Norður-Hérað - Missir kjörgengis fulltrúa í félagsmálanefnd við brottflutning úr sveitarfélaginu
Norður-Hérað 4. apríl 2001 FEL01030062/1001
Jónas Þór Jóhannsson, sveitarstjóri
Brúarási
701 EGILSSTAÐIR
Vísað er til erindis yðar, dags. 21. mars sl., þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins varðandi kjörgengi fulltrúa Norður-Héraðs í félagsmálanefnd Héraðs og Borgarfjarðar. Í erindinu kemur fram að ástæða fyrirspurnarinnar er að kjörinn aðalfulltrúi hefur flutt lögheimili sitt frá Norður-Héraði í Fellahrepp, en Fellahreppur á samkvæmt gögnum málsins einnig aðild að félagsmálanefnd Héraðs og Borgarfjarðar.
Álit ráðuneytisins.
Í 3. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 kemur fram sú regla að þeir einir eru kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir á vegum sveitarfélags sem kosningarrétt eiga í sveitarfélaginu. Samsvarandi ákvæði var ekki að finna í eldri sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986. Greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 45/1998 veitir ennfremur litla leiðsögn. Í skýringarriti um sveitarstjórnarlögin, sem Sesselja Árnadóttir tók saman, kemur þó fram að ákvæðið tekur einungis til fulltrúa sem sveitarstjórn kýs sjálf, en ekki fulltrúa sem tilnefndir eru af öðrum aðilum. Hafi þótt ástæða til að setja reglu þessa í lög þar sem nokkur vafatilvik hafi komið upp um kjörgengi í nefndir á vegum sveitarfélaga.
Við túlkun fyrrgreinds ákvæðis verður einnig að hafa hliðsjón af 2. mgr. 34. gr. sveitarstjórnarlaga, þar sem kemur fram að ef fulltrúi í sveitarstjórn missir kjörgengi skal hann víkja úr sveitarstjórninni. Þar sem það er skilyrði fyrir kosningarétti og kjörgengi til sveitarstjórnar að viðkomandi einstaklingur eigi lögheimili í sveitarfélaginu, hefur það ótvírætt í för með sér missi kjörgengis ef sveitarstjórnarmaður flytur lögheimili sitt úr sveitarfélaginu. Þetta gildir þó ekki þegar einungis er um að ræða flutning lögheimilis um stundarsakir, sbr. 4. mgr. 24. gr. laganna. Ákvæði þessi gilda einnig um fulltrúa í nefndum, stjórnum og ráðum, sbr. 2. mgr. 47. gr. laganna. Sömu niðurstöðu má einnig ráða af 1. mgr. 43. gr. laganna.
Ráðuneytið telur því ótvírætt að fulltrúi, sem skipaður er af sveitarstjórn til þess að sitja í nefnd á vegum sveitarfélagsins, missir kjörgengi sitt, og ber því að víkja úr nefndinni, ef hann flytur lögheimili sitt úr sveitarfélaginu. Telur ráðuneytið að engu breyti um þá niðurstöðu að um er að ræða nefnd sem er sameiginleg með fleiri sveitarfélögum, og viðkomandi nefndarmaður flytur lögheimili sitt í annað sveitarfélag sem er einnig aðili að nefndinni. Verður að túlka þau ákvæði sem rakin eru hér að framan með þeim hætti, að lögheimilisflutningur hafi þau réttaráhrif að viðkomandi einstaklingi ber að hætta að gegna öllum trúnaðarstörfum sem hann hefur verið kjörinn til að gegna á vegum sveitarfélagsins.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða ráðuneytisins að kjörnum aðalfulltrúa Norður-Héraðs í félagsmálanefnd Héraðs og Borgarfjarðar ber að víkja úr nefndinni og tekur varamaður sæti hans til loka kjörtímabils, nema sveitarstjórn ákveði að kjósa aðalmann að nýju, sbr. 1. mgr. 43. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.
F. h. r.
Berglind Ásgeirsdóttir (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)