Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Reykjanesbær - Um hvort starf skólastjóra tónlistarskóla samræmist pólitískum störfum hjá sveitarfélaginu

Kjartan Már Kjartansson, skólastjóri                                                     5. desember 1996                         96110019

Freyjuvöllum 17                                                                                                                                                          1001

230 Keflavík

 

 

           Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 1. nóvember 1996, þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins um hvort starf yðar sem skólastjóri Tónlistarskólans í Keflavík samræmist pólitískum störfum yðar í Reykjanesbæ, þ.e. sæti varafulltrúa í bæjarstjórn, formennsku í menningarnefnd og setu í nefnd sem fer með verkefnisstjórn frárennslismála.

 

Um almennt hæfi:

 

           Í 3. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 er svohljóðandi ákvæði: “Þeim sem er kjörgengur, heill og hraustur og yngri en 65 ára er skylt að taka kjöri í sveitarstjórn. Ekki verður nafn manns þó sett á framboðslista án skriflegs samþykkis hans.”

 

           Þeim sem samþykkja að nafn þeirra sé sett á framboðslista er því skylt að taka kjöri í sveitarstjórn. Þeim ber þá að sinna störfum sínum sem sveitarstjórnarmenn viðkomandi kjörtímabil nema annars vegar að þeir missi kjörgengi, sbr. 2. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga, eða hins vegar að þeir óski eftir lausn frá störfum, sbr. 3. mgr. 43. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

           Þeim sem kjörnir eru í sveitarstjórn í óbundnum kosningum, sbr. b-lið 14. gr. sveitarstjórnarlaga, er einnig skylt að taka kjöri og sinna störfum sínum sem sveitarstjórnarmenn, sbr. ofangreint, nema þeir eigi rétt á að skorast undan endurkjöri. Um það atriði er ákvæði í 4. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga og hljóðar það ákvæði svo: “Þeim sem setið hefur í sveitarstjórn eitt kjörtímabil eða lengur er ekki skylt að taka kjöri fyrr en liðinn er jafnlangur tími og hann átti þar samfellt sæti síðast, enda tilkynni hann yfirkjörstjórn eigi síðar en fjórum vikum og sex dögum fyrir kjördag að hann skorist undan endurkjöri.”

 

           Í sveitarstjórnarlögum er ekki að finna ákvæði sem kveður á um að starfsmenn sveitarfélags séu ekki kjörgengir í sveitarstjórn þess sama sveitarfélags. Þannig er ekki hægt að leiða af sveitarstjórnarlögum að skólastjórar eða kennarar séu almennt vanhæfir til setu í sveitarstjórn vegna starfstengslanna einna.

 

           Hins vegar segir svo í 59. gr. sveitarstjórnarlaga: “Forstöðumenn og aðrir stjórnendur fyrirtækja og stofnana sveitarfélags eru ekki kjörgengir í stjórnir þeirra stofnana er þeir starfa hjá.” Ákvæði þetta er í VI. kafla laganna, en sá kafli fjallar um nefndir, ráð og stjórnir sem sveitarstjórnir kjósa í eða skipa.

 

           Af þessu ákvæði telur ráðuneytið ljóst að skólastjóri Tónlistarskólans í Keflavík sé ekki kjörgengur í skólanefnd tónlistarskóla, sbr. 27. tölulið B 61. gr. samþykktar um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 528/1995. Í 23. tölulið B sömu greinar er ákvæði um lista- og menningarnefnd Reykjanesbæjar og fer hún samkvæmt samþykktinni með menningarmál og listasafnsmál. Ráðuneytið telur að verksvið lista- og menningarnefndar sé almennt ekki til þess fallið að skarast á við verksvið skólastjóra tónlistarskóla. Enn síður verður seta í verkefnisstjórn frárennslismála talin skarast á við verksvið skólastjóra. Því telur ráðuneytið að þér séuð kjörgengir í lista- og menningarnefnd og verkefnisstjórn frárennslismála.

 

Um sérstakt hæfi:

 

           Um hæfi sveitarstjórnarmanna til að fjalla um einstök mál í sveitarstjórn er ákvæði í 45. gr. sveitarstjórnarlaga og í 1. mgr. 45. gr. segir svo: “Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Honum er þó heimilt að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni. Sveitarstjórn sker umræðulaust úr hvort mál er svo vaxið. Sveitarstjórnarmaður, sem hlut á að máli, má taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt. Sveitarstjórnarmanni, sem veit hæfi sitt orka tvímælis, ber að vekja athygli á því.”

 

           Tilgangur 45. gr. sveitarstjórnarlaga er að tryggja málefnalega umfjöllun í sveitarstjórn um þau erindi, sem henni berast, og að almenningur og þeir sem hlut eiga að máli geti treyst því að sveitarstjórn leysi úr málum á hlutlægan hátt.

 

           Starfstengsl geta valdið vanhæfi sveitarstjórnarmanns samkvæmt 45. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

           Því telur ráðuneytið að þegar til umfjöllunar eru einstök mál sem varða tónlistarskóla og/eða stafsmenn hans sérstaklega, þá geti sveitarstjórnarmaður, sem jafnframt er starfandi skólastjóri tónlistarskóla eða kennari við sama skóla, orðið vanhæfur til að fjalla um þau mál í sveitarstjórn.

 

           Ef hins vegar um er að ræða almenn mál sem varða sveitarfélagið og íbúa þess, svo sem afgreiðslu fjárhagsáætlunar og ársreikninga, þá verði þessir aðilar ekki vanhæfir til að fjalla um málið í sveitarstjórn þar sem slík mál verða ekki talin þess eðlis að almennt megi ætla að starfstengslin móti viljaafstöðu viðkomandi sveitarstjórnarmanns.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta