Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Hlutverk stjórnar og forstöðumanns náttúrustofu og staða þeirra gagnvart sveitarstjórn

Fjarðabyggð                                                   29. júlí 2003                                     FEL03050001/1001

Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri

Egilsbraut 1

740 NESKAUPSTAÐ

 

 

 

 

Vísað er til bréfs yðar varðandi Náttúrustofu Austurlands, dags. 29. apríl sl., sem dregist hefur að svara vegna annríkis í ráðuneytinu. Í bréfinu er óskað afstöðu ráðuneytisins til þess hvort það sé sammála túlkun umhverfisráðuneytisins á ákvæðum laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, með síðari breytingum, sem fram kemur í bréfi ráðuneytisins til forstöðumanns Náttúrustofu Austurlands, dags. 2. apríl 2003.

 

Framangreint bréf umhverfisráðuneytisins fjallar einkum um stöðu stjórnar náttúrustofu og forstöðumanns gagnvart sveitarstjórn. Eru þar m.a. veitt svör við eftirfarandi spurningum sem forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands beindi til ráðuneytisins:

 

 

  1. Hvernig ráðuneytið túlki lög nr. 60/1992 varðandi verkaskiptingu stjórnar náttúrustofu annars vegar og sveitarstjórnar hins vegar, einkum varðandi daglegan rekstur.
  2. Undir hvern forstöðumaður og starfsfólk heyri.
  3. Hvort einhver munur sé á náttúrustofu og öðrum bæjarstofnunum.

 

Í bréfi umhverfisráðuneytisins er komist að þeirri niðurstöðu, að því er tvær fyrstu spurningarnar varðar, með vísan til ákvæða laga nr. 60/1992, að stjórn náttúrustofu fari með æðsta vald í málefnum hennar, í umboði þeirra sveitarfélaga sem skipa stjórnina. Forstöðumaður fari með daglegan rekstur náttúrustofu og sé ábyrgur gagnvart stjórninni en stjórnin beri ábyrgð á starfsemi stofunnar gagnvart viðkomandi sveitarfélögum. Jafnframt heyri forstöðumaður undir stjórn náttúrustofu og annað starfsfólk undir forstöðumann. Að því er varðar þriðju spurninguna kemur fram í bréfinu að umhverfisráðuneytið hafi ekki forsendur til að taka afstöðu til spurningarinnar en bent er á að um náttúrustofur gildi sérlög, þ.e. lög nr. 60/1992.

 

Félagsmálaráðuneytið telur ekki ástæðu til að gera efnislegar athugasemdir við túlkun umhverfisráðuneytisins á ákvæðum laga nr. 60/1992, enda falla þau lög undir valdsvið umhverfisráðuneytisins. Að því er varðar svar umhverfisráðuneytisins við því hvort einhver munur sé á náttúrustofu og öðrum stofnunum sveitarfélaga skal tekið fram að fjöldi stofnana sveitarfélaga starfar á grundvelli sérlaga og má þar nefna sem dæmi jafn ólíkar stofnanir og grunnskóla, hafnir, almenningsbókasöfn og vatnsveitur sveitarfélaga. Verður almennt að álíta að slíkar stofnanir lúti stjórn viðkomandi sveitarstjórnar, að því leyti sem annað er ekki beinlínis tekið fram í lögum. Ef um er að ræða stofnun sem er í sameign fleiri en eins sveitarfélags eru hlutverk stjórnar og heimildir til að skuldbinda eigendur hins vegar almennt skilgreind í sérstöku samkomulagi sem eigendur gera með sér. 

 

Það er hins vegar mat ráðuneytisins að náttúrustofur hafi nokkra sérstöðu á grundvelli ákvæða II. kafla laga nr. 60/1992, með síðari breytingum, umfram aðrar stofnanir sveitarfélaga. Er m.a. gert ráð fyrir því í 9. gr. laganna að starfræksla náttúrustofu sé háð leyfi umhverfisráðherra og skal um hverja stofu gera samning milli ráðherra og þeirra sveitarfélaga sem standa að náttúrustofu. Jafnframt fá náttúrustofur árlegt framlag frá ríkissjóði á grundvelli 10. gr. laganna, sem háð er því skilyrði að fyrir liggi samningur um rekstur náttúrustofu.

 

Bent skal á að í reglugerð um skipulag og starfsemi Náttúrustofu Austurlands nr. 384/1994, með síðari breytingum, er að finna ákvæði um hlutverk stjórnar og forstöðumanns stofunnar, en ekki er að sjá að reglugerðin hafi verið endurskoðuð eftir breytingar sem urðu á lögum nr. 60/1992 með lögum nr. 92/2002, m.a. að því er varðar skipan stjórnar náttúrustofunnar.

 

 

F. h. r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

Afrit:

Umhverfisráðuneytið

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta