Rangárvallahreppur - Kjörgengi starfsmanns í hlutastarfi við félagsmiðstöð til setu í fræðslunefnd
Rangárvallahreppur 12. mars 2002 FEL02020034/1001
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, sveitarstjóri
Laufskálum 2
850 HELLA
Vísað er til erindis yðar, dags. 7. febrúar 2002, þar sem óskað er álits ráðuneytisins á kjörgengi umsjónarmanns félagsmiðstöðvar hreppsins til setu í fræðslu- og æskulýðsnefnd. Fræðslu- og æskulýðsnefnd Rangárvallahrepps fer með fræðslumál, auk málefna íþróttamannvirkja, félagsheimilis og félagsmiðstöðvar hreppsins. Fram kemur að starfshlutfall umsjónarmanns er innan við 20% og innir formaðurinn starfið að hendi ásamt eiginkonu sinni. Óskað er álits ráðuneytisins á því hvort hlutastarf nefndarmannsins útiloki hann frá setu í nefndinni og þá jafnframt til formennsku í henni.
Því er til að svara að í 42. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags eru ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana er þeir starfa hjá. Í athugasemdum við frumvarp sem varð að sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 er tekið fram að regla þessi er þrengd nokkuð frá eldri sveitarstjórnarlögum. Hún nær nú til allra starfsmanna viðkomandi fyrirtækja eða stofnana, en ekki eingöngu til forstöðumanna og annarra stjórnenda.
Ráðuneytið hefur í nokkrum málum þurft að túlka umrætt ákvæði og hefur niðurstaðan jafnan verið sú að frá því séu engar undantekningar. Í áliti ráðuneytisins varðandi Fljótsdalshrepp, frá 4. apríl 2000 (ÚFS 2000:86) komst ráðuneytið þannig að þeirri niðurstöðu, með vísan til þess að í greininni er ekki kveðið á um neina takmörkun varðandi starfssvið eða starfshlutfall, að engir starfsmenn grunnskóla hreppsins væru kjörgengir til setu í skólanefnd.
Ef fylgt er því fordæmi sem framangreint álit ráðuneytisins veitir, leiðir það til þeirrar niðurstöðu að umsjónarmaður félagsmiðstöðvar Rangárvallahrepps telst ekki kjörgengur til setu í fræðslu- og æskulýðsnefnd hreppsins á meðan hann gegnir hlutastarfi við stofnun sem heyrir undir nefndina. Breytir þá engu að einungis er um 20% starf að ræða sem viðkomandi nefndarmaður gegnir ásamt eiginkonu sinni. Í erindi yðar kemur fram að hlutverk fræðslunefndar Rangárvallahrepps er fjölþættara en að sinna eingöngu málefnum félagsmiðstöðvar hreppsins. Því telur ráðuneytið rétt að hugleiða hvort sú stranga túlkun sem fram fram til þessa hefur verið beitt geti í einhverjum tilvikum leitt til ósanngjarnrar eða óeðlilegrar niðurstöðu.
Vægari valkostur væri að skýra 42. gr. með þrengri hætti en gert hefur verið í þeim málum sem ráðuneytið hefur fjallað um eftir að lög nr. 45/1998 tóku gildi. Myndi það leiða til þess að umræddur nefndarmaður þyrfti einungis að víkja sæti þegar til meðferðar eru mál sem varða störf hans við félagsmiðstöðina en að öðru leyti gæti hann óhindrað sinnt starfi sínu í fræðslunefnd. Þar sem hann er formaður nefndarinnar kann þetta þó að valda nokkrum vandkvæðum í framkvæmd, en tekið skal fram að sveitarstjórnarlög gera engan greinarmun á formönnum nefnda og öðrum nefndarmönnum að því er varðar hæfi eða kjörgengi.
Ráðuneytið telur að hin síðari ár hafi verið aukin viðleitni í þá átt hjá sveitarfélögum að fækka nefndum og fela þeim sem áfram starfa fleiri málaflokka en áður tíðkaðist. Þetta stuðlar almennt að sparnaði og aukinni skilvirkni í stjórnkerfi sveitarfélaga en getur jafnframt leitt til þess að vandamál er snerta hæfi eða kjörgengi einstakra nefndarmanna verði algengari en áður. Ekki er að sjá af lögskýringargögnum að þetta atriði hafi verið gaumgæft sérstaklega við setningu sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Verður því að gera ráð fyrir að löggjafinn hafi ekki talið ástæðu til að láta aðra reglu gilda við slíkar ástæður en gert er ráð fyrir í 42. gr. laganna.
Með vísan til alls framansagðs telur ráðuneytið að formaður fræðslunefndar Rangárvallahrepps njóti ekki kjörgengis til setu í fræðslu- og æskulýðsnefnd hreppsins á meðan hann gegnir hlutastarfi við stofnun sem heyrir undir nefndina.
F. h. r.
Berglind Ásgeirsdóttir (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)