Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Búðahreppur - Seta varamanna á hreppsráðsfundum

Búðahreppur                                                           20. ágúst 1998                                                   98080034

Steinþór Pétursson sveitarstjóri                                                                                                               1001

Hafnargötu 12

750 Fáskrúðsfirði

 

 

 

 

 

             Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 14. ágúst 1998, þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins um ýmsa þætti varðandi setu varamanna á hreppsráðsfundum.

 

             Í erindinu kemur fram að í hreppsráð Búðahrepps hafi eftirfarandi einstaklingar verið kjörnir af hreppsnefnd: Líneik A. Sævarsdóttir (B) aðalmaður og varamaður hennar Guðmundur Þorgrímsson (B), Helgi Guðjónsson (L) aðalmaður og varamaður hans Lars Gunnarsson (B), Þóra Kristjánsdóttir (F) og varamaður hennar Óðinn Magnason (F). Í erindinu eru síðan lagðar fram eftirfarandi spurningar:

             “Þar sem L-listi á aðeins einn fulltrúa í hreppsnefnd og aðeins aðalfulltrúar mega sitja sem aðalmenn í hreppsráði er B-listamaður varamaður hans. Verða varamenn í hreppsráði líka að vera aðalmenn í hreppsnefnd eða má varamaður L-lista vera varamaður í hreppsnefnd?

             Nú forfallast Helgi og Lars kemst ekki á fundinn má þá Guðmundur mæta í hans stað? eða ef Líneik forfallast og Guðmundur kemst ekki á fund má þá Lars koma í hans stað?

             Ef Þóra forfallast en Óðinn kemst ekki má þá kalla til annan aðalfulltrúa í hreppsnefnd sem ekki er tilnefndur sem varamaður?“

 

             Í 38. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er fjallað um kosningu í byggðarráð og er í 3. mgr. þeirrar greinar svohljóðandi ákvæði: “Í sveitarstjórnum sem skipaðar eru sjö eða níu fulltrúum skal byggðarráð skipað þremur aðalmönnum úr hópi aðalfulltrúa í sveitarstjórn ... Jafnmargir varamenn skulu kosnir. Sveitarstjórn er þó heimilt að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að þeir aðalfulltrúar og varafulltrúar, sem kosningu hafa hlotið af sama framboðslista og hinn kjörni byggðarráðsmaður, verði varamenn hans í þeirri röð sem þeir skipuðu listann.“

 

             Í 1. mgr. 49. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Búðahrepps nr. 468/1990 er síðan svohljóðandi ákvæði: “Hreppsnefnd skal á fyrsta fundi að afloknum hreppsnefndarkosningum kjósa þrjá hreppsnefndarmenn í hreppsráð til eins árs og jafnmarga til vara. Aðalfulltrúar í hreppsnefnd eru einir kjörgengir sem aðalmenn í hreppsráð.“

 

             Samkvæmt þessum ákvæðum er ljóst að aðalmenn í hreppsnefnd Búðahrepps eru einir kjörgengir sem aðalmenn í hreppsráð Búðahrepps. Ákvæðin koma hins vegar ekki í veg fyrir að hreppsnefnd Búðahrepps geti kosið varamann af lista sem varamann í hreppsráði, enda gerir samþykkt um stjórn og fundarsköp Búðahrepps ekki þá kröfu að bæði aðal- og varamenn í hreppsráði skuli vera aðalmenn í hreppsnefnd. Varamenn í hreppsráð verður hins vegar að kjósa beint, eins og gert hefur verið, enda er ekki að finna í samþykktinni ákvæði samhljóða niðurlagsákvæði 3. mgr. 38. gr. sveitarstjórnarlaganna.

 

             Af erindinu verður ráðið að kjörinn hafa verið varamaður fyrir hvern aðalmann í hreppsráði Búðahrepps. Með vísan til framangreindra ákvæða og þess hvernig staðið var að kjöri í hreppsráðið telur ráðuneytið að umboð hinna kjörnu varamanna nái einungis til þess að sitja fundi hreppsráðs í forföllum viðkomandi aðalmanns, þ.e. Guðmundur Þorgrímsson getur þannig einungis mætt sem varamaður fyrir Líneik A. Sævarsdóttur en ekki fyrir Helga Guðjónsson eða Þóru Kristjánsdóttur. Jafnframt telur ráðuneytið að aðrir en hinir kjörnu varamenn hafi ekki heimild til að starfa í hreppsráðsins, því aðrir en kjörnir aðalmenn og varamenn hafa ekki umboð hreppsnefndar til að starfa í hreppsráði.

 

F. h. r.

 

Sigríður Lillý Baldursdóttir (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta