Grindavíkurkaupstaður - Umboð bæjarstjórnar til að skipta um formann í hafnarstjórn
Margrét Gunnarsdóttir 13. júlí 1999 99050014
Vesturbraut 8 1001
240 Grindavík
Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 3. maí sl., þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins varðandi formennsku í hafnarstjórn Grindavíkurkaupstaðar eftir að nýr meirihluti var myndaður í bæjarstjórn.
Um kosningu í nefndir og ráð á vegum bæjarstjórnar Grindavíkurkaupstaðar er ákvæði í 51. gr. samþykktar nr. 264/1990 um stjórn Grindavíkurkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar. Í ákvæðinu kemur fram að bæjarstjórn kýs formenn og varaformenn nefnda nema lög kveði á um annað. Í 5. gr. hafnalaga nr. 23/1994 kemur fram að ráðherra setur samkvæmt lögunum og að fengnum tillögum eigenda hafna reglugerð fyrir hafnir, en í reglugerðinni skal m.a. vera ákvæði um kosningu, starfs- og valdsvið hafnarstjórnar. Slík reglugerð hefur verið sett fyrir Grindavíkurkaupstað, sbr. hafnarreglugerð fyrir Grindavík nr. 246/1990.
Í 1. mgr. 2. gr. hafnarreglugerðarinnar kemur fram að bæjarstjórn fer með stjórn hafnarmála undir yfirumsjón samgönguráðuneytisins. Í 2. mgr. sömu greinar segir að hafnarstjórn fari með framkvæmd hafnarmála í umboði bæjarstjórnar. Bæjarstjórn kýs hafnarstjórn en kjörtímabil hafnarstjórnar er hið sama og bæjarstjórnar. Auk hinna kjörnu fulltrúa eiga bæjarstjóri og hafnarstjóri sæti í hafnarstjórn með málfrelsi og tillögurétt. Hafnarstjórn kýs sér formann og stýrir hann fundum hennar og boðar til þeirra í samráði við hafnarstjóra.
Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum telur ráðuneytið að það sé á valdi hafnarstjórnar Grindavíkurkaupstaðar að kjósa sér formann og að bæjarstjórn geti ekki með einfaldri ákvörðun gengið framhjá ákvæðum reglugerðarinnar.
Rétt er að taka það fram að samkvæmt 4. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er bæjarstjórn heimilt að skipta um fulltrúa í nefndum þeim sem hún hefur kosið þá til setu í, hvenær sem er á kjörtímabili nefndar svo sem þegar nefndarmenn njóta ekki lengur trausts meiri hluta þeirra sem sæti eiga í bæjarstjórn. Er ákvæðið túlkað á þann veg að nefndarmenn í viðkomandi nefnd séu leystir frá störfum og kosið á ný í nefndina. Var slík heimild talin nauðsynleg til að stuðla að betri starfsemi og skilvirkni í stjórnsýslu sveitarfélags. Er í þessum tilvikum látið vega þyngra traust sveitarstjórnar á nefndum sínum heldur en hagsmunir þeirra einstaklinga er þar sitja.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)