og afgreiðslu máls, sé jafnframt vanhæfur

við undirbúning og úrvinnslu þess. Þar af leiðir að um það atriði gilda almenn ákvæði

stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um vanhæfi og áhrif þess. Í 1. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga segir að

sá sem vanhæfur er til meðferðar máls megi ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn

þess. Í athugasemdum við frumvarp til stjórnsýslulaga (116. löggjafarþing 1992-1993,

þingskjal 505-313. mál) segir svo um þetta atriði: „Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. má vanhæfur

starfsmaður ekki taka þátt í undirbúningi eða úrlausn stjórnsýslumáls þar sem hann er

vanhæfur.“

Með vísan til framangreinds ber ákvæði 4. gr. stjórnsýslulaga með sér að sveitarstjórnarmaður

sem vanhæfur er til meðferðar og afgreiðslu máls skv. 19. gr. sveitarstjórnarlaga sé einnig

vanhæfur við undirbúning og úrvinnslu þess sama máls, sbr. 1. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga.

Bent er á að vísa má ákvörðun sveitarstjórnar um það hvort einhver sveitarstjórnarmaður sé

vanhæfur í tilteknu máli til ráðuneytisins skv. 103. gr. sveitarstjórnarlaga.

Að lokum skal tekið fram að svar ráðuneytisins við erindi bæjarfulltrúans felur eingöngu í sér

almennar leiðbeiningar og upplýsingar. Ekki er tekin afstaða til þeirra atvika sem vísað er til í

erindinu.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

10. maí 2006 - Kópavogsbær - Hæfi við málsmeðferð og undirbúning ákvörðunar. (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta