Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Ísafjarðarbær - Kjörgengi forstöðumanns skíðasvæðis til setu í fræðslunefnd

Ísafjarðarbær                                                                         5. mars 2001                                   Tilvísun: FEL01020104/1001

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri

Hafnarstræti 1, pósthólf 56

400 Ísafjörður

 

 

 

 

 

Vísað er til erindis yðar dags. 20. febrúar sl. þar sem óskað er álits ráðuneytisins á hæfi nefndarmanns í fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar. Fram kemur í erindinu að viðkomandi nefndarmaður starfar nú tímabundið sem forstöðumaður skíðasvæðisins á Ísafirði en er á meðan í ársleyfi frá starfi sínu sem almennur starfsmaður íþróttahússins í Torfnesi.

                Í 42. gr. sveitarstjórnarlaga er að finna ákvæði sem takmarkar kjörgengi í nefndir á vegum sveitarfélags.  Segir þar að starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags eru ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana sem þeir starfa hjá. Sambærilegt ákvæði í sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986 náði einvörðungu til forstöðumanna og annarra stjórnenda fyrirtækja og stofnana sveitarfélags. Í núverandi ákvæði er hins vegar ekki að finna takmörkun er varðar starfssvið eða starfshlutfall starfsmanna hjá þeirri stofnun sem málið varðar. Hefur það verið túlkað samkvæmt orðanna hljóðan, sbr. álit ráðuneytisins frá 4. apríl 2000, þar sem niðurstaðan var að engir starfsmenn grunnskóla voru taldir kjörgengir til setu í skólanefnd Fljótsdalshrepps.

                Í erindi yðar kemur fram að samkvæmt samþykkt um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar fer fræðslunefnd meðal annars með íþrótta- og æskulýðsmál í bæjarfélaginu, þar með talin íþróttamannvirki. Spurningin er því einvörðungu hvort skíðasvæði og/eða íþróttahús teljist vera stofnanir sveitarfélagsins í skilningi 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Kann það m.a. að velta á því hvernig eignarhaldi skíðasvæðisins er háttað, en ekkert kemur fram um það atriði í bréfi yðar. Almennt má þó segja að ákvæðið nái ekki tilgangi sínum ef íþróttamannvirki sem eru að öllu leyti í eigu sveitarfélags yrðu undanskilin, en í fyrrgreindu áliti ráðuneytisins frá 4. apríl 2000 var grunnskóli talinn stofnun í skilningi ákvæðisins.

                Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða ráðuneytisins að umræddur nefndarmaður í fræðslunefnd njóti ekki kjörgengis í fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar, nema eignarhaldi þeirra íþróttamannvirkja sé háttað með einhverjum þeim hætti að þau geti ekki talist stofnun sveitarfélagsins í skilningi 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

 

 

F. h. r.

Ingi Valur Jóhannsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta