Búðahreppur - Framhald af áður sendu svari um setu varamanna á fundum hreppsráðs
Búðahreppur 28. september 1998 98080034
Steinþór Pétursson sveitarstjóri 1001
Hafnargötu 12
750 Fáskrúðsfirði
Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 14. september 1998, þar sem lagðar eru fyrir ráðuneytið spurningar í framhaldi af bréfi ráðuneytisins til Búðahrepps frá 20. ágúst sl. varðandi setu varamanna á fundum hreppsráðs.
Í fyrsta lagi er spurt um lögmæti þriggja funda hreppsráðs, sem haldnir voru 2. júlí, 28. júlí og 7. ágúst sl. Því er til að svara að ráðuneytið telur að fyrrgreind álitsgerð ráðuneytisins leiði ekki ein og sér til þess að fundirnir teljist sjálfkrafa ólögmætir. Hins vegar ber að geta þess að ef kæra berst um lögmæti á afgreiðslu tiltekins máls á einhverjum þessara funda þá getur niðurstaða slíks kærumáls orðið sú að endurtaka beri umfjöllun og afgreiðslu málsins með fulltrúum sem til þess hafa umboð. Þó ber að hafa í huga að ef hreppsnefndin hefur afgreitt viðkomandi mál og tekið um það fullnaðarákvörðun eftir hreppsráðsfundinn þá yrði afgreiðsla málsins ekki í heild sinni talin ólögmæt vegna galla á framkvæmd hreppsráðsfundar.
Hvað varðar fyrirspurn um breytingu á fundargerðum fyrrgreindra þriggja hreppsráðsfunda þá telur ráðuneytið ekki rétt að strika út ummæli og tillögur úr þeim, því hlutverk fundargerða er að vera heimild um það sem raunverulega fór fram á viðkomandi fundi.
Á fundi hreppsnefndar þann 10. september sl. kom fram tillaga um að farið yrði yfir lögmæti funda hreppsráðs átta ár aftur í tímann. Í þessu sambandi skal tekið fram að ákvarðanir stjórnvalda standa nema æðra stjórnvald taki aðra ákvörðun eða ákvörðun hafi verið hnekkt með úrskurði. Almennur kærufrestur í stjórnsýslunni er þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður því ekki séð að grundvöllur sé fyrir eða ástæða til að fara yfir fundi hreppsráðs svo langt aftur í tímann.
Að lokum skal þess getið að ákvarðanir hreppsráðs Búðahrepps eru gildar nema hreppsnefnd taki aðra ákvörðun í tilteknu máli eða að úrskurðað hafi verið af æðra stjórnvaldi, t.d. félagsmálaráðuneytinu, að ákvörðun í tilteknu máli sé ógild vegna rangrar málsmeðferðar. Ef hreppsnefnd hefur efnislega staðfest ákvarðanir hreppsráðs frá áðurgreindum þremur hreppsráðsfundum verður ekki annað séð en að þær ákvarðanir séu gildar. Ef hreppsnefndin hefur ekki efnislega staðfest einhverjar ákvarðanir hreppsráðs frá þessum þremur fundum eru tvær leiðir færar til að komast hjá kærumálum, þ.e. annars vegar að taka málið fyrir á nýjan leik í hreppsráði rétt skipuðu eða taka málið fyrir til afgreiðslu í hreppsnefnd.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)