Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Húsavíkurkaupstaður - Hlutverk og valdsvið fræðslufulltrúa og fræðslunefndar, 3. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga, barnaverndarlög

Húsavíkurkaupstaður

Fræðslufulltrúi

Ketilsbraut 9

640 Húsavík

 22. nóvember 2000

Tilvísun: FEL00110026/16-6100/GB/--

 

 

 

 

Ráðuneytið vísar til erindis yðar, dags. 18. september sl., til menntamálaráðuneytisins, þar sem óskað er svara við fyrirspurnum er varða starfssvið fræðslunefndar og heimildir til að fela starfsmanni nefndarinnar að annast ákveðin verkefni sem nefndinni eru falin samkvæmt lögum um grunnskóla. Með bréfi dags. 7. nóvember sl. framsendi menntamálaráðuneytið erindið til þessa ráðuneytis, á þeim grundvelli að það varðaði stjórnsýsluframkvæmd sveitarstjórnar.

        Í erindinu kemur fram að nú standi yfir endurskoðun erindisbréfa fræðslunefndar og nefnda og embættismanna á vegum Húsavíkurkaupstaða. Lýst er yfir efasemdum í erindinu um að ávallt sé rétt að vísa málefnum einstaklinga, svo sem varðandi misbrest á skólasókn skólaskylds barns eða varðandi brottvikningu úr grunnskóla, til nefndarinnar. Byggist sú skoðun á því að oft sé um barnaverndarmál að ræða sem verði að meðhöndlast sem trúnaðarmál og að skólanefndir hafi almennt ekki forsendur til að vinna að úrlausn slíkra mála með öðrum hætti en þeim að kalla eftir vinnu sérfræðinga. Að vísa málefnum einstaklinga til nefndar geti jafnvel tafið fyrir úrlausn og gert mál sem í eðli sínu eru ópólitísk að pólitískum málum, auk þess sem fleiri einstaklingar eru upplýstir um persónuleg málefni nemenda.

 

Í erindinu er óskað svara við eftirfarandi spurningum:

 

1. Er fræðslunefnd (skólanefnd) heimilt að fela starfsmanni nefndarinnar (fræðslufulltrúa) í samráði við sérfræðiþjónustu skóla og skólastjóra framkvæmd verkefna skv. nánar tilgreindum ákvæðum laga og reglugerðarákvæða um grunnskóla, þannig að hvert einstakt mál komi ekki inn á borð nefndarinnar?

 

2. Er heimilt að skylda ofangreinda aðila til að kalla eftir aðstoð barnaverndaryfirvalda og/eða heilsugæslu eftir eðli mála eða ef ekki tekst að finna viðunandi lausn á máli í samvinnu við forráðamenn?

 

3. Er heimilt að fella ákvæði sbr. spurningu 1. og 2. inn í erindisbréf fræðslunefndar, fræðslufulltrúa og skólastjóra?

 

4. Sé slíkt gert þarf þá að vera til staðar tilkynningarskylda eða upplýsingaskylda starfsmanna til nefndarinnar um einstök mál og lausn þeirra?

 

 

 

5. Sé framkvæmd umræddra ákvæða laga um grunnskóla og reglugerðar um skólareglur í grunnskóla falin starfsmönnum samanber spurningu nr. 1 er þessum sömu aðilum og foreldrum þá heimilt að vísa málum til úrlausnar menntamálaráðuneytis án viðkomu færðslunefndar?

 

Álit ráðuneytisins:

Rétt er að taka fram í upphafi að ráðuneytið tekur ekki alls kostar undir þau sjónarmið sem rakin eru í upphafi erindis yðar.  Skólanefndum er falið samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 66/1995 að fjalla um ýmis viðkvæm málefni, með sama hætti og t.d. félagsmálanefnd á hverjum stað er falið sama hlutverk í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Ljóst er af 32. gr. sveitarstjórnarlaga að þegar viðkvæm einkamálefni eru til umfjöllunar í nefndum á vegum sveitarfélags ber nefndarmönnum að gæta þagnarskyldu. Þótt það sé vissulega rétt að nú til dags hafa skólanefndir aðgang að sérfræðingum til að veita álit á einstökum málum er það hlutverk löggjafans að ákveða hvort breyta skuli því hlutverki sem skólanefndum er falið samkvæmt lögum. Þó var gerð sú breyting með setningu sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, að í 3. mgr. 44. laganna var sett svohljóðandi nýmæli:

 

        Í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð er sveitarstjórn heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að ákveða að fela öðrum aðilum en nefndum afgreiðslu mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins. Slíkri afgreiðslu má þó ætíð skjóta til viðkomandi nefndar, byggðarráðs eða sveitarstjórnar.

 

        Ekki hefur reynt á túlkun þessa ákvæðis frá því það var sett. Í greinargerð með lögunum er ennfremur ekki gefin nein leiðsögn um hvernig túlka skuli ákvæðið. Telur ráðuneytið því að gefa verði einstökum sveitarstjórnum all nokkurt svigrúm varðandi skipulag stjórnsýslu á grundvelli ákvæðisins, svo fremi að ákvæði annarra laga mæli eigi á annan veg. Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar verður í því sambandi sérstaklega að líta til ákvæða laga um grunnskóla nr. 66/1995.

        Verður nú vikið að einstökum atriðum erindis yðar:

 

1. Spurning:

Ráðuneytið telur að á grundvelli 3. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga sé fræðslunefnd Húsavíkurkaupstaðar heimilt að fela starfsmanni nefndarinnar að annast afgreiðslur minni háttar mála sem unnt er að leysa án þess að málin komi til kasta nefndarinnar. Eins og fram kemur í niðurlagi ákvæðisins má þó aðili máls ævinlega skjóta slíkri afgreiðslu til nefndarinnar. Er því ekki ávallt um endanlega afgreiðslu að ræða.

        Erfitt er að segja til um hve langt á að ganga í erindisbréfi fræðslunefndar og starfsmanns hennar hvað þetta varðar. Ráðuneytið telur eðlilegt að ef vafi leikur á skuli starfsmaður nefndarinnar ráðfæra sig við formann hennar. Af 6. gr. laga um grunnskóla er ljóst að ef skólastjóri vísar máli til skólanefndar ber nefndinni að hafa samráð við sérfræðiþjónustu skóla. Það samráð er í raun eðlilegur undirbúningur að ákvörðun nefndarinnar. Telur ráðuneytið eðlilegt að starfsmaður nefndarinnar geti annast þann þátt málsins án þess að kalla þurfi nefndina saman og ef málið leysist á farsælan hátt þurfi því aldrei að taka það fyrir á fundi í fræðslunefnd. Ef lausn finnst hins vegar ekki er skýrt tekið fram í ákvæðinu að það er nefndin sem tekur ákvörðun um hvort skjóta beri málinu til menntamálaráðuneytis. Þá ákvörðun getur fræðslufulltrúi því ekki tekið.

 

2. Spurning:

Í 13. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 er kveðið á um tilkynningarskyldu fagaðila:

 

        Hverjum, sem stöðu sinnar vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfa sínum var við óviðunandi misfellur á uppeldi og aðbúð barna er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart.

        Sérstaklega er fóstrum, dagmæðrum, kennurum, prestum, læknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum og öðrum þeim, sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf, skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barn eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að málefnum barns sé þannig komið að barnaverndarnefnd ætti að hafa afskipti af þeim. Tilkynningarskylda gengur að þessu leyti framar ákvæðum laga um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

 

Í 16. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 er síðan fjallað um skyldu til að hafa samráð við barnaverndarnefnd:

        Öllum þeim, sem stöðu sinnar vegna hafa afskipti af málefnum barna, svo sem starfsfólk heilbrigðisþjónustu, skóla, dagvistarheimila barna og löggæslu, er skylt að stuðla að því að barnaverndarstarf komi að sem mestum notum og skulu hafa samvinnu við barnaverndaryfirvöld í því skyni.

        Barnaverndaryfirvöld skulu með sama hætti hafa samstarf við þá sem stöðu sinnar vegna hafa þekkingu á málefnum barna.

        Skylt er skólum og dagvistarheimilum að hafa náið samstarf við barnaverndarnefndir varðandi stuðning við börn og fjölskyldur þeirra sem standa höllum fæti félagslega.

       

        Ráðuneytið telur,  með vísan til framangreindra  ákvæða,  að ekkert sé því til fyrirstöðu að í erindisbréfi til fræðslunefndar, starfsmanna hennar og annarra sem starfa að fræðslumálum, sé bent á tilkynningarskyldu  til barnaverndarnefndar, sbr.  13. gr. barnaverndarlaga, og skyldu   til samstarfs við barnaverndarnefndir, sbr.  16. gr. laganna.

        Ráðuneytið telur þó þörf á að árétta að ekki eru öll mál sem varða viðkvæma einkahagsmuni barnaverndarmál. Þótt barni gangi illa í skóla  þýðir það ekki að um barnaverndarmál sé að ræða. Þó kann slök skólasókn barns að vera vísbending um að foreldri sinni ekki uppeldisskyldum sínum. Ef grunur leikur á að um barnaverndarmál sé að ræða ber þeim sem starfa að fræðslumálum að tilkynna það barnaverndarnefnd.  Barnaverndarnefnd, en ekki skólanefnd, fer með það mál.  Samkvæmt 5. gr. barnaverndarlaga er ekki gert ráð fyrir því að aðrir en barnaverndarnefnd hafi aðgang að gögnum málsins.

        Í 55. gr. laga um grunnskóla er kveðið á um rétt nemenda til heilsugæslu. Þá er í 42. gr. sömu laga kveðið á um skyldu starfsfólks grunnskóla til að sjá nemendum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum fyrir sérfræðiaðstoð. Telur ráðuneytið að tilvitnuð ákvæði leggi fyrst og fremst skyldur á herðar skólastjórum og öðru starfsfólki skóla, fremur en skólanefnd.

 

3. Spurning

Ekkert er því til fyrirstöðu að fella ákvæði varðandi framangreind atriði inn í erindisbréf viðkomandi starfsmanna og nefndar.

 

4. Spurning

Eðlilegt er að starfsmaður nefndar gefi skýrslu á reglulegum fundum nefndarinnar um þau mál sem afgreidd hafa verið milli funda. Má til hliðsjónar vísa á ákvæði 3. mgr. 39. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 varðandi samskipti byggingarfulltrúa við byggingarnefnd. Jafnframt verður að telja óhjákvæmilegt að í erindisbréfi starfsmanns nefndarinnar sé gert ráð fyrir að hann hafi samráð við formann fræðslunefndar ef upp koma vafamál.

 

 

5. Spurning

Svar við þessari spurningu hlýtur að vera neitandi, með vísan til 3. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga. Fyrsta málskot varðandi afgreiðslur starfsmanna nefnda sveitarfélags er ávallt til nefndarinnar sjálfrar.

 

 

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta