Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Fellahreppur - Hæfi fulltrúa í skipulagsnefnd og starfsmanns hennar, erindið framsent umhverfisráðuneytinu til meðferðar

Umhverfisráðuneyti                                         15. mars 2001                              FEL01020034/1001

Vonarstræti 4

Reykjavík

 

 

Með erindi, dags. 5. febrúar sl., barst ráðuneytinu fyrirspurn frá sveitarstjóra Fellahrepps varðandi hæfi formanns skipulags- og byggingarnefndar og byggingarfulltrúa hreppsins til þess að fjalla um gerð aðalskipulags fyrir Fellahrepp. Tilefni fyrirspurnarinnar var að Hilmar Gunnlaugsson hdl hafði gert skriflegar athugasemdir við málsmeðferð og óskað eftir því að framangreindir einstaklingar vikju sæti við gerð skipulagstillögu. Hefur formaður nefndarinnar nú orðið við þeirri kröfu en byggingarfulltrúi situr enn fundi nefndarinnar, þótt hann virðist víkja sæti þegar ákveðin atriði við gerð aðalskipulagstillögu er til umræðu í nefndinni, sbr. fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 19. febrúar sl.

        Með símbréfi dags. 6. mars sl. gaf ráðuneytið Hilmari Gunnlaugssyni hdl. kost á að tjá sig um hvort þörf væri á frekari aðgerðum vegna málsins. Í svarbréfi hans, dags. 11. mars sl., kemur fram að hann gerir kröfu um það fyrir hönd umbjóðenda sinna að gerð aðalskipulags verði hafin frá grunni og ítrekar hann jafnframt að byggingarfulltrúi, sem er starfsmaður nefndarinnar, sé vanhæfur til þess að fjalla um gerð skipulagstillögu. Ráðuneytið gaf hreppsnefnd Fellahrepps kost á að svara fyrrgreindu bréfi, sbr. bréf ráðuneytisins dags. 13. mars sl. og var frestur veittur til 2. apríl til að skila athugasemdum.

        Ráðuneytið telur rétt að geta þess að það telur málskotsreglur skipulags- og byggingarlaga fjarri því að vera skýrar. Frá því erindi sveitarstjóra Fellahrepps barst ráðuneytinu hefur staðið yfir könnun á því hvaða stjórnvald væri réttur aðili til að fjalla um málið. Til þess að tefja ekki málsmeðferð hefur ráðuneytið unnið að því að upplýsa málið, enda þótt ekki lægi ljóst fyrir hvort málið heyrði undir þetta ráðuneyti. Í samtali við Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóra í umhverfisráðuneytinu, sem fram fór í gær, kom fram sú skoðun hans að málið heyrði undir úrskurðarvald umhverfisráðuneytisins, með vísan til 1. mgr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Við þá lagatúlkun gerir ráðuneytið ekki athugasemd og er erindið því hér með framsent yður.

 

 

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

Afrit:

Fellahreppur

Hilmar Gunnlaugsson hdl




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta