Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Úrskurður í máli nr. SRN17040453

Ár 2017, þann 15. júní, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN17040453

 

Kæra X

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 18. október 2016 barst ráðuneytinu kæra X (hér eftir kærandi), kt. 000000-0000, á ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 4. október 2016 um að synja beiðni kæranda um heimild til að nota allt að fimm bifreiðar sem skráðar eru fyrir færri en níu farþega við akstursþjónustu fatlaðs fólks og fatlaðra skólabarna, að því marki sem ekki er um reglubundinn skólaakstur að ræða. Er þess aðallega krafist að hinni kærðu ákvörðun verði breytt og fallist verði á beiðni kæranda um heimild til nýtingar bifreiðanna. Til vara er þess krafist að fallist verði á að almennt rekstrarleyfi kæranda nái til notkunar tilgreindra bifreiða eingöngu við akstur fatlaðra skólabarna (akstur skólabifreiða).

Kæruheimild er í 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Málavextir eru þeir að kærandi lagði fram beiðni til SGS þann 15. september 2016 þar sem farið var fram á undanþágu samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/2001 um heimild til að nota allt að fimm bifreiðar sem skráðar eru fyrir færri en níu farþega við akstursþjónustu fatlaðs fólks og fatlaðra skólabarna. Er kærandi með rammasamning við Strætó bs. um akstursþjónustu fatlaðs fólks og fatlaðra skólabarna. Var beiðni kæranda synjað með ákvörðun SGS þann 4. október 2016.

Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með bréfi kæranda mótteknu þann 18. október 2016.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 20. október 2016 var SGS gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi SGS mótteknu 15. nóvember 2016.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 23. nóvember 2016 var kæranda kynnt umsögn SGS og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.

Með bréfi dags. 23. janúar 2017 tilkynnti ráðuneytið kæranda að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

 

III.      Málsástæður og rök kæranda

Kærandi vísar til þess að akstur fatlaðra sé sérhæfð starfsemi og þjónusta sem innt er af hendi með sérútbúnum bifreiðum og sé skipulögð á tilteknum svæðum. Telja verði að þjónustan falli undir skilgreiningu laga nr. 73/2001 á hugtakinu almenningssamgöngur, þ.e. að þjónustan er opin öllum fötluðum á þjónustusvæðinu. Nánast öll sú þjónusta sem kærandi sinnir samkvæmt samningnum felist í akstri fatlaðra skólabarna til og frá skóla og síðan í akstri fatlaðra til og frá vinnu. Við aksturinn séu notaðar bifreiðar sem rúma níu farþega eða fleiri og þar af sé hluti farþeganna í hjólastólum sem taki mun meira pláss en venjuleg bílsæti. Auk þess þurfi verulegt aukapláss vegna sérstakra aðgengiskrafna sem bifreiðarnar verði að uppfylla. Í þennan akstur þurfi því mun stærri bifreiðar en venjulegar níu farþega bifreiðar. Oft á tíðum séu aðstæður þannig að erfitt sé að beita þessum stóru bifreiðum við þau verkefni sem akstursþjónustan þurfi að leysa. Þær fimm bifreiðar sem beðið hafi verið um að undanþágan gildi fyrir séu alla jafna innréttaðar fyrir níu farþega í venjulegum sætum. Þær séu töluvert minni en þær bifreiðar sem kærandi noti í akstursþjónustu fyrir fatlaða í dag. Hugmyndin sé að þessar bifreiðar muni sérútbúnar rúma a.m.k. einn hjólastól og þrjá farþega í sæti og þær muni henta einstaklega vel þar sem erfitt sé að beita stærri bifreiðum.

Markmið laga nr. 73/2001 sé að tryggja almenningssamgöngur í landinu. Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 528/2002 segi að taka skuli mið af þörfum notenda þjónustunnar, m.a. fyrir gæði, verð, öryggi og ferðatíðni. Við óbreytt ástand bitni það í all nokkrum tilvikum á gæðum þjónustunnar að ekki séu til staðar nokkuð minni sérútbúnar bifreiðar en fyrir níu farþega eða fleiri. Það séu augljósir hagsmunir notenda þjónustunnar að umbeðin undanþága verði veitt. Hvorki í lögum nr. 73/2001 né í reglugerð nr. 528/2002 sé fjallað um akstur fatlaðra eða um sérútbúnar bifreiðar sem henti til slíks aksturs. Í 10. gr. laganna komi fram að SGS skuli veita leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða, t.d. til fjallaferða, enda þótt slíkar bifreiðar rúmi færri farþega en níu. Skilyrði slíks leyfis sé að það sé notað í tengslum við þjónustu við ferðamenn og að umsækjandi hafi almennt rekstrarleyfi samkvæmt 4. gr. Kærandi telur að með rúmri túlkun þessa ákvæðis og í ljósi almenns anda laganna megi líta svo á að hinar sérútbúnu bifreiðar til aksturs fatlaðra falli undir þetta lagaákvæði og þar af leiðandi skuli veita undanþáguna.

Þá vekur kærandi athygli á því að engin lagastoð sé fyrir því að SGS byggi synjunina á því að ekki sé um reglubundinn skólaakstur að ræða. Í niðurlagsákvæði 1. gr. laga nr. 73/2001 segi að SGS sé heimilt að veita almennt leyfi samkvæmt 4. gr. til aksturs skólabifreiða enda þótt slíkar bifreiðar rúmi færri en níu farþega. Hér sé hvergi getið um reglubundinn skólaakstur heldur aðeins skólaakstur.

Verði ekki fallist á að veita umbeðna undanþágu til allrar akstursþjónustu sem kærandi sinnir við akstur fatlaðra og fatlaðra skólabarna er þess krafist að undanþágan verði veitt fyrir notkun umræddra bifreiða eingöngu við akstur fatlaðra skólabarna.

 

IV.       Ákvörðun og umsögn SGS

Í ákvörðun SGS kemur fram að kærandi sé með útgefið rekstrarleyfi á grundvelli 4. gr. laga um fólksflutninga og farmflutninga á landi nr. 73/2001. Rekstrarleyfi á grundvelli laganna gildi um ökutæki sem skráð eru fyrir níu farþega eða fleiri sbr. 1. gr. laganna. Á grundvelli laganna sé SGS heimilt að veita leyfi til sérstakra reglubundinna fólksflutninga, sbr. 8. gr., með bifreiðum sem skráðar eru fyrir færri en níu farþega. Sérstakir reglubundnir fólksflutningar séu samkvæmt lögunum annars vegar skólaakstur og hins vegar flutningur starfsfólks til og frá vinnustað á kostnað vinnuveitanda. Þá liggi fyrir að SGS sé heimilt að veita leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða sem skráðar eru fyrir færri en níu farþega fyrir fjallaferðir. SGS geti ekki veitt leyfi til bifreiða sem skráðar eru fyrir færri en níu farþega í öðrum tilvikum en að framan greinir.

SGS vekur athygli á að skólaakstur fatlaðra skólabarna í reglubundnum flutningum rúmist samkvæmt framansögð innan heimildar 8. gr. laga nr. 73/2001 á sama hátt og reglubundinn flutningur ófatlaðra skólabarna. Af gögnum málsins verði hins vegar ekki séð að sú þjónusta sem kærandi hyggist veita fötluðum skólabörnum takmarkist við reglubundinn skólaakstur, sbr. verkheitið „tilfallandi akstursþjónusta“.

