Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Ísafjarðarbær - Kjörgengi starfsmanns skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar til setu í félagsmálanefnd

Ísafjarðarbær                                                                       5. mars 2001                                       Tilvísun: FEL01010066/1001

Ingibjörg María Guðmundsdóttir, forstöðumaður skóla- og fjölskylduskrifstofu

Hafnarstræti 1

400 ÍSAFJÖRÐUR

 Vísað er til erindis yðar dags. 8. janúar sl. varðandi hæfi fulltrúa í félagsmálanefnd Ísafjarðar.

          Fram kemur í erindinu að tilefnið er m.a. umræða í félagsmálanefnd varðandi fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar, en einn starfsmaður skrifstofunnar á sæti í félagsmálanefnd. Viðkomandi starfsmaður starfar sem sérkennsluráðgjafi við grunnskóla og veitir hún ráðgjöf til allra grunnskóla sveitarfélagsins sem varða nemendur með sérþarfir. Einnig situr hún í nemendaverndarráði grunnskólanna, þar sem mál einstakra nemenda eru tekin til umfjöllunar og er ráðstafað áfram í kerfinu, s.s. ef ástæða er til að tilkynna mál til barnaverndarnefndar. Viðkomandi starfsmaður mun, að yðar sögn, ekki telja sig vanhæfa til setu í félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar vegna ofangreindra starfa.

          Þá kemur einnig fram í erindinu að til umræðu er að taka í notkun á skóla- og fjölskylduskrifstofu nýtt tölvuforrit þar sem skráðar verða upplýsingar um skjólstæðinga skrifstofunnar. Unnt verði að takmarka aðgang hvers og eins að skráðum upplýsingum en engu að síður munu allir starfsmenn geta séð í stofnskrá viðkomandi einstaklings á hvaða sviðum skrifstofunnar viðkomandi einstaklingur fær þjónustu. Er spurt hvort slíkt fyrirkomulag hafi áhrif á hæfi starfsmanna til setu í félagsmálanefnd. Einnig er spurt hvort það hafi áhrif á þá niðurstöðu ef verkaskipting er ekki skýr milli starfsmanna sem starfa að félagsþjónustu og fræðslumálum.

         

Álit ráðuneytisins:

 Í erindinu er annars vegar óskað eftir áliti ráðuneytisins á því hvort starf sérkennsluráðgjafa kunni að valda almennu vanhæfi til setu í félagsmálanefnd. Hins vegar er spurt hvort fyrirhugaðar skipulagsbreytingar og nýtt tölvukerfi á skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar kunni að hafa áhrif á hæfi starfsmanna skrifstofunnar til að gegna setu í félagsmálanefnd.

          Í 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 segir svo:

 

          Starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags eru ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana er þeir starfa hjá.

 

          Sambærilegt ákvæði í sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986 náði einvörðungu til forstöðumanna og annarra stjórnenda fyrirtækja og stofnana sveitarfélags. Í núverandi ákvæði er hins vegar ekki að finna takmörkun er varðar starfssvið eða starfshlutfall starfsmanna hjá þeirri stofnun sem málið varðar. Hefur það verið túlkað samkvæmt orðanna hljóðan, sbr. álit ráðuneytisins frá 4. apríl 2000, þar sem engir starfsmenn grunnskóla voru taldir kjörgengir til setu í skólanefnd Fljótsdalshrepps. Telur ráðuneytið að skóla- og fjölskylduskrifstofa Ísafjarðarbæjar falli undir hugtakið stofnun í skilningi ákvæðisins.

          Ráðuneytið telur rétt að taka fram að orðalag 42. gr. á ekki að öllu leyti vel við um nefndir sem fjalla um fleiri en einn málaflokk. Þar sem engin undantekning er gerð varðandi slíkar nefndir telur ráðuneytið þó að félagsmálaráð Ísafjarðarbæjar verði að teljast vera nefnd eða ráð í skilningi ákvæðisins. Rétt er þó að taka fram að ákvæðið tekur eingöngu til kjörinna fulltrúa í nefndir og ráð sveitarfélaga, en starfsmenn geta átt seturétt á grundvelli laga, sbr. t.d. 9. gr. laga um leikskóla nr. 78/1994. Allir fulltrúar í félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar eru kjörnir af bæjarstjórn. Ákvæði 42. gr. sveitarstjórnarlaga á því við um alla fulltrúa í nefndinni.

          Af erindi yðar má ráða að vangaveltur um hæfi umrædds fulltrúa í félagsmálanefnd eiga fyrst og fremst við þegar barnaverndarmál koma til kasta nefndarinnar. Starfsmenn skólaþjónustunnar vinna ekki að barnaverndarmálum nema í sérstökum tilfellum, þ.e. þegar mál er til umræðu og íhlutunar á öllum sviðum skóla- og fjölskylduskrifstofu samtímis og þá einnig í nemendaverndarráði. Í slíkum tilvikum vinna skólinn og skólaþjónustan að úrræðum tengdum skóla en ekki að öðru leyti. Spurning yðar lýtur að því hvort slíkt fyrirkomulag geri viðkomandi nefndarmann vanhæfan til setu í félagsmálanefnd. Málefni skólaþjónustu heyra hins vegar að öðru leyti undir fræðslunefnd, samkvæmt samþykkt um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.

          Ráðuneytið telur að í máli þessu verði að gera greinarmun á því hvort um geti verið að ræða missi kjörgengis til setu í félagsmálanefnd eða vanhæfi í einstökum málum. Ótvírætt virðist að afskipti starfsmanna skólaþjónustu sveitarfélags, sem jafnframt eiga sæti í félagsmálanefnd, af einstökum málum sem á síðari stigum koma til kasta félagsmálanefndar geta verið með þeim hætti að þeim beri að víkja sæti á grundvelli 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga þegar nefndin fjallar um málið. Hitt er meira vafamál, hvort slíkir starfsmenn missi kjörgengi til setu í félagsmálanefnd vegna þess að skóla- og fjölskylduskrifstofa fjallar einnig um barnaverndarmál og fleiri málaflokka sem heyra beinlínis undir félagsmálanefnd.

          Hér verður að hafa í huga að forstöðumaður skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar er ótvírætt ekki kjörgengur til setu í félagsmálaráði, þar sem hann stjórnar bæði skólaþjónustu og fjölskyldusviði skrifstofunnar. Telur ráðuneytið, með vísan til þess sem áður sagði um forsögu 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, að sama regla verði að gilda um aðra starfsmenn skrifstofunnar. Starfsmenn skóla og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar njóta því ekki kjörgengis til setu í félagsmálaráði bæjarins.

          Með vísan til fenginnar niðurstöðu telur ráðuneytið óþarft að fjalla um mögulegar skipulagsbreytingar á skóla- og fjölskylduskrifstofu eða um aðgang að upplýsingum úr tölvukerfi skrifstofunnar.

 

 

F. h. r.

Ingi Valur Jóhannsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

Samrit:

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta