Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Vestmannaeyjabær - Kosning varamanna í bæjarráð

Guðríður Ásta Halldórsdóttir                          
29. júlí 2003                              
FEL03070033/1001

Túngötu 18

900 Vestmannaeyjum 

 

Hinn 29. júlí 2003 er kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi, dags. 22. júlí 2003, hefur Guðríður Ásta Halldórsdóttir, varabæjarfulltrúi í Vestmannaeyjabæ, óskað eftir að ráðuneytið úrskurði um hvort hún, sem 1. varamaður B-lista Framsóknarflokksins og óháðra í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar, sé varamaður Andrésar Sigmundssonar, fulltrúa B-lista í bæjarráði Vestmannaeyjabæjar. Með erindinu fylgdi fundargerð bæjarstjórnarfundar frá 26. júní 2003, þar sem fram kemur að Andrés Sigmundsson, Lúðvík Bergvinsson og Arnar Sigmundsson voru kjörnir aðalmenn í bæjarráði Vestmannaeyjabæjar. Jafnframt voru Stefán Jónasson, Guðrún Erlingsdóttir og Guðjón Hjörleifsson kjörin varamenn í bæjarráði.

 

Niðurstaða ráðuneytisins

Um kjör í byggðarráð sveitarfélaga fer skv. 38. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum, og samþykkt um stjórn og fundarsköp viðkomandi sveitarfélags. Samkvæmt 38. gr. sveitarstjórnarlaga er meginreglan sú að sveitarstjórn kjósi bæði aðal- og varamenn í byggðarráð. Þó er heimilt að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélags að þeir aðalfulltrúar og varafulltrúar í sveitarstjórn, sem kosningu hafa hlotið af sama framboðslista og hinn kjörni byggðarráðsmaður, verði varamenn hans í byggðarráði í þeirri röð sem þeir skipuðu listann.

 

Í 44. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar, nr. 307/2000, með síðari breytingum, segir eftirfarandi:

         „Bæjarstjórn skal á fyrsta fundi að afloknum bæjarstjórnarkosningum kjósa þrjá bæjarfulltrúa í bæjarráð til eins árs. Aðalmenn í bæjarstjórn eru einir kjörgengir sem aðalmenn í bæjarráð.

         Aðal- og varabæjarfulltrúar sem kosningu hafa hlotið af sama framboðslista eru varamenn kjörins bæjarráðsmanns af sama lista og í þeirri röð sem þeir skipuðu listann.“

 

Samkvæmt fundargerð bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar frá 26. júní 2003 var Stefán Jónasson, bæjarfulltrúi V-lista Vestmannaeyjalistans, kjörinn varamaður Andrésar Sigmundssonar, bæjarfulltrúa B-lista, í bæjarráð Vestmannaeyjabæjar. Ráðuneytið telur ljóst, með vísan til 2. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar, að bæjarstjórn hafi verið óheimilt að kjósa sérstaklega varamenn í bæjarráðið og er kjör varamanna, sem fram fór á umræddum bæjarstjórnarfundi, því ógilt. Skulu kjörnir aðal- og varamenn hlutaðeigandi framboðslista í bæjarstjórn vera varamenn í bæjarráði í þeirri röð sem þeir skipa hlutaðeigandi framboðslista. Fyrsti varamaður Andrésar Sigmundssonar í bæjarráði er því 2. maður á framboðslista B-lista Framsóknarflokksins og óháðra.

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kosning varamanna í bæjarráð Vestmannaeyjabæjar sem fram fór á fundi bæjarstjórnar 26. júní 2003 er ógild. Varamenn í bæjarráði skulu taka sæti skv. 2. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar, nr. 307/2000, með síðari breytingum.

 

 

F. h. r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

Afrit:.

Vestmannaeyjabær




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta