Sandgerðisbær - Réttur til að tilnefna áheyrnarfulltrúa í bæjarráði
Sandgerðisbær 26. ágúst 1998 98080033
Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri 1001
Tjarnargötu 4
245 Sandgerði
Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 10. ágúst 1998, þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins á beiðni bæjarfulltrúa B-lista um seturétt í bæjarráði kjörtímabilið 1998-2002.
Í bæjarráðinu eiga sæti þrír menn og stóðu D- og B-listinn saman að vali eins þeirra. Í erindinu kemur fram að minnihlutinn í bæjarstjórninni, þ.e. D-listinn með tvo menn og B-listinn með einn mann, stóðu saman að nefndarkjöri fyrir kjörtímabilið. Sú samstaða leiddi til þess að K-listinn átti ekki rétt á að taka þátt í hlutkesti við val á fimmta manni í fimm manna nefndir.
Í 49. gr. samþykktar um stjórn Sandgerðisbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 454/1990, sbr. samþykkt nr. 644/1995 segir meðal annars svo: “Bæjarstjórn getur heimilað flokki eða framboðslista sem fulltrúa á í bæjarstjórn en ekki hefur fengið kjörinn bæjarráðsmann, að tilnefna fulltrúa til setu í bæjarráði með málfrelsi og tillögurétti.“
Er ákvæði þetta í samræmi við 5. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og 5. mgr. 38. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.
Ljóst er af ákvæði samþykktarinnar að um heimildarákvæði er að ræða, en ekki skyldu bæjarstjórnarinnar. Í ákvæðinu er við það miðað að heimilt sé að veita “flokki eða framboðslista sem fulltrúa á í bæjarstjórn en ekki hefur fengið kjörinn bæjarráðsmann“ áheyrnarfulltrúa í bæjarráði. Ekki er í lögskýringargögnum að finna vísbendingu um túlkun ákvæðisins umfram orðalag ákvæðisins. Að mati ráðuneytisins er eðlilegt að túlka orðalag ákvæðisins á þann hátt að heimilt sé að veita flokki eða framboðsaðila áheyrnaraðild að bæjarráðinu ef viðkomandi flokkur eða framboðsaðili á ekki fulltrúa af sínum lista í bæjarráðinu, enda bendir orðalag ákvæðisins til þess.
Ráðuneytið telur því að bæjarstjórn Sandgerðisbæjar sé heimilt að veita B-listanum áheyrnarfulltrúa í bæjarráði, en eins og áður segir er um heimildarákvæði að ræða í 49. gr. samþykktarinnar en ekki skyldu.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)