Í umsögn SGS  er áréttað að líkt og fram komi í hinni kærðu ákvörðun gildi lög um fólksflutninga og farmflutninga á landi nr. 73/2001 um fólksflutninga í atvinnuskyni með bifreiðum sem skráðar eru fyrir níu farþega eða fleiri. Heimildir SGS til að víkja frá því skilyrði að bifreiðar séu skráðar fyrir níu farþega eða fleiri séu takmarkaðar við skólaakstur, flutninga starfsfólks til og frá vinnustað á kostnað vinnuveitanda og til reksturs sérútbúinna bifreiða fyrir fjallaferðir. Öll tvímæli séu tekin af um túlkun á 10. gr. laganna um sérútbúnar bifreiðar í greinargerð með lögum um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum nr. 13/1999 sem lögð hafi verið fyrir 123. löggjafarþing 1998-99. Á þessum grundvelli hafi SGS synjað beiðni kæranda um undanþágu samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/2001 um heimild til að nota allt að fimm bifreiðar sem skráðar eru fyrir færri en níu farþega við akstursþjónustu fatlaðs fólks og fatlaðra skólabarna. Vakin hafi verið athygli á því að reglubundinn skólaakstur félli undir heimildarákvæði laganna og skipti þá ekki máli hvort skólabörnin væru fötluð eða ófötluð.

Þá telur SGS rétt að benda á að með bréfi Vegagerðarinnar þann 18. október 2016 hafi sú stofnun á grundvelli 4. mgr. 6. gr. laga nr. 73/2001 samþykkt að Strætó bs. nýti allt að fimm bifreiðar sem skráðar eru fyrir færri en níu farþega við akstur á leiðum þar sem Strætó bs. heldur uppi reglubundnum flutningum í skilningi laga nr. 73/2001. Sé kæranda með umræddu bréfi heimilað að nýta slíkar bifreiðar að því leyti sem Strætó bs. hefur falið fyrirtækinu slíkan rekstur.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Um fólksflutninga og farmflutninga á landi gilda lög með sama nafni nr. 73/2001. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna gilda lögin um fólksflutninga á landi í atvinnuskyni með bifreiðum sem skráðar eru fyrir níu farþega eða fleiri, sbr. þó 8. og 10. gr. laganna, og farmflutninga á landi í atvinnuskyni með ökutækjum. Kærandi er með útgefið rekstrarleyfi á grundvelli 4. gr. laganna. Gildir rekstrarleyfið um ökutæki sem skráð eru fyrir níu farþega eða fleiri sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna.

Líkt og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun er SGS heimilt að veita leyfi til sérstakra reglubundinna fólksflutninga, sbr. 8. gr., með bifreiðum sem eru skráðar fyrir færri en níu farþega. Er þar annars vegar um að ræða skólaakstur og hins vegar flutning starfsfólks til og frá vinnustað á kostnað vinnuveitanda. Þá er SGS heimilt að veita leyfi til reksturs bifreiða sem skráðar eru fyrir færri en níu farþega í t.d. fjallaferðir, sbr. 10. gr. laganna. Er það skilyrði slíks leyfis að það sé notað í tengslum við þjónustu við ferðamenn. Samkvæmt framangreindu telur ráðuneytið ljóst að heimildir SGS til að víkja frá því skilyrði að bifreiðar séu skráðar fyrir níu farþega eða fleiri eru takmarkaðar við skólaakstur, flutninga starfsfólks til og frá vinnustað á kostnað vinnuveitanda og til reksturs sérútbúinna bifreiða til samkvæmt 10. gr.

Beiðni kæranda lýtur að því að SGS veiti kæranda undanþágu samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/2001 um heimild til að nota allt að fimm bifreiðar sem skráðar eru fyrir færri en níu farþega við akstursþjónustu fatlaðs fólks og fatlaðra skólabarna. Fellur slíkt ekki undir þær undanþáguheimildir sem raktar voru hér að framan. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest. Ráðuneytið áréttar þó það sem fram kemur í umsögn SGS vegna kærunnar að með ákvörðun Vegagerðarinnar þann 18. október 2016 samþykkti sú stofnun á grundvelli 4. mgr. 6. gr. laga nr. 73/2001 að Strætó bs. nýti allt að fimm bifreiðar sem skráðar eru fyrir færri en níu farþega við akstur á leiðum þar sem Strætó bs. heldur uppi reglubundnum flutningum í skilningi laga nr. 73/2001. Með sömu ákvörðun var kæranda heimilað að nýta slíkar bifreiðar að því leyti sem Strætó bs. hefur falið kæranda slíkan rekstur.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta